Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.

Þskj. 707  —  398. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007, frá 26. október 2007, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    
Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.
    Innan Evrópu hafa gilt mismunandi ráðstafanir varðandi rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma sem æskilegt þótti að samræma í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið. Að auki þótti rétt að gera ráðstafanir til að samræma kröfur varðandi innihald þungmálma og merkingar þessara vara til að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins og koma í veg fyrir að samkeppni raskist innan svæðisins. Af þessum sökum þótti tilefni til setningar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB, en í henni er að finna ákvæði sem setja fram reglur og viðmið sem ætlað er að ná þessum markmiðum.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Efni gerðarinnar.
    Meginmarkmið tilskipunar 2006/66/EB er að draga úr neikvæðum áhrifum rafhlaðna og rafgeyma og notaðra rafgeyma og rafhlaðna á umhverfið og stuðla þannig að því að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins. Í henni er kveðið á um markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma. Settar eru fram reglur um bann við markaðssetningu þeirra þegar umræddar vörur innihalda ákveðin hættuleg efni. Einnig eru settar fram sérstakar reglur um söfnun, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til að bæta viðeigandi löggjöf um úrgang og stuðla að söfnun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.
    Undir tilskipunina falla allar gerðir rafhlaðna og rafgeyma, einnig þær sem tilskipanir 2000/53/EB (úr sér gengin ökutæki) og 2002/96/EB (raftækjaúrgangur) ná yfir.
    Á grundvelli tilskipunarinnar er lagt bann við því að markaðssetja rafhlöður eða rafgeyma sem innihalda meira en 0,0005% kvikasilfur. Litlar færanlegar rafhlöður eða rafgeymar sem ekki eru notuð í iðnaði eða bílum mega ekki innihalda meira kadmíum en sem nemur 0,002% af þyngd. Í ákveðnum tilvikum er þó heimilt að víkja frá þessum reglum.
    Aðildarríki skulu hvetja til flokkunar og söfnunar á notuðum rafhlöðum og rafgeymum. Söfnunarstaðir fyrir færanlegar rafhlöður og rafgeyma skulu vera til staðar þannig að almenningur geti, sér að kostnaðarlausu, fargað þeim á þægilegan hátt. Dreifingaraðilum færanlegra rafhlaðna og rafgeyma skal gert að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum, um leið og ný(r) rafhlaða/rafgeymir er afhent(ur) nema önnur söfnunarkerfi séu til staðar sem nái markmiðum tilskipunarinnar. Til að koma fyrirkomulagi söfnunar í framkvæmd er aðildarríki heimilt að krefjast þess að framleiðendur setji upp slík kerfi, að krefjast þess að aðrir rekstraraðilar taki þátt í slíkum kerfum eða að viðhalda núverandi kerfi.
    Framleiðendum eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd er óheimilt að neita að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum frá notendum. Óháðum þriðju aðilum er einnig heimilt að taka við iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum. Söfnun á notuðum rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki skal fara fram á grundvelli reglna um úrvinnslu ökutækja.
    Aðildarríkjum er heimilt að nota fjárhagsleg stjórntæki til að stuðla að því að notuðum rafhlöðum og rafgeymum sé safnað og hvetja til notkunar á minna mengandi rafhlöðum eða rafgeymum.
    Aðildarríki skulu reikna út söfnunarhlutfall færanlegra notaðra rafhlaðna og rafgeyma í fyrsta sinn fyrir fimmta heila almanaksárið eftir gildistöku tilskipunarinnar. Frá og með 26. september 2012 skal lágmarkssöfnunarhlutfall, miðað við sölutölur síðustu þriggja ára, vera 25% en hækka í 45% frá og með 26. september 2016. Aðildarríki skulu fylgjast með að söfnunarhlutfalli sé náð og útreikningar á því skulu fara fram í samræmi við kerfi sem sett er fram í I. viðauka við tilskipunina. Skýrslum um söfnunarhlutfall skal skila til framkvæmdastjórnarinnar árlega eftir að útreikningar hefjast.
    Framleiðendum skal gert að hanna tæki þannig að auðvelt sé að fjarlægja úr þeim notaðar rafhlöður og rafgeyma og að þeim fylgi leiðbeiningar um hvernig best sé að fjarlægja rafhlöðurnar og rafgeymana á öruggan hátt. Eigi síðar en 26. september 2009 skulu framleiðendur eða þriðju aðilar setja upp kerfi þar sem besta fáanlega tækni er notuð við meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Skilyrði um lágmarksmeðhöndlun eru listuð í A-hluta III. viðauka við tilskipunina. Ef rekin eru sameiginleg söfnunarkerfi fyrir notaðar rafhlöður, rafgeyma og raf- og rafeindabúnaðarúrgang skal fjarlægja rafhlöður eða rafgeyma úr raf- og rafeindabúnaðarúrganginum. Að auki skal banna að notuðum rafhlöðum og rafgeymum fyrir iðnað eða vélknúin ökutæki verði fargað á urðunarstöðvum eða með brennslu.
    Heimilt verður að flytja notaðar rafhlöður og rafgeyma úr landi til meðhöndlunar og endurvinnslu að því tilskildu að slíkt samræmist reglum um meðhöndlun og flutning úrgangs milli landa og ákvæðum tilskipunarinnar.
    Gert er ráð fyrir því að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd standi straum af þeim kostnaði sem felst í söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma, iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem og rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki.
    Ríki skulu halda skrá yfir framleiðendur, en nánari útfærsla á skráningu verður unnin af nefnd á vegum framkvæmdastjórnarinnar skv. 24. gr. tilskipunarinnar. Sérákvæði munu gilda fyrir litla framleiðendur.
    Aðildarríki skal sjá til þess að almenningur sé ítarlega upplýstur um hættuleg efni í rafhlöðum og rafgeymum. Að auki skal veita almenningi upplýsingar og leiðbeiningar um ávinning flokkunar, söfnunar og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.
    Tryggja skal að allar rafhlöður og rafgeymar séu merkt á viðeigandi hátt með tákni sem sýnt er í II. viðauka við tilskipunina, sbr. núverandi merkingarreglur.
    Aðildarríki skulu, á þriggja ára fresti, senda skýrslu um framkvæmd tilskipunarinnar til framkvæmdastjórnarinnar og skal fyrsta skýrslan ná yfir tímabilið til 26. september 2012.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði innleidd með breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, en í þeim er kveðið á um meðhöndlun, endurnotkun og endurnýtingu úrgangs. Að auki eru ráðgerðar reglugerðarbreytingar til nánari útfærslu einstakra ákvæða.
    Lagafrumvarp til breytinga á framangreindum lögunum verður lagt fram af umhverfisráðherra á komandi vorþingi. Verði frumvarpið að lögum munu framangreind lög innihalda ákvæði um framleiðendaábyrgð, þ.e. um skyldu framleiðenda til að fjármagna söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma, greiðslu úrvinnslugjalds af rafhlöðum, um uppsetningu framleiðenda á sérstökum söfnunarstöðum sem eingöngu taka við færanlegum rafhlöðum og rafgeymum án þess þó að sérstakra starfsleyfa sé þörf. Að auki munu þau kveða á um að framleiðendum eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd verði gert skylt að taka við notuðum rafgeymum og rafhlöðum frá iðnaði og úr vélknúnum ökutækjum auk þess sem dreifingaraðilum verði gert skylt að taka við þeim þegar ný rafhlaða eða rafgeymir er afhent(ur). Einnig munu bætast við þau ákvæði sem fela í sér reglur um skráningu á framleiðendum rafhlaðna og rafgeyma.
    Auk framangreindra lagabreytinga leiðir af tilskipuninni að setja þarf nýja reglugerð um rafhlöður og rafgeyma í stað núgildandi reglugerðar um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum, nr. 946/1999, sem sett er með stoð í lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Að auki þarf að gera breytingar á reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, og reglugerð um urðun úrgangs, nr. 738/2003, sem settar eru með stoð í lögum nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003. Það þarf að gera í þeim tilgangi að setja strangari kröfur um hámarksinnihald þungmálma í öllum rafhlöðum og rafgeymum. Í þeim þarf einnig að kveða á um flokkun og söfnun notaðra rafhlaðna og rafgeyma, notkun hagrænna hvata við söfnun, skráningu framleiðenda og aukna upplýsingagjöf til almennings. Einnig þarf að kveða á um hvernig tilhögun færanlegra notaðra rafhlaðna og rafgeyma skuli háttað þannig að söfnunarmarkmið náist auk þess sem kveða þarf á um að framleiðendum verði gert að fjármagna söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma og fjarlægingu þeirra úr raftækjum og hlutum fyrir meðhöndlun. Í reglugerð þarf einnig að setja ákvæði um leiðbeiningar sem skulu fylgja með raftækjum sem í eru rafhlöður og rafgeymar auk leiðbeininga um það hvernig best sé að fjarlægja þau úr tækjunum. Að auki þarf að tilgreina bann við förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma úr iðnaði og vélknúnum ökutækjum. Ef stuðst verður við núverandi kerfi þarf einnig að breyta reglugerð nr. 1124/2005, um úrvinnslugjald, sem sett var með stoð í lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.
    Áhrifa innleiðingar tilskipunarinnar mun fyrst og fremst gæta hjá framleiðendum eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd vegna kostnaðar við söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Að auki mun áhrifa gæta hjá Umhverfisstofnun hvað varðar skráningu framleiðenda og leiðbeiningar og upplýsingagjöf til almennings þannig að markmið tilskipunarinnar náist auk þeirrar vinnu sem felst í skýrslugjöf til framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd og útreikning á söfnunarhlutfalli.

Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 141/2007

frá 26. október 2007

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         II. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 109/2007 frá 28. september 2007 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006 um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE ( 2 ), ásamt leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 311, 10.11.2006, bls. 58.

3)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2006/66/EB fellur úr gildi, frá 26. september 2008 að telja, tilskipun ráðsins 91/157/EBE ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samning-inn og ber því að fella hana úr samningnum frá 26. september 2008 að telja.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XV. kafli II. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 12w (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 850/2004):

        „12x.     32006 L 0066: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006 um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE (Stjtíð. ESB L 266, 26.9.2006, bls. 1), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 311, 10.11.2006, bls. 58.“

2.         Brott falli, frá 26. september 2008 að telja, texti 11. liðar (tilskipun ráðsins 91/157/EBE).

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2006/66/EB, með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 311, 10.11.2006, bls. 58, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 27. október 2007 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/66/EB
frá 6. september 2006
um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr og 1. mgr. 95. gr. að því er varðar 4., 6. og 21. gr. þessarar tilskipunar,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 22. júní 2006,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Æskilegt er að samræma landsbundnar ráðstafanir varðandi rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma. Helsta markmið þessarar tilskipunar er að draga úr neikvæðum áhrifum rafhlaðna og rafgeyma og notaðra rafgeyma og rafhlaðna á umhverfið og stuðla þannig að því að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins. Ákvæði 1. mgr. 175. gr. sáttmálans er því lagagrundvöllur hennar. Einnig þykir rétt að gera ráðstafanir á vettvangi Bandalagsins á grundvelli 1. mgr. 95. gr. sáttmálans til að samræma kröfur varðandi innihald þungmálma og merkingar rafhlaðna og rafgeyma og tryggja þannig snurðulausa starfsemi innri markaðarins og koma í veg fyrir að samkeppni raskist innan Bandalagsins.
2)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 30. júlí 1996 um endurskoðun á áætlun Bandalagsins varðandi meðhöndlun úrgangs eru settar viðmiðunarreglur um framtíðarstefnu Bandalagsins meðhöndlun úrgangs. Í orðsendingunni er lögð áhersla á nauðsyn þess að draga úr magni hættulegra efna í úrgangi og bent á hugsanlegan ávinning þess að koma á reglum sem gilda alls staðar í Bandalaginu og miða að því að halda í lágmarki innihaldi slíkra efna í framleiðsluvörum og framleiðsluferlinu. Einnig kemur fram að þegar ekki er hægt að komast hjá því að úrgangur myndist skuli endurvinna úrganginn eða endurnýta efnivið hans eða orku.
3)          Í ályktun ráðsins frá 25. janúar 1988 um aðgerðaráætlun Bandalagsins gegn umhverfismengun af völdum kadmíums ( 5 ) er lögð áhersla á að takmarka notkun kadmíums við tilvik þar sem aðrir hentugir og öruggir kostir eru ekki í boði og söfnun og endurvinnsla rafhlaðna, sem innihalda kadmíum, er mikilvægur þáttur í aðgerðum gegn kadmíummengun í þágu heilsu- og umhverfisverndar.
4)          Tilskipun ráðsins 91/157/EBE frá 18. mars 1991 um rafhlöður og rafgeyma sem innihalda tiltekin, hættuleg efni ( 6 ) hefur leitt til samræmingar á lögum aðildarríkjanna á þessu sviði. Markmiðin með þeirri tilskipun hafa þó ekki náðst til fulls. Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB frá 22. júlí 2002 um sjöttu aðgerðaráætlun Bandalagsins ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/ EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang ( 2 ) er einnig lögð áhersla á nauðsyn þess að endurskoða tilskipun 91/157/ EBE. Til glöggvunar ber því að endurskoða og skipta út tilskipun 91/157/EBE.
5)          Til að umhverfismarkmið þessarar tilskipunar náist er bannað að setja á markað tilteknar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda kvikasilfur eða kadmíum. Í tilskipuninni er jafnframt hvatt til mikillar söfnunar og endurvinnslu rafhlaðna og rafgeyma og aukinnar umhverfisvitundar allra rekstraraðila sem koma að málum á endingartíma rafhlaðna og rafgeyma, t.d. framleiðenda, dreifingaraðila og notenda og einkum þeirra rekstraraðila sem koma á beinan hátt að meðhöndlun og endurvinnslu rafhlaðna og rafgeyma. Þær sértæku reglur, sem eru nauðsynlegar í þessum tilgangi, eru viðbót við gildandi löggjöf Bandalagsins um úrgang, einkum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/12/ EB frá 5. apríl 2006 um úrgang ( 3 ), tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs ( 4 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/76/EB frá 4. desember 2000 um brennslu úrgangs ( 5 ).
6)          Til að koma í veg fyrir að notuðum rafhlöðum og rafgeymum sé fleygt á þann hátt að þau mengi umhverfið og til að forðast það að notendur ruglist á mismunandi kröfum um meðhöndlun úrgangs fyrir mismunandi rafhlöður og rafgeyma skal þessi tilskipun gilda um allar rafhlöður og rafgeyma sem sett eru á markað í Bandalaginu. Svo vítt gildissvið tryggir einnig stærðarhagkvæmni söfnunar og endurvinnslu og auk þess er ekki gengið á auðlindir meira en nauðsyn krefur.
7)          Áreiðanlegar rafhlöður og rafgeymar eru nauðsynlegar fyrir öryggi margra framleiðsluvara, búnaðar og þjónustustarfsemi og eru mikilvægir orkugjafar í þjóðfélagi okkar.
8)          Rétt þykir að greina á milli færanlegra rafhlaðna og rafgeyma annars vegar og iðnaðarrafhlaðna og -rafgeyma og rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki hins vegar. Bannað skal vera að farga iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum og rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki á urðunarstöðum eða með brennslu.
9)          Dæmi um iðnaðarrafhlöður og -rafgeyma eru rafhlöður og rafgeymar sem notuð eru sem neyðaraflgjafar eða varaaflgjafar á sjúkrahúsum, flugvöllum eða skrifstofum, rafhlöður og rafgeymar sem eru notuð í lestum eða flugvélum og rafhlöður eða rafgeymar sem notuð eru á olíuborpöllum á hafi úti eða í vitum. Til þessa flokkast einnig rafhlöður og rafgeymar sem eru eingöngu ætluð fyrir handstýrðar greiðsluvélar í verslunum og veitingahúsum, strikamerkjaskanna í verslunum, myndflutningstæki fyrir sjónvarpsrásir og myndver til nota í atvinnuskyni, ljós fyrir námuverkamenn og kafara sem fest eru á námu- og kafarahjálma fagmanna, vararafhlöður og -rafgeymar fyrir rafknúnar hurðir til að koma í veg fyrir að fólk festist eða klemmist, rafhlöður og rafgeymar sem notuð eru í tæki eða í ýmsar tegundir mælitækja og tækjabúnaðar og rafhlöður og rafgeymar sem notuð eru í tengslum við sólarrafhlöðuplötur, sólarhlöður og annan tækjabúnað sem gengur fyrir endurnýjanlegri orku. Undir iðnaðarrafhlöður og -rafgeyma falla einnig rafhlöður og rafgeymar sem notuð eru í rafknúnum ökutækjum, t.d. rafknúnum bifreiðum, hjólastólum, reiðhjólum, flugvallarökutækjum og sjálfvirkum þjörkum til færslu og flutninga. Auk þess sem tilgreint er í þessari skrá, sem ekki er tæmandi, teljast rafhlöður og rafgeymar, sem ekki eru innsigluð og eru ekki notuð til að knýja ökutæki, vera til notkunar í iðnaði.
10)          Dæmi um færanlegar rafhlöður og rafgeyma, sem eru alveg innsigluð, og rafgeyma, sem venjulegt fólk getur borið í hendi án erfiðleika og eru hvorki rafhlöður eða rafgeymar, sem notuð eru til að knýja ökutæki né iðnaðarrafhlöður og -rafgeymar, eru rafhlöður með einu hlaði, (t.d. AA- og AAA-rafhlöður) og rafhlöður og rafgeymar, sem neytendur eða fagmenn nota í farsímum, fartölvum, vélknúnum, snúrulausum handverkfærum, leikföngum og heimilistækjum, t.d. rafknúnum tannburstum, rakvélum og handryksugum (einnig í svipuðum búnaði sem notaður er í skólum, verslunum, veitingahúsum, flugvöllum, skrifstofum eða sjúkrahúsum), og aðrar rafhlöður eða rafgeymar sem neytendur geta notað við venjuleg heimilisstörf.
11)          Framkvæmdastjórnin skal meta hvort þörf er á að laga þessa tilskipun að fyrirliggjandi vísinda- og tækniþekkingu. Einkum skal framkvæmdastjórnin endurskoða undanþágur frá kadmíumbanni sem kveðið er á um varðandi færanlegar rafhlöður og rafgeyma sem ætluð eru til notkunar í vélknúnum, snúrulausum handverkfærum. Dæmi um vélknúin, snúrulaus handverkfæri eru verkfæri sem neytendur og fagmenn nota til að renna, sverfa, slípa, fínpússa, saga, skera, klippa, bora, hola, gata, hamra, hnoða, skrúfa eða fægja eða svipuð vinnsla timburs, málma eða annarra efna, auk tækja til sláttar, klippingar eða annarrar garðvinnu.
12)          Framkvæmdastjórnin skal einnig vakta tækniframfarir sem bæta vistvænleika rafhlaðna og rafgeyma allan endingartíma þeirra, m.a. með þátttöku í umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS), og aðildarríkin skulu styðja slíkar framfarir.
13)          Til að vernda umhverfið skal safna notuðum rafhlöðum og rafgeymum. Koma skal á laggirnar söfnunarkerfum sem safna sem mestu af færanlegum rafhlöðum og rafgeymum. Þetta merkir að setja skal söfnunarkerfin þannig upp að notendurnir geti fargað öllum notuðum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum á þægilegan hátt og án endurgjalds. Viðeigandi er að hafa mismunandi söfnunarkerfi og haga fjármögnun á mismunandi hátt fyrir hinar ýmsu tegundir rafhlaðna og rafgeyma.
14)          Æskilegt er að aðildarríkin nái háu söfnunar- og endurvinnsluhlutfalli fyrir notaðar rafhlöður og rafgeyma í þeim tilgangi að ná fram víðtækri umhverfisvernd og endurnýtingu efniviðar í gervöllu Bandalaginu. Í þessari tilskipun skal því setja markmið um lágmarkssöfnun og -endurvinnslu í aðildarríkjunum. Rétt þykir að reikna út söfnunarhlutfallið á grundvelli árlegrar meðalsölu undanfarinna ára svo að öll aðildarríkin geti sett fram samanburðarhæf markmið sem eru í hlutfalli við notkun rafhlaðna og rafgeyma á landsvísu.
15)          Sértækum endurvinnslukröfum skal komið á fyrir kadmíum- og blýrafhlöður og kadmíum- og blýrafgeyma til að unnt sé að ná mikilli endurheimt í gervöllu Bandalaginu og til að koma í veg fyrir misræmi milli aðildarríkja.
16)          Allir hagsmunaaðilar skulu geta verið aðilar að söfnunar-, meðhöndlunar- og endurvinnslukerfum. Kerfin skulu hönnuð þannig að þau feli hvorki í sér mismunun gagnvart innfluttum rafhlöðum eða rafgeymum, viðskiptahindranir né röskun á samkeppni.
17)          Lögð skal áhersla á söfnunar- og endurvinnslukerfin, einkum í þeim tilgangi að lágmarka kostnað og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna flutninga. Í meðhöndlunar- og endurvinnslukerfunum skal nota bestu, fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind í 11. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 1 ). Skilgreiningin á endurvinnslu tekur ekki til endurnýtingar orku. Hugtakið endurnýting orku er skilgreint í öðrum gerningum Bandalagsins.
18)          Hægt er að safna rafhlöðum og rafgeymum hverjum um sig í tengslum við landsbundin söfnunarkerfi rafhlaðna eða með raf- og rafeindabúnaðarúrgangi í tengslum við landsbundin söfnunarkerfi sem komið er á fót á grundvelli tilskipunar 2002/96/EB. Í síðara tilvikinu skal að lágmarki vera skylt að fjarlægja rafhlöður og rafgeyma frá raf- og rafeindabúnaðarúrgangi sem safnað hefur verið. Þegar rafhlöður og rafgeymar hafa verið fjarlægð úr raf- og rafeindabúnaðarúrganginum falla þau undir kröfur þessarar tilskipunar, sem merkir að heimilt er að reikna þau með í söfnunarmarkmiðinu og þau þurfa að uppfylla endurvinnslukröfurnar.
19)          Grundvallarreglur um það hvernig meðhöndlun á notuðum rafhlöðum og rafgeymum skuli fjármögnuð skulu settar á vettvangi Bandalagsins. Tilhögun fjármögnunar skal stuðla að háu söfnunar- og endurvinnsluhlutfalli og framfylgja meginreglunni um ábyrgð framleiðenda. Skrá skal alla framleiðendur samkvæmt skilgreiningu þessarar tilskipunar. Framleiðendur skulu fjármagna kostnaðinn við að safna, meðhöndla og endurvinna allar rafhlöður og rafgeyma sem safnað er, að frádregnum hagnaði af sölu endurheimts efniviðar. Við tilteknar kringumstæður má hins vegar réttlæta beitingu minniháttarreglna (de minimis rule) gagnvart litlum framleiðendum.
20)          Til að söfnunin verði árangursrík er nauðsynlegt að upplýsa notendur um þörfina á aðskilinni söfnun, um tiltæk söfnunarkerfi og hlutverk notenda við meðhöndlun notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Útfæra skal nánara fyrirkomulag á merkingarkerfi sem veitir notendum gagnsæjar, traustar og skýrar upplýsingar um rafhlöður og rafgeyma og alla þungmálma sem þau innihalda.
21)          Ef aðildarríkin nota efnahagsleg stjórntæki, t.d. mismunandi gjaldflokka, til að uppfylla markmið þessarar tilskipunar og einkum til að uppfylla sérstök söfnunar- og endurvinnsluhlutföll skulu þau upplýsa framkvæmdastjórnina um það.
22)          Áreiðanleg og sambærileg gögn um magn rafhlaðna og rafgeyma, sem sett er á markað, er safnað og endurunnið eru nauðsynleg til þess að hafa eftirlit með hvort markmið þessarar tilskipunar hafi náðst.
23)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar tilskipunar og tryggja að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
24)          Í samræmi við 34. gr. samstarfssamnings um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, að semja og birta sín eigin yfirlit sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana um lögleiðingu þeirra.
25)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 2 ).
26)          Þar eð aðildarríkin geta ekki náð markmiðum þessarar tilskipunar svo vel sé, nánar tiltekið að vernda umhverfið og tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins, og að auðveldara er að ná markmiðunum á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðin er umfangsmikil og hefur víðtæk áhrif getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna sem sett er fram í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessum markmiðum verði náð.
27)          Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um löggjöf Bandalagsins um öryggis-, gæða- og heilbrigðiskröfur og sérstaka löggjöf Bandalagsins um meðhöndlun úrgangs, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000 um úr sér gengin ökutæki ( 3 ) og tilskipun 2002/96/EB.
28)          Að því er varðar ábyrgð framleiðenda eru framleiðendur rafhlaðna og rafgeyma og framleiðendur annarra vara, sem innihalda rafhlöðu eða rafgeymi, ábyrgir fyrir meðhöndlun úrgangs úr rafhlöðum og rafgeymum sem þeir setja á markað. Sveigjanleg tilhögun er viðeigandi til að fjármögnunarkerfi geti tekið tillit til mismunandi, landsbundinna aðstæðna og haft til hliðsjónar kerfi sem þegar eru til, einkum þau kerfi sem komið er á fót til að uppfylla skilyrði tilskipana 2000/53/EB og 2002/96/EB, en jafnframt skal komast hjá tvöfaldri gjaldtöku.
29)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/95/ EB frá 27. janúar 2003 um takmarkanir á notkun tiltekinna, hættulegra efna í rafbúnaði og rafeindabúnaði ( 4 ) gildir ekki um rafhlöður og rafgeyma sem notuð eru í raf- og rafeindabúnaði.
30)          Rafhlöður og rafgeymar til nota í vélknúnum ökutækjum og iðnaðarrafhlöður og -rafgeymar skulu uppfylla kröfurnar í tilskipun 2000/53/ EB, einkum 4. gr. hennar. Því skal banna notkun kadmíums í iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki nema þau falli undir undanþágu á grundvelli II. viðauka við þá tilskipun.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Inntak

Í þessari tilskipun eru fastsettar:
1)    reglur um setningu rafhlaðna og rafgeyma á markað og einkum bann við því að setja á markað rafhlöður og rafgeyma sem innihalda hættuleg efni og
2)    sérstakar reglur um söfnun, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til að bæta viðeigandi löggjöf Bandalagsins um úrgang og stuðla að mikilli söfnun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.
Markmiðið er að bæta vistvænleika rafhlaðna og rafgeyma og atferli allra rekstraraðila sem koma að málum á endingartíma rafhlaðna og rafgeyma, t.d. framleiðenda, dreifingaraðila og notenda og einkum þeirra rekstraraðila sem koma á beinan hátt að meðhöndlun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um allar tegundir rafhlaðna og rafgeyma, án tillits til lögunar þeirra, rúmmáls, þyngdar, efnissamsetningar eða notkunar. Hún gildir með fyrirvara um tilskipanir 2000/53/EB og 2002/ 96/EB.
2.     Þessi tilskipun gildir ekki um rafhlöður og rafgeyma sem notuð eru í:
a)    búnað sem tengist vernd grundvallaröryggishagsmuna aðildarríkjanna, vopn, skotfæri og hergögn, að undanskildum vörum sem eru ekki ætlaðar sérstaklega til nota í hernaðarlegum tilgangi,
b)    búnað sem er ætlaður til sendingar út í geim.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „rafhlaða“ eða „rafgeymir“: sérhver uppspretta raforku sem fæst við beina umbreytingu efnaorku og samanstendur af einu einhlaði (primary cell) eða fleiri (ekki endurhlaðanlegum) eða einu endurhlaði (secondary cell) eða fleiri (endurhlaðanlegum),
2)    „rafhlöðupakki“: sérhver samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengd saman og/eða lokuð inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna,
3)    „færanleg rafhlaða eða rafgeymir“: sérhver rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem:
    a)    eru innsigluð og
    b)    unnt er að bera í hendi og
    c)    er hvorki iðnaðarrafhlaða né -rafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki,
4)    „hnapparafhlaða“: sérhver lítil, kringlótt, færanleg rafhlaða eða rafgeymir sem er meiri um sig að þvermáli en hæð og sem er notuð í sérstökum tilgangi, t.d. í heyrnartæki, úr, lítil ferðatæki og sem varaorka,
5)    „rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki“: sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem notað er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður,
6)    „iðnaðarrafhlaða eða -rafgeymir“: sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja,
7)    „notuð rafhlaða eða rafgeymir“: sérhver rafhlaða eða rafgeymir sem flokkast undir úrgang í skilningi a-liðar 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2006/12/EB,
8)    „endurvinnsla“: það að efni eru unnin á ný innan framleiðsluferlis úrgangsefna í sama tilgangi og þau voru upphaflega unnin eða í öðrum tilgangi, að undanskilinni endurnýtingu orku,
9)     „förgun“: allar viðeigandi aðgerðir sem kveðið er á um í II. viðauka A við tilskipun 2006/12/EB,
10)    „meðhöndlun“: öll starfsemi í tengslum við notaðar rafhlöður og rafgeyma eftir að komið hefur verið með þau til stöðvar til flokkunar, undirbúnings fyrir endurvinnslu eða undirbúnings fyrir förgun,
11)    „tæki“: allur raf- og rafeindabúnaður eins og hann er skilgreindur í tilskipun 2002/96/EB sem er knúinn eða knýja má að öllu leyti eða að hluta með rafhlöðum eða rafgeymum,
12)    „framleiðandi“: aðili í aðildarríki sem setur, óháð sölutækni sem notuð er, þ.m.t. notkun fjarsamskiptamiðla eins og þeir eru skilgreindir í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 1 ), rafhlöður eða rafgeyma, þ.m.t. þau sem eru hluti af tækjabúnaði eða ökutækjum, á markað í fyrsta skipti í atvinnuskyni innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis,
13)    „dreifingaraðili“: sá sem í atvinnuskyni sér notanda fyrir rafhlöðum og rafgeymum,
14)    „setning á markað“: það að sjá þriðja aðila innan Bandalagsins fyrir vöru eða bjóða hana fram, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds, þ.m.t. innflutningur á tollsvæði Bandalagsins,
15)    „rekstraraðilar“: allir sem sjá um framleiðslu, dreifingu, söfnun eða endurvinnslu eða þeir sem annast annars konar meðhöndlun,
16)    „vélknúið, snúrulaust handverkfæri“: sérhvert handverkfæri sem er knúið með rafhlöðu eða rafgeymi og er ætlað til viðhalds-, smíða- eða garðvinnu,
17)    „söfnunarhlutfall“: hundraðshlutinn, fyrir tiltekið aðildarríki á tilteknu almanaksári, sem fæst með því að deila þyngd færanlegra, notaðra rafhlaðna og rafgeyma, sem safnað er í samræmi við 1. mgr. 8. gr. þessarar tilskipunar eða tilskipun 2002/96/EB á því almanaksári, í meðalþyngd færanlegra rafhlaðna og rafgeyma sem framleiðendur selja annaðhvort beint til notenda eða afhenda þriðju aðilum í þeim tilgangi að selja notendum í því aðildarríki á því almanaksári og næstliðnum tveimur almanaksárum.

4. gr.
Bönn

1.     Með fyrirvara um tilskipun 2000/53/EB skulu aðildarríkin banna að setja á markað:
a)    allar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri miðað við þyngd, hvort sem þau eru hluti af tækjum eða ekki, og
b)    færanlegar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda meira en 0,002% af kadmíumi miðað við þyngd, að meðtöldum þeim sem eru hluti af tækjum.
2.     Bannið, sem sett er fram í a-lið 1. mgr., gildir ekki um hnapparafhlöður sem innihalda ekki meira en 2% af kvikasilfri miðað við þyngd.
3.     Bannið, sem sett er fram í b-lið 1. mgr., gildir ekki um færanlegar rafhlöður eða rafgeyma sem ætluð eru til nota í:
a)    neyðar- og viðvörunarkerfi, að meðtöldum neyðarlýsingum,
b)    lækningabúnað eða
c)    vélknúin, snúrulaus handverkfæri.
4.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða undanþáguna sem um getur í c-lið 3. mgr. og leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið fyrir 26. september 2010, ásamt viðeigandi tillögum, eftir því sem við á, með bannið á kadmíumi í rafhlöðum og rafgeymum í huga.

5. gr.
Aukinn vistvænleiki

Aðildarríkjum, sem hafa framleiðendur á yfirráðasvæði sínu, ber að stuðla að rannsóknum og hvetja til betri heildarárangurs varðandi vistvænleika rafhlaðna og rafgeyma allan endingartíma þeirra og þróunar og markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma sem innihalda minna magn af hættulegum efnum eða sem innihalda minna af mengandi efnum, einkum sem staðgönguefni fyrir króm, kadmíum og blý.

6. gr.
Setning á markað

1.     Aðildarríkjunum er óheimilt, á grundvelli ástæðna sem fjallað er um í þessari tilskipun, að hindra, banna eða takmarka á yfirráðasvæði sínu setningu rafhlaðna og rafgeyma, sem uppfylla kröfur tilskipunarinnar, á markað.
2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rafhlöður og rafgeymar, sem uppfylla ekki kröfur þessarar tilskipunar, séu ekki sett á markað eða að þau séu tekin af markaði.

7. gr.
Meginmarkmið

Aðildarríkin skulu, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa vegna flutninga, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hámarka aðskilda söfnun á notuðum rafhlöðum og rafgeymum og halda því í lágmarki að rafhlöðum og rafgeymum sé fargað með blönduðu, óflokkuðu húsasorpi í þeim tilgangi að ná mikilli endurvinnslu allra notaðra rafhlaðna og rafgeyma.

8. gr.
Söfnunarkerfi

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðeigandi söfnunarkerfi séu tiltæk fyrir færanlegar rafhlöður og rafgeyma. Slík kerfi:
a)    skulu gera notendum kleift að fleygja notuðum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum á aðgengilegri söfnunarstöð í grenndinni, að teknu tilliti til þéttleika byggðar,
b)    skulu krefja dreifingaraðila um að taka aftur við notuðum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum án endurgjalds ef þeir selja slíkar rafhlöður og rafgeyma, nema mat leiði í ljós að önnur tiltæk kerfi séu a.m.k. jafn árangursrík við að ná umhverfismarkmiðum þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu birta slíkt mat opinberlega,
c)    skulu hvorki fela í sér neitt gjald af hálfu notenda þegar þeir fleygja notuðum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum né neina skyldu til að kaupa nýja rafhlöðu eða rafgeymi,
d)    má reka í tengslum við kerfin sem um getur í 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2002/96/EB. Söfnunarstöðvar, sem komið er á til að uppfylla a-lið þessarar málsgreinar, skulu ekki falla undir kröfurnar um skráningu eða leyfi í tilskipun 2006/12/EB eða tilskipun ráðsins 91/689/EBE frá 12. desember 1991 um hættulegan úrgang ( 1 ).
2.     Aðildarríkjunum er heimilt, að því tilskildu að kerfin uppfylli þær viðmiðanir sem skráðar eru í 1. mgr.:
a)    að krefjast þess að framleiðendur setji upp slík kerfi,
b)    að krefjast þess að aðrir rekstraraðilar taki þátt í slíkum kerfum,
c)    að viðhalda núverandi kerfum.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur iðnaðarrafhlaðna og -rafgeyma, eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd, neiti ekki að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum frá notendum, án tillits til efnasamsetningar þeirra eða uppruna. Óháðum þriðju aðilum er einnig heimilt að safna iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum.
4.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki, eða þriðju aðilar, komi á kerfum til söfnunar á notuðum rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki frá notendum eða frá aðgengilegri söfnunarstöð í nágrenni þeirra ef þeim er ekki safnað samkvæmt kerfunum sem um getur í 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2000/ 53/EB. Þegar um er að ræða rafhlöður og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki sem koma frá vélknúnum ökutækjum sem eru í einkaeigu og eru ekki notuð í atvinnuskyni skulu slík kerfi hvorki fela í sér gjald af hálfu notenda þegar þeir fleygja notuðum rafhlöðum eða rafgeymum né skyldu til að kaupa nýja rafhlöðu eða rafgeymi.

9. gr.
Fjárhagsleg stjórntæki

Aðildarríkjunum er heimilt að nota fjárhagsleg stjórntæki til að stuðla að því að notuðum rafhlöðum og rafgeymum sé safnað eða til að stuðla að notkun rafhlaðna og rafgeyma sem innihalda efni sem menga minna, t.d. með því að taka upp mismunandi gjaldflokka. Ef þau gera það skulu þau tilkynna framkvæmdastjórninni um ráðstafanir sem varða framkvæmd þeirra gerninga.

10. gr.
Söfnunarmarkmið

1.     Aðildarríkin skulu reikna út söfnunarhlutfallið í fyrsta skipti fyrir fimmta heila almanaksárið eftir gildistöku þessarar tilskipunar. Með fyrirvara um tilskipun 2002/96/EB skulu rafhlöður og rafgeymar, sem eru hluti af tækjum, falla undir tölur um söfnun og sölu.
2.     Aðildarríkin skulu að lágmarki ná eftirfarandi söfnunarhlutfalli:
a)    25% eigi síðar en 26. september 2012,
b)    45% eigi síðar en 26. september 2016.
3.     Aðildarríkin skulu fylgjast með söfnunarhlutföllum á ársgrundvelli samkvæmt kerfinu sem sett er fram í I. viðauka. Með fyrirvara um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2150/2002 frá 25. nóvember 2002 um hagskýrslur um úrgang ( 2 ) skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni skýrslur innan sex mánaða frá lokum viðkomandi almanaksárs. Í skýrslunum skal tilgreina hvernig nauðsynlegra gagna til að reikna söfnunarhlutfallið var aflað.
4.     Í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr.:
a)    er heimilt að mæla fyrir um bráðabirgðafyrirkomulag til að takast á við vanda sem aðildarríki stendur frammi fyrir við að uppfylla kröfurnar í 2. mgr. vegna sérstakra aðstæðna innan þess ríkis,
b)    skal koma á sameiginlegri aðferð til að reikna út árlega sölu færanlegra rafhlaðna og rafgeyma til notenda eigi síðar en 26. september 2007.

11. gr.
Fjarlæging notaðra rafhlaðna og rafgeyma

Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur hanni tæki þannig að auðvelt sé að fjarlægja úr þeim notaðar rafhlöður og rafgeyma. Tækjum, sem rafhlöður og rafgeymar eru hluti af, skulu fylgja leiðbeiningar um hvernig fjarlægja megi rafhlöðurnar og rafgeymana á öruggan hátt og, eftir því sem við á, upplýsa notendur um tegund þeirra. Þessi ákvæði gilda ekki ef stöðug rafmagnstenging er nauðsynleg með tilliti til öryggis, afkastagetu, læknisfræðilegra þátta eða heilleika gagna og hún krefst órofinnar tengingar milli tækisins og rafhlöðunnar eða rafgeymisins.

12. gr.
Meðhöndlun og endurvinnsla

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, eigi síðar en 26. september 2009:
a)    að framleiðendur eða þriðju aðilar setji upp kerfi þar sem besta, fáanlega tækni með tilliti til verndar heilbrigðis og umhverfis er notuð til að meðhöndla og endurvinna notaðar rafhlöður og rafgeyma og
b)    að allar rafhlöður og rafgeymar, sem er safnað í samræmi við 8. gr. þessarar tilskipunar eða við tilskipun 2002/96/EB, fari til meðhöndlunar og endurvinnslu samkvæmt kerfum sem samræmast að lágmarki löggjöf Bandalagsins, einkum að því er varðar heilbrigði, öryggi og meðhöndlun úrgangs.
Aðildarríkjunum er þó heimilt, í samræmi við sáttmálann, að farga færanlegum rafhlöðum og rafgeymum, sem hefur verið safnað og innihalda kadmíum, kvikasilfur eða blý, á urðunarstöðum eða koma þeim fyrir í neðanjarðargeymslum ef ekki er völ á heppilegum lokamörkuðum (end market).
Aðildarríkjunum er einnig heimilt, í samræmi við sáttmálann, að farga færanlegum rafhlöðum og rafgeymum, sem hefur verið safnað og innihalda kadmíum, kvikasilfur eða blý, á urðunarstöðum eða koma þeim fyrir í neðanjarðargeymslum sem hluta af áætlun um að leggja af í áföngum notkun þungmálma komi í ljós, á grundvelli ítarlegs mats á umhverfistengdum, efnahagslegum og félagslegum áhrifum, að þessi förgunarkostur er betri en endurvinnsla. Aðildarríkjunum ber að birta þetta mat opinberlega og tilkynna framkvæmdastjórninni drög að ráðstöfunum í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 1 ).
2.     Meðhöndlunin skal uppfylla lágmarkskröfurnar í A-hluta III. viðauka.
3.     Ef rafhlöðum og rafgeymum er safnað með raf- og rafeindabúnaðarúrgangi á grundvelli tilskipunar 2002/96/EB skal taka rafhlöður og rafgeyma úr raf- og rafeindabúnaðarúrganginum sem safnað hefur verið.
4.     Endurvinnsluferlin skulu, eigi síðar en 26. september 2010, uppfylla ákvæði um endurvinnslunýtni og tengd ákvæði sem eru tilgreind í B-hluta III. viðauka.
5.     Aðildarríkin skulu gefa skýrslu um hvaða endurvinnslustigi hefur verið náð á viðkomandi almanaksári og hvort þeirri nýtni sem um getur í B-hluta III. viðauka hefur verið náð. Þau skulu leggja upplýsingarnar fyrir framkvæmdastjórnina innan sex mánaða frá lokum viðkomandi almanaksárs.
6.     Heimilt er að aðlaga III. viðauka eða bæta við hann til að taka tillit til framfara í tækni og vísindum í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr. Einkum og sér í lagi:
a)    skal bæta við ítarlegum reglum varðandi útreikninga á endurvinnslunýtni eigi síðar en 26. mars 2010 og
b)    skal meta lökustu endurvinnslunýtnina reglulega og laga hana að bestu, fáanlegu tækni og í ljósi þróunarinnar sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr.
7.     Áður en framkvæmdastjórnin leggur til breytingar á III. viðauka skal hún hafa samráð við viðkomandi hagsmunaaðila, einkum framleiðendur, endurvinnsluaðila, þá sem koma að meðhöndlun, umhverfissamtök, neytendasamtök og starfsmannasamtök. Hún skal upplýsa nefndina sem um getur í 1. mgr. 24. gr. um niðurstöður þessa samráðs.

13. gr.
Ný tækni við endurvinnslu

1.     Aðildarríkin skulu hvetja til þróunar á nýrri tækni við endurvinnslu og meðhöndlun og stuðla að rannsóknum á aðferðum sem eru umhverfisvænar og kostnaðarhagkvæmar fyrir allar tegundir rafhlaðna og rafgeyma.
2.     Aðildarríkin skulu hvetja meðhöndlunarstöðvar til að koma á fót vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 761/2001 frá 19. mars 2001 um að heimila frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS) ( 1 ).

14. gr.
Förgun

Aðildarríkin skulu banna að notuðum iðnaðarrafhlöðum og -rafgeymum og rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki sé fargað á urðunarstöðvum eða með brennslu. Þó er heimilt að farga leifum rafhlaðna og rafgeyma, sem hafa bæði verið meðhöndluð og endurunnin í samræmi við 1. mgr. 12. gr., á urðunarstöðum eða með brennslu.

15. gr.
Útflutningur

1.     Meðhöndlun og endurvinnsla getur átt sér stað utan viðkomandi aðildarríkis eða utan Bandalagsins, að því tilskildu að flutningur notaðra rafhlaðna og rafgeyma sé í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 frá 1. febrúar 1993 um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu ( 2 ).
2.     Notaðar rafhlöður og rafgeymar, sem eru flutt út úr Bandalaginu í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93, reglugerð ráðsins (EB) nr. 1420/ 1999 frá 29. apríl 1999 um sameiginlegar reglur og málsmeðferð við flutning á tilteknum tegundum úrgangs til tiltekinna landa utan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) ( 3 ) og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1547/1999 frá 12. júlí 1999 um eftirlitsaðferðir samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 sem gilda um flutning á tilteknum tegundum úrgangs til tiltekinna landa, sem lokagerð ákvörðunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), C(92)39, gildir ekki um ( 4 ), skulu því aðeins teljast uppfylla skyldur og ákvæði um nýtni, sem mælt er fyrir um í III. viðauka við þessa tilskipun, að áreiðanlegar sannanir séu fyrir því að endurvinnslan hafi farið fram við aðstæður sem svara til krafnanna í þessari tilskipun.
3.     Mæla skal fyrir um nákvæma framkvæmd þessarar greinar í samræmi við málsmeðferðina í 2. mgr. 24. gr.

16. gr.
Fjármögnun

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framleiðendur, eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd, standi undir hreinum kostnaði sem hlýst af:
a)    söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu allra notaðra rafhlaðna og rafgeyma sem er safnað í samræmi við 1. og 2. mgr. 8. gr. og
b)    söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu allra notaðra iðnaðarrafhlaðna og -rafgeyma og rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki sem er safnað í samræmi við 3. og 4. mgr. 8. gr.
2.     Við framkvæmd 1. mgr. skulu aðildarríkin sjá til þess að framleiðendur rafhlaðna og rafgeyma, sem safnað er samkvæmt kerfum sem komið er á í samræmi við tilskipun 2000/53/EB eða tilskipun 2002/ 96/EB, verði ekki fyrir tvöfaldri gjaldtöku.
3.     Aðildarríkin skulu skuldbinda framleiðendur, eða þriðju aðila fyrir þeirra hönd, til að standa undir hreinum kostnaði sem hlýst af upplýsingaherferðum um söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu allra notaðra, færanlegra rafhlaðna og rafgeyma.
4.     Við sölu á nýjum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum skal ekki upplýsa notendur sérstaklega um kostnað við söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu þeirra.
5.     Framleiðendur og notendur iðnaðarrafhlaðna og -rafgeyma og rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki geta samið um aðrar fjármögnunarleiðir en þær sem um getur í 1. mgr.
6.     Þessi grein gildir um allar notaðar rafhlöður og rafgeyma, án tillits til þess hvaða dag þau voru sett á markað.

17. gr.
Skráning

Aðildarríkin skulu sjá til þess að sérhver framleiðandi sé skráður. Skráning skal háð sömu kröfum um málsmeðferð í hverju aðildarríki. Slíkar kröfur um skráningu skulu settar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr.

18. gr.
Smærri framleiðendur

1.     Aðildarríkin geta veitt framleiðendum, sem setja mjög lítið magn af rafhlöðum og rafgeymum á innanlandsmarkað miðað við stærð markaðarins í viðkomandi ríki, undanþágu frá kröfunum í 1. mgr. 16. gr. með því skilyrði að það hindri ekki eðlilega starfsemi söfnunar- og endurvinnslukerfanna sem sett eru upp á grundvelli 8. og 12. gr.
2.     Aðildarríkin skulu birta drög að slíkum ráðstöfunum opinberlega, svo og rökin fyrir því að leggja þær til og tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum á vettvangi nefndarinnar sem um getur í 1. mgr. 24. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin samþykkir eða hafnar drögunum að ráðstöfunum innan sex mánaða frá því að þau eru tilkynnt eins og um getur í 2. mgr. er hún hefur gengið úr skugga um að þau séu í samræmi við sjónarmiðin sem sett eru fram í 1. mgr. og feli ekki í sér handahófskennda mismunun eða duldar hömlur á viðskipti milli aðildarríkjanna. Liggi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar ekki fyrir áður en þessu tímabili lýkur skal líta svo á að drögin að ráðstöfununum hafi verið samþykkt.

19. gr.
Þátttaka

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að allir rekstraraðilar og öll opinber, lögbær yfirvöld geti tekið þátt í þeim söfnunar-, meðhöndlunar- og endurvinnslukerfum sem um getur í 8. og 12. gr.
2.     Þessi kerfi gilda einnig um rafhlöður og rafgeyma sem eru flutt inn frá þriðju löndum við skilyrði án mismununar og skulu hönnuð þannig að þau feli ekki í sér viðskiptahindranir eða röskun á samkeppni.

20. gr.
Upplýsingar til notenda

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, einkum með upplýsingaherferðum, að notendur séu ítarlega upplýstir um:
a)    hugsanleg áhrif efnanna, sem notuð eru í rafhlöður og rafgeyma, á umhverfið og heilbrigði manna,
b)    að æskilegt sé að farga ekki notuðum rafhlöðum og rafgeymum með óflokkuðu húsasorpi og að taka þátt í því að safna þeim sérstaklega svo að auðvelda megi meðhöndlun og endurvinnslu,
c)    söfnunar- og endurvinnslukerfi sem þeir hafa aðgang að,
d)    hlutverk sitt í að stuðla að endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma,
e)    merkingu táknsins af yfirstrikaðri sorptunnu á hjólum sem sýnt er í II. viðauka og efnatáknanna Hg, Cd og Pb.
2.     Aðildarríkin geta krafist þess að rekstraraðilar leggi fram, að hluta til eða að öllu leyti, upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr.
3.     Ef aðildarríkin krefjast þess að dreifingaraðilar taki við notuðum, færanlegum rafhlöðum og rafgeymum skv. 8. gr. skulu þau sjá til þess að dreifingaraðilarnir upplýsi notendur um að hægt sé að koma notuðum rafhlöðum og rafgeymum til förgunar á sölustöðum þeirra.

21. gr.
Merking

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rafhlöður, rafgeymar og rafhlöðupakkar séu öll merkt á viðeigandi hátt með tákninu sem sýnt er í II. viðauka.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að afkastageta allra færanlegra rafhlaðna og rafgeyma og rafhlaðna og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki sé tilgreind á sýnilegan, læsilegan og óafmáanlegan hátt eigi síðar en 26. september 2009. Mæla skal fyrir um ítarlegar reglur um framkvæmd þessarar kröfu, þ.m.t. um samræmdar aðferðir til að ákvarða afkastagetu og heppilega notkun, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr. og eigi síðar en 26. mars 2009.
3.     Rafhlöður, rafgeymar og hnapparafhlöður, sem innihalda meira en 0,0005% af kvikasilfri, meira en 0,002% af kadmíumi eða meira en 0,004% af blýi, skulu merktar með efnatákninu fyrir viðkomandi málm: Hg, Cd eða Pb. Táknið, sem tilgreinir innihald þungmálmsins, skal prentað fyrir neðan táknið sem sýnt er í II. viðauka og skal þekja flöt sem er a.m.k. fjórðungurinn af stærð þess tákns.
4.     Táknið, sem sýnt er í II. viðauka, skal þekja a.m.k. 3% af yfirborði stærstu hliðar rafhlöðunnar, rafgeymisins eða rafhlöðupakkans en vera að hámarki 5 . 5 cm. Ef um er að ræða sívala rafhlöðu skal táknið þekja a.m.k. 1,5% af yfirborðsfleti rafhlöðunnar eða rafgeymisins og ekki vera stærra en 5 . 5 cm.
5.     Ef stærð rafhlöðunnar, rafgeymisins eða rafhlöðupakkans er slík að táknið myndi verða minna en 0,5 . 0,5 cm þarf ekki að merkja rafhlöðuna, rafgeyminn eða rafhlöðupakkann en tákn, sem er a.m.k. 1 . 1 cm að stærð, skal prentað á umbúðirnar.
6.     Táknin skal prenta þannig að þau séu vel sýnileg, læsileg og óafmáanleg.
7.     Heimila má undanþágur frá kröfum um merkingar í þessari grein í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr.

22. gr.
Landsbundnar framkvæmdaskýrslur

1.     Aðildarríkin skulu, á þriggja ára fresti, senda skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar til framkvæmdastjórnarinnar. Fyrsta skýrslan skal þó spanna tímabilið til 26. september 2012.
2.     Skýrslurnar skulu samdar á grundvelli spurningalista eða eyðublaðs sem ákveðið er í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr 24. gr. Senda ber aðildarríkjunum spurningalistann eða eyðublaðið sex mánuðum áður en fyrsta tímabilið hefst sem skýrslan á að taka til.
3.     Aðildarríkin skulu einnig gefa skýrslu um allar ráðstafanir sem þau gera til að hvetja til þróunar sem skiptir máli fyrir áhrif sem rafhlöður og rafgeymar hafa á umhverfið, einkum um:
a)    þróun, þ.m.t. ráðstafanir sem framleiðendur gera að eigin frumkvæði til að draga úr magni þungmálma og annarra hættulegra efna sem rafhlöður og rafgeymar innihalda,
b)    nýja tækni við endurvinnslu og meðhöndlun,
c)    þátttöku rekstraraðila í umhverfisstjórnunarkerfum,
d)    rannsóknir á þessum sviðum og
e)    ráðstafanir sem gerðar eru til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.
4.     Skýrslan skal vera aðgengileg framkvæmdastjórninni eigi síðar en níu mánuðum eftir lok þriggja ára tímabilsins sem um ræðir og fyrsta skýrslan þá eigi síðar en 26. júní 2013.
5.     Framkvæmdastjórnin skal birta skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar og um áhrif þessarar tilskipunar á umhverfið og á starfsemi innri markaðarins eigi síðar en níu mánuðum eftir að skýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni í samræmi við 4. mgr.

23. gr.
Endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar og áhrif þessarar tilskipunar á umhverfið og á starfsemi innri markaðarins eftir að skýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni í annað sinn í samræmi við 4. mgr. 22. gr.
2.     Í annarri skýrslunni, sem framkvæmdastjórnin birtir í samræmi við 5. mgr. 22. gr., skal vera mat á eftirfarandi þáttum í þessari tilskipun:
a)    á því hvort frekari áhættustjórnunarráðstafanir fyrir rafhlöður og rafgeyma sem innihalda þungmálma séu viðeigandi,
b)    á því hvort lágmarksmarkmið fyrir söfnun allra notaðra rafhlaðna og rafgeyma, sem sett eru fram í 2. mgr. 10. gr,. séu viðeigandi og hvort mögulegt sé að setja frekari markmið fyrir komandi ár með hliðsjón af tækniþróun og fenginni reynslu í aðildarríkjunum,
c)    á því hvort lágmarkskröfur um endurvinnslu, sem settar eru fram í B-hluta III. viðauka, séu viðeigandi með hliðsjón af upplýsingum sem aðildarríkin veita, tækniþróun og fenginni reynslu í aðildarríkjunum.
3.     Tillögur um endurskoðun á tengdum ákvæðum þessarar tilskipunar skulu fylgja með skýrslunni ef nauðsyn krefur.

24. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem komið er á fót skv. 18. gr. tilskipunar 2006/ 12/EB.
2.     Þegar vísað er til þessarar greinar skulu ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

25. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn landsbundnum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir fyrir 26. september 2008 og skulu gera henni tafarlaust grein fyrir hvers kyns breytingum sem gerðar eru síðar á þeim.

26. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 26. september 2008. Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði allra gildandi laga og stjórnsýslufyrirmæla sem þau samþykkja á því sviði sem tilskipun þessi nær til.

27. gr.
Frjálsir samningar

1.     Aðildarríkjunum er heimilt að taka upp ákvæðin, sem mælt er fyrir um í 8., 15. og 20. gr., með samningum milli lögbærra yfirvalda og þeirra rekstraraðila sem um er að ræða, að því tilskildu að markmiðin, sem sett eru fram í þessari tilskipun, hafi náðst. Þessir samningar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:
a)    þeir skulu vera framfylgjanlegir,
b)    í þeim verður að tilgreina markmið ásamt samsvarandi tímamörkum,
c)    þeir skulu birtir í stjórnartíðindum hvers ríkis eða í opinberu skjali sem almenningur hefur sama aðgang að og þeir skulu sendir framkvæmdastjórninni.
2.     Regluleg vöktun skal vera með þeim niðurstöðum sem fást, gefa skal lögbærum yfirvöldum og framkvæmdastjórninni skýrslu um þær og þeim skal komið á framfæri við almenning samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru fram í samningnum.
3.     Lögbær yfirvöld skulu sjá til þess að fram fari athugun á þeim framförum sem verða vegna samningsins.
4.     Ef ekki er staðið við samninginn skulu aðildarríkin beita viðeigandi ákvæðum þessarar tilskipunar með laga- eða stjórnsýslufyrirmælum.

28. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 91/157/EBE er felld úr gildi frá og með 26. september 2008. Líta ber á tilvísun í tilskipun 91/157/EBE sem tilvísun í þessa tilskipun.

29. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

30. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 6. september 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES P. LEHTOMÄKI
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
EFTIRLIT MEÐ ÞVÍ HVERSU VEL TEKST AÐ NÁ SÖFNUNARMARKMIÐUM SKV. 10. GR.

Ár Gagnasöfnun Útreikningar Skýrslugjafarskylda
X (*)+1 Sala á 1. ári S1)
X+2 Sala á 2. ári (S2)
X+3 Sala á 3. ári (S3) Söfnun á 3. ári (C3) Söfnunarhlutfall (CR3) = 3*C3/(S1 + S2 + S3)
X+4 Sala á 4. ári (S4) Söfnun á 4. ári (C4) Söfnunarhlutfall (CR4) = 3*C4/(S2 + S3 + S4)
(Söfnunarmarkmið: 25 %.)
X+5 Sala á 5. ári (S5) Söfnun á 5. ári (C5) Söfnunarhlutfall (CR5) = 3*C5/(S3 + S4 + S5) CR4
X+6 Sala á 6. ári (S6) Söfnun á 6. ári (C6) Söfnunarhlutfall (CR6) = 3*C6/(S4 + S5 + S6) CR5
X+7 Sala á 7. ári (S7) Söfnun á 7. ári (C7) Söfnunarhlutfall (CR7) = 3*C7/(S5 + S6 + S7) CR6
X+8 Sala á 8. ári (S8) Söfnun á 8. ári (C8) Söfnunarhlutfall (CR8) = 3*C8/(S6 + S7 + S8)
(Söfnunarmarkmið: 45 %.)
CR7
X+9 Sala á 9. ári (S9) Söfnun á 9. ári (C9) Söfnunarhlutfall (CR9) = 3*C9/(S7 + S8 + S9) CR8
X+10 Sala á 10. ári (S10) Söfnun á 10. ári (C10) Söfnunarhlutfall (CR10) = 3*C10/(S8 + S9 + S10) CR9
X+11 O.s.frv. O.s.frv. O.s.frv. CR10
O.s.frv.
(*) Ár X er árið sem dagsetningin, sem getið er um í 26. gr., fellur á.

II. VIÐAUKI
TÁKN FYRIR SÉRSTAKA SÖFNUN RAFHLAÐNA, RAFGEYMA OG RAFHLÖÐUPAKKA

Táknið sem gefur til kynna „aðskilda söfnun“ allra rafhlaðna og rafgeyma skal vera mynd af yfirstrikaðri sorptunnu á hjólum eins og sýnt er hér á eftir:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


III. VIÐAUKI
NÁKVÆMAR KRÖFUR UM MEÐHÖNDLUN OG ENDURVINNSLU

A-HLUTI: MEÐHÖNDLUN
1.     Meðhöndlunin skal að lágmarki fela í sér fjarlægingu allra vökva og sýra.
2.     Meðhöndlun og öll geymsla, þ.m.t. bráðabirgðageymsla, á meðhöndlunarstöðvum skal fara fram á stöðum með ógegndræpu yfirborði og undir viðeigandi yfirbreiðslu sem er vind- og vatnsheld eða í viðeigandi gámum.
B-HLUTI: ENDURVINNSLA
3.     Endurvinnsluferli skulu ná að lágmarki fram eftirfarandi endurvinnslunýtni:
    a)    endurvinnslu á 65% af meðalþyngd blýrafhlaðna og blýrafgeyma, þ.m.t. svo mikilli endurvinnslu á blýinnihaldi sem framast er tæknilega gerlegt án þess að því fylgi óhóflegur kostnaður,
    b)    endurvinnslu á 75% af meðalþyngd nikkelkadmíumrafhlaðna og -rafgeyma, þ.m.t. svo mikilli endurvinnslu á kadmíuminnihaldi sem framast er tæknilega gerlegt án þess að því fylgi óhóflegur kostnaður og
    c)    endurvinnslu á 50% af meðalþyngd annarra notaðra rafhlaðna og rafgeyma.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 47, 21.2.2008, bls. 29, og EES-viðbætir nr. 9, 21.2.2008, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 266, 26.9.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 78, 26.3.1991, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 96, 21.4.2004, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. ESB C 117, 30.4.2004, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. ESB C 121, 30.4.2004, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 20. apríl 2004 (Stjtíð. ESB C 104 E, 30.4.2004, bls. 354), sameiginleg afstaða ráðsins frá 18. júlí 2005 (Stjtíð. ESB C 264 E, 25.10.2005, bls. 1) and afstaða Evrópuþingsins frá 13. desember 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 4. júlí 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 18. júlí 2006.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB C 30, 4.2.1988, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 78, 26.3.1991, bls. 38. Tilskipuninni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/101/ EB (Stjtíð. EB L 1, 5.1.1999, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 24. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2003/108/EB Evrópuþingsins og ráðsins (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 106).
Neðanmálsgrein: 13
(3)    Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 14
(4)    Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 15
(5)    Stjtíð. EB L 332, 28.12.2000, bls. 91.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 166/2006 (Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Stjtíð. EB L 269, 21.10.2000, bls. 34. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun ráðsins 2005/673/EB (Stjtíð. ESB L 254, 30.9.2005, bls. 69).
Neðanmálsgrein: 20
(4)    Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 19. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/310/EB (Stjtíð. ESB L 115, 28.4.2006, bls. 38).
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/29/EB (Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22).
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 20. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 166/2006.
Neðanmálsgrein: 23
(2)    Stjtíð. EB L 332, 9.12.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 783/2005 (Stjtíð. ESB L 131, 25.5.2005, bls. 38).
Neðanmálsgrein: 24
(1)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. EB L 114, 24.4.2001, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 196/2006 (Stjtíð. ESB L 32, 4.2.2006, bls. 4).
Neðanmálsgrein: 26
(2)    Stjtíð. EB L 30, 6.2.1993, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2557/2001 (Stjtíð. EB L 349, 31.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 27
(3)    Stjtíð. EB L 166, 1.7.1999, bls. 6. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 105/2005 (Stjtíð. ESB L 20, 22.1.2005, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 28
(4)    Stjtíð. EB L 185, 17.7.1999, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 105/2005.