Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 470. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 810  —  470. mál.




Álit fjárlaganefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálastjórn 50 ríkisstofnana.



    Fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálastjórn 50 ríkisstofnana sem gefin var út í júní 2009 og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig.
    Í skýrslunni er fjallað um niðurstöður átaks stofnunarinnar í eftirliti með fjármálastjórn tiltekinna ráðuneyta og stofnana. Lagt var mat á rekstraráætlanir þeirra og hvort líkur væru á að fjárlög ársins héldu. Einnig voru kannaðir vissir þættir innra eftirlits og hvort samdráttur fjárveitinga hefði áhrif á magn og gæði þjónustu. Einnig var leitað eftir upplýsingum um með hvaða hætti stofnanir hefðu undirbúið frekari lækkun fjárveitinga á árinu 2010.
    Nefndin hefur ákveðið að efla eftirlit sitt með framkvæmd fjárlaga og mun skýrslan nýtast nefndinni vel við þá vinnu. Í henni eru margar ábendingar sem kannað verður hvort enn eigi við á árinu 2010. Ríkisendurskoðun benti m.a. á að verulegar líkur væru á að fjárlög ársins 2009 héldu ekki hjá 12 þessara stofnana. Bráðabirgðauppgjör ársins munu liggja fyrir á næstunni og þá kemur í ljós að hvernig stofnunum hefur gengið að takast á við rekstrarvanda sinn. Rétt er að skoða niðurstöðu ársins og aðstæður 2009 í því ljósi.
    Í skýrslunni kemur fram að áætlanir fimm stofnana af 50 höfðu ekki verið samþykktar fyrir 1. maí 2009, þar sem þær voru ekki taldar raunhæfar eða rúmuðust ekki innan fjárheimilda. Af hinum 45 fengu 17 samþykktar áætlanir sem ekki rúmuðust innan fjárheimilda. Af þeim 23 stofnunum sem gerðu ráð fyrir að halda óbreyttri þjónustu voru átta með rekstraráætlanir sem ekki voru í samræmi við fjárheimildir.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði tilsjónarmenn með Hólaskóla og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti vegna fjárhagsvandræða stofnananna. Að mati nefndarinnar eiga stofnanir að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum með aðstoð fagráðuneyta án þess að leitað sé til utanaðkomandi sérfræðinga, nema brýnar aðstæður séu fyrir hendi. Einnig ber að minnast þeirrar stefnu sem kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Í kaflanum um leiðarljós segir: „Ekki skulu ráðnir utanaðkomandi ráðgjafar í verkefni hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins nema brýna nauðsyn beri til og sérfræðiþekking sé ekki til staðar meðal ríkisstarfsmanna.“
    Hjá töluvert mörgum stofnananna reyndust tekjur ekki hafa verið bókaðar nógu reglulega eða útgjalda- og tekjudreifing verið með öðrum hætti en ætlað var, eða öðruvísi en í þeirri áætlun sem stofnun vinnur eftir. Of margar stofnanir notuðu aðra áætlun en skráð er í fjárhags- og bókhaldskerfi ríkisins. Nefndin er sammála því áliti Ríkisendurskoðunar að skýringar á þessu séu ófullnægjandi.
    Ríkisendurskoðun beindi sjö ábendingum til ráðuneytanna sem allar eru góðra gjalda verðar. Fjárlaganefnd er þó ósammála fyrstu ábendingunni þar sem segir að ráðuneyti geri rekstraráætlun skili stofnun henni ekki. Nefndin telur að forstöðumenn geti ekki vikist undan þessari ábyrgð. Þá telur nefndin að meta þurfi ábyrgð forstöðumanna fyrr en á þeim tímapunkti að uppsafnaður halli nemi meira en 10% af fjárheimild ársins.
    Í skýrslunni kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi margoft gagnrýnt stofnanir fyrir að tryggja ekki fullnægjandi aðgreiningu milli starfa bókara og gjaldkera. Hjá fjórðungi stofnananna 50 er umrædd aðgreining ekki fullnægjandi. Nefndin telur að í þeim tilfellum þar sem unnt er að koma umræddri aðgreiningu á með eðlilegum tilkostnaði þurfi viðkomandi stofnanir að gera grein fyrir því af hverju ekki sé brugðist við athugasemdum Ríkisendurskoðunar með fullnægjandi hætti.
    Yfirleitt voru stofnanir ekki komnar langt með að undirbúa fyrirsjáanlega lækkun fjárveitinga á árinu 2010. Við það má bæta að nefndin telur rétt að stofnanir hugi að lækkun fjárveitinga árið 2011.
    Mat fjárlaganefndar er að efla þurfi eftirlit með framkvæmd fjárlaga og mun hún eins og áður sagði auka sinn þátt í því og njóta aðstoðar Ríkisendurskoðunar eftir því sem unnt er. Fjárlaganefnd hefur skipað starfshóp innan nefndarinnar til að skoða fjárlagaferlið í heild og eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Skýrsla þessi mun nýtast vel í þeirri vinnu.

Alþingi, 9. mars 2010.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Höskuldur Þórhallsson.



Kristján Þór Júlíusson.


Oddný G. Harðardóttir.


Ólöf Nordal.



Þór Saari.


Þuríður Backman.