Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 610  —  76. mál.
Form.
Breytingartillagavið frv. um breyt. á l. nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá Pétri H. Blöndal.    1. gr. orðist svo:
    1. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt, að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 2. mgr., að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna skuldbindinga sjóðsins sem stafa af lánum hans frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 og viðaukasamningum 19. október sama ár til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Þessi heimild takmarkast ekki af öðrum ákvæðum laganna. Ábyrgðin, sem í samræmi við lánasamningana gengur í gildi 5. júní 2016, ræðst einvörðungu af ákvæðum samninganna.
    Bera skal heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð skv. 1. mgr. undir þjóðaratkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna. Heimildin skal veitt sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi því.