Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 498. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 875  —  498. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Flm.: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Oddný G. Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Lilja Mósesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Eygló Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Greinargerð.


     Hér á landi hófst leghálskrabbameinsleit árið 1964. Nú eru konur á aldrinum 20–69 ára boðaðar til skoðunar á tveggja ára fresti. Sá árangur sem náðst hefur með þessu skipulega leitarstarfi er ótvíræður og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Krabbameinsfélagsins hefur nýgengið lækkað um 64% og dánartíðnin um 83% á þessu tímabili. Í greinargerð starfshóps sóttvarnalæknis um kostnaðarhagkvæmni bólusetningar frá 12. janúar 2008, sem er fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari, kemur fram að hér á landi greinast að meðaltali um 17 ný tilfelli af leghálskrabbameini og þrjú dauðsföll verða á ári hverju. Meðalaldur kvenna sem greinast með leghálskrabbamein er 45 ár og hafa erlendar rannsóknir sýnt að þróun krabbameinsins eftir HPV-sýkingu getur tekið um 20 ár. Enn fleiri konur greinast þó með forstigsbreytingar og eru framkvæmdir yfir 300 keiluskurðir á ári þar sem hluti legháls er fjarlægður. Forstigsbreytingum í leghálsi er skipt í mismunandi stig eftir því hversu alvarlegar þær teljast. Vægar forstigsbreytingar geta horfið sjálfkrafa án þess að gripið sé til meðferðar. Meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar hverfa aftur á móti síður af sjálfsdáðum og því fara konur ávallt í nánari skoðun með leghálsspeglun. Við speglunina er tekið lítið vefjasýni frá leghálsi en rannsókn þess ákvarðar hvort framkvæmdur er keiluskurður.
    Human papilloma veirur (HPV) eru aðalorsakavaldar krabbameins í leghálsi. Talið er að þær valdi um 70% allra leghálskrabbameina í heiminum, um 73% í Evrópu og um 60% hér á landi. Enn fremur er leghálskrabbamein algengasta tegund krabbameins á eftir brjóstakrabbameini hjá konum á aldrinum 15–44 ára innan Evrópusambandsins. HPV hefur lengi verið þekkt en í upphafi síðustu aldar uppgötvaðist eiginleiki veiranna til að smita. Með aukinni tækniþekkingu hefur HPV nú verið greind í marga stofna og yfir 100 undirflokka eða tegundir. Þær tegundir sem fyrst og fremst valda krabbameini í leghálsi eru HPV 16 og 18. Algengasta sýking HPV er á kynfærum og er kynhegðun fólks helsti áhættuþáttur fyrir smiti, sér í lagi ungur aldur við fyrstu kynmök og fjöldi rekkjunauta. Sýnt hefur verið með rannsókn að hér á landi er meðalaldur íslenskra kvenna 16 ár þegar þær hafa fyrst kynmök. Aftur á móti hafa um 20% stúlkna haft kynmök við 12 ára aldur en fátítt er að stúlkur hafi kynmök yngri en 12 ára.
    Fyrir fáeinum árum komu á markað tvö bóluefni (Gardasil og Cervarix) gegn nokkrum stofnum HPV, þar á meðal stofni 16 og 18. Bóluefnin eru ónæmisvekjandi og örugg og koma í veg fyrir forstigsbreytingar af völdum HPV af gerð 16 og 18. Í fyrrnefndri greinargerð er farið yfir skiptingu kostnaðar við hvert stig í greiningu leghálskrabbameins og kostnað við bólusetningu allra 12 ára stúlkna hér á landi. Kemur þar fram að bólusetning kemur í veg fyrir um 1,7 dauðsföll á ári og vinnur alls um 16,9 lífsgæðavegin lífár. Enn fremur kemur fram að á verðlagi ársins 2006 var árlegur kostnaður við bólusetningu um 47 millj. kr. og sparnaður um 17 millj. kr vegna fækkunar leghálskrabbameins og forstiga þess. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur jafnframt fram að HPV-bólusetning virðist vera kostnaðarhagkvæm miðað við aðstæður hér á landi og út frá ákveðnum forsendum. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að aukaverkanir eru vægar. Í skýrslu ráðgjafahóps heilbrigðisráðherra frá október 2008, sem endurskoðuð var í febrúar 2009, eru bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum hjá ungbörnum settar í forgang og jafnframt lagt til að hafin verði HPV-bólusetning 12 ára stúlkna hér á landi. Það er þó mikilvægt að halda áfram því leitarstarfi sem nú er unnið enda geta aðrir stofnar HPV valdið leghálskrabbameini. Mikilvægt er að hafist verði handa við bólusetningar 12 ára stúlkna hér á landi sem fyrst svo sá ávinningur sem af þeim hlýst geti nýst sem flestum konum hér á landi. Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands hefur staðið sig mjög vel í skipulögðu leitarstarfi og hlotið mikið lof fyrir, bæði hérlendis og erlendis. Í ríflega 40 ár hefur farið hér fram leit að leghálskrabbameini og er skipulögð bólusetning allra 12 ára stúlkna liður í því að þróa og bæta enn frekar forvarnir gegn þessum mikla vágesti sem leghálskrabbamein er.
    Með þingsályktunartillögu þessari ályktar Alþingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára gamalla stúlkna hér á landi fyrir Human papilloma veiru (HPV). Fyrir þinginu liggur jafnframt þingsályktunartillaga um bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum. Í þeirri tillögu felst að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum. Æskilegt væri þessar tillögur væru unnar og ræddar samhliða.



Fylgiskjal.


Þórólfur Guðnason, Kristján Oddsson,
Jakob Jóhannsson, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir:


Bólusetning gegn leghálskrabbameinsvaldandi HPV (Human Papilloma Veirum).
Kostnaðarvirknigreining á Íslandi.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.