Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 68. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 811  —  68. mál.
    Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um skipan ferðamála, nr. 73/2005.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helenu Þ. Karlsdóttur frá Ferðamálastofu, Stefán Má Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Helgu Haraldsdóttur og Vigdísi Evu Líndal frá iðnaðarráðuneyti og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Ferðamálastofu og ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um skipan ferðamála sem hafa það að markmiði að auka skilvirkni stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og minnka kostnað þeirra sem hafa leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu.
    Helstu breytingar og nýmæli sem í frumvarpinu felast eru eftirfarandi: Í a-lið 2. mgr. 9. gr. laga um skipan ferðamála er það gert að skilyrði að umsækjandi um leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu hafi búsetu á Íslandi. Með a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta skilyrði falli brott og kveðið verði á um að umsækjandi hafi búsetu innan aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Þá er í b-lið 1. gr. lagt til að ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa sem hefur leyfi innan EES-svæðisins skuli tilkynna starfsemi sína Ferðamálastofu og leggja fram viðeigandi gögn um hana. Í þeim felst að þessir aðilar þurfi ekki að sækja sérstaklega um leyfi hjá Ferðamálastofu hafi þeir í hyggju að hefja starfsemi á Íslandi
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 18. gr. laganna sem fjallar um mat á upphæð tryggingafjárhæðar vegna alferða. Lagt er til að staðfesting endurskoðenda þurfi framvegis ekki að fylgja áætlun um rekstur o.fl. sem umsækjandi um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu þarf að leggja fram. Þá er lagt til að Ferðamálastofu verði heimilt en ekki skylt að leita umsagnar endurskoðanda um annars vegar áætlun um rekstur og hins vegar um hvort tryggingarfjárhæð skuli breytt. Jafnframt er í greininni gert ráð fyrir því að ferðaskrifstofur skuli framvegis senda áritaðan ársreikning en ekki endurskoðaðan, sem mun fela í sér umtalsverða lækkun kostnaðar fyrir viðkomandi ferðaskrifstofur.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var sjónum einkum beint að b-lið 1. gr. og var það álit nefndarinnar að mikilvægt væri að ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur frá öðrum ríkjum á EES-svæðinu lytu sömu reglum og hérlendar. Bent var á að kveða þyrfti upp úr með það hvaða gögn þyrfti að leggja fram um starfsemi þeirra en í greininni er einungis mælt fyrir um að leggja skuli fram „viðeigandi gögn“. Jafnframt þyrfti að vera ljóst hvort Ferðamálastofu væri heimilt að krefjast þýðingar á gögnum en mikill kostnaður og tími færi annars í það hjá stofnuninni að þýða gögn sem henni bærust auk þess sem hún þyrfti að þýða þær reglur sem giltu í heimaríki viðkomandi ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu. Rætt var um að vernd neytenda væri ekki tryggð í umræddri grein frumvarpsins, þ.e. að óljóst væri hvort kröfur um tryggingar viðkomandi ferðaskrifstofu væru sambærilegar þeim sem íslenskar ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur þurfa að mæta samkvæmt íslenskum lögum. Nefndin telur að ákvæðið þarfnist nánari skoðunar og leggur til að það falli brott. Aðilar búsettir á EES-svæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum þurfa því áfram að sækja um leyfi hér á landi þrátt fyrir að vera með leyfi annars staðar á EES-svæðinu. Eftir stendur a-liður 1. gr. frumvarpsins þar sem búseta á Íslandi er ekki lengur skilyrði fyrir því að öðlast leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu hér á landi.
    Nefndin bendir á að iðnaðarráðherra hefur nýverið skipað nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir ákvæði laga um skipan ferðamála. Sú nefnd á m.a. að meta hvort gera þurfi breytingar á ákvæðum laganna um útreikning tryggingafjárhæðar og kanna möguleika á breyttu fyrirkomulagi trygginga, með öðrum orðum hvort unnt sé að taka tillit til breyttra aðstæðna í rekstrarumhverfi. Nefnd iðnaðarráðherra mun kanna hvernig tryggingarmálum er háttað annars staðar á Norðurlöndunum og jafnframt skoða heildstætt þau álitamál sem nefnd voru að framan og tengjast b-lið 1. gr. frumvarpsins
    Nefndin leggur til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þar sem sú dagsetning sem þar er tilgreind er liðin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Við 1. gr. B-liður falli brott.
     2.      Við 3. gr. 2. málsl. falli brott.
    
    Jón Gunnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 15. mars 2010.Skúli Helgason,


form., frsm.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.

Atli Gíslason.Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Margrét Tryggvadóttir.