Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.

Þskj. 614  —  343. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Orðskýringar.


    Í lögum þessum merkir:
     1.      Náin tengsl: Það teljast náin tengsl þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast gegnum:
                  a.      bein eignartengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða atkvæðavægi fyrirtækis,
                  b.      yfirráð,
                  c.      varanleg tengsl þeirra við þriðja aðila gegnum hvers konar yfirráðatengsl; hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð, börn, foreldrar og systkini teljast í nánum tengslum nema unnt sé að sýna fram á hið gagnstæða að mati Fjármálaeftirlitsins.
     2.      Hópur tengdra viðskiptamanna: Það telst hópur tengdra viðskiptamanna ef öðru eða báðum eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
                  a.      tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru ein og sama áhættan, nema þeir geti sýnt fram á hið gagnstæða, vegna þess að einn þeirra, beint eða óbeint, ræður yfir hinum;
                  b.      tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru ein og sama áhættan, jafnvel þótt ekki sé um yfirráðatengsl skv. a-lið að ræða, vegna þess að þeir eru tengdir á þann hátt að ef einn þeirra lendir í fjárhagslegum erfiðleikum kann slíkt að hafa áhrif á getu einhvers eða allra hinna til þess að endurgreiða skuldir sínar.
     3.      Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.
     4.      Óbein hlutdeild: Með óbeinni hlutdeild er átt við að aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, eigi rétt á að afla atkvæðisréttar, ráðstafa atkvæðisrétti eða neyta atkvæðisréttar sem:
                  a.      þriðji aðili fer með og viðkomandi aðili hefur gert samkomulag við hann sem skyldar þá til að taka upp, með samræmdri beitingu atkvæðisréttar síns, varanlega og sameiginlega stefnu um stjórn hlutaðeigandi útgefanda,
                  b.      þriðji aðili fer tímabundið með gegn endurgjaldi á grundvelli samkomulags við viðkomandi aðila,
                  c.      fylgir hlutum sem viðkomandi aðili hefur tekið að veði eða fengið sem tryggingu, að því tilskildu að viðkomandi aðili ráði jafnframt yfir atkvæðisréttinum og lýsi því yfir að hann hyggist neyta hans,
                  d.      viðkomandi aðili fer með á grundvelli samkomulags um lífstíðarbundin réttindi hans yfir hlutunum sem atkvæðisrétturinn fylgir,
                  e.      dótturfélag viðkomandi aðila í skilningi 6. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, fer með eða má neyta á grundvelli a–d-liðar,
                  f.      fylgir hlutum sem viðkomandi aðili varðveitir og getur neytt samkvæmt eigin ákvörðun berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna,
                  g.      þriðji aðili fer með í eigin nafni en fyrir hönd viðkomandi aðila,
                  h.      umboðsmaður fer með, að því tilskildu að hann geti neytt atkvæðisréttarins samkvæmt eigin ákvörðun berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna.
     5.      Samstarf: Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða, að mati Fjármálaeftirlitsins:
                  a.      Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn, foreldrar og systkini aðila.
                  b.      Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög, systurfélög og félög þeim tengd, sem og eigendur þeirra, teljast jafnan í samstarfi. Félög sem fyrrnefnd félög eða eigendur þeirra hafa bein eða óbein yfirráð yfir teljast einnig samstarfsaðilar, nema sýnt sé fram á annað.
                  c.      Félög sem aðili á, með beinum eða óbeinum hætti, verulegan eignarhlut í, þ.e. ef aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
                  d.      Tengsl eru milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.
     6.      Framkvæmdastjóri: Maður sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.
     7.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.

2. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Gildissvið. Orðskýringar.

3. gr.

    F-liður 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og taka verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

4. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Takmörkuð afturköllun starfsleyfis.


    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að takmarka starfsemi einstakra starfsstöðva fjármálafyrirtækja telji það sérstaka ástæðu til. Því er enn fremur heimilt að setja einstaka starfsstöðvum fjármálafyrirtækis sérstök skilyrði fyrir áframhaldandi starfsemi.

5. gr.

    14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Hlutafé og stofnfé.


    Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé sparisjóðs skal að lágmarki nema 5 milljónum evra (EUR).
    Hlutafé rafeyrisfyrirtækis skal að lágmarki nema 1 milljón evra.
    Hlutafé verðbréfafyrirtækis skal að lágmarki nema 730 þúsundum evra.
    Hlutafé verðbréfafyrirtækis sem hefur ekki starfsheimildir til að stunda viðskipti fyrir eigin reikning eða sinna sölutryggingu fjármálagerninga og hefur a.m.k. eina af starfsheimildum a–c-liðar þessarar málsgreinar, ásamt því að fara með vörslur fjármuna eða fjármálagerninga viðskiptavinar, skal að lágmarki nema 125 þúsundum evra:
     a.      móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga,
     b.      framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina eða
     c.      eignastýringu.
    Hlutafé verðbréfamiðlunar skal að lágmarki nema 50 þúsundum evra.
    Hlutafé rekstrarfélags verðbréfasjóða skal að lágmarki nema 125 þúsundum evra. Hlutafé skal hækka um sem nemur 0,02% af eignum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur og eru umfram 250 milljónir evra. Hlutafé skv. 1. og 2. málsl. þarf þó ekki að fara yfir 10 milljónir evra. Með eignum rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal telja eignir verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    Sé hlutafé eða stofnfé skv. 1.–6. mgr. skráð í íslenskum krónum skal miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Óski fjármálafyrirtæki eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár eða stofnfjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.
    Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis skv. 84. og 85. gr. má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessari grein.

6. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Í fjármálafyrirtæki, þó ekki í verðbréfamiðlunum og rafeyrisfyrirtækjum, skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi fjármálafyrirtækja og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Fjöldi starfsmanna innri endurskoðunardeildar skal endurspegla stærð fjármálafyrirtækis og starfsemi þess. Enginn starfsmaður innri endurskoðunardeildar má vera hluthafi í viðkomandi fjármálafyrirtæki eða aðili að kaupaukakerfi sem kann að vera í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Heimilt er að kveða nánar á um starfsemi innri endurskoðunardeildar í reglugerð.
    Stjórn fjármálafyrirtækis skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar fyrirtækis sem fer með innri endurskoðun í umboði hennar. Hann skal hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir nægilegri reynslu til þess að geta sinnt starfi sínu. Hann má ekki hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um greiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Áður en forstöðumaður tekur formlega til starfa skal tilkynna ráðningu hans til Fjármálaeftirlitsins sem metur hæfi viðkomandi og gerir stjórn fjármálafyrirtækis grein fyrir niðurstöðum sínum.
    Innri endurskoðun skal reglulega gera stjórn grein fyrir starfsemi sinni. Skylt er að taka athugasemdir innri endurskoðunar fyrir á stjórnarfundum og færa til bókar.
    Eigi sjaldnar en árlega skal innri endurskoðun gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir niðurstöðum kannana sinna. Auk þess skal innri endurskoðun tilkynna Fjármálaeftirlitinu sérstaklega og án tafar þær athugasemdir sem gerðar hafa verið og sendar stjórn.
    Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrar einstakra fjármálafyrirtækja, veitt undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar eða frá einstökum þáttum starfsemi þeirra og sett þeim fyrirtækjum sérstök skilyrði sem slíka undanþágu fá.

7. gr.

    Í stað 2. mgr. 17. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálafyrirtæki ber að framkvæma regluleg álagspróf og skjalfesta niðurstöður þeirra.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um framkvæmd áhættustýringar, stöðu þeirra sem framkvæma áhættustýringu í skipuriti fjármálafyrirtækja, og um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

8. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (17. gr. a.)

Uppfærð skuldbindingaskrá.


    Fjármálafyrirtæki skal halda sérstaka skrá um alla þá sem njóta lánafyrirgreiðslu þess. Til lánafyrirgreiðslu samkvæmt þessari grein teljast beinar lánveitingar til viðkomandi, kaup á skuldabréfum útgefnum af viðkomandi, kaup á eignasafni annars lánveitanda þar sem er að finna kröfu á viðkomandi og hvers konar önnur fyrirgreiðsla sem jafna má til lánafyrirgreiðslu, enda nemi brúttóskuld viðkomandi við fjármálafyrirtækið minnst 0,25% af heildarútlánum fjármálafyrirtækisins og að lágmarki 750 millj. kr.
    Fjármálafyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu uppfærða skrá miðað við hver mánaðamót. Skal skráin greinast í nöfn og kennimerki lántakenda. Enn fremur skal senda sambærilega skrá um tengda aðila og hópa tengdra viðskiptamanna, að svo miklu leyti sem þeir aðilar eru ekki á fyrrnefndri skrá. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara og ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um meðferð upplýsinga sem skráin hefur að geyma.
    Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um innihald skrárinnar.

    b. (17. gr. b.)

Skylda lántaka til að veita upplýsingar.


    Telji Fjármálaeftirlitið að lántökur einstaks aðila, sem er á skuldbindingaskrá skv. 17. gr. a og lýtur ekki opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, geti haft kerfislæg áhrif er því heimilt að krefja viðkomandi um upplýsingar um skuldbindingar hans. Til skuldbindinga samkvæmt þessari grein teljast beinar lántökur, ádregnar lánalínur, útgáfa á skuldaskjölum viðkomandi, kaup á skuldatryggingu eða greiðsluvátryggingu vegna lántöku, kaup- og söluréttur og hvers konar önnur fyrirgreiðsla, innan eða utan efnahagsreiknings, sem viðkomandi hefur notið og jafna má til lánafyrirgreiðslu eða ábyrgðar.
    Neiti aðili að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar skv. 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið fyrirskipað eftirlitsskyldum aðilum að ekki verði um frekari fyrirgreiðslu af hálfu eftirlitsskyldra aðila við viðkomandi að ræða. Sama á við ef upplýsingagjöf viðkomandi er ófullnægjandi.

9. gr.

    2. og 3. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Fjármálafyrirtæki skal hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði viðskiptavina sinna ef ágreiningur rís milli viðskiptavinar og fjármálafyrirtækis, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samningi milli efnahags- og viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, svo og samkvæmt samþykktum er hún setur sér. Formaður nefndarinnar skal fullnægja skilyrðum til þess að vera héraðsdómari. Nefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Ráðherra annast birtingu samþykkta nefndarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.

11. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingar um viðskiptamenn.


    Aðgangur að skrá um upplýsingar um einstaka viðskiptamenn fjármálafyrirtækis er óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laga þessara eða samkvæmt öðrum lögum.
    Starfsmaður fjármálafyrirtækis sem kemur að meðferð máls viðskiptamanns og þarf á upplýsingum um hann að halda við úrlausn eða úrvinnslu þess skal hafa aðgang að upplýsingunum með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim.
    Gera skal viðskiptamanni fjármálafyrirtækis, sem þess óskar, grein fyrir því hver ber ábyrgð á umsjón með þeim upplýsingum er kunna að vera í skránni og varða hann. Á viðskiptamaður fjármálafyrirtækis rétt á því að fá upplýsingar frá ábyrgðarmanni um það hverjir hafi aflað upplýsinga um hann úr skránni, hvar og hvenær upplýsinganna var aflað og í hvaða tilgangi.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um aðgang og meðferð upplýsinga í skrá um viðskiptamenn, hvernig staðið skuli að varðveislu upplýsinga og veitingu þeirra til annarra.

12. gr.

    8. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Þátttöku í útboðum verðbréfa, þjónustuviðskipta sem tengjast slíkum útboðum og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

13. gr.

    Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið metur hvort skilyrði 1. málsl. séu fyrir hendi og getur sett fjármálafyrirtæki tímafrest eða önnur skilyrði til að ljúka við fjárhagslega endurskipulagningu.

14. gr.

    G-liður 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

15. gr.

    Orðin „og 29. gr.“ í 5. mgr. 28. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Samanlagður eignarhlutur fjármálafyrirtækis og dótturfélaga þess má ekki nema hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár eða stofnfjár fyrirtækisins. Eignist viðkomandi meira af hlutafénu eða stofnfénu vegna lúkningar viðskipta, sbr. 22. gr., skal slíkt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt allt að þriggja mánaða frest til að koma eignarhlutnum niður í lögmælt mark. Um heimildir fjármálafyrirtækis til að eignast eigin hluti gilda að öðru leyti ákvæði VIII. kafla hlutafélagalaga.
    Við útreikning skv. 1. málsl. 1. mgr. skal taka tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf.

17. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, 29. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Lánveitingar.


    Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita lán sem eru tryggð með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum útgefnum af því. Sama gildir um aðra samninga sé undirliggjandi áhætta á eigin bréf. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gefa út reglur sem undanskilja tiltekna samninga bannreglu skv. 2. málsl. enda auki þeir ekki útlánaáhættu fjármálafyrirtækis.
    Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita stjórnarmanni, lykilstarfsmanni eða þeim sem á virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda, lán eða aðra fyrirgreiðslu, sem telst áhættuskuldbinding, nema gegn traustum tryggingum. Fjárhæð áhættuskuldbindingar skv. 1. málsl. skal ekki fara yfir 1% af eiginfjárgrunni en má þó nema allt að 100 millj. kr.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning fjárhæðar áhættuskuldbindingar skv. 2. mgr. og um hvað teljast traustar tryggingar.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um með hvaða hætti lán sem eru tryggð með hlutabréfum eða stofnfjárbréfum annars fjármálafyrirtækis koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni til að tryggja að ekki sé hætta á að lánveitingin skapi kerfislæga áhættu í fjármálakerfinu.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um lánveitingar dótturfélaga eftir því sem við á.

18. gr.

    30. gr. laganna orðast svo:
    Áhætta vegna eins viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.
    Með áhættu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, svo og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu.
    Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.
    Sé lánveiting skv. 1. málsl. 1. mgr. vegna móður- eða dótturfélags fjármálafyrirtækisins eða vegna dótturfélags, eða dótturfélaga móðurfélagsins, skulu mörkin þó vera 20% af eiginfjárgrunni lánveitanda.
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið lægri hlutföll en tilgreind eru í 1. og 4. mgr. fyrir einstök fjármálafyrirtæki að teknu tilliti til stærðar, eðlis og áhættu í starfsemi þeirra.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða lokun útibúsins innan framangreinds frests.

20. gr.

    Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 3. mgr. 37. gr. laganna kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.

21. gr.

    Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.

22. gr.

    Í stað orðanna „traust og eftirlit“ í 2. málsl. 39. gr. laganna kemur: traust eða eftirlit.

23. gr.

    40. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins.


    Aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 25%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.

24. gr.

    41. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Upplýsingar í tilkynningu.


    Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skv. 40. gr. skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:
     1.      Nafn og heimili þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
     2.      Nafn þess fjármálafyrirtækis sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
     3.      Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
     4.      Áform um breytingar á verkefnum eða stjórnendum fjármálafyrirtækis.
     5.      Fjármögnun fjárfestingarinnar.
     6.      Fjárhagsstaða þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
     7.      Núverandi og fyrirhuguð viðskiptatengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki.
     8.      Reynsla þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut af fjármálastarfsemi.
     9.      Eignarhald, stjórnarseta eða önnur þátttaka þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í starfsemi annarra lögaðila.
     10.      Refsingar sem sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hefur verið dæmdur til að sæta og hvort viðkomandi sæti rannsókn.
     11.      Náin tengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við aðra lögaðila.
     12.      Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar.
    Sé sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lögaðili skulu upplýsingar skv. 1. mgr. eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágur frá skilum á upplýsingum þessum hafi lögaðili ekki tök á að afla þeirra eða ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lýtur opinberu fjármálaeftirliti í öðru ríki og unnt er að afla sambærilegra upplýsinga frá eftirlitsstjórnvaldi þess ríkis. Sama á við ef aðilinn lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

25. gr.

    42. gr. laganna orðast svo:
    Eigi síðar en tveimur starfsdögum eftir móttöku tilkynningar skv. 40. gr. skal Fjármálaeftirlitið staðfesta móttöku hennar. Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem upp eru taldar í 1. mgr. 41. gr. frá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut getur það krafið viðkomandi um þær. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu starfsdögum eftir móttöku tilkynningar. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu starfsdaga til þess að meta hvort það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi, sbr. 2. málsl., bætist bið eftir upplýsingunum við dagafjölda skv. 4. málsl., þó ekki umfram tuttugu virka daga.
    Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Skal mat Fjármálaeftirlitsins grundvallast á öllum eftirfarandi atriðum:
     1.      Orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
     2.      Orðspori og reynslu þess sem mun veita fjármálafyrirtækinu forstöðu komi til hinna fyrirhuguðu kaupa eða aukningar eignarhlutar.
     3.      Fjárhagslegu heilbrigði (e. financial soundness) þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu, einkum með tilliti til þess reksturs sem fjármálafyrirtækið hefur, eða mun hafa, með höndum.
     4.      Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki eða hafa áhrif á hvort það muni fylgja lögum og reglum sem um starfsemi þess gilda. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við Fjármálaeftirlitið og/eða önnur stjórnvöld, til þess hvort staða fjármálafyrirtækisins í hópi fyrirtækja sem það mun tilheyra kunni að mati Fjármálaeftirlitsins að hindra það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, hindra eðlilegt eftirlit.
     5.      Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, eða geti aukið líkur á að slíkt athæfi verði látið viðgangast innan hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis.

26. gr.

    43. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tilkynning til aðila sem telst ekki hæfur.

    Telji Fjármálaeftirlitið þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn skal það tilkynna viðkomandi um það. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja niðurstöðu sína fyrir viðkomandi.
    Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að niðurstaðan lá fyrir. Liggi niðurstaða Fjármálaeftirlitsins ekki fyrir innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 42. gr. skal litið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki athugasemdir við fyrirætlanir þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast virkan eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessara eignarhluta, skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í samræmi við 3. mgr. 2. gr. áður en niðurstaða þess er kunngerð.

27. gr.

    44. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Dráttur. Endurnýjun tilkynningar.


    Hafi sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi ráðist í þær fjárfestingar sem hann hafði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu innan sex mánaða frá því að niðurstaða þess lá fyrir skal hann tilkynna því að nýju um fyrirhugaða fjárfestingu sína. Ákvæði 40.–43. gr. gilda þá um þá tilkynningu og viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við henni.

28. gr.

    45. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tilkynning ekki send.


    Nú tilkynnir aðili sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut Fjármálaeftirlitinu ekki um fyrirhuguð kaup sín eða aukningu á virkum eignarhlut, þrátt fyrir að honum sé það skylt skv. 40. gr., og fellur þá niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram það sem hann átti áður. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að hlutaðeigandi sendi inn tilkynningu í samræmi við ákvæði 41. gr. Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. 41.–43. gr. Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við að viðkomandi aðili eignist eða auki við virkan eignarhlut öðlast hann atkvæðisrétt í samræmi við eignarhlut sinn. Berist tilkynning hlutaðeigandi ekki innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið krafðist tilkynningar getur það krafist þess að hann selji þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður. Fjármálaeftirlitið setur tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir.

29. gr.

    46. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Óhæfur aðili eignast hlut.


    Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki hæfur til að eignast eða auka við hlut sinn fellur niður atkvæðisréttur aðila umfram lágmark þess hlutar sem telst virkur eignarhlutur. Viðkomandi aðila er skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk og niðurstaða Fjármálaeftirlitsins tók til. Fjármálaeftirlitið setur tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Aðili öðlast fyrri atkvæðisrétt að sölu lokinni.

30. gr.

    Á eftir 46. gr. laganna kemur ný grein, 46. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hömlur á meðferð hlutar meðan tímafrestur stendur.


    Kaup á virkum eignarhlut koma ekki til framkvæmda gagnvart fjármálafyrirtækinu sem um ræðir fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins til að taka málið til skoðunar skv. 42. gr. er liðinn eða niðurstaða Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir, hafi eftirlitið tekið tilkynningu um hin fyrirhuguðu kaup eða aukningu til frekari skoðunar. Á meðan Fjármálaeftirlitið hefur ekki tilkynnt um niðurstöðu sína, eða tímafrestur skv. 42. gr. er ekki liðinn, er þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut óheimilt að taka þátt í ákvörðunum um grundvallarbreytingar á fjárhagslegri stöðu, eignauppbyggingu, rekstri, starfsemi og innri starfsreglum nema að fengnu sérstöku samþykki Fjármálaeftirlitsins.

31. gr.

    47. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tilkynning eiganda um aðilaskipti.


    Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 25%, 33%, 50% eða svo mikið að fjármálafyrirtækið hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.

32. gr.

    48. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tilkynning fjármálafyrirtækis um aðilaskipti.


    Þegar hlutafjár- eða stofnfjáreign í fjármálafyrirtæki fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. skal stjórn þess tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar.
    Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal fjármálafyrirtæki tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í því og um hlutafjáreign hvers þeirra. Sama á við um eigendur stofnfjár.

33. gr.

    49. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Upplýsingaskylda.


    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki í því skyni að meta hvort þeir teljast hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt þessum kafla. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

34. gr.

    Á eftir 49. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 49. gr. a og 49. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (49. gr. a)
    

Raunverulegur eigandi.


    Leiki vafi á því, að mati Fjármálaeftirlitsins, hver sé eða verði raunverulegur eigandi virks eignarhlutar skal það tilkynna þeim sem sendi tilkynningu skv. 40. gr. eða fjármálafyrirtækinu sjálfu, ef ekki næst til þess sem tilkynnti, að eftirlitið telji viðkomandi ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn.

    b. (49. gr. b.)

Náin tengsl.


    Ákvæði 40.–49. gr. gilda um náin tengsl eftir því sem við getur átt. Ekki má mynda náin tengsl nema sýnt sé að þau hindri ekki eftirlit með starfsemi félagsins.

35. gr.

    52. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Framkvæmdastjóri skal vera búsettur í aðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um greiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá menntunarkröfum skv. 1. málsl. á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi. Jafnframt skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt, m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða félagið. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og um hvernig staðið skuli að hæfismati.
    Stjórnarmenn mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er tengdur honum né vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða tengdra félaga. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis tekið sæti í stjórn annars fjármálafyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu ef um er að ræða dóttur- eða hlutdeildarfélag fjármálafyrirtækisins eða félag sem er dótturfélag eða hlutdeildarfélag félags með yfirráð í fjármálafyrirtækinu. Sama gildir um lögmann móðurfélags.
    Stjórnarseta skv. 5. mgr. skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur fjármálafyrirtækisins.
    Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á félagsstjórn og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinarinnar sé fullnægt.

36. gr.

    Á eftir 52. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 52. gr. a, 52. gr. b og 52. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (52. gr. a.)

Stjórn fjármálafyrirtækis boðar til aðalfundar félagsins.


    Nú boðar stjórn ekki til aðalfundar í samræmi við lög, samþykktir eða ákvörðun aðalfundar og skal Fjármálaeftirlitið þá boða til hans að kröfu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra, endurskoðanda eða aðila sem er atkvæðisbær á aðalfundi. Fjármálaeftirlitið tilnefnir fundarstjóra í þeim tilvikum og skal stjórn afhenda honum skrá yfir þá sem eru atkvæðisbærir, gerðabók aðalfunda og endurskoðunarbók. Félagið greiðir kostnað við aðalfundinn.

    b. (52. gr. b.)
    Stjórn móðurfélags ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu þegar mynduð er félagasamstæða og fjármálafyrirtæki öðlast yfirráð í öðru félagi. Einnig skal tilkynna verulegar breytingar á skipulagi samstæðu þegar þær ganga í gildi.

    c. (52. gr. c.)
    Stjórn og framkvæmdastjóri skulu án tafar gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi þeir vitneskju um málefni sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 2. mgr. orðast svo: Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Stjórnarformanni í fjármálafyrirtæki er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.

38. gr.

    57. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn fjármálafyrirtækis skal setja reglur, sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu, um viðskipti þess við framkvæmdastjóra og aðra lykilstarfsmenn. Samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra er háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíkt skal bókuð og tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um þá sem eru í nánum tengslum við framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis.
    Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess fer samkvæmt reglum sem stjórn fjármálafyrirtækis setur og birtar skulu opinberlega. Skulu þau, eftir því sem kostur er, lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum.

39. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 57. gr. a og 57. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (57. gr. a.)

Kaupaukakerfi.


    Að teknu tilliti til heildarafkomu fjármálafyrirtækis yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar, er fjármálafyrirtæki heimilt að veita kauprétt eða kaupaukagreiðslur í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur. Áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skulu færð til gjalda á hverju ári og sérstaklega gerð grein fyrir þeim í skýringum með ársreikningi.

    b. (57. gr. b.)

Starfslokasamningur.


    Fjármálafyrirtæki er óheimilt að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða annan lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Með starfslokasamningi í grein þessari er átt við hvers konar samninga sem gerðir eru á milli framkvæmdastjóra eða lykilstarfsmanns annars vegar og fjármálafyrirtækis hins vegar og kunna að færa þeim sem lætur af störfum hlunnindi eða réttindi umfram hefðbundnar launagreiðslur í uppsagnarfresti.
    Hafi hagnaður verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár er heimilt að gera starfslokasamninga við þá sem tilgreindir eru í 1. mgr. Slíkir samningar skulu vera í formi beinna launagreiðslna og ekki vara lengur en í 12 mánuði eftir starfslok. Um starfslokasamning sem gerður hefur verið fyrir gildistöku laga þessara en ekki komið til framkvæmda gilda ákvæði greinar þessarar.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd starfslokasamninga. Sérstaklega skal gera grein fyrir slíkum samningum í skýringum með ársreikningi.

40. gr.

    77. gr. laganna fellur brott.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þessarar greinar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: laga þessara auk reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                  Eiginfjárþáttur A telst vera innborgað hlutafé, varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár, endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstafað eigið fé en að frádregnu bókfærðu virði eigin hlutabréfa eða stofnfjárbréfa, viðskiptavild, reiknaðri skattinneign og öðrum óefnislegum eignum, svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun. Enn fremur skal taka tillit til hlutdeildar minni hluta í eigin fé dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum. Leiði núvirðing skuldbindinga til myndunar eigin fjár skal draga það eigið fé frá eiginfjárþætti A.
     c.      Á eftir 10. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða í reglum að aðrir liðir en þeir sem eru taldir í 5. mgr. dragist frá eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „1. málsl.“ í 2. mgr. falla brott.

43. gr.

    Við 2. mgr. 90. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að kjósa sama endurskoðunarfyrirtæki oftar en fimm ár í röð.

44. gr.

    Orðin „sbr. 2. mgr. 18. gr.“ í 1. mgr. 92. gr. laganna falla brott.

45. gr.

    110. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
     1.      3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
     2.      8. gr. um tilkynningar um breytingar á áður skráðum upplýsingum um fjármálafyrirtæki,
     3.      1. mgr. 12. gr. um einkarétt fjármálafyrirtækja til að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni heiti þeirrar tegundar fjármálafyrirtækja sem fyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir,
     4.      3. mgr. 17. gr. um reglur Fjármálaeftirlitsins,
     5.      17. gr. a um skyldu til að halda sérstaka skuldbindingaskrá og upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins,
     6.      2. mgr. 17. gr. b um að eftirlitsskyldur aðili skuli fara að fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins,
     7.      1. og 2. mgr. 19. gr. um að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði,
     8.      2. mgr. 21. gr. um tilkynningarskyldu um hliðarstarfsemi,
     9.      22. gr. um tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna,
     10.      3. mgr. 27. gr. um að rekstrarfélagi sé óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir því kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa,
     11.      29. gr. um eignarhald og tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
     12.      1. og 2. mgr. 29. gr. a um bann við lánveitingum eða öðrum fyrirgreiðslum,
     13.      1., 3., 4. og 5. mgr. 30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum,
     14.      1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr. um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi,
     15.      1. og 5. mgr. 36. gr., 1. og 4. mgr. 37. gr., 1. mgr. 38. gr. og 39. gr. um starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis,
     16.      40. gr. um tilkynningu um virkan eignarhlut,
     17.      46. gr. a um hömlur á meðferð hlutar,
     18.      47. gr. um tilkynningu eiganda,
     19.      48. gr. um tilkynningu fjármálafyrirtækis,
     20.      49. gr. um upplýsingaskyldu,
     21.      2., 3., 4. og 7. mgr. 52. gr. um hæfisskilyrði, setu stjórnarmanna í stjórn annars fjármálafyrirtækis og vanrækslu á tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins,
     22.      52. gr. b um tilkynningu stjórnar móðurfélags,
     23.      52. gr. c um tilkynningu stjórnar og framkvæmdastjóra til Fjármálaeftirlitsins,
     24.      1. og 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. um hæfisskilyrði starfsmanna fjármálafyrirtækja sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga og tilkynningar um mannabreytingar,
     25.      2. og 3. mgr. 54. gr. um starfsreglur og bann við starfandi stjórnarformanni,
     26.      2. og 3. mgr. 55. gr. um þátttöku stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í meðferð mála,
     27.      56. gr. um þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri,
     28.      57. gr. um starfsreglur,
     29.      57. gr. a um kaupaukakerfi,
     30.      57. gr. b um starfslokasamninga,
     31.      58. gr. um þagnarskyldu,
     32.      2. mgr. 63. gr. um að halda og uppfæra skrá yfir stofnfjáreigendur,
     33.      3. mgr. 66. gr. um að setja og fylgja reglum um viðskipti með stofnfé,
     34.      68. gr. um ráðstöfun arðs,
     35.      2. mgr. 69. gr. um skyldur sparisjóðs,
     36.      3. mgr. 80. gr. um upplýsingaskyldu rafeyrisfyrirtækja,
     37.      81. gr. um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja,
     38.      3. málsl. 7. mgr. 84. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
     39.      1. mgr. 86. gr. um upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár,
     40.      87. gr. um samningu og undirritun ársreiknings,
     41.      1. mgr. 88. gr. um góða reikningsskilavenju,
     42.      89. gr. um skýrslu stjórnar,
     43.      91. gr. um hæfi endurskoðanda,
     44.      92. gr. um upplýsingaskyldu endurskoðanda,
     45.      95. gr. um skil ársreiknings til Fjármálaeftirlitsins,
     46.      106. gr. um samruna fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess,
     47.      107. gr. um eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins,
     48.      sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 111. gr.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

46. gr.

    112. gr. b laganna orðast svo:
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
     1.      3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
     2.      2. mgr. 17. gr. b um upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins,
     3.      1. og 2. mgr. 19. gr. um að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði,
     4.      2. mgr. 21. gr. um tilkynningarskyldu um hliðarstarfsemi,
     5.      22. gr. um tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna,
     6.      3. mgr. 27. gr. um að rekstrarfélagi sé óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir því kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa,
     7.      29. gr. um eignarhald og tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
     8.      1. og 2. mgr. 29. gr. a um bann við lánveitingum eða öðrum fyrirgreiðslum,
     9.      30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum,
     10.      1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr. um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi,
     11.      40. gr. um tilkynningu um virkan eignarhlut,
     12.      46. gr. a um hömlur á meðferð hlutar,
     13.      49. gr. um upplýsingaskyldu,
     14.      2. og 3. mgr. 54. gr. um starfsreglur og bann við starfandi stjórnarformanni,
     15.      2. og 3. mgr. 55. gr. um þátttöku stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í meðferð mála,
     16.      56. gr. um þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri,
     17.      1. mgr. 57. gr. um viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki,
     18.      57. gr. a um kaupaukakerfi,
     19.      57. gr. b um starfslokasamninga,
     20.      58. gr. um þagnarskyldu,
     21.      68. gr. um ráðstöfun arðs,
     22.      1., 2. og 4. mgr. 81. gr. um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja,
     23.      1. mgr. 86. gr. um upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár,
     24.      87. gr. um samningu og undirritun ársreiknings,
     25.      1. mgr. 88. gr. um góða reikningsskilavenju,
     26.      89. gr. um skýrslu stjórnar,
     27.      91. og 92. gr. um hæfi endurskoðanda og skyldu hans til að tilkynna um ágalla í rekstri.
    Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna.

47. gr.

    Við 117. gr. laganna bætist: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB.

48. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæðum til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Ákvæði til bráðabirgða I–IV falla brott.
     b.      Ákvæði til bráðabirgða VI fellur brott.
     c.      Við bætist nýtt ákvæði, svohljóðandi:
                  Fjármálafyrirtæki hafa ráðrúm til næsta aðalfundar eftir samþykkt laga þessara til að uppfylla hæfisskilyrði um stjórnarmenn. Framkvæmdastjórar og forstöðumenn innri endurskoðunardeilda hafa ráðrúm til 31. desember 2010 til að uppfylla hæfisskilyrði samkvæmt lögum þessum.

49. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. B-liður 48. gr. öðlast þó gildi 31. desember 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 29. desember 2008 til að fara yfir lög á sviði fjármálamarkaðar. Skipunin kom í kjölfar fjármálaáfallsins á haustdögum 2008 er augu manna beindust nokkuð að því hvort eitthvað í innlendu regluverki kynni að hafa brugðist eða hvort bæta mætti virkni þess, ekki síst með það að markmiði að komið yrði í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar endurtækju sig. Samkvæmt skipunarbréfi var nefndinni ætlað að huga sérstaklega að því hvort tilefni væri til að endurskoða ákvæði um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja við slík fyrirtæki, töku hlutabréfa fjármálafyrirtækja sem veð gegn láni, hlutverk, hæfisskilyrði og reglur stjórna, eignarhald, takmarkanir á stórum áhættum og náin tengsl. Skyldi nefndin hafa til hliðsjónar þá vinnu sem fram færi á vegum Evrópusambandsins í tengslum við breytingar á reglum vegna fjármálaáfallsins.
    Í nefndinni áttu sæti Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Árný J. Guðmundsdóttir, lögfræðingur í Fjármálaeftirlitinu, tilnefnd af eftirlitinu, Birgir Örn Arnarson, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi banka, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja, og Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Samtökum fjárfesta. Á starfstíma nefndarinnar lét Birgir Örn af störfum en sæti hans tók Sverrir Örn Þorvaldsson, forstöðumaður hjá Íslandsbanka. Starfsmenn nefndarinnar voru Ómar Þór Eyjólfsson og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingar í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Um skýrslu Kaarlo Jännäri.
    Ríkisstjórn Íslands ákvað í nóvember 2008 að fá reyndan bankaeftirlitsmann til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur. Framkvæmd slíks mats er hluti af samkomulagi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Fyrrum forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins, Kaarlo Jännäri, var fenginn til verksins. Hann var einn af yfirmönnum finnska seðlabankans um tíma og hefur víðtæka reynslu af alþjóðlegri bankastarfsemi, m.a. vegna starfa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og Seðlabanka Evrópu.
    Kaarlo Jännäri var einkum falið að meta regluverk varðandi lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar áhættuskuldbindingar, krosseignatengsl og loks mat á hæfi eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækja (e. fit and proper). Samkomulag varð um að matsskýrslan yrði gerð opinber og að hún skyldi vera tilbúin í lok mars 2009. Skýrslugerðinni var lokið á tilsettum tíma og er endanleg skýrsla aðgengileg á vefsíðu forsætisráðuneytis, sbr. fréttatilkynningu, dags. 30.3.2009.
    Að loknum inngangi hefst skýrslan á yfirliti þar sem lýst er stofnanalegri umgjörð reglusetningar og eftirlits á sviði fjármálastarfsemi á Íslandi (2. hluti). Þá greinir höfundur frá bankahruninu á Íslandi haustið 2008 og aðdraganda þess (3. hluti). Í 4.–9. hluta skýrslunnar er að finna lýsingu á meginþáttum þeirra sviða sem matinu var einkum ætlað að ná til, þ.e. lausafjárstýringu og -áhættu; gjaldeyrisáhættu; útlánaáhættu, stórum áhættuskuldbindingum og lánveitingum til tengdra aðila; krosseignatengslum; mati á hæfi eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækja; reglum um virka eignarhluti; upplýsingagjöf og gagnsæi, fyrirtækjamenningu og stjórnarháttum innan fyrirtækja o.fl. Loks er í 10. hluta að finna niðurstöður skýrsluhöfundar og helstu tillögur hans um framtíðarskipan mála. Í skýrslunni er að finna fjölda ábendinga um atriði sem betur mega fara í lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi, en eftirfarandi eru helstu tillögur Kaarlo Jännäri, í átta liðum:
     1.      Fækka ber ráðuneytum sem sinna málefnum fjármálamarkaðar á Íslandi.
     2.      Sameina ber Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið eða a.m.k. setja þessar stofnanir undir einn hatt líkt og í Finnlandi og á Írlandi.
     3.      Auka ber valdheimildir Fjármálaeftirlitsins og hvetja stofnunina til að beita þeim af meiri krafti.
     4.      Koma ber upp útlánaskrá (e. national credit registry) hjá Fjármálaeftirlitinu til að draga úr útlánaáhættu í fjármálakerfinu og til að betri yfirsýn fáist yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu.
     5.      Setja ber strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda og framfylgja þeim af krafti.
     6.      Fjölga ber vettvangskönnunum hjá eftirlitsskyldum aðilum til að styðja við skýrslugjöf til Fjármálaeftirlitsins og úttektir þess sem byggjast á innsendum gögnum, einkum að því er varðar útlánaáhættu, lausafjáráhættu og gjaldeyrisáhættu.
     7.      Innstæðutryggingakerfið verður að endurskoða og bæta, í nánu samhengi við þróun mála á þessu sviði innan ESB.
     8.      Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggjafar og eftirlits með fjármálastarfsemi er mikilvæg, einkum innan EES og ESB.
    Í frumvarpi þessu er að finna tillögur um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Er hér um að ræða eftirfylgni við niðurstöður í 3.–5. tölul. í skýrslunni. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta til þess að fylgja eftir tillögum skv. 7. tölul.

Þagnarskylda (bankaleynd) og upplýsingagjöf.
    Ekki síst í kjölfar hruns bankanna haustið 2008 hefur hugtakið bankaleynd verið nokkuð í umræðunni hér á landi. Í samfélaginu hafa heyrst háværar raddir um mikilvægi gagnsæis, m.a. um rétt almennings til að fá upplýsingar um hvað gerðist í aðdraganda hrunsins og að sá réttur sé t.d. ríkari en þeirra sem bera við bankaleynd.
    Á nýliðnu hausti hélt viðskiptaráðuneytið (nú efnahags- og viðskiptaráðuneytið) ráðstefnu um bankaleynd í samráði við Háskóla Íslands. Þá fékk ráðuneytið sérfræðing sl. vor til að vinna skýrslu um bankaleynd. Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana og samanburð við sambærilegar reglur í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og Bretlandi. Jafnframt er gerður almennur samanburður á íslenskum reglum og reglum Sviss, Lúxemborgar og Liechtenstein, sem þekkt eru fyrir ríka bankaleynd. Höfundur skýrslunnar kemst að þeirri niðurstöðu að ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana séu í aðalatriðum sambærileg reglum samanburðarríkjanna.
    Við samningu þessa frumvarps voru skoðuð sérstaklega ákvæði laganna um þagnarskyldu, (58.–60. gr.) og hvort ástæða væri til að gera breytingar á greinunum. Rétt er að hafa í huga að bankaleynd er ekki skilgreint hugtak en margvísleg rök búa að baki reglunum. Einkum má nefna vernd samningssambands aðila og samningsfrelsi. Þá mætti nefna vernd viðskiptahagsmuna auk verndar trúnaðarsambands sérfræðistétta við viðskiptavini (t.d. milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra og lækna og sjúklinga) og síðast en ekki síst vernd þeirra grundvallarréttinda sem felast í friðhelgi til einkalífs skv. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 8. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Jafnframt er rétt að hafa í huga að reglur um bankaleynd sæta margvíslegum undantekningum vegna aukins eftirlits, sem ekki síst byggjast á almannahagsmunum, t.d. vegna fjármála-, samkeppnis- og skatteftirlits og vegna baráttu gegn refsiverðum brotum, m.a. baráttu gegn peningaþvætti.
    Við athugun á því hvort ástæða væri til að breyta ákvæðum laganna um þagnarskyldu (bankaleynd) sem, líkt og fyrr segir, hefur verið nokkuð í umræðunni vegna hruns bankanna þótti rétt að skoða nánar til hvaða úrræða stjórnvöld hafa þegar gripið í þessu sambandi og þar sem þagnarskyldu hefur verið vikið til hliðar. Hér má nefna setningu laga um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, og lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008. Jafnframt var haft í huga mikilvægi þess að almenningur hefði traust á fjármálakerfinu en svo virðist sem ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana séu í aðalatriðum sambærileg reglum nágrannalandanna, sbr. niðurstöður áðurnefndrar skýrslu. Eftir nokkuð ítarlega skoðun og með vísan í framangreint var ákveðið, við samningu þessa frumvarps, að ekki væri þörf á að gera breytingar á þagnarskylduákvæðum laganna.
    Í víðu samhengi leiddi athugunin hins vegar til þeirrar niðurstöðu að ástæða kynni að vera til að heimila frekari upplýsingaskipti milli eftirlitsaðila en nú er, einkum með það að markmiði að styrkja eftirlit enn frekar og stöðugleika fjármálakerfisins. Hér mætti nefna rýmri heimildir Fjármálaeftirlitsins til miðlunar upplýsinga, t.d. til skattyfirvalda og Samkeppniseftirlitsins, en heimildirnar yrðu gagnkvæmar. Rýmkun slíkra heimilda mundi kalla á mótun sérstakra samskiptareglna hlutaðeigandi eftirlitsaðila, sem stofnað yrði til á grundvelli sérstakra samstarfssamninga. Þar væri kveðið á um ýmsa þætti sem varða samstarf og nákvæmlega skilgreind regluleg upplýsingaskipti á milli aðila. Fyrirmyndar mætti leita í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, þar sem kveðið er á um regluleg samskipti við Seðlabanka Íslands á grundvelli sérstaks samstarfssamnings, sbr. 15. gr. laganna og í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, um upplýsingaskipti milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli samstarfssamnings, sbr. 4. mgr. 35. gr. laganna. Í báðum tilvikum, þ.e. bæði í 15. gr. laga nr. 87/1998 og í 35. gr. laga nr. 36/2001 er áskilið að upplýsingar sem veittar eru samkvæmt greinunum séu háðar þagnarskyldu samkvæmt lögunum.
    Verði niðurstaðan sú að vilji standi til þess að heimila frekari upplýsingaskipti milli eftirlitsaðila en nú er, til samræmis við það sem hér að framan er reifað, má sjá að slíkt mundi ekki krefjast breytinga á þagnarskylduákvæðum laga nr. 161/2002 heldur kalla á breytingar annarra laga, m.a. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins.
          Fjármálaeftirlitið fær auknar eftirlitsheimildir. Fjölgað er þeim ákvæðum þar sem Fjármálaeftirlitið fær heimildir til að leggja mat á rekstur eða hegðun eftirlitsskylds aðila.
          Aukin er ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar. Þrengd eru tímamörk starfstíma sem endurskoðunarfyrirtæki hafa vegna starfa sinna fyrir einstök fjármálafyrirtæki.
          Halda skal sérstaka skrá um stærri lántakendur. Aðilum sem ekki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins en eru á skuldbindingaskrá verður skylt að veita eftirlitinu upplýsingar um allar skuldbindingar sínar. Skráin er mikilvægt verkfæri til þess að unnt sé að tengja saman aðila og leggja mat á kerfislæg áhrif, komi til erfiðleika í rekstri þeirra. Endurskoða þarf samstarfssamning Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til þess að tryggja að skráin komi að fullum notum.
          Skerpt er á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Lagt er til að lögfest verði tilvist úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
          Lögð eru til ný ákvæði um meðferð upplýsinga um viðskiptamenn.
          Þrengd eru tímamörk sem fjármálafyrirtæki hafa til þess að afsetja fullnustueignir.
          Þrengd eru og skilgreind nánar skilyrði fjármálafyrirtækja til þess að mega eiga eigin hluti. Eignarhlutur dótturfélaga telst nú með svo og samningar utan efnahags um eigin hlutabréf.
          Bann er lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum.
          Settar eru þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna og Fjármálaeftirlitinu falið víðtækara hlutverk við eftirlit með slíkum viðskiptum.
          Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvernig lán sem tryggð eru með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni.
          Skýrðar og þrengdar eru reglur um stórar áhættuskuldbindingar.
          Auknar eru heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að snúa við sönnunarbyrði við mat á þeim sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut.
          Auknar eru kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og bann sett við starfandi stjórnarformönnum. Fjármálaeftirlitinu er ætlað aukið hlutverk við eftirlit með starfi stjórna.
          Settar eru reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við starfsmenn.
          Settar eru reglur um hvernig standa má að hvatakerfum, kaupaukakerfum, og um starfslokasamninga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Til að auðveldara sé að átta sig á merkingu hugtaka, sem þegar er að finna á víð og dreif í gildandi lögum, er í frumvarpinu lagt til að hugtökin verði færð í sérstaka grein þar sem merking þeirra er skýrð. Farið hefur verið yfir hugtökin með tilliti til frumtexta þeirra og þau lagfærð. Á þetta einkum við um skilgreiningar á hugtökunum náin tengsl og hópur tengdra viðskiptamanna. Sérstök athygli er vakin á því að gerð er tillaga um skilgreiningu á hugtakinu framkvæmdastjóri. Þykir það nauðsynlegt í ljósi þess að ekki er, í reynd, um að ræða samræmda notkun á heiti yfir helstu stjórnendur fjármálafyrirtækja.

Um 2. gr.


    Í núgildandi lögum er víða að finna ýmis hugtök þótt hvergi sé í þeim að finna sjálfstæða grein með orðskýringum. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri grein verði bætt við I. kafla laganna er verði 1. gr. a og innihaldi orðskýringar. Er því nauðsynlegt að leggja til breytt heiti I. kafla laganna.

Um 3. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á f-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, sem tiltekur hvaða starfsemi samkvæmt lögunum er leyfisskyld, þess efnis að til viðbótar leyfisskyldu til umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar, líkt og krafist er í núgildandi lögum, verði einnig krafist leyfis til töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Breytingin er lögð til vegna samræmingar við 1. mgr. 52. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 4. gr.


    Starfsleyfi fjármálafyrirtækis tekur til starfsemi fyrirtækisins í aðalstöðvum þess og útibúum, eftir eðli rekstrar. Þótt gildandi lög, og frumvarp þetta, geri ráð fyrir því að starfsleyfi taki til alls þess rekstrar sem viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur með höndum, er engu síður talið nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið geti við tilteknar aðstæður gripið inn í rekstur, án þess að til eiginlegrar starfsleyfissviptingar komi. Aðstæður geta t.d. verið með þeim hætti að meginhluti eiginlegrar starfsemi fjármálafyrirtækis fer fram í einu útibúi fyrirtækisins, eða málum þannig háttað að tiltekið útibú vegur það þungt í rekstrinum að ástæða þykir til að hafa sérstakt eftirlit með því.
    Rétt þykir að taka fram að frumvarpsgreinin stríðir í engu gegn heimildum fjármálafyrirtækja til að stunda starfsemi á öllu EES-svæðinu, eða frá þeim starfsstöðvum sem hentugast þykir. Einungis er leitast við að tryggja Fjármálaeftirlitinu mildara úrræði en það hefur nú, telji það rekstri einstakra starfsstöðva ábótavant.

Um 5. gr.


    Í greininni er fjallað um kröfur um hlutafé og stofnfé sem ávallt er skylt að uppfylla. Með 1.–6. mgr. greinarinnar er lagt til að horfið verði frá þeirri leið að tilgreina fyrst lágmarksfjárhæð hlutafjár og stofnfjár í íslenskum krónum en þess í stað lagt til að lágmarksfjárhæðin verði tilgreind í evrum en slíkt fyrirkomulag er til samræmis við tilskipanir Evrópusambandsins.
    Þar sem þróun gengis íslensku krónunnar er háð ýmsum óvissuþáttum er gerð tillaga um nýja 7. mgr. þess efnis að ef hlutafé eða stofnfé er skráð í íslenskum krónum skuli miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Nauðsynlegt er fyrir þau fjármálafyrirtæki þar sem eiginfjárgrunnur kann að vera nálægt lágmörkum að hafa borð fyrir báru til að geta mætt gengissveiflum.
    Í frumvarpinu er ekki að finna efnislegar breytingar á þremur síðustu málsgreinum greinarinnar frá gildandi lögum en þær færast þó aftur í röð þar sem lögð er til ný 7. mgr., sbr. hér að framan.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir því að verulega verði skerpt á ákvæðum er varða endurskoðunardeildir sem starfa skulu við fjármálafyrirtæki og annast innri endurskoðun. Gerð er krafa um að við innri endurskoðunardeildir fjármálafyrirtækja starfi ákveðinn fjöldi starfsmanna þótt ekki sé tiltekið nákvæmlega hver sá fjöldi skuli vera. Hann skal hins vegar endurspegla stærð viðkomandi fjármálafyrirtækis og það hversu viðamikil og flókin starfsemi fyrirtækisins er. Þá er gert ráð fyrir því að starfsmenn innri endurskoðunardeilda megi hvorki vera hluthafar í viðkomandi fjármálafyrirtæki né aðilar að kaupaukakerfum sem þar kunna að vera til staðar.
    Til samræmis við gildandi lög er áfram, skv. 2. mgr., gert ráð fyrir því að stjórn fjármálafyrirtækis skuli ráða forstöðumann endurskoðunardeildar fyrirtækisins, sem fari með innri endurskoðun í umboði stjórnar. Hins vegar er lagt til það nýmæli að gerð verði tiltekin hæfisskilyrði til slíks forstöðumanns. Þannig skal viðkomandi hafa lokið háskólanámi sem nýtist í starfi, ásamt því að búa yfir nægilegri reynslu til þess að geta sinnt starfi sínu. Er hér vísað til þess að viðkomandi hafi aflað sér starfsreynslu á fjármálamarkaði. Hvorki er talið nauðsynlegt að afmarka beinlínis hversu víðtæk slík reynsla skuli vera, enda aðstæður og starfsemi hinna ýmsu fjármálafyrirtækja mismunandi, né heldur að tiltaka nákvæmlega hver sú háskólamenntun skuli vera sem nýtast megi í starfi. Þótt vissulega mætti vísa á tilteknar faggreinar sem líklegar eru til að veita viðkomandi menntunarforskot, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, er ekki talin ástæða að tiltaka sérstaklega slíkar faggreinar. Enda er það svo að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi um það lokaorð hvort viðkomandi telst hafa burði til að gegna umræddu starfi. Til viðbótar framangreindum skilyrðum verður áskilið að viðkomandi hafi hvorki verið úrskurðaður gjaldþrota né í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt nánar tilgreindum lögum. Efnislega er áskilnaður þessi nánast sambærilegur þeim sem gerður er til hæfis stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, sbr. núgildandi 1. mgr. 52. gr. laganna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti tekið hæfi forstöðumanns til sérstakrar skoðunar.
    Í 3. mgr. er lagt til að innri endurskoðun skuli gera stjórn fjármálafyrirtækis grein fyrir starfsemi sinni. Ekki síst með vísan til þeirrar ríku ábyrgðar sem stjórn fjármálafyrirtækis hefur þykir eðlilegt að leggja til slíkt fyrirkomulag. Þá þykir rétt, einkum með það að markmiði að tryggja gagnsæi, að gera þá kröfu að á stjórnarfundum sé skylt að taka fyrir allar athugasemdir innri endurskoðunar og færa til bókar en skv. 4. mgr. skal innri endurskoðun tilkynna sérstaklega til Fjármálaeftirlitsins þær athugasemdir sem það hefur gert og sent til stjórnar. Þessi skipan þykir til þess fallin að enn frekar sé gagnsæi tryggt ásamt því sem Fjármálaeftirlitinu er gefið tækifæri til að beita þeim úrræðum sem það hefur, telji það þörf á að beita þeim, enda berist því athugasemd innri endurskoðunar án ástæðulauss dráttar. Með athugasemdum er einkum átt við formlegar athugasemdir sem innri endurskoðun telur gefa tilefni til að komið verði á framfæri við stjórn. Ekki er því gengið svo langt að leggja það til að viðkomandi þurfi að færa til bókar minni háttar athugasemdir eða það sem telja má vera almennar ábendingar. Loks er gert ráð fyrir því að innri endurskoðun geri Fjármálaeftirlitinu, eigi sjaldnar en árlega, grein fyrir niðurstöðum kannana sinna.
    Líkt og heimilt er í gildandi lögum er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti áfram, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrar einstakra fjármálafyrirtækja, veitt undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar og sett þeim fjármálafyrirtækjum sem slíka undanþágu fá tiltekin skilyrði. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu gæti t.d. verið á þá lund að gerð yrði krafa um að komið yrði á laggirnar annars konar innra eftirliti. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið veitt undanþágu frá einstökum þáttum starfsemi innri endurskoðunardeilda, sbr. orðalag ákvæðisins.

Um 7. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að í stað núgildandi 2. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar. Í þeirri fyrri er lagt til að fjármálafyrirtæki framkvæmi reglulega álagspróf og að niðurstöður slíkra álagsprófa séu skjalfestar. Þetta fyrirkomulag er talið geta verið til þess fallið að fyrr sé hægt að grípa í taumana ef einhver hætta gæti verið fyrir hendi í þá veru að kröfur um eigin fé standist ekki álag auk þess sem prófanir sem þessar stuðla að auknu gagnsæi og trúverðugleika.
    Í þeirri síðari er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti sett frekari reglur, ekki einungis um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa líkt og kveðið er á um í núgildandi lögum, heldur geti eftirlitið einnig sett slíkar reglur um framkvæmd áhættustýringar. Til viðbótar við gildandi lög er enn fremur lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja reglur um stöðu áhættustýringar innan fjármálafyrirtækja. Er slíkt talið nauðsynlegt til að tryggja að áhættustýringu sé gert nægilega hátt undir höfði innan fjármálafyrirtækja og þannig t.d. ekki litið svo á að hún geti verið aukastarf sem lágt settur starfsmaður sinni.
    Framangreindar breytingar hafa þann tilgang að tryggja að uppfylltar séu kröfur um fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækja, þ.e. kröfur um eigið fé og laust fé.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við lögin tveimur nýjum greinum, 17. gr. a og 17. gr. b. Með nýrri 17. gr. a er lagt til að fjármálafyrirtæki skuli halda sérstaka skrá yfir þá aðila sem þau eiga skuldbindingar á hendur. Til þess að utanumhald slíkrar skrár verði ekki um of íþyngjandi eru tilgreind þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að lántakendur, eða aðrir sem fjármálafyrirtæki eiga kröfur á, lendi á skránni. Megintilgangur skrárinnar er að tryggja að eftirlitsaðilar, í þessu tilviki Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands, geti haft nægilega yfirsýn yfir stöðu þeirra viðskiptamanna fjármálafyrirtækja sem eru það kerfislega mikilvægir, eða stórir, að áföll í rekstri þeirra kunni að hafa áhrif út fyrir viðskiptasamband þeirra og viðkomandi fjármálafyrirtækja. Til að tryggja að upplýsingar úr skránni nýtist bæði Fjármálaeftirlitinu, sem eftirlitsaðila með starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja, og Seðlabanka Íslands, sem eftirlitsaðila með lausafé og með kerfislægri áhættu, kann að þurfa að endurskoða ákvæði samstarfssamnings á milli þessara tveggja eftirlitsaðila.
    Ásamt þeim tillögum sem lagðar eru til annars staðar í frumvarpinu, einkum að því er varðar tengsl viðskiptamanna og auknar skyldur sem lagðar eru á eftirlitsskylda aðila til þess að tengja aðila saman, er þess vænst að tillaga þessi megi verða til þess að fyrr sé unnt að koma auga á atburðarás sem kann að leiða til kerfisáhættu.
    Með nýrri 17. gr. b er horft til þess að til að upplýsingar um aðila á skránni, sem kveðið er á um í nýrri 17. gr. a, þjóni þeim tilgangi að eftirlitsaðilar geti brugðist við kerfislægri áhættu vegna stórra aðila á skránni, sé nauðsynlegt að þeir geti aflað upplýsinga beint frá viðkomandi um stöðu þeirra gagnvart öðrum en þeim sem sent hafa inn upplýsingar. Er hér m.a. um að ræða skuldbindingar þeirra gagnvart erlendum lánveitendum eða öðrum erlendum aðilum.
    Í greininni eru einnig lögð til úrræði fyrir Fjármálaeftirlitið sem það getur gripið til bregðist aðili ekki við ósk eftirlitsins um upplýsingar eða ef upplýsingarnar eru ófullnægjandi.

Um 9. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um nýja grein, 1. gr. a, þar sem verði að finna orðskýringar nokkurra hugtaka sem lögin vísa til, m.a. um það hvað náin tengsl merkja í lögunum. Verði frumvarpið að lögum verða 2. og 3. mgr. 18. gr. núgildandi laga, þar sem fjallað er um náin tengsl, óþarfar og er því samhliða gerð tillaga um að þær falli brott.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. núgildandi laga skulu fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Þótt engum dyljist mikilvægi þessa þá hefur 19. gr. laganna sætt nokkurri gagnrýni fyrir þær sakir að þykja óskýr. Þrátt fyrir að sjá megi af eldri lögskýringargögnum að Fjármálaeftirlitið geti sett leiðbeinandi reglur í þessu sambandi þá hafa þær, til þessa, enn ekki litið dagsins ljós.
    Við hrun bankanna haustið 2008 varð fjármálakerfi landsins fyrir miklum hnekki og verulega hefur dregið úr trúverðugleika fjármálafyrirtækja. Mikilvægt er að endurheimta fyrri trúverðugleika og með það í huga er í frumvarpinu gerð tillaga um að bætt verði við 19. gr. nýrri 2. mgr. þar sem kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur um það hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir á fjármálamarkaði. Jafnframt er gerð krafa um að fjármálafyrirtæki hafi aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði viðskiptavina sinna rísi ágreiningur milli viðskiptavinar og fjármálafyrirtækis, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Með tillögu þessa efnis er ekki síst litið til þess að með hruni bankanna og við þær sérstöku aðstæður sem síðan hafa ríkt í efnahagslífinu hér á landi hefur fjöldi viðskiptamanna fjármálafyrirtækja lent í fjárhagslegum erfiðleikum, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
    Fjármálafyrirtækjum hefur með lögum nr. 107/2009 verið lögð sú skylda á herðar að setja skýrar reglur um verklag við úrlausn mála þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Þá hafa fjármálafyrirtækin með undanþágu frá samkeppnisyfirvöldum lagt drög að samræmdum reglum sem beita má við úrlausn slíkra skuldamála en hvert fyrirtæki setur svo endanlega eigin reglur sem háðar eru samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ljóst er að staða fyrirtækja sem eru í viðskiptum við fjármálafyrirtæki getur verið mjög mismunandi. Helstu rekstrarstærðir og staða efnahagsreiknings getur verið mjög ólík og úrlausn skuldavanda því háð aðstæðum hvers aðila fyrir sig. Yrði nær ómögulegt að lögfesta almennar reglur um hvernig fjármálafyrirtækja eigi að standa að endurskipulagningu skulda. Þó er ljóst að fjármálafyrirtæki hafa ekki algjörlega frjálsar hendur um hvernig staðið skuli að þessum málum. Eins og áður segir ber þeim að setja um þetta skýrar reglur sem háðar eru samþykki Fjármálaeftirlitsins. Þá eru fjármálafyrirtækin háð ákvæðum samkeppnislaga, auk þess sem Samkeppniseftirlitið hefur sett fram álit um ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. Sömuleiðis skulu fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Samkvæmt því geta eftirlitsaðilar, þ.e. Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið, látið til sín taka ef misbrestur verður á. Þetta frumvarp gerir einnig ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið setji reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Slíkar reglur geta, eftir atvikum, gert fjármálafyrirtækjum skylt að fylgja tilteknum leikreglum komi þau að fjárhagslegri endurskipulagningu eigna og skulda viðskiptamanna.
    Aukið umfang greiðsluerfiðleika getur leitt til þess að hefðbundin úrræði réttarfarslaga eigi ekki jafn vel við og í eðlilegu árferði. Mikilvægt er því, ekki síst á þeim erfiða tíma sem gengur nú yfir íslensku þjóðina, að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja séu vel upplýstir um þau réttarúrræði sem þeim bjóðast og að fjármálafyrirtækin hafi aðgengilegar upplýsingar um það hvaða réttarúrræði standi viðskiptavinum þeirra til boða rísi ágreiningur. Er því í frumvarpinu gerð tillaga um framangreint en fyrirkomulag sem þetta þykir jafnframt betur til þess fallið að tryggja gagnsæi að þessu leyti og að öllum viðskiptavinum bjóðist sambærileg úrræði. Byggist tillaga frumvarpsins á sambærilegu ákvæði í lögum um vátryggingarsamninga.
    Með tillögu um nýja 3. mgr. er lagastoðum skotið undir tilvist nefndar sem þegar er starfandi, þ.e. úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Reynslan hefur sýnt að hinar ýmsu úrskurðarnefndir, sbr. t.d. úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, hafa reynst neytendum fljótvirk og hagkvæm leið til að fá skorið úr ágreiningi sem kann að rísa milli þeirra og viðkomandi fyrirtækja.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að settur verði lagarammi um hvernig haldið skuli utan um upplýsingar um einstaka viðskiptamenn fjármálafyrirtækja.
    Er lagt til að hin almenna regla verði sú að enginn eigi aðgang að upplýsingum um viðskiptamann nema hann hafi raunverulegt tilefni til. Í starfsemi fjármálafyrirtækja geta verið eðlilegar ástæður fyrir því að starfsmenn afli sér upplýsinga um stöðu einstakra viðskiptamanna. Það á t.d. við þegar starfsmaður fjármálafyrirtækis er að vinna að málum viðkomandi, er varðar endurskipulagningu á rekstri hans eða hvað varðar samþykki eða framlengingu á yfirdráttarheimild.
    Enn fremur er lagt til að viðskiptamaður fjármálafyrirtækis, sem þess óskar, geti fengið upplýsingar um það hvaða starfsmaður fjármálafyrirtækis hafi umsjón með þeim upplýsingum er kunna að vera í skránni og varða hann. Jafnframt að viðskiptamaður fjármálafyrirtækis eigi rétt á því að fá upplýsingar frá ábyrgðarmanni um það hverjir hafi aflað upplýsinga um hann úr skránni, hvar og hvenær upplýsinganna var aflað og í hvaða tilgangi.
    Loks er lagt til að ráðherra geti sett reglugerð um nánari útfærslu ákvæðanna.

Um 12. gr.


    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á greininni að til viðbótar því að starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða geti tekið til þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskiptum sem tengjast slíkum útboðum, líkt og núgildandi lög kveða á um, þá komi það fram með skýrum hætti að starfsemin geti jafnframt náð til töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Tillagan um breytingu á greininni er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 3. gr. þessa frumvarps, á f-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, þess efnis að krafist verði leyfis til töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Um 13. gr.


    Tillaga um að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 22. gr. laganna byggist á því að eðlilegt þykir að Fjármálaeftirlitið geti metið hvort skilyrði 1. málsl. ákvæðisins séu fyrir hendi. Þannig geti eftirlitið sett fjármálafyrirtækjum tiltekin skilyrði til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu. Ekki síst þykir nauðsynlegt að tiltaka sérstaklega tímafrest enda eru þau úrræði sem ákvæðið býður upp á tímabundin í eðli sínu. Ætíð skuli því haft að markmiði að fjárhagslegri endurskipulagningu ljúki sem fyrst.

Um 14. gr.


    Til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 3. og 11. gr. frumvarpsins þykir rétt að leggja til breytingu á g-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna þannig að skýrt sé að verðbréfafyrirtæki hafi heimildir til töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði til viðbótar því að geta haft umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar.

Um 15. gr.


    Með þeim tillögum sem lagðar eru til í frumvarpinu um breytingar og uppskiptingu á efni 29. gr. laganna er lagt til að tilvísun 5. mgr. 28. gr. laganna í 29. gr. falli brott.

Um 16. gr.


    Með þessari grein frumvarpsins er lögð til breyting á 29. gr. laganna í þá veru að ákvæðum greinarinnar verði beint bæði að móðurfélögum og dótturfélögum en í gildandi lögum er ekki fjallað um áhrif ákvæðanna á dótturfélög. Þannig er gert ráð fyrir því að samanlagður eignarhlutur fjármálafyrirtækis og dótturfélaga þess megi ekki nema hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnvirði innborgaðs hlutafjár eða stofnfjár fyrirtækis. Tillaga um breytingu miðar að því að tryggja að ekki sé hægt að koma eignarhlutum fyrir í dótturfélögum og þannig fara á svig við reglur um hámark eigin hluta. Við samningu frumvarpsins kom til álita að lækka hin heimiluðu mörk, 10%, en fallið frá því vegna tengingarinnar við dótturfélög. Þá er kveðið á um skyldu til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar ef viðkomandi eignast meira af hlutafé eða stofnfé vegna lúkningar viðskipta, sbr. 22. gr. laganna, en Fjármálaeftirlitið getur veitt allt að þriggja mánaða frest til að koma eignarhlut niður í lögmælt mark. Líkt og kveðið er á um í gildandi lögum er þess áfram getið að um heimildir fjármálafyrirtækis til að eignast eigin hluti gildi að öðru leyti ákvæði VIII. kafla hlutafélagalaga.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um að við útreikning skv. 1. málsl. 1. mgr. skuli taka tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf.
    Loks er með breytingunni gert ráð fyrir því að felld verði brott núgildandi 2. mgr. greinarinnar um lánveitingar enda verði ákvæði um lánveitingar sett í sérstaka grein, sbr. nánar í 16. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.


    Verði frumvarpið að lögum er fjármálafyrirtæki í fyrsta lagi með öllu óheimilt að lána til kaupa á hlutafé/stofnfjárbréfum í fyrirtækinu ef veðandlagið eru sjálf hlutabréfin/stofnfjárbréfin. Af sjálfu sér leiðir að bannreglan er ófrávíkjanleg, þ.e. ekki nægir að fá sjálfskuldarábyrgð samhliða veðsetningu hlutabréfanna/stofnfjárbréfanna til þess að lána megi til kaupanna.
    Í öðru lagi er fjármálafyrirtæki óheimilt nema með þröngum skilyrðum að veita lán til stjórnarmanns, lykilstjórnanda eða þess sem á virkan eignarhlut í viðkomandi fjármálafyrirtæki, verði frumvarpið að lögum. Bæði skulu vera trygg veð fyrir slíkum lánveitingum og eins má fjárhæð láns ekki vera hærri en svo að nemi 1% af áhættuskuldbindingum eða umfram 100 millj. kr. Er við það miðað að eðlileg lánafyrirgreiðsla, t.d. í tengslum við húsnæðiskaup, rúmist innan heimildanna. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja það að menn seilist ekki til áhrifa í fjármálafyrirtækjum í þeim höfuðtilgangi að eiga aðgengi umfram aðra að lánsfé. Enn fremur er ákvæðinu ætlað að tryggja rétt smærri hluthafa sem eiga mikið undir því að fjármálafyrirtæki sé ekki rekið sem einkafjárfestingarsjóður tiltölulega fárra stórra eigenda.
    Í þriðja lagi er með ákvæðinu reynt að girða fyrir það að farið sé á svig við bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða til eigenda virkra eignarhluta með því að banna að slíkar lánveitingar fari í gegnum dótturfélög.
    Til þess að koma ekki í veg fyrir að hlutabréf fjármálafyrirtækis sem eru í eigu lántakanda geti verið hluti af allsherjarveði í eignum lántakanda er þó gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti undanskilið slíka, og sambærilega, samninga bannreglu 3. mgr.

Um 18. gr.


    Lagt er til að fjármálafyrirtæki sé skylt, ef vafi leikur á því hverjir teljast innbyrðis tengdir viðskiptamenn, að tengja aðila saman nema því aðeins að viðkomandi fjármálafyrirtæki geti með fullnægjandi hætti sýnt fram á hið gagnstæða. Gera má ráð fyrir að einstök fjármálafyrirtæki setji sér vinnureglur og kynni þær fyrir Fjármálaeftirlitinu þannig að ljóst sé hvaða almennu reglu fjármálafyrirtæki beitir til að komast að niðurstöðu um tengsl aðila. Þegar vafi leikur á tengslum bóki fjármálafyrirtæki rökstuðning sinn fyrir því að tengsl séu ekki til staðar annaðhvort þegar fyrirgreiðsla er veitt eða þegar slíkur vafi kemur fram. Láti fjármálafyrirtæki undir höfuð leggjast að tengja viðskiptamenn getur Fjármálaeftirlitið beitt viðurlögum skv. XIV. kafla laganna.
    Annað nýmæli er að lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti ákveðið að hámark stórra áhættuskuldbindinga skuli vera lægra en 25% líkt og er hin almenna regla. Í þeim tilfellum, svo dæmi sé tekið, sem fjármálafyrirtæki hafa vaxið verulega umfram meðaltal sambærilegra fyrirtækja eða ef stjórnendur vilja leggja aukna áherslu á áhættusamari rekstur er ekki óeðlilegt að eftirlitsaðili geti gert auknar öryggiskröfur. Er ákvæðinu ætlað að veita þann möguleika.
    Þá er lagt til að þegar um er að ræða lánveitingu innan tiltekins hóps tengdra aðila skuli mörkin ekki fara yfir 20%. Er regla þessi í samræmi við ákvæði 111. gr. tilskipunar 2006/ 48/EB.

Um 19. gr.


    Í gildandi lögum er tilskilið að Fjármálaeftirlitið geti aðeins bannað stofnun útibús innlends fjármálafyrirtækis í öðru aðildarríki ef það hefur ástæðu til að ætla að bæði stjórnun og fjárhagsstaða þess sé ábótavant. Í greininni er tekinn af allur vafi um að annað hvort framangreindra tilvika nægi til þess að unnt sé að meina fjármálafyrirtæki opnun útibús.

Um 20.–22. gr.


    Sjá athugasemd við 18. gr.

Um 23. gr.


    Í VI. kafla gildandi laga er gert ráð fyrir því að afla þurfi fyrirframsamþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum, eða aukningu, á virkum eignarhlut í fjármálafyrirtæki.
    Tilskipun Evrópusambandsins 2007/44/EB (e. Directive 2007/44/EC of the European Parliament and of the Council of 5 September 2007 amending Council Directive 92/49/EEC and Directives 2002/83/EC, 2004/39/EC, 2005/68/EC and 2006/48/EC as regards procedural rules and evaluation criteria for the prudential assessment of acquisitions and increase of holdings in the financial sector) sem lagt er til að verði innleidd með 22.–29. gr. mælir hins vegar fyrir um það að ekki þurfi að afla samþykkis fyrir kaupum á virkum eignarhlut. Tilskipunin gerir ráð fyrir því að fyrirhuguð kaup, eða aukning, sé tilkynningarskyld til eftirlitsaðila sem hafi síðan tiltekinn frest til þess að gera athugasemdir við kaupin. Er tiltekið í tilskipuninni við hvaða skilyrði eftirlitsaðili getur gert athugasemdir eða hafnað kaupunum. Þótt hér sé aðeins um stigsmun að ræða frá gildandi reglum verður ekki fram hjá því litið að tilskipunin bindur á vissan hátt hendur eftirlitsaðila við mat á þeim sem hyggst ráðast í fjárfestinguna.
    Auk innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar eru í frumvarpinu tillögur að viðbrögðum eftirlitsaðila láti kaupandi undir höfuð leggjast að tilkynna um kaupin, kaupi eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir þá niðurstöðu eftirlitsaðilans, Fjármálaeftirlitsins, að viðkomandi sé ekki bær til þess að ráðast í fjárfestinguna.
    Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á 33. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti sett sig upp á móti kaupum á virkum eignarhlut ef það telur vafa leika á því hver sé hinn raunverulegi kaupandi. Með þessu er leitast við að bregðast við því ef reynt er að fela raunverulegt eignarhald með flóknu neti eignarhaldsfélaga.

Um 24. gr.


    Til þess að Fjármálaeftirlitið geti metið hæfi þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sinn verða að liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um viðkomandi. Þótt ekki séu í frumvarpinu lagðar til efnislegar breytingar varðandi það hvaða upplýsingar skuli fylgja tilkynningu er ljóst, miðað við að Fjármálaeftirlitið hefur mun afmarkaðri tímaramma til að taka afstöðu til þess hvort viðkomandi sé hæfur til að fara með hlutinn en áður var, að það er fjárfesti í hag að gefa sem fyllstar upplýsingar. Ber viðkomandi hallann af því að upplýsingagjöf sé ófullnægjandi.

Um 25. gr.


    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti lagt fleiri atriði til grundvallar mati sínu á því hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé til þess hæfur. Tilskipun 2007/44/EB tilgreinir hins vegar sérstaklega að aðeins þau atriði sem talin eru upp í greininni megi hafa til hliðsjónar.
    Þótt við fyrstu sýn megi ætla að þar með séu möguleikar Fjármálaeftirlitsins til að setja sig upp á móti fjárfestingunni takmarkaðir þá er svo ekki. Í sjálfu sér má halda því fram að töluliðirnir samanlagt innihaldi öll þau atriði sem eftirlitsaðili þarf á að halda til þess að geta lagt mat á kaupandann.
    Samkvæmt 1. tölul. metur Fjármálaeftirlitið þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut á grundvelli þess orðspors sem hann hefur aflað sér og skv. 2. tölul. metur það orðspor þess sem fyrirhugað er að veita muni starfseminni forstöðu. Ætla má að við það mat horfi eftirlitið til fyrri starfa viðkomandi og aðkomu, eða þátttöku, í atvinnurekstri, og þá án tillits til þess hvaða formlegu stöðu viðkomandi kann að hafa gegnt. Þannig gæti aðili sem ekki hefur reynslu af þeirri starfsemi sem fjármálafyrirtæki stundar en viðkomandi hefði hins vegar reynslu úr áhættusækinni starfsemi á öðrum vettvangi þurft að fara í gegnum þrengra nálarauga en aðili sem á að baki farsælan feril á fjármálamarkaði.
    Við mat skv. 3. tölul. hefur Fjármálaeftirlitið til hliðsjónar hvernig sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hyggst fjármagna kaupin. Séu þau t.d. fjármögnuð að verulegu leyti með lántöku frá öðru fjármálafyrirtæki og viðkomandi setur, eða hyggst setja, eignarhlutina að veði fyrir láni til kaupanna, leggur Fjármálaeftirlitið mat á það hver geti verið áhrif þess ef aðilinn getur ekki staðið í skilum með greiðslu á láni. Slíkt mat næði bæði til áhrifa á þann sem lánið veitir og þann sem kaupa á í. Með þeim hætti er eftirlitinu gert kleift að meta smithættu á milli fjármálafyrirtækja.

Um 26. gr.


    Í tilskipun 2007/44/EB er ekki gert ráð fyrir umsókn um heimild til þess að mega fara með virkan eignarhlut. Tilskipunin gefur eftirlitsstjórnvöldum hins vegar ákveðinn frest til að setja sig upp á móti kaupunum; með öðrum orðum að hafna því í reynd að kaupandi megi fara með eignarhlutinn, þ.e. nýta atkvæðisrétt og önnur þau réttindi sem hlutnum fylgja. Berist ekki viðbrögð frá eftirlitsstjórnvaldi innan tilskilins frests eignast kaupandi sjálfkrafa öll réttindi yfir hlutnum.

Um 27. gr.


    Hafi sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hlotið jákvæða niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins en ekki ráðist í hina fyrirhuguðu fjárfestingu innan sex mánaða er gert ráð fyrir því að ferli skv. 40.–43. gr. hefjist að nýju. Rökin að baki tillögu um ákvæði sem þetta eru þau að á því tímabili hefur Fjármálaeftirlitið ekki eftirlit með hæfi viðkomandi. Á þeim tíma kunna aðstæður hjá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut að breytast og e.t.v. að gera viðkomandi síður til þess fallinn að fara með eignarhaldið.

Um 28. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til á ákvæðum greinarinnar mótast af því að tilskipun 2007/44/EB gerir ekki ráð fyrir fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum á virkum eignarhlut, eins og áður hefur verið fjallað um, sjá nánar athugasemdir við 22. gr. frumvarpsins.

Um 29. gr.


    Greinin tiltekur þau úrræði sem Fjármálaeftirlitið hefur fylgi aðili ekki þeim fyrirmælum sem fram koma í tilkynningu þess um að hann sé ekki hæfur til þess að fara með hlutinn. Í greininni er litið til meðalhófs og aðila gefinn möguleiki á að öðlast yfirráð yfir hlut sem hann átti áður eftir að hafa selt það sem hann eignaðist án samþykkis. Þótt slíkt sé ekki lagt til í frumvarpinu hefði vel komið til greina að líta svo á að aðili sem hunsaði alfarið niðurstöðu eftirlitsaðilans væri ekki hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut og skyldi sviptur atkvæðisrétti til frambúðar, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 42. gr.

Um 30. gr.


    Ef ekki kæmu til hömlur á meðferð eignarhlutar á meðan eftirlitsaðilinn er að meta hæfi þess sem eignast eða eykur við virkan eignarhlut væri aðilanum í lófa lagið, væri hann þannig innréttaður, að skaða félagið eða rýra hagsmuni annarra hluthafa. Ákvæðinu er ætlað að tryggja hagsmuni allra hlutaðeigandi á meðan Fjármálaeftirlitið hefur hæfi þess sem eignast hefur eða aukið við eignarhlut sinn til skoðunar.

Um 31. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða greininni eins og hún er í gildandi lögum að því undanskildu að bætt hefur verið við nýjum málslið. Með honum er sama skylda lögð á viðkomandi rýrni hlutur hans vegna aðgerða sem fjármálafyrirtækið sjálft grípur til og ef hann seldi hlut sinn að hluta til eða öllu leyti.

Um 32. gr.


    Ekki er lögð til efnisleg breyting á ákvæðum greinarinnar, en ákvæðið er að finna í 48. gr. gildandi laga.

Um 33. gr.


    Til þess að geta viðhaldið virku eftirliti með fjármálafyrirtækjum og metið hæfi þeirra sem eiga virkan eignarhlut í þeim er nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir til þess að geta, á hverjum tíma, tekið hæfi þeirra til athugunar.

Um 34. gr.


     Um a-lið.
    Ef upplýsingar þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eru ófullnægjandi getur Fjármálaeftirlitið óskað fyllri upplýsinga, sbr. 42. gr., eða lagt mat á hæfi viðkomandi á grundvelli innsendra upplýsinga og þá, eftir atvikum, hafnað því að af kaupunum verði. Séu innsendar upplýsingar um væntanlegan kaupanda þess eðlis að Fjármálaeftirlitið telur vafa leika á því hver sé raunverulegur kaupandi skal það tilkynna viðkomandi að það telji hann ekki hæfan til að fara með hlutinn. Tilvik af þessu tagi gætu t.d. verið að væntanlegur kaupandi væri eignarhaldsfélag og óljóst væri hverjir séu raunverulegir eigendur þess, eða eigendur þess væru aðilar skrásettir í lögsögu sem ekki væri með samning við Fjármálaeftirlitið um virk skipti á upplýsingum. Með tilliti til heilbrigðs og trausts fjármálamarkaðar er Fjármálaeftirlitinu ætlað að ganga tryggilega úr skugga um það hverjir fari með virkan eignarhlut.
    Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um að aðili sé ekki hæfur til að fara með virkan eignarhlut skal ætíð rökstudd, sbr. 43. gr. Sama á við um niðurstöðu byggða á ákvæði 49. gr. a. Í slíku tilviki ætti sá sem tilkynnti um áform sín möguleika á að gera betur grein fyrir því hver hinn raunverulegi eigandi er. Fjármálaeftirlitið hefði þá, eftir aðstæðum, tilefni til að endurskoða niðurstöðu sína.
     Um b-lið.
    Auk eftirlits með þeim sem eiga virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki er það nauðsynlegur þáttur í virku eftirliti að fylgjast með myndun náinna tengsla. Eðlilegt er að þau viðmið sem fram koma í greinum frumvarpsins um athuganir Fjármálaeftirlitsins og úrræði varðandi mat á hæfi aðila til þess að fara með virkan eignarhlut gildi einnig um náin tengsl, eftir því sem við á.

Um 35. gr.


    Í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á ákvæðum 52. gr. gildandi laga. Í fyrsta lagi má nefna að lagt er til það nýmæli að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis megi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á samkeppnislögum eða sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, þar á meðal lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í öðru lagi er skerpt á öðrum hæfisskilyrðum. Eru lögð til þrengri og skýrari ákvæði um fjárhagsstöðu, menntun, starfsreynslu og starfsferil stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, auk þess sem gert er ráð fyrir að bæði stjórnarmenn sem framkvæmdastjórar fari í sérstakt hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu. Er það m.a. lagt til í tilefni af því að í frumvarpinu er víða að finna ríkari kröfur til stjórnarmanna og að þeir geri sér fulla grein fyrir þeirri persónulegu ábyrgð sem þeir bera á meðan þeir sitja í stjórn. Í frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið setji reglur um hvað teljast skuli fjárhagslegt sjálfstæði. Slíkar reglur geta m.a. innihaldið ákvæði um að stjórnarmaður skuli ekki skulda fjármálafyrirtækjum verulega fjármuni, e.t.v. sem hlutfall af árstekjum hans, að hann sé ekki í verulegum ábyrgðum fyrir aðra eða að hann sé ekki eigandi eða stjórnandi fyrirtækis sem stendur fjárhagslega höllum fæti.
    Í þriðja lagi eru lögð til þrengri skilyrði til stjórnarsetu. Af ákvæðinu leiðir að stjórnarmanni er á sama tíma óheimilt að eiga sæti bæði í viðskiptabanka og vátryggingafélagi, eða viðskiptabanka og kauphöll. Á samkeppnismarkaði er mikilvægt að eignarhald og stjórnarseta skapi ekki hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Mikilvægt er t.d. að móðurfélag sem á sem dótturfélög annars vegar vátryggingafélag og hins vegar fjármálafyrirtæki gæti þess að sömu stjórnarmenn séu ekki tilnefndir til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækinu og vátryggingafélaginu. Þetta er mikilvægt t.d. í því tilviki þegar fjármálafyrirtækið á í samstarfi við annað vátryggingafélag sem á í samkeppni við dótturfélag móðurfélagsins. Svonefnd krossstjórnarseta af því tagi sem hér um ræðir getur valdið aukinni hættu á hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu.

Um 36. gr.


     Um a-lið.
    Til þess að tryggja að haldnir séu aðalfundir, þótt stjórn hafi vanrækt eða þumbast við að halda hann, gerir frumvarpið ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti sjálft staðið fyrir slíkum fundi. Þótt halda megi því fram að ákvæði hlutafélagalaga um boðun aðalfunda eigi að vera fullnægjandi fyrir fjármálafyrirtæki er svo ekki þegar kemur að því að fylgja eftir þeim atriðum í frumvarpinu sem lúta að því að auka ábyrgð stjórnarmanna. Án þessara ákvæða væri Fjármálaeftirlitinu ókleift að beita stjórnvaldssektum hunsi stjórn óskir eða að sinna lögboðinni skyldu til að standa fyrir aðalfundi.
     Um b-lið.
    Ákvæði b-liðar er samhljóða ákvæði um sama efni í lögum um vátryggingastarfsemi. Er ákvæðinu ætlað að gefa eftirlitsaðila tækifæri til að bregðast við breytingum á stöðu fjármálafyrirtækis með tilliti til samruna eða annars sem kallar á breytt verklag við eftirlit.
     Um c-lið.
    Gera verður þá kröfu til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja að þeir hafi heildaryfirsýn yfir þann rekstur sem þeim er trúað fyrir. Á þetta bæði við þegar vel gengur og eins, og jafnvel enn frekar, þegar á móti blæs. Meðal þess sem kann að hafa úrslitaáhrif á áframhaldandi rekstur er aðgengi að lánamörkuðum og hömlur sem kunna að vera á sölu eða annað framsal eignarhluta. Þá eru ákvæði í lánasamningum sem heimila lánveitendum að gjaldfella eða segja slíkum samningum upp, verði breytingar á stjórnendateymi lántakanda, ekki til þess fallin að auðvelda endurskipulagningu fjármálafyrirtækis sem kann að standa í erfiðri baráttu, m.a. vegna slælegrar frammistöðu stjórnenda. Þótt aldrei verði unnt að tilgreina í lagatexta, þannig að tæmandi sé, hvaða atriði það eru sem stjórnendur skulu tilkynna til Fjármálaeftirlitsins verður að gera þá kröfu að þeir beri skynbragð á það hvað haft getur áhrif á áframhaldandi starfsemi.

Um 37. gr.


     Um a-lið.
    Þótt ákvæði frumvarpsins geri ráð fyrir verulegri þrengingu heimilda fjármálafyrirtækja til lánveitinga, m.a. banni við lánveitingum til þeirra sem eiga virkan eignarhlut og banni við lánveitingum til kaupa á eigin hlutabréfum með veði í þeim, þykir ekki rétt að banna með öllu lánveitingar til stjórnarmanna. Að baki slíkum lánveitingum geta legið mjög eðlilegar ástæður. Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur um slík viðskipti og gefst þá tækifæri til að fylgjast með að farið sé að þeim reglum.
     Um b-lið.
    Ákvæði frumvarpsins um starfandi stjórnarformenn byggist efnislega á niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra skipaði með bréfi, dags. 27. janúar 2004 (Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti: Íslenskt viðskiptaumhverfi (Reykjavík, nefndarálit, september 2004)).
    Meiri hluti nefndarinnar sem vann að gerð frumvarpsins lagði til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Þó var lagt til að stjórn félagsins gæti falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina. Skilaði einn nefndarmaður séráliti og taldi ekki rétt að festa slíkt ákvæði í lög.
    Í 1. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um kosningu formanns félagsstjórnar. Þá er þar jafnframt kveðið á um að ekki megi kjósa framkvæmdastjóra félags sem stjórnarformann í því. Lagt er til að ný málsgrein bætist við 54. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að stjórnarformanni í fjármálafyrirtæki skuli óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formanns félagsstjórnar. Í ákvæðinu er þó gert ráð fyrir undantekningu frá meginreglunni að því er varðar einstök verkefni sem félagsstjórn felur stjórnarformanni að vinna fyrir stjórnina.
    Stjórnarformenn félaga gegna mikilvægu hlutverki innan stjórna enda sjá þeir m.a. um að stýra fundum stjórnar og boða til stjórnarfunda, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra. Eins og kemur fram hér að framan leggur 1. mgr. 70. gr. hlutafélagalaga bann við því að framkvæmdastjóri félags verði kosinn stjórnarformaður í því. Nokkuð hefur hins vegar borið á því hérlendis að stjórnarformenn séu jafnframt meðal æðstu stjórnenda hjá viðkomandi félagi og sinni daglegum störfum fyrir það. Í slíkum tilvikum eru þeir ekki titlaðir sem framkvæmdastjórar heldur hefur myndast sú venja að tala um þá sem starfandi stjórnarformenn. Störf starfandi stjórnarformanna líkjast oft í reynd mjög störfum framkvæmdastjóra og hlýtur fyrirkomulagið að orka nokkurs tvímælis í ljósi fyrrnefnds ákvæðis um að ekki megi kjósa framkvæmdastjóra sem stjórnarformann.
    Í þeim félögum sem hafa starfandi stjórnarformann er oft nokkuð skýr verkaskipting á milli stjórnarformanns og framkvæmdastjóra, t.d. þannig að sá síðarnefndi sér um málefni sem lúta að daglegum rekstri en stjórnarformaðurinn sinnir öðrum verkefnum, t.d. stefnumótun, meiri háttar samningum o.s.frv. Álitamál getur verið hvort slík verk falli undir eðlilegt verksvið stjórnarformanns enda hefur félagsstjórnin sem heild nokkurt hlutverk við stefnumótun og þarf að gefa framkvæmdastjóra heimild til ráðstafana sem teljast óvenjulegar eða mikils háttar. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að ná fram sambærilegri verkaskiptingu án starfandi stjórnarformanns með því t.d. að hafa tvo eða fleiri framkvæmdastjóra og skipta með þeim verkum. Með slíku fyrirkomulagi ætti félagsstjórn að vera í eðlilegri stöðu til að hafa eftirlit með framkvæmdastjórn.
    Almennt er ekki talið æskilegt að stjórnarformenn séu í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags enda er eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti félagsstjórnar með félaginu. Það er því hætta á hagsmunaárekstrum ef stjórnarformaður er jafnframt starfsmaður félagsins þar sem hann fer þá í raun með eftirlit með sjálfum sér. Miðar ákvæðið að því að minnka líkur á slíkum hagsmunaárekstrum.
    Efnislega byggist ákvæði þetta á sambærilegu ákvæði í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn) sem liggur fyrir Alþingi. Þar sem það frumvarp hefur ekki hlotið afgreiðslu þykir rétt að halda tillögu þessari inni í frumvarpi þessu.

Um 38. gr.


    Lagðar eru til miklar breytingar á ákvæðum gildandi laga um viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur sem stjórn setur um viðskipti félagsins við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn. Samkvæmt ákvæðinu mun því Fjármálaeftirlitið skilgreina það hverjir teljast vera lykilstarfsmenn fjármálafyrirtækja. Nærtækt gæti verið að skilgreina lykilstarfsmann sem aðila í stjórnunarstarfi sem hefur veruleg áhrif á ákvarðanir um rekstur eða fjárfestingar. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir því að reglurnar nái einnig yfir viðskipti við þá sem eru í nánum tengslum við framkvæmdastjóra. Náin tengsl eru skilgreind í 1. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að stjórn fjármálafyrirtækis setji reglur, sem birtar skulu opinberlega, um viðskipti félagsins við starfsmenn. Er miðað við að viðskipti milli fjármálafyrirtækis og starfsmanna lúti almennt sömu reglum og sambærileg viðskipti við almenna viðskiptamenn. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu, enda komi það fram í reglunum að starfsmenn, sé þeim gert að hafa öll eða megnið af bankaviðskiptum sínum við félagið, njóti þess í einhverju, t.d. með afslætti frá færslugjöldum, svo að dæmi sé tekið.

Um 39. gr.


    Í a-lið er gerð tillaga um nýja grein, 57. gr. a, þar sem kveðið er á um hvernig standa megi að afkomutengdu hvatakerfi í fjármálafyrirtækjum. Ekki síst vegna efnahags- og fjármálakreppunnar hafa slík umbunarkerfi verið mikið í sviðsljósinu bæði hér á landi og erlendis. Þegar hafa verið gefin út tilmæli ESB um slík kerfi og má fastlega reikna með því að ekki líði á löngu þar til fyrir liggja ákveðnar tillögur sambandsins um fyrirkomulag slíkra umbunar- eða hvatakerfa. Af ráðnum hug er því lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um hvatakerfi til þess að ekki þurfi að taka ákvæði laganna til sífelldrar endurskoðunar eftir því sem umræður þróast á alþjóðlegum vettvangi. Reglum Fjármálaeftirlitsins er ætlað að hafa til hliðsjónar tilmæli ESB og aðrar þær reglur um efnið sem samþykktar, eða viðurkenndar, kunna að verða. Helstu atriði tilmæla ESB um starfskjarastefnu í fjármálageiranum eru eftirfarandi:
          Reglurnar gildi fyrir öll fjármálafyrirtæki.
          Aðildarríkin setji reglur sem tryggi að starfskjarastefna fyrir starfsmenn sem taki áhættu (e. risk-taking staff) sé í samræmi við og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun en hvetji ekki til of mikillar áhættutöku.
          Jafnvægi skuli vera milli fastra launa og bónusgreiðslna og greiðslu meginhluta bónusgreiðslna skal frestað þannig að unnt sé að taka tillit til sveiflna í viðskiptalífinu og hagkerfinu sem haft geta áhrif á árangur (e. minimum deferment period). Aðildarríkin ættu að tryggja að starfskjarastefna fjármálastofnana setji hámark á bónusgreiðslur (breytilegir umbunarþættir).
          Mælingar á frammistöðu taki til lengri tíma (e. multi-year framework) svo að tryggt sé að tekið sé tillit til langtímaárangurs og undirliggjandi þátta varðandi áhættu, fjármagnskostnað og aðgang að lánsfé.
          Fjármálafyrirtæki eigi þess kost að halda eftir bónusgreiðslum að öllu leyti eða að hluta þegar mælikvarða um frammistöðu er ekki mætt. Fjármálafyrirtæki ætti einnig að eiga kost á því að halda eftir bónusgreiðslum þegar aðstæður í rekstri versna til muna. Fjármálastofnanir ættu einnig að geta krafist endurgreiðslu á bónusgreiðslum ef í ljós kemur að þær hafi verið byggðar á röngum upplýsingum.
          Greiðslur vegna starfslokasamninga (e. early termination of a contract) skulu tengjast frammistöðu sem hefur náðst á lengri tíma og í þeim má ekki felast umbun fyrir mistök.
          Starfskjarastefna sé uppfærð reglulega til að tryggja að hún mæti breyttri stöðu viðkomandi fjármálafyrirtækis. Einnig ætti hún að vera endurskoðuð af óháðri stjórnunareiningu með tilliti til þess að hún samrýmist verklagsreglum og ferlum sem yfirstjórn hefur sett.
          Starfskjarastefna skuli vera gagnsæ og skýr og innihalda ákvæði til að draga úr hagsmunaárekstrum.
          Stjórn og annað starfslið sem kemur að samningu og eftirfylgni eigi ekki afkomu sína undir starfskjarastefnunni.
          Upplýsa skuli hluthafa um starfskjarastefnuna á skýran og skiljanlegan hátt.
          Eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði eiga að yfirfara og leggja mat á starfskjarastefnu fjármálastofnana til að tryggja að stefnan sé í samræmi við skilvirka áhættustjórnun.
    Í b-lið er gerð tillaga um að við lögin verði bætt nýrri grein, 57. gr. b, þess efnis að hömlur skuli lagðar á það hvernig staðið skuli að starfslokasamningum við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn. Í fyrsta lagi verður óheimilt, verði frumvarp þetta að lögum, að gera starfslokasamning við fráfarandi framkvæmdastjóra nema hagnaður hafi verið af rekstri. Ekki er talið forsvaranlegt að verðlauna framkvæmdastjóra sem ekki hefur tekist að reka fjármálafyrirtæki með hagnaði með digrum sjóðum við lok starfsferils hans. Er talið nægja að viðkomandi haldi umsömdum launagreiðslum út uppsagnarfrest. Þá takmarkar ákvæðið bæði form og tímalengd starfslokasamninga.

Um 40. gr.


    Í gildandi lögum er að finna undanþáguákvæði frá lágmarksstofnfé sparisjóða. Er viðmiðunardagsetning þessarar undanþágu stofnfjár eins og var við gildistöku laga nr. 43/1993.
Engum dylst mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki, jafnt sparisjóðir sem önnur, búi að traustri innri gerð. Á þetta ekki síst við um fjárhagslegan styrk þeirra. Þótt reynslan hafi kennt mönnum að það eitt að standast formlegar kröfur um fjárhagslegan styrk, hvort sem hann er mældur í rauntölum eða sem hlutfall, nægi ekki til að rekstur fjármálafyrirtækis geti gengið áfallalaust verður ekki fram hjá því litið að án fullnægjandi fjárhagslegs styrks eru engar líkur til þess að fyrirtæki eigi framtíð fyrir sér og geti staðið við skuldbindingar sínar.

Um 41. gr.


    Breyting sú sem lögð er til í a-lið felur í sér innleiðingu á 1. mgr. 136. gr. tilskipunar 2006/48/EB um starfsemi lánastofnana. Við innleiðingu á umræddri tilskipun var ákvæðið ekki innleitt með réttum hætti. Úr þessu er bætt nú.
    Samkvæmt b-lið er lögð til sú breyting að draga beri reiknaða skattinneign frá eiginfjárþætti A. Er framangreint gert með hliðsjón af því að þar sem eigið fé er hugsað sem eins konar stuðpúði til að mæta óvæntum áföllum er rökrétt að reiknuð skattinneign eða aðrir sambærilegir eignaliðir, sem verða verðlausir við gjaldþrot, séu ekki taldir með eignum í eiginfjárútreikningi skv. 84. og 85. gr. laganna. Jafnframt bætist nýr málsliður við 5. mgr. 84. gr. laganna þess efnis að ef núvirðing skuldbindinga leiðir til myndunar eigin fjár skuli draga það eigið fé frá eiginfjárþætti A. Um er að ræða innleiðingu á 4. mgr. 64. gr. tilskipunar 2006/48/EB um starfsemi lánastofnana. Við innleiðingu á umræddri tilskipun láðist að innleiða tilvitnað ákvæði. Úr þessu er bætt nú.
    Með ákvæði c-liðar er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að ákveða í reglum að aðrir liðir en þeir sem eru taldir í 5. mgr. 84. gr. laganna dragist frá eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Er nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið hafi þessa heimild til að hægt sé með skjótum hætti að bregðast við því ef í ljós kemur að nauðsynlegt sé að draga fleiri þætti frá eiginfjárgrunni vegna þess að í viðkomandi þáttum felst ekki nægjanlega traust eigið fé með hliðsjón af tilgangi þess. Framangreint er í samræmi við 1. mgr. 61. gr. tilskipunar 2006/48/EB um starfsemi lánastofnana er heimilar frekari frádráttarliði.

Um 42. gr.


    Hér er lagt til að eignarhlutir í öðrum fjármálafyrirtækjum komi að fullu leyti til frádráttar frá eiginfjárgrunni. Er lagt til að undanþága frá þessum frádrætti sem er að finna í 2. málsl. 1. mgr. 85. gr. laganna verði felld brott.
    Með ákvæðinu er leitast við að bregðast við smitáhættu sem upp getur komið ef hlutir fjármálafyrirtækis A í fjármálafyrirtæki B rýrna mjög og hafa óæskileg áhrif á eiginfjárgrunn A. Þótt vissulega megi fullyrða að slíkt verðfall hefði áhrif á A, verði frumvarpið að lögum, hefur það ekki áhrif á stöðu eigin fjár.

Um 43. gr.


    Endurskoðendur hafa ekki farið varhluta af gagnrýni vegna þeirra hremminga sem dunið hafa yfir fjármálakerfi heimsins. Þykir mörgum sem trúverðugleiki þeirra sem sérfræðinga er votta fjárhagslega stöðu, og heilbrigði, fjármálafyrirtækja hafi beðið hnekki.
    Í frumvarpinu er lagt til að ekki verði heimilt að sama endurskoðunarfyrirtæki sjái um endurskoðun fjármálafyrirtækis lengur en fimm ár. Tilgangur ákvæðisins er tvíþættur. Í fyrsta lagi er verið að reyna að sporna við því að endurskoðendur verði um of fjárhagslega háðir einu fyrirtæki og í öðru lagi að sú vissa sem þeir standa frammi fyrir að samkeppnisaðilar geta skoðað verk þeirra að ráðningartíma liðnum muni leiða til vandaðri vinnubragða.

Um 44. gr.


    Sjá athugasemd við 9. gr.

Um 45. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til leiðir af öðrum breytingum í frumvarpinu. Þó er lagt til að lágmark sektarfjárhæða verði hækkað úr 20 þús. kr. í 100 þús. kr. í tilviki einstaklinga og úr 50 þús. kr. í 500 þús. kr. í tilviki lögaðila.

Um 46. gr.


    Sjá athugasemd við 43. gr.

Um 47. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 48. gr.


    Ekki er ástæða til að halda inni ákvæðum til bráðabirgða I–IV þar sem ákvæði þeirra eiga ekki lengur við. Þá er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VI falli ekki úr gildi fyrr en í árslok 2010, sbr. gildistökuákvæði.
    Eðlilegt þykir einnig að gefa aðilum svigrúm til þess að uppfylla hæfisskilyrði.

Um 49. gr.


    Í greininni er kveðið á um að lögin taki þegar gildi, nema b-liður 48. gr., og þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

    Frumvarpi þessu er ætlað að taka á ýmsum ákvæðum núgildandi laga um fjármálafyrirtæki sem talið er að hafi átt sinn þátt í því fjármálaáfalli sem varð hér á landi haustið 2008 og leiddi í framhaldinu til mikilla efnahagslegra erfiðleika á Íslandi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að bæta innlent regluverk á sviði fjármálamarkaðar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar endurtaki sig. Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnbréfum. Í öðru lagi eru þröngar skorður settar við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna. Í þriðja lagi eru settar reglur um hvernig standa má að hvatakerfum, kaupaukakerfum, og starfslokasamningum. Í fjórða lagi eru gerðar auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og bann sett við starfandi stjórnarformönnum. Í fimmta lagi er skerpt á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti auk þess sem eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins eru auknar. Þá eru í sjötta lagi settar reglur um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja auk þess sem aukið er á ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins verði auknar. Hugsanlega mun því eftirlitsverkefnum stofnunarinnar fjölga sem kann að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Ekki liggja þó fyrir áætlanir um aukið umfang vegna slíkra verkefna á þessu stigi. Þar sem rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með eftirlitsgjöldum sem lögð eru á eftirlitsskylda aðila verður þó ekki séð að frumvarpið muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.