Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 483. máls.

Þskj. 834  —  483. mál.



Frumvarp til laga

um kjaramál flugvirkja.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

Bann við vinnustöðvunum.


    Verkfall Flugvirkjafélags Íslands hjá Icelandair hf., sem hófst 22. mars og boðað hefur verið ótímabundið, svo og verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir sem jafna má til verkfalla, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála milli aðila en lög þessi ákveða, eru óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma kjarasamnings skv. 2. gr.

2. gr.

Framlenging gildandi kjarasamnings.


    Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins f.h. Icelandair hf., við Flugvirkjafélag Íslands, sem rann út 31. október 2009, skal halda gildi sínu til 30. nóvember 2010, nema nýr kjarasamningur sé gerður með samkomulagi milli aðila skv. 3. gr.

3. gr.

Samkomulag um breytingar eða nýjan kjarasamning.


    Aðilum er heimilt að semja um breytingar á kjarasamningi eða gera nýjan en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvunum eða öðrum sambærilegum aðgerðum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samningaviðræður í kjaradeilu flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins f.h. Icelandair hf. hafa staðið um nokkurt skeið hjá Ríkissáttasemjara en ekkert hefur miðað í viðræðunum. Flugvirkjafélagið hefur nú hafið boðað verkfall hjá Icelandair til að fylgja eftir kröfum sínum. Flugvirkjar hafa staðið fast á kröfum um verulega hækkun launa þótt félaginu hafi verið boðnar sambærilegar eða meiri kjarabætur en samið hefur verið um við aðra launahópa.
    Verkfall flugvirkja hefur í för með sér verulega röskun flugs bæði til og frá landinu enda er Icelandair langstærsti flugrekandi landsins og burðarás fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkfallið mun valda íslensku efnahagslífi verulegu tjóni þegar síst skyldi og hafa neikvæð áhrif á störf þúsunda einstaklinga og fyrirtækja um allt land sem byggja starfsemi sína á ferðaþjónustu og öruggum flugsamgöngum á tíma þegar rekstrarumhverfi allra fyrirtækja á landinu er mjög viðkvæmt.
    Hætta er á að hækkanir, umfram það sem þegar hefur verið samið um, hafi neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði. Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum náðu aðilar á almenna vinnumarkaðnum samkomulagi um að framlengja kjarasamninga til loka nóvember 2010. Með þessu frumvarpi er ekki gripið inn í það samkomulag enda hefur frumvarpið ekki bein áhrif á innihald kjarasamnings eða kollvarpar með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggjast á. Með frumvarpinu er frekar verið að treysta forsendur stöðugleikans.
    Sáttatilraunir hafa reynst árangurslausar og fyrirsjáanlegt að engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Brýnt er að bregðast við til að forða tjóni og neikvæðum áhrifum kjaradeilunnar á efnahagslíf þjóðarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæðinu er lagt er bann við verkfalli sem hófst aðfaranótt 22. mars og kveðið á um friðarskyldu. Jafnframt eru aðrar sambærilegar aðgerðir, svo sem verkbann, yfirvinnubann og aðrar aðgerðir sem jafna má til verkfalls af hvaða tagi sem er og sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála milli aðilanna en lögin ákveða, óheimilar. Friðarskyldan varir frá gildistöku laganna og út gildistíma kjarasamnings skv. 2. gr.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um að sá kjarasamningur sem síðast var í gildi milli Samtaka atvinnulífsins f.h. Icelandair hf. skuli áfram halda gildi sínu til 30. nóvember 2010, en þá renna út flestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þessi dagsetning er jafnframt viðmiðunartími stöðugleikasáttmálans. Nýr kjarasamningur, sem gerður væri með samkomulagi milli aðila, gæti breytt þessum tímamörkum, sbr. 3. gr.

Um 3. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að samningsaðilar geti samið um breytingar á gildandi kjarasamningi eða gert nýjan kjarasamning en ekki er heimilt að knýja á um þær breytingar eða samning með verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum sem má líkja við þær og fela í sér brot á friðarskyldu.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.