Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 508. máls.

Þskj. 895  —  508. mál.Frumvarp til laga

um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Þjóðskrá, sem rekin er sem skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu með fjárreiður sem eru algjörlega aðgreindar frá fjárreiðum ráðuneytisins, sbr. 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, og Fasteignaskrá Íslands, sem er sérstök ríkisstofnun sem starfar á ábyrgð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og undir umsjón þess, sbr. 7. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, skulu sameinast í eina ríkisstofnun er nefnist Þjóðskrá Íslands.

2. gr.

    Við gildistöku laga þessara tekur Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. gr., við eignum og skuldbindingum Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir eða skuldir beggja aðila í fjárlögum fyrir árið 2010.

3. gr.

    Hlutverk stjórnar skv. 9. gr. laga nr. 6/2001 helst óbreytt. Starfssvið stjórnar nær þó ekki til starfsemi Þjóðskrár Íslands sem fellur undir lög nr. 54/1962 eða annarra laga um starfsemi Þjóðskrár.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2010.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 3. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     2.      Lög um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 18. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     3.      Lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     4.      Þinglýsingalög, nr. 39/1978, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: Þjóðskrá Íslands.
     5.      Lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrár Íslands“ í 2. mgr. 17. gr. og orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 4. mgr. 17. gr. laganna kemur: Þjóðskrár Íslands, og: Þjóðskrá Íslands.
     6.      Lög um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 1., 2., 4., 7. og 10. mgr. 2. gr. og orðanna „Fasteignaskrár Íslands“ í 6. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands, og: Þjóðskrár Íslands.
     7.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 4. gr. og orðanna „Fasteignaskrár Íslands“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands, og: Þjóðskrár Íslands.
     8.      Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 2. mgr. 29. gr. og 3. mgr. 35. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     9.      Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 7. gr., 8. gr., 1. og 2. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr., 1. mgr. 16. gr., 18. gr., 1. mgr. og 3.–8. mgr. 19. gr., 20. gr., 1. mgr. 21. gr., 2.–4. mgr. 22. gr., 23. gr., 1. mgr. 24. gr., 1.–3. mgr. 29. gr., 1. og 2. mgr. 30. gr., 2. mgr. 31. gr., 32. gr. og 1. og 2. mgr. 32. gr. a laganna kemur: Þjóðskrá Íslands; og í stað orðanna „Fasteignaskrár Íslands“ í 2. mgr. 6. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr., 2. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 31. gr. og orðsins „Fasteignaskrár“ í 1. mgr. 22. gr. kemur: Þjóðskrár Íslands.
     10.      Lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     11.      Lög um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í b-lið 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     12.      Jarðalög, nr. 81/2004, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     13.      Lög um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009: Í stað orðanna „Fasteignaskrá Íslands“ í a-lið 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     14.      Lög um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 10. gr., 1. og 2. mgr. 11. gr., 2. mgr. 12. gr., 2. og 3. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. og orðsins „Þjóðskrár“ í 5. mgr. 13. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands, og: Þjóðskrár Íslands.
     15.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 1. mgr. 1. gr., 1. mgr. 3. gr., 7. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 8. gr., 1. mgr. 9. gr., 1.–5. mgr. 10. gr., 1.–4. mgr. 11. gr., 12. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. og 2. mgr. 16. gr., 1. mgr. 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr. og 1. og 2. mgr. 21. gr. og orðsins „Þjóðskrár“ í 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 2.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 2. og 4. mgr. 10. gr., 13. gr., 20. gr. og 1. og 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands, og: Þjóðskrár Íslands.
     16.      Lög um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25/1965, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 1. og 6. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     17.      Lög um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskráin“ í 6. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. og orðanna „þjóðskránni“ og „þjóðskráin“ í 11. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     18.      Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 2. mgr. 27. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     19.      Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrár“ í 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 18. gr. og orðsins „Þjóðskrá“ í 2. mgr. 3. gr.,17. gr., 2. mgr. 18. gr., 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: Þjóðskrár Íslands, og: Þjóðskrá Íslands.
     20.      Lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 4. og 6. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     21.      Lög um vegabréf, nr. 136/1998, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 1. og 4. mgr. 2. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. og 2. mgr. 8. gr. og 9. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     22.      Lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 1. mgr. 2. gr., 22. gr., 1. mgr. 24. gr. og 3. mgr. 27. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     23.      Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 2. mgr. og 4. tölul. 5. mgr. 28. gr. og orðsins „Þjóðskrár“ í 2. mgr. og fyrirsögn 28. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands, og: Þjóðskrár Íslands.
     24.      Barnalög, nr. 76/2003, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 2. og 3. mgr. 7. gr., 2. mgr. 18. gr., 5. mgr. 32. gr. og 6. mgr. 34. gr. og orðsins „þjóðskrá“ í 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     25.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrár“ í 3. mgr. 62. gr. laganna kemur: Þjóðskrár Íslands.
     26.      Lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.
     27.      Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007: Í stað orðsins „Þjóðskrá“ í 4. mgr. 8. gr. laganna kemur: Þjóðskrá Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara halda þeir starfsmenn Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sem ráðnir hafa verið með ráðningarsamningi, sbr. 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við sömu lög, störfum sínum og starfskjörum.
    Skrifstofustjóri Þjóðskrár og forstjóri Fasteignaskrár Íslands skulu við gildistöku laga þessara halda störfum sínum og starfskjörum, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996 og ákvæði til bráðabirgða við þau lög. Skulu laun og starfskjör skrifstofustjóra Þjóðskrár vera þau sömu og skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu og taka því breytingum í samræmi við ákvarðanir kjararáðs.
    Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á haustmánuðum 2009 ákvað dómsmála- og mannréttindaráðherra að setja á fót samráðshóp um málefni Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Samráðshópurinn var skipaður Þórunni J. Hafstein, settum ráðuneytisstjóra, Ásdísi Ingibjargardóttur, skrifstofustjóra, Hauki Ingibergssyni, forstjóra Fasteignaskrár Íslands, Jóni Magnússyni, skrifstofustjóra og Skúla Guðmundssyni, skrifstofustjóra Þjóðskrár.
    Með lögum nr. 98/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, sem gildi tóku 1. október 2009 fluttust málefni Fasteignaskrár Íslands frá fjármálaráðuneytinu til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Þar með heyrðu tvær af grunnskrám þjóðarinnar undir ábyrgðarsvið sama ráðuneytis; Fasteignaskrá Íslands sem fer með skráningu allra fasteigna í landinu og Þjóðskrá sem annast m.a. almannaskráningu og útgáfu ýmissa vottorða og skilríkja því viðkomandi. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 98/2009 kom fram að breytingin ætti að stuðla að aukinni samvinnu og samræmingu í skráarvinnslu ríkisins, og fæli jafnframt í sér aukna möguleika á rekstrarhagræði með ýmiss konar samrekstri og samvinnu.
    Dómsmála- og mannréttindaráðherra óskaði eftir því við samráðshópinn í september 2009 að hann tæki til athugunar hvort ávinningur kynni að vera af samþættingu tiltekinna rekstrarþátta. Hópurinn ákvað til að byrja með að skoða starfsemi tölvudeilda. Lagt var til að sameina tölvudeildir Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands og féllst ráðherra á þá tillögu sem kom til framkvæmda 1. janúar 2010.
    Við þessa vinnu komu fram fjölmörg atriði sem bentu til þess að mikið hagræði yrði af fullri sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands og fól ráðherra samráðshópnum að kanna til hlítar hagkvæmni þess. Samhliða þessu var Framkvæmdasýslu ríkisins falið að kanna möguleika og hagkvæmni þess að starfsemi Þjóðskrár flyttist alfarið úr Borgartúni 24 í húsnæði að Borgartúni 21 þar sem Fasteignaskrá Íslands er til húsa. Með samráðshópnum störfuðu nokkrir vinnuhópar sem skipaðir voru starfsmönnum Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands og var þeim falið að fjalla nánar um fjármál, húsnæðismál, skráarhald, stjórnsýslu, stoðþjónustu og öryggismál.
    Í tillögu sinni til ráðherra í lok árs 2009 lagði samráðshópurinn til að starfsemi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands yrði sameinuð í eina stofnun. Könnun samráðshópsins á hagkvæmni þess að sameina starfsemina hafði leitt í ljós að með slíkri sameiningu mætti í senn ná fram fjárhagslegri hagkvæmni og framþróun í skráarhaldi. Helstu rök fyrir sameiningu voru að mati samráðshópsins eftirfarandi:
     *      Sambærileg verkefni. Meginviðfangsefni Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands eru sambærileg, þ.e. skráning, varsla, úrvinnsla og miðlun upplýsinga um grunnþætti þjóðfélagsins. Upplýsingarnar eru nýttar í fjölbreyttri starfsemi í margvíslegum kerfum víðs vegar um samfélagið, er oft miðlað til sömu notenda auk þess sem Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands eru að einhverju marki í samskiptum við sömu aðila innan stjórnkerfisins, svo sem sveitarfélög og sýslumenn.
     *      Skráarhald. Sameining leiðir til samlegðaráhrifa og stærðarhagkvæmni í skráarhaldi auk þess að styrkja stoðir samstarfsverkefnis um staðfangaskrá og samhæfingu fasteignaskrár og þjóðskrár. Þjóðskrá getur nýtt sér þekkingu og reynslu Fasteignaskrár Íslands við uppbyggingu rafrænna gagnagrunna, yfirfærslu gagna á rafrænt form og uppbyggingu skráningarkerfa fyrir dreifstýrða skráningu. Einnig liggja tækifæri í vöruþróun og nýsköpun.
     *      Stoðþjónusta. Umtalsverð samlegðaráhrif eru á sviði stoðþjónustu enda helstu verkefnin hliðstæð, svo sem á sviði starfsmannamála, skjalavörslu, fjármála, innkaupa og rekstrar, sölu og dreifingar gagna, vefs, afgreiðslu, símsvörunar og húsnæðismála. Í þessum rekstrarþáttum virðist í flestum tilfellum mega sameina tvö stoðþjónustukerfi í eitt.
     *      Öryggismál. Starfsemi Fasteignaskrár Íslands hefur hlotið vottun bresku staðlastofnunarinnar (BSI) skv. ÍST/ISO 27001 staðli um öryggi upplýsinga. Þjóðskrá hefur mótað öryggisstefnu í anda þessa staðals en ekki innleitt hann. Gögn sem þjóðskrá byggist á eru grunngögn um íbúa landsins og aðra sem í skránni eru og væri mikill ávinningur ef starfsemi Þjóðskrár félli undir framangreinda öryggisvottun og kostnaður yrði lægri en ef Þjóðskrá mundi innleiða slíka vottun frá grunni auk þess sem fjögurra ára reynsla Fasteignaskrár Íslands mundi auðvelda innleiðingu.
     *      Miðlun og sala upplýsinga. Báðir skráarhaldarar hafa af því tekjur að selja upplýsingar úr skránum. Að frátöldu ríkisframlagi vegna útgáfu og framleiðslu vegabréfa hefur Þjóðskrá um . hluta tekna sinna af slíkri sölu og Fasteignaskrá Íslands fjármagnar starfsemi sína að fullu með sölu þjónustu og upplýsinga. Við sameiningu skapast möguleikar t.d. til að styrkja þjónustu- og söluþáttinn enn frekar. Ætla má að þetta gæti einnig orðið til hagsbóta fyrir notendur, sérstaklega þá sem kaupa gögn frá báðum aðilum. Sameinaður rekstur skránna gæti leitt til þess að eigin tekjur stæðu undir öllum útgjöldum skráarhaldsins.
    Í tillögu samráðshópsins var ekki gert ráð fyrir að útgjöld lækkuðu vegna sameiningarinnar en greiningar framangreindra vinnuhópa leiddu í ljós að ætla má að töluverðir möguleikar séu á lækkun útgjalda til lengri tíma litið. Þó mun sameining hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér á fyrsta ári sameiningar vegna húsnæðis, aðstöðu og flutninga. Í 3–4 ár þar á eftir mun kostnaður ekki lækka umtalsvert frá því sem nú er verði ráðist í framþróun í starfseminni, svo sem innleiðingu öryggisvottunar Þjóðskrár, yfirfærslu pappírsgagna Þjóðskrár í rafrænt form og hönnunar- og forritunarvinnu við að gera kerfi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sambærileg. Eftir að þessi verkefni eru að baki skapast forsendur til töluverðrar kostnaðarlækkunar og eftir atvikum aukinnar tekjuöflunar á grundvelli vöruþróunar.
    Samráðshópurinn lagði ekki mat á hver fjárhagslegur ávinningur gæti orðið en það fer m.a. eftir því að hve miklu marki lögð verði áhersla á að ná fram faglegum ávinningi af sameiningu. Hópurinn lagði til að það yrði sett sem markmið í sameiningarferlinu að ekki yrði beinn kostnaðarauki af breytingunum heldur yrði eftir fremsta megni leitast við að sparnaður og samlegðaráhrif við sameiningu fjármagni tímabundinn kostnað við breytingar. Eins og segir hér að framan má ætla að breytingaferli geti staðið í 3–4 ár en það var mat samráðshópsins að á þeim tíma gæti náðst fram verulegur faglegur ávinningur innan fjárhagsramma sameinaðrar stofnunar. Einnig auðveldar sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands þeim að mæta og bregðast við fyrirsjáanlegri hagræðingarkröfu næstu ára. Sameinuð Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands getur orðið grunnur að nýrri stofnun er taki við rekstri fleiri grunnskráa ríkisins og samhliða mætti færa stjórnsýsluverkefni og ýmis verkefni á sviði skráningar og afgreiðslu til sýslumannsembætta á landsbyggðinni. Frekari þróun þjóðskrárgagnagrunnsins á rafrænt form mun veita möguleika á slíkum flutningi verkefna. Í þessu samhengi má einnig geta þess að Fasteignaskrá Íslands starfrækir útibú á Akureyri og hefur falið því aukin verkefni á undanförnum árum.
    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 6/2001 skal stjórn Fasteignaskrár Íslands móta starf og innra skipulag stofnunarinnar, hafa eftirlit með starfsemi hennar og gera tillögur að gjaldskrá stofnunarinnar. Lagt er til að hlutverk stjórnarinnar haldist óbreytt og taki því ekki til þeirra verkefna sem lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, eða önnur löggjöf er tengist Þjóðskrá kveður á um.
    Af frumvarpi þessu leiðir að Þjóðskrá verður ekki lengur skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu með sjálfstæðan fjárhag heldur hluti af nýrri stofnun. Þar sem Þjóðskrá er skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu eru ákvarðanir hennar í stjórnsýslumálum fullnaðarákvarðanir en með því að starfsemin verði hluti af stofnun verða ákvarðanir kæranlegar til ráðuneytisins. Slík breyting yrði í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttarins um tvö kærustig.
    Við sameiningu þá sem lögð er til í þessu frumvarpi er miðað við að réttindi og kjör starfsmanna Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands haldist óbreytt og er í því sambandi höfð hliðsjón af ákvæðum til bráðabirgða í lögum um Hagstofu Íslands og opinbera skýrslugerð, nr. 163/2007, sem m.a. fól í sér breytingu á Hagstofu Íslands úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands í nýja stofnun sem nefnist Þjóðskrá Íslands. Þjóðskrá var gerð að skrifstofu í dómsmálaráðuneytinu með lögum nr. 51/2006, um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962. Fasteignaskrá Íslands er ríkisstofnun og starfar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 6/2001 skal stjórn Fasteignaskrár Íslands móta starf og innra skipulag stofnunarinnar, hafa eftirlit með starfsemi hennar og gera tillögur að gjaldskrá stofnunarinnar. Í stjórn sitja fulltrúar þeirra aðila sem greiða hluta rekstrarkostnaðar stofnunarinnar, þ.e. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fjármálafyrirtækja, en auk þeirra er einn skipaður án tilnefningar. Lagt er til að hlutverk stjórnarinnar haldist óbreytt og taki því ekki til laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, eða annarrar löggjafar er tengist Þjóðskrá.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna nýs heitis stofnunarinnar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara verður til ný sjálfstæð ríkisstofnun. Sú aðgerð hefur ekki í för með sér breytingar á verkefnum starfsmanna. Réttarstaða þeirra fer eftir því hvort þeir hafa verið skipaðir embættismenn, eins og við á um skrifstofustjóra Þjóðskrár og forstjóra Fasteignaskrár Íslands, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eða ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Er við yfirfærslu starfsmanna til hinnar nýju stofnunar horft til þess sem gert var þegar Hagstofu Íslands var breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 163/2007. Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem ráðnir hafa verið með gagnkvæmum uppsagnarfresti haldi störfum sínum og óbreyttum starfskjörum. Þannig verður aðild að lífeyrissjóði óbreytt og laun fara eftir þeim kjarasamningum sem við eiga. Í þessu felst enn fremur að núverandi starfsmenn Þjóðskrár geta, meðan þeir starfa hjá Þjóðskrá Íslands, kosið að taka áfram laun samkvæmt kjarasamningum þeirra stéttarfélaga sem fram til þessa hafa samið um starfskjör þeirra. Hjá Þjóðskrá er starfsmaður sem á sínum tíma var ráðinn ótímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests. Af 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða leiðir að nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um að hann skuli með sama hætti halda starfi sínu. Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir að rof verði á ráðningu starfsmanna og að sérstaklega þurfi að bjóða þeim störf hjá Þjóðskrá Íslands. Með þeim hætti er leitast við að tryggja að breytingin hafi sem minnsta röskun í för með sér.
    Hvað viðkemur starfi skrifstofustjóra Þjóðskrár, sem er skipaður ótímabundið í embætti, er í 2. mgr. mælt fyrir um að hann skuli halda starfi sínu. Lagt er til að núverandi skrifstofustjóra verði falið sambærilegt stjórnunarstarf hjá Þjóðskrá Íslands samkvæmt lögunum án breytinga á starfskjörum, þ.e. á þeim kjörum sem skrifstofustjórar við Stjórnarráð Íslands njóta. Í því felst enn fremur að hann telst áfram skipaður ótímabundið í embætti og skal njóta sömu launa og starfskjara og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands. Laun hans skulu þ.a.l. taka breytingum í samræmi við ákvarðanir kjararáðs þegar laun skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands eru ákveðin af kjararáði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2006. Er þá gert ráð fyrir að eftirmaður hans eða nýir stjórnendur, sem ráðnir verða í tímans rás í stað núverandi skrifstofustjóra, verði ráðnir til starfa á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings.
    Að sama skapi er gert ráð fyrir að forstjóri Fasteignaskrár Íslands njóti óbreyttra starfskjara og honum falið sambærilegt starf þannig að hann taki við starfi forstjóra Þjóðskrár Íslands það sem eftir er tímabundins skipunartíma hans. Um laun hans og önnur starfskjör fer því eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2006.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sameina starfsemi Þjóðskrár, sem nú er skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, og Fasteignaskrá Íslands, sem er stofnun sem starfar á ábyrgð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og undir umsjón þess.
    Gert er ráð fyrir því að Þjóðskrá flytjist í Borgartún 21 þar sem Fasteignaskrá Íslands er til húsa. Vegna þessa flutnings er gert ráð fyrir 26 m.kr. kostnaði vegna breytinga á húsnæði og mun dómsmálaráðuneytið veita fé af safnlið ráðuneytisins til að mæta 17 m.kr. af þeim kostnaði en sameinuð stofnun beri það sem upp á vantar. Annar kostnaður vegna aðstöðu og flutninga er metinn minni háttar og mun verða borinn af fjárveitingum til stofnananna tveggja. Ekki hefur verið unnin sérstök úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna tveggja eða rekstraráætlun gerð fyrir sameiginlega stofnun á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Gert er þó ráð fyrir talsverðri hagræðingu í rekstri vegna þessarar sameiningar þannig að hægt verði að mæta væntanlegum hagræðingarkröfum á næsta og jafnvel þarnæsta ári ef til þess kemur. Áætlað er að ráðist verði í framþróun í starfseminni svo sem innleiðingu öryggisvottunar Þjóðskrár, yfirfærslu pappírsgagna Þjóðskrár í rafrænt form og hönnunar- og forritunarvinnu við að gera kerfi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sambærileg. Ráðgert er að þessar aðgerðir geti tekið 3–4 ár og að þeim tíma liðnum skapist forsendur til töluverðrar kostnaðarlækkunar og eftir atvikum aukinnar tekjuöflunar á grundvelli vöruþróunar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er þannig gert ráð fyrir að sameinuð stofnun verði betur í stakk búin til að mæta rúmlega 36 m.kr. hagræðingarkröfu sem gerð er í fjárlögum 2010 auk þess að verða betur kleift að takast á við frekari hagræðingu ársins 2011 af um 1 ma.kr. veltu beggja stofnana.