Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 383. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 688  —  383. mál.
Tillaga til þingsályktunarum að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Eygló Harðardóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Móesesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson,Vigdís Hauksdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
    Í þessu skyni verði:
     a.      gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,
     b.      litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,
     c.      komið á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum.
    Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
    Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
    Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi er samin með stuðningi frá þingmönnum allra flokka. Fjölmargir virtir sérfræðingar og samtök, bæði innlend og erlend, hafa veitt ráðgjöf við vinnuna að þingsályktunartillögu þessari og hafa heitið áframhaldandi ráðgjöf til handa íslenskum yfirvöldum ef hún nær fram að ganga.

Framtíðarsýn fyrir Ísland.
    „ Tjáningarfrelsi – sér í lagi fjölmiðlafrelsi – tryggir þátttöku almennings í ákvörðunum og framkvæmd ríkisvaldsins, þátttaka almennings er kjarni lýðræðis.“ – Corazon Aquino – þjóðkjörinn forseti Filippseyja (1986–1992).
    Þjóðin stendur nú á krossgötum og breytinga á lagaumhverfinu er þörf. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að uppgjörið gangi ekki aðeins út á að horfast í augu við fortíðina heldur jafnframt að móta skýra framtíðarstefnu fyrir land og þjóð.
    Tillögurnar í greinargerðinni eru til þess fallnar að umbreyta landinu þannig að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Slíkar breytingar mundu treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum. Þá er einnig lagt til að fyrstu alþjóðaverðlaunin sem kennd yrðu við Ísland yrðu að veruleika: Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin.
    Meginþorri heimspressunnar er í þann mund að hasla sér völl á netinu, og þar með er útgáfa ekki lengur háð staðsetningu. Lesandinn verður þess t.d. ekki var ef efni á vefsíðu The Guardian er gefið út í Reykjavík eða New York. Á sama tíma er viðurkennt að vandaðri blaðamennsku er hætta búin.
    Ákvörðunin um hvaðan netútgáfa er rekin er byggð á skilyrðum eins og t.d. fjarlægð og fjarskiptagetu, kostnaði við netþjóna – svo sem kælingu – og lagaumhverfi. Fyrstu tvö skilyrðin eru Íslandi í hag. Öflugir sæstrengir milli sumra stærstu markaðanna fyrir upplýsingaþjónustu og hrein orka og svalt loftslag gera landið að raunhæfum valkosti fyrir þá sem halda úti og reka netþjónustu.
    Mögulegt er að hrinda í framkvæmd heildrænni stefnu til að tryggja lagaumhverfi til verndar málfrelsinu sem er nauðsynlegt fyrir þá sem stunda rannsóknarblaðamennsku eða gefa út efni sem telst mikilvægt í pólitísku samhengi. Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem viðurkennt er að almenningur eigi rétt á. Þótt sum lönd hafi lögfest fyrirmyndir á þessu sviði hefur ekkert ríki enn sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu svo sem sem hér er kynnt. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka afgerandi forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja.
    Dæmi um velheppnuð lög í þessa veru er t.d. nýleg löggjöf frá New York ríki sem hindrar að hinni illræmdu bresku meiðyrðamálaflakkslöggjöf sem skerðir fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi sé beitt þar, belgísk lög frá árinu 2005 sem vernda samskipti blaðamanna við heimildarmenn sína og fjölmiðlafrelsislögin í Svíþjóð sem sett voru með stoð í stjórnarskrá.
    Lagarammi byggður á þessum fyrirmyndum á einstökum sviðum og öðrum verndarákvæðum mundi laða til landsins öflug fjölmiðla- og mannréttindasamtök sem eiga undir högg að sækja í heimalöndum sínum. Bresk útgáfufyrirtæki neyðast t.d. í auknum mæli til þess að fjarlægja greinar og upplýsingar úr gagnagrunnum sínum til að reyna að losna undan síauknum lögsóknum stórfyrirtækja og komast hjá leynilegum tilraunum til þöggunar (e. secret gag orders). Heimspressan mundi hafa tilhneigingu til að vekja athygli á lagarammanum og standa vörð um hann. Til lengri tíma litið mundi það styrkja lýðræði hérlendis. Ekki er langt síðan við fengum smjörþefinn af slíkri tilraun til þöggunar þegar Kaupþing fékk það í gegn í ágúst 2009 að lögbann var sett á fréttaflutning af lánabókum bankans.
    Vegna traustrar fjölmiðlalöggjafar í Svíþjóð hafa margar virtar og mikilvægar fréttaveitur sem og mannréttindasamtök flutt rafrænt aðsetur sitt til landsins. Einnig má nefna að netmiðillinn Malaysia Today flutti starfsemi sína til Bandaríkjanna eftir ofsóknir í heimalandinu. Þar sem lögfræði- og málskostnaður fyrir þátttakendur í upplýsingahagkerfinu hefur farið úr böndunum vegna gallaðrar lagasetningar víða um heim leita sífellt fleiri logandi ljósi að landi sem setur málaferlum gegn útgefendum skýr mörk. Að öðrum kosti er geta þeirra skert til að miðla óhlutdrægum fréttum og upplýsingum.
    Ekki verður metinn til fjár sá óbeini ávinningur sem umbætur á þessu sviði gætu falið í sér, en áhrifunum af því að tvinna óbeint saman áhuga heimspressunnar og hagsmuni þjóðarinnar má líkja við leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs. Sú tillaga sem hér hefur verið reifuð mundi marka Íslandi sérstöðu á alþjóðavettvangi og ávinna okkur velvilja og virðingu meðal þjóða.
    Það er erfitt að ímynda sér magnaðri upprisu lands úr rústum víðtækrar fjármálaspillingar og leyndarhyggju en að bjóða upp á viðskiptalíkan gagnsæis og réttlætis.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hugsjónin.
    Hér á eftir verður farið yfir þá þætti sem meta þarf í þeim tilgangi að skapa öruggt lagaumhverfi til þess að hugsjónin um að gera Ísland að miðstöð tjáningarfrelsis geti orðið að veruleika. Ljóst er að gera þyrfti miklar breytingar á lögum til þess að ná því markmiði. Því er lagt til að málið verði skoðað sem fyrst með aðstoð erlends sérfræðingateymis á þessu sviði, sambærilegu því sem var til ráðgjafar við undirbúning þessarar þingsályktunartillögu.

Heimildarvernd.
    Núverandi vernd fyrir heimildarmenn blaða- og fréttamanna felst í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Frumvarp að heildarlögum um fjölmiðla sem nú er í vinnslu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur að geyma nýtt ákvæði um vernd heimildarmanna. Þar segir að fjölmiðlamönnum sé óheimilt að gefa upp heimildarmenn sína nema með samþykki þeirra eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Flutningsmenn telja þetta ákvæði fela í sér óþarflega víðtæka undantekningu á svo mikilvægri reglu sem vernd heimildarmanna er og telja að það geti stangast á við þriðju forsendu í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins (R (2000)7) sem fjallar um rétt fjölmiðlamanna til að halda heimildum sínum og heimildarmönnum leyndum. Í ljósi þess að frumvarpsdrögin eru m.a. byggð á áðurnefndum tilmælum telja flutningsmenn æskilegt að styrkja heimildavernd talsvert umfram það sem fram kemur í þeim.

Vernd afhjúpenda.
    Tölfræðilegar upplýsingar benda til að afhjúpendur (e. whistleblowers) hafi komið upp um mörg spillingarmál, bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Ýta ætti undir slíkar afhjúpanir og telja flutningsmenn rétt að íhuga hvort mögulegt sé að setja sértækar reglur sem auka hvatann til þess að afhjúpa óeðlilega starfshætti. Í því skyni kæmi m.a. til greina að veita órjúfanlegan rétt til að afhenda þingmönnum upplýsingar.
    Í Bandaríkjunum eru nú í gildi lög sem vernda þá sem tilkynna um fjársvik gegn ríkissjóði og veita þeim aukinn hvata (sjá 31 U.S.C. §§3729-3733, Federal False Claims Act). Samkvæmt ríkisendurskoðun Bandaríkjanna endurheimti ríkið 9,6 milljarða bandaríkjadala samkvæmt þessari löggjöf árið 2006. Meðal ráðstafana sem felast í henni eru starfs- og launatrygging fyrir afhjúpendur, ásamt 15–30% hlutdeild í endurheimtri fjárhæð.
    Skoða ætti hvort gera eigi breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, varðandi þagnarskyldu til að almannahagsmunir varðandi upplýsingafrelsi séu sem best tryggðir. Sama gildir um ákvæði í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, varðandi sveitarstjórnarmenn. Tillögur þessa efnis hafa þrisvar verið lagðar fyrir Alþingi, á þskj. 41 á 130. löggjafarþingi, þskj. 994 á 132. löggjafarþingi og þskj. 330 á 133. löggjafarþingi. Einnig var þar lagt til að breyta 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að refsilaust yrði að greina frá leynilegum upplýsingum í þágu almannaheilla.
    
Samskiptavernd og vernd milliliða.
    Frá árinu 2005 hefur löggjöf í Belgíu miðað að því að vernda öll samskipti heimildarmanna og fjölmiðla, og eru báðir hóparnir vítt skilgreindir. Slík vernd hefur þó takmörkuð áhrif ef þriðji aðili geymir sjálfkrafa skýrslur um samskipti þeirra á milli.
    Gildandi íslensk lög um fjarskipti, nr. 81/2003, gilda um fjarskiptafyrirtæki og samkvæmt þeim er krafist varðveislu fjarskiptagagna í sex mánuði í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis. Enn fremur er tekið fram að fjarskiptafyrirtæki sé aðeins heimilt að veita lögreglu eða ákæruvaldi aðgang að viðkomandi upplýsingum.
    Fjarskiptalöggjöfin er m.a. byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og verndun einkalífs í fjarskiptum, með síðari breytingum. Áætluð er endurskoðun tilskipunarinnar haustið 2010 og búist við að þýski stjórnarskrárdómstóllinn dæmi um það hvort núverandi ákvæði hennar stangist á við mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi þessarar þróunar telja flutningsmenn tillögunnar að nauðsynlegt kunni að vera að endurskoða íslensku lögin.
    Annan þátt samskiptaverndar í íslenskum lögum er að finna í V. kafla laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þar er takmörkuð ábyrgð milligönguaðila á borð við netveitur og hýsingaraðila. Undantekningar á þessari takmörkun eru fáar og flestar vel skilgreindar í lögunum, en almenn undantekning vegna lögbanns í 14. gr. án nánari skilgreiningar veldur flutningsmönnum áhyggjum. Þetta atriði yrði helst bætt með því að skýra betur undir hvaða kringumstæðum lögin leiða til undantekinga á ábyrgð milligönguaðila í fjarskiptum.

Lögbann á útgáfu fyrirbyggt.
    Hömlur á tjáningarfrelsi er sérhver lagaleg aðgerð sem hægt er að nota til að hindra að efni sé gefið út áður en til útgáfu kemur. Slíkar hindranir hafa afar slæm áhrif á tjáningarfrelsi. Í flestum lýðræðisríkjum eru sterk og jafnvel algild takmörk á þeim. Kanna þarf hvernig tryggja megi að lög verði ekki misnotuð í tilraunum til þöggunar sem takmarka og tálma tjáningarfrelsið sem tryggt er í stjórnarskránni.

Réttarfarsvernd.
    Jafnt aðgengi að dómstólum og réttlát málsmeðferð er mikilvægur þáttur lýðræðis. Í ýmsum löndum þar sem lagavernd er sterk er aðgangur að dómstólum erfiður því að þótt lögin veiti vernd getur t.d. verið fjárhagslega erfitt fyrir útgefendur, fjölmiðla og almenning allan að leita til dómstóla. Jafnvel þegar útgefandi hefur fjárhagslegt bolmagn til þess að verjast fyrir dómstólum getur það verið andstætt hagsmunum hans ef litlar líkur eru á að kostnaðurinn vegna málsins náist til baka. Dæmi um þetta er mál Time Magazine í Bandaríkjunum þar sem blaðið var kært fyrir að birta forsíðugrein um vísindakirkjuna (Church of Scientology). Time Magazine vann málið að lokum en þurfti að eyða um milljarði dala til að sækja rétt sinn, allt upp í hæstarétt Bandaríkjanna (sjá: United States Supreme Court, Docket for 00-1683 (2001)). Útilokað hefði verið fyrir minni útgefanda að takast á við slíkt mál, og jafnvel Time Magazine mundi ekki ráða við mörg slík. Þetta hefur svokölluð kælingaráhrif á rannsóknarblaðamennsku.
    Það ætti alltaf að borga sig fyrir lítinn útgefanda að verja sig gegn vel fjármögnuðum kæranda sem ætlar sér að leyna upplýsingum, og almennt ættu smærri aðilar að geta varið sig gegn hinum stærri. Ein leið til að ná þessu marki væru ákvæði í anda löggjafar í Kaliforníu (svokallaðrar Strategic Lawsuits Against Public Participation, eða „anti-SLAPP“-löggjafar) sem mælir fyrir um möguleika almennings á gagnsókn við málaferlum. Í krafti slíkra laga getur sakborningur farið fram á að litið verði svo á að mál hans snúist um tjáningarfrelsið. Ef fallist er á það taka ýmis verndarákvæði í þágu sakbornings gildi á meðan málaferlum stendur. Ef dæmt er sakborningi í hag er tryggt að allur málskostnaður fellur á þann sem kærði.

Vernd gagnagrunna og -safna.
    Þann 9. mars 2009 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg dóm í máli Times í London sem valdið hefur óvissu fyrir útgefendur. Dómstóllinn úrskurðaði, hvað meiðyrðalöggjöf varðaði, að efni útgefið á netinu skuli teljast útgefið í hvert sinn sem lesandi skoðar það. Jafnframt taldi dómstóllinn að meiðyrðamál sem eru höfðuð talsvert löngu eftir birtingu mættu hefta tjáningarfrelsi fjölmiðla, nema við mjög sérstakar kringumstæður. Dómstóllinn taldi það undir aðildarríkjunum komið innan hvaða tímamarka þyrfti að leggja fram kæru í tengslum við meiðyrði í greinasöfnum.
    Sú túlkun að rafræn gagnasöfn séu gefin út í hvert sinn sem þau eru skoðuð hefur ítrekað verið misnotuð til að fjarlægja greinar úr rafrænum greinasöfnum dagblaða. Sem dæmi má nefna að breska dagblaðið Guardian fjarlægði ítrekað greinar úr safni sínu árið 2009 til að komast hjá málsóknarkostnaði. Greinarnar voru upphaflega birtar árið 2003 í tengslum við dóm yfir milljarðamæringi sem flæktur var í Elf-Aquitaine-málið svokallaða.
    Til að vernda útgefendur mælast flutningsmenn til þess að stefnur á hendur útgefendum verka þurfi, að franskri fyrirmynd, að birta innan tveggja mánaða frá upphaflegri útgáfu verks og að hámark skaðabóta nemi jafngildi tíu þúsund evra.

Vernd gegn meiðyrðamálaflakki.
    Misnotkun á breskri meiðyrðalöggjöf hefur mikið verið rædd á undanförnum árum og nýlega voru samþykkt lög í New York ríki í Bandaríkjunum sem kalla má lög gegn meiðyrðahryðjuverkum (e. New York Libel Terrorism Protection Act). Sams konar lög tóku gildi í Flórída-ríki 1. júlí 2009 (e. Act relating to grounds for nonrecognition of foreign defamation judgments). Á alríkisgrundvelli hefur verið lagt fram frumvarp til sambærilegra laga. Áðurnefnd lög gegn meiðyrðamálaflakki mæla fyrir um að ekki skuli fullnusta dómsúrskurði sem ganga gegn ákvæðum bandarísku stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og gera gagnsókn jafnframt mögulega.
    Í XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er fjallað um meiðyrði. Vandamál hafa komið upp hér á landi þegar dómstólar í öðrum löndum hafa haldið því fram að þeir hafi lögsögu yfir verkum, greinum eða ummælum sem hafa verið birt eða látin falla á Íslandi. Meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í Bretlandi fékk á sínum tíma mikla umfjöllun, m.a. með tilliti til fullnustu dómsins, lögsögu dómstóla og hinnar ströngu meiðyrðalöggjafar í Bretlandi.
    Flutningsmenn þessarar tillögu vilja lögfesta ákvæði sambærileg þeim sem nýlega voru sett í New York ríki. Í því tilliti þarf að skoða reglur Lúganó-samningsins um fullnustu dóma í einkamálum í Evrópu. Jafnframt telja þeir rétt að lögfesta ákvæði sem mundi gera íslenskum aðilum sem hlotið hafa dóm erlendis kleift að höfða mál hérlendis gegn sækjanda erlenda dómsmálsins í þeim tilfellum sem dómurinn og fullnusta hans telst ganga gegn allsherjarreglu eða almennum lagaákvæðum. Slík ákvæði mundu einnig gera íslenskum aðilum kleift að sækja bætur til upphaflega gagnaðilans.

Upplýsingafrelsi.
    Upplýsingalögum, nr. 50/1996, hefur verið breytt sex sinnum síðan þau tóku gildi, en fyrirmyndir þeirra voru fyrst og fremst dönsk og norsk upplýsingalöggjöf.
    Flutningsmenn telja núgildandi upplýsingalög ekki samræmast reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1049/2001 um aðgang almennings að skjölum Evrópuþingsins, -ráðsins og framkvæmdarstjórnarinnar. Einnig telja þeir að upplýsingalögin mæti ekki þeim almennu gæðaviðmiðum sem eru sett fram í Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þingsályktunartillaga þessi skapar tækifæri til að stórbæta gagnsæi með nútímalegri, betri og alþjóðlega viðurkenndri upplýsingalöggjöf.
    Flutningsmenn telja að endurbætur á upplýsingalögum ætti eingöngu að gera eftir rækilega skoðun á ráðleggingum Evrópuþingsins og ráðsins og nútímalegum þáttum upplýsingalaga í Eistlandi, Skotlandi, Bretlandi og Noregi. Viðmiðin í Árósasamningnum sem lúta að hraðri málsmeðferð og kæruheimildum ættu að vera viðmið í hvers kyns upplýsingalöggjöf.
    Flutningsmenn telja að strangar takmarkanir ættu að vera á möguleikum fyrirtækja til að hindra birtingu skjala með upplýsingum um þau.
    Engin miðlæg skrá er til yfir skjöl í vörslu ríkisstofnana og ekki eru til staðlaðar beiðnir um upplýsingar frá ríkisstofnunum. Flutningsmenn telja að auka mætti gagnsæi með því að halda miðlæga skrá yfir öll gögn í vörslu ríkisstofnana, svo sem málaskrár og aðrar skrár yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir, og veita aðgang að henni á netinu. Tillaga þessa efnis hefur verið lögð fram á þessu löggjafarþingi, sjá þskj. 188, 169. mál. Mögulegt á að vera að óska eftir aðgengi að upplýsingum um tiltekið efni og því er nauðsynlegt að fyrirspyrjandi hafi aðgang að miðlægri skrá svo að hann geti vitað af tilvist skjals fyrir fram.
    Einnig þyrfti að hafa í huga að tryggja að upplýsingalög gildi bæði um hefðbundin skjöl á pappír og rafræn gögn. Jafnframt mætti íhuga að innleiða fyrirkomulag, sem er viðhaft víða erlendis, þar sem sérstakur aðili fylgist með framkvæmd upplýsingalaga og hefur heimild til að úrskurða um aðgang að gögnum. Viðkomandi aðili gæti jafnframt haft eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt að í miðlægri skrá á netinu yrðu tæmandi talin gögn í vörslu opinberra aðila og einkaaðila, að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald, og þannig væri tryggður réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins á þessu málasviði, í ljósi jafnræðis og vandaðra stjórnsýsluhátta og í samræmi við lög. Búast má við að slíkt fyrirkomulag minnkaði álag á dómskerfið þar sem líklega yrði fáum fyrirspurnum beint til dómstóla eftir úrskurð viðkomandi aðila.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja að ávallt verði að taka tillit til almannahags við ákvörðun um aðgang að gögnum. Almennt ættu allar takmarkanir á upplýsingum sem varða opinbera aðila að ganga sem skemmst. Þannig ættu upplýsingar sem verða til í starfi viðkomandi alla jafna að vera aðgengilegar. Til greina kæmi kerfi þar sem beiting undanþágu til að hindra birtingu skjala væri tilkynnt jafnóðum og öll slík skjöl yrðu sjálfkrafa birt þegar undanþágan rynni út.
    Flutningsmenn telja því að almennt eigi að gera öll skjöl aðgengileg öllum á netinu. Slík meginregla um fullan aðgang nema sérstakar vel afmarkaðar aðstæður mundi auka gagnsæi verulega.

Rafrænt aðsetur á Íslandi.
         Flutningsmenn telja rétt að kannað verði vandlega hvernig því verði við komið að alþjóðlegir fjölmiðlar og samtök geti flutt rafrænt aðsetur sitt hingað til lands. Fyrirmyndina að því er að finna í Vermont-ríki í Bandaríkjunum, þar sem í gildi eru lög um stofnun og rekstur sýndarfyrirtækja (e. Virtual Limited Liability Company). Áður en slíku lagaumhverfi yrði komið á þyrfti m.a. að skoða þær reglur sem gilda hér um starfsemi fjölmiðla á netinu, með hliðsjón af alþjóða- eða fjölþjóðasamningum, svo sem EES-samningnum. Jafnframt þarf að huga að ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 30/1995, laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og að ákvæðum í væntanlegu frumvarpi um fjölmiðla sem varða lögsögu yfir fjölmiðlaþjónustuveitendum sem miðla myndefni og nota til þess íslenska jarðstöð eða gervitungl sem tilheyrir Íslandi.
    Að loknum nauðsynlegum lagabreytingum gætu fjölmiðlar og samtök tekið ákvörðun um að flytja hingað til lands rafrænt aðsetur með rafræna útgáfu í huga enda er hún ekki háð staðsetningu að öðru leyti. Þar með gætu þessir aðilar fallið undir þá vernd sem með tillögunni er lagt til að eigi við um aðila sem hafa aðsetur hér á landi.

Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin.
    Flutningsmenn leggja til að stofnað verði til fyrstu alþjóðlegu verðlaunanna sem kennd yrðu við Ísland, íslensku tjáningarfrelsisverðlaunanna (The Icelandic Freedom of Expression Awards). Þau yrðu veitt þeim aðila eða aðilum sem talið er að hafi hvað best stuðlað að vernd tjáningarfrelsisins á ári hverju. Í þeim hópi gætu hæglega verið blaðamenn, afhjúpendur, mannréttindafrömuðir og útgefendur.


Fylgiskjal.


Lög o.fl. sem geta orðið fyrirmynd við úrvinnslu málsins hér á landi.


Bandaríkin.
          Lög um upplýsingafrelsi (e.US Freedom of Information Act).
          www.justice.gov/oip/foia_updates/Vol_XVII_4/page2.htm
          Lög um meiðyrðahryðjuverk, gilda í New York ríki (e. New York Libel Terrorism Act).
          www.casp.net/statutes/ny-stat(2009).pdf
          Frumvarp um meiðyrðamálaflakk, lagt fram í Flórída-ríki.
          www.flsenate.gov/data/session/2009/Senate/bills/billtext/pdf/s1066.pdf
          Frumvarp til alríkislöggjafar um meiðyrðamálaflakk (e. Free Speech Protection Act of 2009), lagt fram í fulltrúadeild Bandaríkjaþings 4. mars 2009.
         frwebgate.access.gpo.gov/cgi-bin/getdoc.cgi?dbname=111_cong_bills&docid =f:h1304ih.txt.pdf
          Lög um meðferð einkamála, gilda í Kaliforníu-ríki (e. California Code of Civil Procedure § 425.16) sem mæla m.a. fyrir um möguleika almennings á gagnsókn í málaferlum (e. Strategic Lawsuits Against Public Participation, „anti-SLAPP“).
         www.leginfo.ca.gov/cgi-bin/displaycode?section=ccp&group=00001-01000&fi le=425.10-425.18
          Lög um samskiptavelsæmi (e. US Communications Decency Act).
         www4.law.cornell.edu/uscode/47/230.html
          Lög um rangar sakir, sem veita þeim sem tilkynna um fjársvik gagnvart ríkisstjórninni vernd og hvatningu (e. 31 U.S.C. §§3729–3733, Federal False Claims Act).
         www.law.cornell.edu/uscode/31/usc_sec_31_00003729----000-.html
          Lög um stofnun og rekstur sýndarfyrirtækja, gilda í Vermont-ríki (e. Virtual Limited Liability Company).
          vermontvirtual.org/Main_Page

Evrópusamstarf.
          Árósasamningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Birtist í íslenskri þýðingu í fskj. I við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu hans frá árinu 2001, sjá þskj. 1032 á 126. löggjafarþingi.
          www.althingi.is/altext/126/s/1032.html
          Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1049/2001 um almennan aðgang að skjölum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar.
          www.europarl.europa.eu/RegData/PDF/r1049_en.pdf
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EC um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“).
          brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/A8FD6939C793 930800256ACE00478A0D/$file/300L0031.pdf
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og verndun einkalífs í fjarskiptum.
         brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/655CCB08B9E8 FB5F00256EC1004A50BC/$file/302L0058.pdf
          Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins (R (2000)7) sem fjalla um rétt fjölmiðlamanna til að halda heimildum sínum og heimildarmönnum leyndum.
         www.coe.int/t/dghl/standardsetting/media/doc/cm/rec(2000)007&expmem_EN.asp
          Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg frá 9. mars 2009 í máli Times Newspapers Ltd (Nos. 1 and 2) gegn Bretlandi.
          cmiskp.echr.coe.int/tkp197/view.asp?action=html&documentId=848220&port al=hbkm&source=externalbydocnumber&table=F69A27FD8FB86142BF01C1166D EA398649
          Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg frá 15. febrúar 2005 í máli Steel and Morris gegn Bretlandi.
          cmiskp.echr.coe.int/tkp197/view.asp?action=html&documentId=717965&port al=hbkm&source=externalbydocnumber&table=F69A27FD8FB86142BF01C1166D EA398649

Belgía.
          Lög um vernd heimilda.
         www.psw.ugent.be/Cms_global/uploads/publicaties/dv/05recente_publicaties/B elgium.Lawsources.version2008.pdf (óopinber þýðing)

Bretland.
          Upplýsingalög Bretlands.
         www.opsi.gov.uk/acts/acts2000/pdf/ukpga_20000036_en.pdf

Eistland.
          Upplýsingalög Eistlands.
         www.legaltext.ee/en/andmebaas/tekst.asp?loc=text&dok=X40095K4&keel=en &pg=1&ptyyp=RT&tyyp=X&query=information

Georgía.
          Stjórnarskrá Georgíu.
         www.parliament.ge/files/68_1944_951190_CONSTIT_27_12.06.pdf

Ísland.
          Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðla og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Þskj. 330 á 133. löggjafarþingi, einnig flutt á 130. og 132. löggjafarþingi.
          www.althingi.is/altext/133/s/0330.html
         
Tillaga til þingsályktunar um opin gögn. Þskj.188 á 138. löggjafarþingi.
         www.althingi.is/altext/138/s/0188.html

Noregur.

          Upplýsingalög Noregs.
         www.regjeringen.no/en/dep/jd/Documents-and-publications/Laws-and-rules/re glement/2005/The-Freedom-of-Information-Act.html?id=107581#
Skotland.
          Upplýsingalög Skotlands.
          www.opsi.gov.uk/legislation/scotland/acts2002/pdf/asp_20020013_en.pdf

Svíþjóð.
          Lög nr. 562/2002, um rafræn viðskipti og upplýsingasamfélagið (s. Lag om elektronisk handel och andra informationssamhällets tjänster).
         www.notisum.se/RNP/sls/lag/20020562.htm
          Lög nr. 844/1996, um útvarp og sjónvarp (s. Radio- och TV-lag)
         www.notisum.se/Pub/Doc.aspx?url=/rnp/sls/lag/19960844.htm
Lög nr. 389/2003, um rafræn samskipti (s. Lag om elektronisk kommunikation).
         www.notisum.se/Pub/Doc.aspx?url=/rnp/sls/lag/20030389.htm
          Lög nr. 41/1989, um fjármögnun útvarps og sjónvarps í almannaþágu (s. Lag om finansiering av radio och TV i allmänhetens tjänst).
         www.notisum.se/Pub/Doc.aspx?url=/rnp/sls/lag/19890041.htm
          Lög nr. 121/2000, um útvarps- og fjarskiptaendabúnað (s. Lag om radio- och teleterminalutrustning).
         www.notisum.se/Pub/Doc.aspx?url=/rnp/sls/lag/20000121.htm
          Lög nr. 1559/1991, með reglugerðum um prentfrelsi og tjáningarfrelsi (s. Lag med föreskrifter på tryckfrihetsförordningens och yttrandefrihetsgrundlagens områden).
          www.notisum.se/Pub/Doc.aspx?url=/rnp/sls/lag/19911559.htm