Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 523. máls.

Þskj. 912  —  523. mál.Frumvarp til laga

um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972,
með áorðnum breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Opinber skjalasöfn, almenningsbókasöfn, háskólabókasöfn og önnur bókasöfn sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni, önnur opinber söfn og söfn sem falla undir safnalög hafa heimild til að gera eintök af:
     1.      verkum í öryggis- og varðveisluskyni,
     2.      verkum sem í vantar hluta, sem telst minni hluti verksins í heild, og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda; tekur heimild til gerðar eintaka samkvæmt þessu ákvæði einungis til þess hluta verka sem vantar í eintak viðkomandi safns,
     3.      verkum sem safni er skylt, lögum samkvæmt, að eiga eintök af á safni sínu og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda,
     4.      verkum þegar frumrit þeirra eru of viðkvæm til útláns og eru ófáanleg á almennum markaði og hjá útgefanda,
    Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. er bundin við að eintökin séu einungis til notkunar í starfsemi safnanna og að eintakagerðin sé ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Söfnum eru þó heimil útlán á eintökum sem afrituð hafa verið skv. 2.–4. tölul. 1. mgr.
    Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. tekur ekki til forrita á stafrænu formi nema um tölvuleiki sé að ræða.

2. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, svohljóðandi:
    Þeim stofnunum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 12. gr. er heimilt að veita einstaklingum aðgang í rannsóknarskyni eða vegna náms að birtum verkum á þar til gerðum búnaði til notkunar á athafnasvæði þeirra.

3. gr.

    Orðið „íslenska“ í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. a laganna fellur brott.

    4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
     b.      Orðin „og heimilar ekki dreifingu eintaka með útláni eða leigu til almennings“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      4. mgr. verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.

5. gr.

    Á eftir orðunum „1. mgr. 11. gr.“ í 3. mgr. 45. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

6. gr.

    Á eftir orðunum „1. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. 46. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

7. gr.

    Á eftir orðinu „ákvæðum“ í 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

8. gr.

    Á eftir orðunum „að því er kennslu varðar“ í 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. c laganna kemur: 19. gr.

9. gr.

    Á eftir 53. gr. laganna kemur ný grein, 53. gr. a, svohljóðandi:
    Mennta- og menningarmálaráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar þeirra samtaka sem nefnd eru í 6. mgr. 11. gr., 1. mgr. 15. gr. a, 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 23. gr. a, 2. mgr. 25. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 1. mgr. 45. gr. a og 2. mgr. 47. gr.

10. gr.

    Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir hlutdeild í brotum skal refsa á sama hátt.

11. gr.

    55. gr. laganna orðast svo:
    Nú hafa eintök af verkum verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi, þannig að í bága fer við ákvæði laga þessara eða fyrirmæli, sem sett hafa verið skv. 2. mgr. 31. gr., og má þá ákveða í dómi að eintökin séu afhent brotaþola, eyðilögð, fjarlægð af markaði eða tekin úr dreifingu, varanlega eða tímabundið, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota.
    Hið sama gildir um efni, áhöld og aðra muni sem varða undirbúning eða framkvæmd brots.
    Ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr. skulu eiga sér stað á kostnað hins brotlega og án endurgjalds af hálfu brotaþola. Liggi til þess alveg sérstakar ástæður er þó heimilt að kveða á um í dómi að brotaþoli skuli greiða hæfilegt endurgjald.
    Við ákvörðun dómara skv. 1. og 2. mgr. skal þess gætt að samræmi sé milli umfangs brots og þeirra ráðstafana sem kveðið er á um jafnframt því sem tekið skal hæfilegt tillit til hagsmuna þriðja manns, þar á meðal í þeim tilvikum þegar eigandi munar veit ekki um brot.

12. gr.

    56. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem hefur brotið gegn lögum þessum með ásetningi eða gáleysi skal greiða bætur vegna brotsins. Þótt brotið sé framið í góðri trú er heimilt að ákveða þeim sem orðið hefur fyrir tjóni bætur úr hendi hins brotlega.
    Við ákvörðun bóta skv. 1. mgr. skal ekki eingöngu miða við það beina fjárhagstjón sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, heldur ber auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Verði ekki færðar sönnur á tjón brotaþola eða hagnað hins brotlega skal ákveða bætur að álitum hverju sinni.
    Dæma má höfundi eða öðrum rétthafa bætur fyrir miska vegna brots á lögum þessum.

13. gr.

    Á eftir 59. gr. koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (59. gr. a.)
    Þau samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 23. gr. og 23. gr. a, geta fengið lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka, sem löggildingin nær til og verndar njóta samkvæmt lögum þessum, án þess að hafa fengið umboð til þess frá höfundum eða öðrum rétthöfum verkanna, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.
    Um lögbann samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

    b. (59. gr. b.)
    Í dómsmáli vegna brots á lögum þessum getur dómari að kröfu málsaðila lagt fyrir gagnaðila eða þriðja aðila að láta í té upplýsingar, sem hann hefur aðgang að, um vörur eða þjónustu sem kann að fela í sér brot á lögunum. Þetta á þó aðeins við ef sá sem krafan beinist að:
       1.      hefur í atvinnuskyni haft umráð yfir vörunum,
       2.      hefur í atvinnuskyni notað þjónustuna,
       3.      hefur veitt þjónustu sem notuð er til athafna er kunna að fela í sér brot á lögunum,
       4.      hefur veitt aðstoð við að framleiða eða dreifa vörunni eða við að veita þjónustuna.
    Upplýsingar þær sem um ræðir í 1. mgr. ná til:
          1.      nafns og heimilisfangs framleiðenda, dreifingaraðila, þjónustuveitanda og annarra fyrrverandi eigenda vara og þjónustu og til heildsala og smásala sem vörurnar voru ætlaðar.
          2.      magns framleiddra, afhentra, móttekinna eða pantaðra vara eða þjónustu og söluandvirði vara eða þjónustu.
    Dómara ber að synja kröfu skv. 1. mgr. ef ætla má að það að láta upplýsingarnar í té muni valda þeim sem krafan beinist að óhæfilegu tjóni, að teknu tilliti til þess hve mikið er í húfi fyrir þann sem kröfuna gerir til að fá upplýsingarnar.
    Ekki er skylt að láta í té upplýsingar samkvæmt þessari grein ef sá sem krafa beinist að er undanþeginn vitnaskyldu samkvæmt almennum réttarfarsreglum.

    c. (59. gr. c.)
    Í dómi þar sem kveðið er á um brot á lögum þessum eða ráðstafanir skv. 55. gr. má að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Birtingin skal fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt má teljast.
    Hinn brotlegi skal annast og kosta birtinguna.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

15. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 9/2006 falla brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frá árinu 1991 hafa menntamálaráðherrar í þrígang sagt á Alþingi að tímabært væri að hefja heildarendurskoðun höfundalaga í takt við þróun tækni og samfélags. Þá hefur komið fram í nefndarálitum menntamálanefndar Alþingis að brýnt væri að hefja heildarendurskoðun höfundalaga. Með frumvarpi þessu er hafinn fyrsti áfanginn í heildarendurskoðun höfundalaga en gert er ráð fyrir að hún fari fram á næstu þremur árum í jafnmörgum áföngum. Lokaáfangi endurskoðunar höfundalaga verður svo heildarfrumvarp til nýrra höfundalaga sem ráðgert er að komi fram árið 2012.
    Frumvarp þetta er byggt á tillögum höfundaréttarnefndar og var tekið tillit til umsagna um drög að frumvarpinu, m.a. frá Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi, áður en gengið var frá endanlegum frumvarpstexta og athugasemdum með frumvarpinu. Varðar frumvarpið eftirtaldar tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins:
          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu 2001/29/EB,
          tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB og
          tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB.
    Höfundaréttarnefnd er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál skv. 58. gr. höfundalaga. Í nefndinni eiga sæti sjö sérfróðir menn á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn auk tveggja varamanna. Nefndina skipa Rán Tryggvadóttir, formaður, Eiríkur Tómasson lagaprófessor, Erla S. Árnadóttir hrl., Gunnar Guðmundsson hdl., Knútur Bruun hrl., Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. og Tómas Þorvaldsson hrl., og varamenn eru Hjördís Halldórsdóttir hdl. og Margrét Sigurðardóttir lögfræðingur.
    Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
          Lagðar eru til breytingar á 12. gr. höfundalaga um takmarkanir á höfundarétti til hagsbóta fyrir bóka-, skjala- og listasöfn vegna eintakagerðar í öryggis- og varðveisluskyni, gerðar sérstakra afnotaeintaka þar sem frumeintök þykja of viðkvæm til útláns o.fl.
          Í nýrri 12. gr. a er lagt til að kveðið verði á um heimildir safna til að veita aðgang að verkum á athafnasvæði sínu með þar til gerðum búnaði.
          Lagt er til að rýmkaðar verði takmarkanir á höfundarétti skv. 19. gr. í þágu notenda sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál og þannig aflétt takmörkunum á eintakagerð og dreifingu verndaðs efnis til slíkra aðila.
          Lagt er til að samningsumboð rétthafasamtakanna vegna ljósritunar, Fjölís, skv. 15. gr. a verði ekki bundið við íslenska höfunda eingöngu.
          Lagt er til að tekið verði upp ákvæði í 54. gr. höfundalaga um refsingu fyrir hlutdeild í höfundaréttarbrotum.
          Lagt er til að viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á samningsumboði og fyrirsvari höfundaréttarsamtaka fari fram eftir sérstökum málsmeðferðarreglum þannig að uppfyllt séu skilyrði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB.
          Lagt er til að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB er varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna er tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundaréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu.
          Lagt er til að mælt verði fyrir um málsaðild samtaka skv. 23. gr. og 23. gr. a höfundalaga vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa.
          Lagt er til að innleidd verði sérstaklega í höfundalög 3. mgr. 8. gr. í tilskipun 2001/29/EB um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem þátt eiga í höfundaréttarbrotum á netinu en reynslan hefur sýnt að úrræði V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, sbr. IV. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, gagnist ekki nægilega, ein sér, til að sporna við höfundaréttarbrotum á netinu.
    Opinber skjalasöfn, almenningsbókasöfn, háskólabókasöfn og önnur söfn sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni gegna mikilvægu hlutverki menningar og miðlunar í þágu skóla- og vísindasamfélagsins og almennings. Skv. 12. gr. höfundalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 9/2006, er mennta- og menningarmálaráðherra ætlað að setja í reglugerð reglur um heimildir framangreindra stofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni eftir nánari skilgreiningu sem kveða skal á um í reglugerðinni, enda fari slík eintakagerð ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Í eldri útgáfu lagaákvæðisins, 12. gr. laga nr. 73/1972, var einungis um heimild til útgáfu reglugerðar að ræða. Reglugerð um nánari skilyrði fyrir heimild bóka- og skjalasafna til eintakagerðar eftir verkum til notkunar í eigin starfsemi hefur þrátt fyrir þetta aldrei verið sett. Á þeim tíma sem liðið hefur frá gildistöku laga nr. 73/1972 hefur því ríkt réttaróvissa um heimildir og skilyrði fyrir eintakagerð bóka- og skjalasafna til notkunar í eigin starfsemi. Fyrir söfnin hefur þetta verið bagalegt þar sem á þeim hafa hvílt skyldur samkvæmt öðrum lögum sem hafa m.a. falið það í sér að eintakagerð getur verið óhjákvæmilegur liður í því að veita lögbundna þjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að í stað reglugerðarheimildar í gildandi 12. gr. höfundalaga komi ný 12. gr. þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir eintakagerð í öryggis- og varðveisluskyni, gerð sérstakra afnotaeintaka þar sem frumeintök þykja of viðkvæm til útláns o.fl. Þá er mælt fyrir nýrri 12. gr. a er fjallar um heimildir safna til að veita aðgang að verkum á athafnasvæði sínu með þar til gerðum búnaði.
    Samkvæmt 19. gr. gildandi höfundalaga njóta blindir, sjónskertir, heyrnarlausir, lestrarhamlaðir og aðrir þeir sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál sérstakra undantekninga gagnvart einkaréttindum höfunda, flytjenda og framleiðenda. Þannig er skv. 1. mgr. 19. gr. heimilt í þágu framangreindra aðila að gera eintök og dreifa þeim til viðkomandi, að því tilskildu að eintakagerðin og dreifingin fari ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Í 2. og 3. mgr. 19. gr. eru sett frekari skilyrði fyrir beitingu framangreindrar heimildar í 1. mgr. sömu greinar. Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði 3. mgr. falli brott og hluti af skilyrði 2. mgr. 19. gr. Einnig er lagt til að orðalaginu „aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál“ verði breytt í „aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar“. Orðalagsbreytingin er samkvæmt tillögu Blindrabókasafns Íslands og vísar til orðalags í 1. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009. Af ákvæðum tilskipunarinnar leiðir að aðildarríkjum EES-svæðisins ber að yfirfara málsmeðferð við opinberar leyfisveitingar og ryðja úr vegi ýmsum skilyrðum og hindrunum fyrir þjónustufrelsi á innri markaðinum. Tilskipunin sjálf verður innleidd í íslensk lög með sérstöku lagafrumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um þjónustuviðskipti en jafnframt var lagt fram samhliða því frumvarpi frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum. Vegna innleiðingar tilskipunarinnar í íslensk lög er talin ástæða til að gera breytingar á fyrirkomulagi við viðurkenningu þeirra höfundaréttarsamtaka sem fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna og taka við greiðslum fyrir þeirra hönd í skjóli svonefnds heildarleyfis (samningskvöð), með þeim réttaráhrifum að utanfélagsmenn verða bundnir við ráðstafanir samtakanna. Ákveðið var að mæla fyrir um slíkar breytingar í frumvarpi þessu fremur en að fella þær inn í frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra.
    Samkvæmt 2. tölul. 1. gr. bókunar 28 við EES-samninginn eru EFTA-ríkin skuldbundin til að aðlaga hugverkalöggjöf sína meginreglunni um frjáls viðskipti með vörur og þjónustu og því stigi í verndun hugverkaréttinda sem náðst hefur í lögum sambandsins, þar á meðal um fullnustu þessara réttinda. Síðastnefnd tilvísun hefur þó ekki verið skilin svo að hún taki til þess hvernig úrræði til fullnustu hugverkaréttinda skuli framkvæmd, heldur hefur fullnusta hugverkaréttinda verið á forræði hvers EES-EFTA-ríkis. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB hefur mestmegnis að geyma réttarfarsreglur um málsaðild, sönnunargögn og ýmsar bráðabirgðaaðgerðir til að koma í veg fyrir brot gegn hugverkaréttindum. Af þessum sökum taldi undirnefnd fastanefndar EES-EFTA-ríkjanna að ákvæði tilskipunarinnar væru ekki þess eðlis að hún yrði tekin upp í EES-samninginn, sbr. bókun nefndarinnar frá 21. júní 2005. Þótt tilskipunin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn er óhætt að segja að hún hafi haft áhrif á lagasetningu hér á landi. Uppruna tilskipunarinnar má að stórum hluta rekja til svonefnds TRIPS-samnings sem er viðauki við samning um Alþjóðaviðskiptastofnunina og lýtur að vernd hugverkaréttinda í viðskiptum. Hinn 30. desember 1994 var fullgiltur af Íslands hálfu samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization, WTO) sem gerður var í Marakess 15. apríl 1994. Samningurinn öðlaðist gildi 1. janúar 1995. Í 1. viðauka C með samningnum er að finna samning um hugverkarétt í viðskiptum, en sá viðauki er fyrrnefndur TRIPS-samningur (Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights). Marakess-samningurinn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar ásamt viðaukum var birtur sem fylgiskjal með auglýsingu utanríkisráðuneytisins nr. 62 frá 29. desember 1995 í C-deild Stjórnartíðinda. Í II. hluta TRIPS-samningsins er m.a. fjallað um höfundarétt og skyld réttindi. Samningurinn leggur tilteknar skyldur á aðildarríkin til að tryggja vernd hugverkaréttinda en um þær er fjallað í III. hluta samningsins sem fjallar um fullnustu hugverkaréttinda, þ.e. ákvæði um almennar skyldur (41. gr.), málsmeðferð og úrræði í einkamálum og innan stjórnsýslunnar (42.–49. gr.), bráðabirgðaráðstafanir (50. gr.), sérstakar kröfur í tengslum við landamæraeftirlit (51.–60. gr.) og málsmeðferð í refsimálum (61. gr.), ásamt ákvæðum sem varða öflun sönnunargagna vegna brota gegn hugverkaréttindum í 41. gr. og 50. gr. Ákvæði III. kafla TRIPS-samningsins hafa verið lögfest hér á landi með lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum, nr. 53/2006. Tilskipun 2004/48/EB gengur í ýmsum atriðum lengra en TRIPS-samningurinn (inniheldur svonefnd TRIPS-plús ákvæði) og þar með lög nr. 53/2006. Meðal slíkra ákvæða eru heimild til haldlagningar skjala er varða réttarbrot, ásamt þeim ólögmætu eintökum sem haldlögð eru (7. gr.), réttur rétthafa til að fá upplýsingar um dreifileiðir hinna ólögmætu hluta (8. gr.), réttur til að haldleggja innstæður á bankareikningum við tilteknar aðstæður (9. gr.), ásamt reglum um að málskostnaður falli á varnaraðila ef hann tapar máli (14. gr.). Þrátt fyrir að Íslandi sé ekki skylt að innleiða þau ákvæði tilskipunarinnar sem ganga lengra en ákvæði TRIPS-samningsins þykir þó rétt að líta til tilskipunarinnar við endurskoðun reglna um réttarfarsúrræði vegna höfundaréttarbrota þannig að tryggt sé lagasamræmi við höfundalög helstu nágrannaþjóða Íslands í þessum efnum, einkum samræmi við norræn höfundalög. Í frumvarpi þessu er því lagt til að tekin verði upp í höfundalög ákvæði sem eru sambærileg við 8. gr., 10. gr. og 15. gr. tilskipunar 2004/48/EB (11. gr., 13. gr. b og 13. gr. c í frumvarpinu).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með lögum nr. 9/2006 var lögfest nýtt ákvæði 12. gr. höfundalaga sem kvað á um að setja skyldi reglugerð um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerðinni, enda yrði það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Slík reglugerð hefur þó ekki verið sett og að mati höfundaréttarnefndar þótti eðlilegra að breyta ákvæði 12. gr. höfundalaga á þann veg að heimildir safna til eintakagerðar skyldu bundnar í lög en ekki einungis kveðið á um þær í reglugerð. Er það gert að fyrirmynd danskra höfundalaga.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að ákveðnum stofnunum sem taldar eru upp í ákvæðinu sé heimiluð tiltekin eintakagerð í sérstökum tilgangi. Gæta þarf að því að eintakagerð samkvæmt þessu ákvæði má ekki vera í samkeppni við fjárhagslega hagsmuni rétthafa höfundaréttar og má ekki koma í stað eðlilegra innkaupa safna á verkum til að sinna eftirspurn notenda. Heimildin til eintakagerðar sem lögð er til í ákvæðinu er undantekning og skal túlkast þröngt eins og önnur undantekningarákvæði í lögum. Í ákvæðinu er lagt til að heimildin til sérstakrar eintakagerðar taki til safna, þ.m.t. listasafna, skjalasafna, almenningsbókasafna, háskólabókasafna og annarra vísinda- og fagbókasafna, sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni eða eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Í 12. gr. höfundalaga, eins og greinin hljóðar nú, er jafnframt gert ráð fyrir að eftirgerðarheimildin nái til menntastofnana en í frumvarpi þessu eru menntastofnanir undanskildar. Er það gert til að undirstrika að hin sérstaka heimild ákvæðisins til eintakagerðar skal ekki gilda í almennri starfsemi menntastofnana en getur þó gilt um þau söfn sem starfa innan tiltekinna menntastofnana. Heimildin á þá einungis við um bókasöfn innan menntastofnana en nær ekki til annarrar starfsemi þeirra. Til samanburðar eru menntastofnanir ekki sérstaklega taldar upp meðal aðila sem nýtt geta sér undanþágur 16. gr. dönsku höfundalaganna, sem er m.a. fyrirmynd frumvarps þessa, heldur er undanþágan í þeim lögum bundin við skjala- og bókasöfn sem njóta opinberra styrkja sem og safna sem njóta viðurkenningar samkvæmt safnalögum. Er lagt til að þetta fyrirkomulag verði tekið upp í íslensku lögunum, þ.e. að heimildin til eintakagerðar samkvæmt ákvæði þessu taki til starfsemi bókasafna tiltekinna menntastofnana, en ekki til eintakagerðar vegna almennra starfa menntastofnana. Annar skilningur væri óeðlilega víðtækur og í ósamræmi við 5. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Ákvæði 12. gr. höfundalaga um heimild safna til eintakagerðar á grundvelli reglugerðar tekur bæði til hliðrænnar og stafrænnar eintakagerðar. Sama gildir um sambærileg ákvæði í öðrum norrænum höfundalögum og er ekki lögð til breyting þar á. Þetta er í samræmi við c- lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29. Hliðræn eintakagerð er t.d. ljósritun prentaðra verka og upptaka verka úr hljóðvarpi og sjónvarpi á hliðræn tón- og myndbönd. Stafræn eintakagerð tekur bæði til þess þegar hliðræn verk eru færð í stafrænt form, t.d. skönnun á prentaðri grein í rafrænan gagnagrunn, og þess þegar stafrænt verk er afritað og sett á netið, innranet, rafrænan gagnabanka eða hlaðið á einstaklingstölvu, t.d. telst það að senda skjal sem viðhengi með tölvupósti vera sérstök stafræn eintakagerð. Þó að heimildin taki bæði til hliðrænnar og stafrænnar eintakagerðar er þó ekki sjálfgefið að á grundvelli hennar megi gera eintök af t.d. hliðrænum eintökum (t.d. prentuðu máli eða segulbandsupptökum) í stafrænu formi nema sérstök heimild sé veitt til þess. Þannig er tekið fram í reglugerð með norsku höfundalögunum 1 að meginreglan sé sú að eintakagerð sem fram fer á grundvelli undanþágu 16. gr. norsku höfundalaganna sé á sama formi og frumrit, þ.e. af hliðrænum eintökum má eingöngu taka hliðræn eintök og öfugt, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þessi regla gildir ekki um útprentun af stafrænu efni. 2 Í Danmörku og Svíþjóð er ekki sérstaklega tiltekið hvenær skuli nota hliðræna tækni og hvenær stafræna. Fordæmi þeirra er fylgt að þessu leyti með þeim skilningi að eintakagerð skuli að meginstefnu vera á sama formi og frumrit nema sérstakar aðstæður komi til. Ákvæðið geymir tæmandi talningu á því til hvaða tilvika og í hvaða tilgangi undanþáguheimild bókasafna og sambærilegra stofnana geti verið. Eins og áður segir skulu undanþáguheimildir laga túlkast þröngt og gildir sú meginregla lögskýringa einnig um ákvæði 1. gr. frumvarps þessa.
    Um 1. mgr.
    Hér er sett fram skilgreining á þeim söfnum sem falla undir ákvæðið og verkum sem heimild til eintakagerðar nær til.
    Um 2. mgr.
    Hér er undirstrikað að heimildin til eintakagerðar skv. 1. mgr. sé bundin við að hún sé ekki í fjárhagslegum tilgangi og sé til eintakagerðar vegna notkunar í starfsemi viðkomandi safna. Heimilt er þó að lána út eintök sem gerð hafa verið skv. 2.–4. tölul. 1. mgr. Miðað er við að slíkt sé eingöngu gert í sérstökum tilvikum. Útlán taka ekki til stafrænna eintaka heldur má eingöngu lána út eintök í hliðrænu formi sem í flestum tilvikum eru þá ljósrit eða útprent.
    Um 3. mgr.
    Tölvuleikir falla undir forrit í tæknilegum skilningi í höfundalögum. Tölvuleikir hafa annan tilgang en forrit og uppfylla skilyrðin um að vera sjálfstæð listræn verk sem heimilt þarf að vera að gera eintök af í varðveisluskyni á söfnum á sama hátt og önnur bókmennta- og listaverk sem falla undir höfundarétt. Af þeim sökum þykir rétt að tiltaka að bannið við eintakagerð forrita taki ekki til þeirra. Hvað varðar önnur ákvæði höfundalaga um forrit þá gilda þau áfram um tölvuleiki.

Um 2. gr.

    Mikilvægt er að söfn sem falla undir 1. mgr. 1. gr. samkvæmt frumvarpi þessu (sem verður 1. mgr. 12. gr. laganna) fái heimild til að veita aðgang að verkum í eigu sinni á þar til gerðum búnaði á athafnasvæði sínu vegna rannsókna eða einkanota notenda í samræmi við heimildarákvæði n-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29. Með þar til gerðum búnaði á athafnasvæði safna er m.a. átt við búnað til að skoða verk á stafrænu formi. Með því er þeim gert kleift að einfalda aðgang að stafrænu efni fyrir viðkomandi notendur. Ekki verður talið að um sé að ræða óeðlilega takmörkun á rétti höfunda þar sem eingöngu er um að ræða einfaldara aðgengi að efni sem safnið á fyrir á stafrænu formi og má veita aðgang að. Þó þarf að gæta þess að aðgengið sé bundið við athafnasvæði viðkomandi stofnanna og að notendur geti ekki gert stafræn eintök.

Um 3. gr.

    Breytingin felur í sér að heildarleyfi (samningskvöð) skv. 15. gr. a tekur til allra höfunda, erlendra sem innlendra, þannig að höfundaréttarsamtök sem heimilt er að innheimta fyrir fjölföldun geta gert það fyrir alla höfunda. Er þessi breyting lögð til til þess að samræma ákvæðið öðrum ákvæðum höfundalaga um heildarleyfi og til samræmis við önnur norræn höfundalög.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. höfundalaga nr. 73/1972 er heimil eintakagerð og dreifing þeirra eintaka sem gerð hafa verið til sérstakra nota fyrir þá sem vegna fötlunar geta ekki lesið prentað mál svo framarlega sem það er ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Tekur dreifingarheimildin einnig til dreifingar slíkra eintaka með rafrænum hætti um netið. Hins vegar er takmörkun á dreifingarheimildinni að finna í gildandi 2. mgr. 19. gr. því þar segir að ekki sé heimilt að dreifa eintökum, sem gerð eru skv. heimild 1. mgr., með útláni eða leigu. Engar skýringar er að finna á þeirri víðtæku takmörkun á dreifingarrétti slíkra eintaka í lögskýringargögnum heldur virðist þar þvert á móti gert ráð fyrir slíkri leigu og útláni. Er því lagt til að þessu verði breytt enda ekki rök fyrir að banna útlán eintaka sem gerð eru á grundvelli ákvæðis 1. mgr. Ákvæði 3. mgr. 19. gr. höfundalaga er samhljóða 3. mgr. 17. gr. danskra höfundalaganna, fram að lagabreytingu þar í landi í lok árs 2004. Þar er nú kveðið á um að sá sem eignast hefur eintak sem gert er á grundvelli 1. mgr. 19. gr. höfundalaga hafi heimild til að gera notkunar- og öryggiseintök af því eintaki. Heimildin fellur niður ef eintakið sem viðkomandi hefur eignast er gert aðgengilegt almenningi. Sambærilegt ákvæði eldri danskra höfundalaga var fellt niður þar sem talið var að heimild í 11. gr. a dönsku höfundalaganna um skammtíma eða tilfallandi eintakagerð og í 12. gr. dönsku höfundalaganna um stafræna eintakagerð til persónulegra nota væri nægileg heimild til eintakagerðar í þessu sambandi, þ.e. til að gera notkunar- og öryggiseintök. 11. gr. a dönsku höfundalaganna er sambærileg 10. gr. a höfundalaga nr. 73/1972 og telja verður að ákvæði 10. gr. a um skammtíma og tilfallandi eintakagerð og 1. mgr. 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota sem ekki er takmarkað við hliðræna eintakagerð séu einnig nægileg heimild til gerðar öryggiseintaka og notkunareintaka í þeim tilvikum sem ákvæði 3. mgr. 19. gr. höfundalaga tekur til og því er lagt til að ákvæðið sé fellt niður eins og gert var í Danmörku 2004.
    Lagt er til að orðalagi 1. mgr. og 4. mgr. (sem lagt er til að verði 3. mgr.) verði breytt til samræmis við orðalag 1. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982. Þar er vísað til þeirra sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt og er hér lagt til að vísað verði til þeirra sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar.

Um 5.–7. gr.

    Í ákvæðum danskra, norskra og sænskra höfundalaga um svonefnd skyld réttindi, þ.e. réttindi listflytjenda, framleiðenda hljóð- og myndrita, útvarpsstofnana og fleiri, sbr. V. kafla höfundalaga, er vísað til undanþáguákvæðisins vegna eintakagerðar bókasafna og annarra stofnana. Það hefur í för með sér að undanþáguheimildin tekur einnig til þessara skyldu réttinda. Þannig er tryggt að ekki þurfi t.d. að leita til listflytjenda um samþykki vegna eintakagerðar á grundvelli undaþáguákvæðisins á t.d. tónlistarupptökum.

Um 8. gr.

    Með þessari breytingu er tryggt að þeir sem heimild 19. gr. höfundalaga tekur til geti leitað til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. laganna ef tæknilegar ráðstafanir koma í veg fyrir að þeir geti nýtt sér þá heimild til eintakagerðar sem felst í greininni.

Um 9. gr.

    Þjónustutilskipun 2006/123/EB var samþykkt í ráði ESB 11. desember 2006 og tekur hún gildi árið 2010. Markmið tilskipunarinnar er að einfalda þjónustuviðskipti á innri markaðinum, stuðla að hagvexti og fjölga atvinnutækifærum í þjónustugreinum. Af 1. mgr. 2. gr. þjónustutilskipunarinnar leiðir að reglum tilskipunarinnar verður beitt um þá þjónustu sem veitt er af þjónustuaðila sem hefur staðfestu í aðildarríki EES (einu af 30 (27+3)).
    Með hliðsjón af framansögðu mætti ætla að höfundaréttur sem slíkur falli utan gildissviðs tilskipunarinnar þar sem líta má á höfundarétt sem ákveðna tegund eignarréttar en ekki þjónustu, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Hér kemur til skoðunar túlkun framkvæmdastjórnar ESB á 11. tölul. 17. gr. tilskipunarinnar, sem finna má í handbók um innleiðingu tilskipunarinnar, og að hve miklu leyti slík túlkun kann að hafa bindandi áhrif á Evrópudómstólinn. Hér reynir jafnframt á kröfur 9. gr. tilskipunarinnar varðandi starfsleyfi/viðurkenningu ráðuneytisins á höfundaréttarfélögum, þ.m.t. það fyrirkomulag heildarleyfa (samningskvaða) sem mælt er fyrir um í höfundalögum (sjá t.d. 15. gr. a og 45. gr. höfundalaga). Skv. 11. tölul. 17. gr. tilskipunarinnar eru höfundaréttur og skyld réttindi undanþegin meginreglunni um þjónustufrelsi í 16. gr. tilskipunarinnar. Í handbók framkvæmdastjórnar ESB um innleiðingu þjónustutilskipunarinnar segir á bls. 57 að undantekningin varði höfundarétt sem slíkan en ekki þá þjónustu sem tengd sé umsýslu slíkra réttinda svo sem fram fer hjá höfundaréttarfélögum og einkaleyfaskrifstofum. Í svari framkvæmdastjórnar ESB um undantekninguna til Danmerkur sagði eftirfarandi: 3
    „Ákvæði 11. mgr. 17. gr. fela ekki í sér undanþágu sem nær til allrar þjónustu í tilgreindum flokki (reyndar eru margar undanþágur í 17. gr. sem vísa ekki til þjónustu heldur til málefna eða þátta löggjafar sem hafa áhrif á þjónustu almennt, t.d. vernd persónuupplýsinga, frjálsa för launaþega og einnig hugverkaréttindi). Þetta þýðir aðeins að þeir þættir lúta ekki meginreglunni í 16. gr. Til dæmis mun veitandi þjónustu sem inniheldur efni sem verndað er að höfundarétti (t.d. dagblað eða netmiðill) ekki geta mælt því í mót að 16. gr. heimili framboð slíkrar þjónustu án þess að gert sé ráð fyrir höfundarétti (t.d. að hunsa þörfina á að fá leyfi höfundar). En þjónustan sem slík (fjölmiðlaþjónusta eða þjónusta netmiðils) er ekki útilokuð frá 16. gr. einungis vegna þess að höfundaréttur er skilyrði sem hefur áhrif á innihald þjónustunnar. Sömu rök eiga við um þjónustu sem höfundaréttarfélög veita. Þjónusta sem þau veita (bæði fyrir notendur og rétthafa) felur í sér fyrirsvar, samningsgerð, leyfisveitingar, eftirlit o.s.frv. Sú staðreynd að þjónustan varðar höfundarétt fellir hana ekki út fyrir gildissvið 16. gr. á sama hátt og þjónustu sem felur í sér notkun efnis sem nýtur verndar að höfundarétti (eins og í tilgreindum dæmum sem vísað er til hér að ofan) er ekki utan við 16. gr. Undanþágan varðar aðeins afmörkuð viðfangsefni höfundaréttar.“
    Samlíking framkvæmdastjórnar ESB á milli dagblaða eða netþjónustuaðila og innheimtuþjónustu höfundaréttarfélaga er ekki að öllu leyti viðeigandi. Höfundaréttarfélögin fá yfirfærðan til sín frá rétthöfum réttinn til að koma fram og semja um endurgjald í þeirra nafni. Rétthafarnir hafa ekki lengur ráðstöfunarrétt yfir eigin verkum að gerðum slíkum samningum við höfundaréttarfélögin. Höfundaréttarsamtökin koma fram í nafni rétthafanna og gera samninga við efnisframleiðendur, eins og dagblöð og netþjónustuaðila, um notkun verka og fara með réttinn til endurgjalds, innheimta endurgjald og skila því til rétthafanna. Þar sem túlkun framkvæmdastjórnar ESB hefur þýðingu við framkvæmd tilskipunarinnar felst í henni að krafan um lögformlega viðurkenningu höfundaréttarfélaga á grundvelli samningskvaða verður að falla undir 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar en samkvæmt ákvæðinu verða kröfur til þeirra sem veita þjónustu að fylgja grunnreglum eins og jafnræðisreglu, réttlætanlegri nauðsyn og meðalhófi. Krafan um réttlætanlega nauðsyn er vandasöm í framkvæmd þar sem í henni felst krafa um að lögformleg viðurkenning sé grundvölluð á opinberu skipulagi, opinberu öryggi, almannaheill eða umhverfisvernd. Í 2. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar eru talin upp skilyrði sem aðildarríkjum er óheimilt að leggja á þjónustuaðila. Þar af er mikilvægast að í b-lið er aðildarríkjunum bannað að leggja þá skyldu á þjónustuaðila að fá lögformlega viðurkenningu í aðildarríki, óháð því hvort slík skilyrði eru sett í tengslum við tilskipunina eða önnur opinber fyrirmæli. Til þess að viðhaldið verði skilyrði höfundalaga um lögformlega viðurkenningu höfundaréttarfélaga sem fara með samningsumboð í nafni rétthafa þarf skilyrðið um viðurkenningu að falla undir undantekningu í 11. tölul. 17. gr. tilskipunarinnar. Önnur túlkun hefði í för með sér vandkvæði fyrir heildarleyfafyrirkomulagið í höfundalögum. Af túlkun framkvæmdastjórnar ESB leiðir enn fremur að undantekningin í 11. tölul. 17. gr. tilskipunarinnar hefði enga þýðingu ef lagt væri til grundvallar að höfundaréttur sem slíkur væri þegar undanþeginn skv. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Allar kröfur í lögum um viðurkenningu eða opinbert starfsleyfi sem skilyrði fyrir veitingu þjónustu hér á landi þurfa að uppfylla kröfur í 9. gr. tilskipunarinnar en starfsleyfi/viðurkenning er skilgreint sem hver sá ferill sem þjónustuveitandi þarf að undirgangast til að öðlast formlega ákvörðun eða ætlað samþykki hjá lögbæru yfirvaldi varðandi aðganginn að þjónustustarfsemi eða framboð þjónustu, sbr. 6. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Af kröfum í 9. gr. tilskipunarinnar leiðir að leyfisfyrirkomulagið má ekki mismuna umsækjendum, það verður að teljast nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og það verður að uppfylla meðalhófsreglu, þ.e. að samræmi sé á milli takmörkunar og tilgangs sem stefnt er að. Í fyrsta lagi þarf að leggja mat á hvort leyfisfyrirkomulagið stuðlar að þeim markmiðum sem það er grundvallað á. Í öðru lagi þarf leyfisfyrirkomulagið að vera nauðsynlegt. Í kröfunni um nauðsyn felst þó að ekki má ganga lengra í kröfum til þjónustuveitanda en þjónar markmiðum leyfisfyrirkomulagsins, sbr. skýringu í 54. formálsgrein þjónustutilskipunarinnar þar sem segir að fyrirkomulag leyfa eigi einungis rétt á sér þegar fullnægjandi eftirliti með þjónustuveitanda verður ekki sinnt eftir á.
    Í samræmi við framangreint og samkvæmt athugun á ákvæðum höfundalaga fela eftirtalin ákvæði höfundalaga í sér þjónustuhindranir í skilningi þjónustutilskipunarinnar:
          11. gr. (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar rétthafasamtaka fyrir höfunda vegna eintakagerðar til einkanota),
          15. gr. a (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar rétthafasamtaka fyrir höfunda vegna ljósritunar og hliðstæðrar eftirgerðar),
          23. gr. (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir höfunda vegna flutnings höfundarverka í útvarpi og opinberan flutning),
          23. gr. a (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir höfunda vegna endurvarps útsendingar útvarps sem flutt hefur verið um gervihnött),
          25. gr. (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir höfunda vegna opinberrar birtingar myndlistarverka í kvikmyndum og sjónvarpi),
          25. gr. b (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir höfunda vegna innheimtu fylgiréttargjalds við endursölu listaverka í atvinnuskyni),
          45. gr. a (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir flytjendur vegna endurvarps útsendingar útvarps sem flutt hefur verið um gervihnött) og
          47. gr. (viðurkenning fyrir hagsmunagæslu og fyrirsvar fyrir framleiðendur og listflytjendur vegna notkunar útgefins hljóðrits til flutnings í útvarpi).
    Rétt er að benda á að framangreind ákvæði fela ekki aðeins í sér þjónustuhindrun í skilningi tilskipunarinnar heldur er beinlínis ráð fyrir því gert að aðeins einum höfundaréttarsamtökum á hverju sviði verði veitt viðurkenning til að koma fram í nafni viðkomandi rétthafa. Viðbrögð og ráðstafanir vegna innleiðingar þjónustutilskipunarinnar hafa verið til umræðu í samráðsnefnd norrænna ráðuneyta um höfundarétt. Sérstakur starfshópur á vegum samráðsnefndarinnar hefur fjallað um hugsanlegar breytingar á norrænum höfundalögum vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Hin sameiginlega norræna afstaða til innleiðingar tilskipunarinnar hefur verið sú að viðhalda beri því kerfi heildarleyfa sem nú er í norrænum höfundalögum þar sem gerður er áskilnaður um viðurkenningu þeirra norrænu ráðuneyta sem fara með málaflokkinn sem skilyrði fyrir fyrirsvari og hagsmunagæslu fyrir höfunda, framleiðendur, flytjendur og aðra rétthafa. Lagt hefur verið til að sú afstaða verði rökstudd með því að leyfisfyrirkomulag höfundalaga teljist uppfylla þær kröfur sem fram koma í 9. gr. þjónustutilskipunarinnar.
    Breytingar hafa þegar verið gerðar á hliðstæðum ákvæðum danskra höfundalaga og hinum framangreindu ákvæðum í íslensku höfundalögunum. Í frumvarpi þessu er lagt er til að bætt verði við almennu ákvæði í nýja grein, sem verður 53. gr. a, þar sem segir að ráðherra setji nánari reglur um viðurkenningu viðkomandi rétthafasamtaka eða samtaka þeirra í tilgreindum tilvikum. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins ber að viðhalda ríkjandi fyrirkomulagi viðurkenningar á einum höfundaréttarsamtökum, þar sem við á. Við ákvörðun um val á samtökum með viðurkenningu í huga ætti ávallt að leitast við að velja þau samtök sem hafi fyrirsvar fyrir stærstan hluta viðkomandi höfunda eða annarra rétthafa. Slík samtök geta verið frá öðru EES-landi en Íslandi. Áréttað er að á samtökum sem viðurkenningu hljóta hvílir skylda til að fara með mál utanfélagsmanna með sama hætti og mál félagsmanna þess. Þannig er gert ráð fyrir að ekki sé gerður greinarmunur á íslenskum og erlendum rétthöfum eða höfundaréttarsamtökum. Það fyrirkomulag að viðurkenna einungis ein samtök á hverju sviði styðst við meginregluna um að tryggja beri rétthöfum endurgjald fyrir afnot verka þeirra og að notendur verkanna skuli með gagnsæjum og auðveldum hætti hafa aðgang að kerfi til að gera upp afnot sín af viðkomandi verkum. Því uppfyllir núverandi fyrirkomulag í höfundalögunum kröfur tilskipunarinnar um meðalhóf að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins, enda er fyrirkomulagið ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er til að ná markmiðinu með leyfisfyrirkomulaginu. Samkvæmt frumvarpi þessu er lagt til að settar verði reglur um viðurkenningu ráðherra á höfundaréttarsamtökum sem fela m.a. í sér ákvæði um tímafresti fyrir meðferð umsókna, ákvæði um frá hvaða tímamarki skuli reikna afgreiðslufrest, heimild til að framlengja afgreiðslufrest, afleiðingar þess að umsókn er ekki afgreidd innan frests og fleiri atriði.

Um 10. gr.

    Ekki reyndi að neinu ráði á það hvort hlutdeild í brotum á höfundarétti væri refsiverð fyrir tilkomu internetsins. Það er hugsanlega skýringin á því að ekki er að finna ákvæði um hlutdeild í brotum í gildandi höfundalögum. Norsk og sænsk höfundalög hafa hins vegar sérákvæði um hlutdeild, sbr. 2. mgr. 54. gr. norsku höfundalaganna nr. 2/1961 og 3. mgr. 53. gr. sænsku höfundalaganna nr. 729/1960. Dönsk höfundalög hafa ekki sérákvæði um hlutdeild, enda taka hlutdeildarákvæði dönsku hegningarlaganna einnig til brota á sérlögum, sbr. 2. gr. þeirra. Hér á landi hefur verið litið svo á að beita megi ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um hlutdeild með lögjöfnun. Þannig segir í greinargerð með almennum hegningarlögum að ákvæðum um hlutdeild megi „að sjálfsögðu“ beita með lögjöfnun utan laganna þegar skilyrði eru fyrir hendi. Telja verður hins vegar tryggara að mæla sérstaklega fyrir um það í höfundalögunum sjálfum að brot þeirra sem eiga hlutdeild í brotum annarra séu refsiverð á sama hátt og brot þeirra sem teljast aðalmenn í brotunum, enda getur verið erfitt að greina á milli þessa tvenns, t.d. þegar um er að ræða refsiverð not höfundarverka á netinu, þar sem nauðsynlegt er að kveða skýrt á um refsiábyrgð af hálfu þess sem „með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot ... er framið“, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Er þetta jafnframt í samræmi við þá meginreglu að refsiheimildir skuli vera skýrar, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að um saknæmt atferli væri að ræða hjá einhverjum á grundvelli hlutdeildar þá leiddi það til refsiábyrgðar ef önnur skilyrði 1. mgr. 54. gr. væru fyrir hendi, þ.e. ásetningur eða stórfellt gáleysi. Hins vegar væri minni háttar gáleysi nægilegt til að bótaábyrgð stofnaðist, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Greinin tekur mið af 10 gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu fellur tilskipunin ekki undir EES-samninginn, en þó er talið rétt að líta til hennar þegar reglur um réttarfarsúrræði vegna höfundaréttar eru settar. Ákvæði 10. gr. tilskipunarinnar fjallar um ráðstafanir vegna höfundaréttarbrota í þágu þess sem misgert er við. Í því ákvæði eru beinlínis tilteknar þær aðgerðir að ólögmæt eintök séu fjarlægð úr dreifingu, bæði tímabundið og varanlega, og að þeim sé eytt, en ákvæðið er ekki tæmandi um þær aðgerðir er til greina koma. Þau úrræði, málsmeðferð og viðurlög sem unnt er að beita, eftir atvikum og ef réttmætt þykir eftir aðstæðum skyldu hafa það að markmiði að varna frekari réttarbrotum gegn hugverkaréttarbrotum. Enn fremur felst í 10. gr. tilskipunarinnar að til staðar skuli vera úrræði til að koma aftur á lögmætu ástandi, á kostnað hins brotlega þar sem við á, eins og innköllun hluta, stöðvun á sölu eða ónýting hinna ólögmætu hluta og þar sem við á hráefnis, íhluta og búnaðar sem nýtist aðallega til sköpunar eða framleiðslu á slíkum hlutum. Við beitingu aðgerðar sem ætlað er að koma á lögmætu ástandi ætti að taka tillit til hagsmuna þriðju aðila, einkum neytenda og einstaklinga sem hafa verið í góðri trú (24. skýringargrein tilskipunarinnar).
    Í þessu sambandi þykir rétt að láta halda sér það ákvæði gildandi laga að dæma megi hinn brotlega til að afhenda slík eintök til brotaþola, þ.e. þess sem misgert er við, eða til að gera þau óhæf til ólöglegra nota, en auk þess er kveðið á um þær ráðstafanir sem að framan greinir og ekki hefur verið mælt skýrlega fyrir um í lögunum fram að þessu. Rétt þykir að nota heitið „brotaþoli“ í stað „þess sem misgert er við“, svo sem gert hefur verið í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í 39. gr. þeirra laga er þetta hugtak skilgreint, en með því er átt við þolanda brots og getur það, eðli máls samkvæmt, átt við hvort sem brotið er refsivert eða aðeins bótaskylt. Ekki eru lagðar til breytingar á gildandi ákvæði hvað varðar þau brot er geta verið tilefni til ráðstafananna eða varðandi þá aðila er hafa heimild til að setja fram fyrir dómi kröfu um beitingu þeirra.
    Orðalag 2. mgr. um áhöld og aðra muni er varða undirbúning eða framkvæmd brots er fært til nútímalegra horfs, en ekki er um efnislega breytingu að ræða. Við skýringu á þessu ákvæði ber að sjálfsögðu að líta til sjónarmiða um meðalhóf, sbr. 4. mgr., sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.
    Ákvæði 3. mgr. á rætur að rekja til fyrrgreindrar tilskipunar, þar sem mælt er fyrir um að ráðstafanirnar skuli vera án kostnaðar fyrir brotaþola, þ.e. þann sem misgert er við. Er því lagt til að afnumið verði ákvæði gildandi laga um að afhenda megi honum ólögmæt eintök gegn endurgjaldi. Þó þykir rétt að mæla fyrir um það að liggi til þess alveg sérstakar ástæður sé þó heimilt að kveða á um í dómi að brotaþoli skuli greiða hæfilegt endurgjald. Þetta ákvæði er tekið úr tilskipuninni og gæti átt við í þeim tilvikum þegar brotaþoli hyggst með einhverjum hætti nýta hin ólögmætu eintök í stað þess að eyða þeim.
    Nýmæli er að í höfundalögum sé beinlínis kveðið á um hagsmunamat þegar gripið er til ráðstafana í tilefni af broti gegn lögunum, svo sem lagt er til í 4. mgr. Samkvæmt gildandi lögum er tekið tillit til hagsmuna þeirra er hafa eignast ólögmæt eintök í grandleysi og til þeirra er hafa eignast slík eintök til einkanota með þeim hætti að ekki er heimilt að beita ákvæðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna gegn þeim. Jafnframt er kveðið á um í 4. mgr. þeirrar greinar að ákvæði um ónýtingu og upptöku skuli ekki ná til bygginga. Lagt er til að umrædd ákvæði í 3. og 4. mgr. 55. gr. gildandi laga verði felld niður. Þess í stað verði tekið tillit til hagsmuna þeirra sem þar er vísað til með beitingu ákvæðinu í 4. mgr. um að fram fari mat á hagsmunum þeirra sem hlut eiga að máli þegar gripið er til ráðstafana skv. 1. og 2. mgr.
    Við það hagsmunamat, sem ráðgert er í 4. mgr., verður að líta til þess annars vegar hversu alvarlegt og umfangsmikið brot er og hins vegar hvort ríkir hagsmunir eru í húfi fyrir þann sem er eigandi muna er til greina kemur að leggja hald á. Má sem dæmi nefna tölvu og tölvubúnað, en slíkur búnaður getur verið nauðsynlegur fyrir þann sem í hlut á til að geta haft aðgang að netinu og þar með að þeim upplýsingum og tjáskiptum er þar fara fram. Þá skiptir og máli hvort eigandi munar hafi verið viðriðinn brot. Sé hann grandlaus er almennt ekki gert ráð fyrir að munir í hans eigu verði gerðir upptækir, sbr. niðurlag málsgreinarinnar.

Um 12. gr.

    Ákvæði 1. mgr. endurspegla efnislega ákvæði 1. og 3. mgr. 56. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að sú takmörkun á bótafjárhæð, sem nú er kveðið á um í niðurlagi 3. mgr., falli brott.
    Í 2. mgr. er gerð tillaga um að við ákvörðun bóta verði ekki eingöngu miðað við það beina fjárhagstjón, sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, þar á meðal vegna fjárútláta við að hafa uppi á þeim er brotið hefur gegn lögvörðum rétti hans, enda getur verið erfitt að færa sönnur á það, heldur verði einnig litið til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Sé sú fjárhæð hærri en hið beina fjárhagstjón bæri þar af leiðandi að leggja hana til grundvallar þegar bætur eru ákveðnar. Hér er um að ræða bætur fyrir ólögmæta auðgun sem verður að telja sanngjarnt að sá brotlegi inni af hendi til rétthafans.
    Ef ekki verða færðar sönnur á tjónið eða hagnaðinn, sem oft getur orðið raunin, er gert ráð fyrir því í 2. málsl. 2. mgr. að bætur skuli dæmdar að álitum, eftir mati dómara hverju sinni. Styðst sú regla að nokkru leyti við dómaframkvæmd. Ekki þykir fært að lögfesta nánari viðmiðunarreglur um ákvörðun bótafjárhæðar vegna brots skv. 1. mgr. Þó væri eðlilegt að í framkvæmd yrði miðað við hæfilegt endurgjald, eins og samið hefði verið fyrir fram um not höfundarverks eða annarra þeirra framlaga sem njóta höfundaréttarverndar, að viðbættu álagi vegna frekara tjóns brotaþola eða hagnaðar hins brotlega. Ef ekki reyndist unnt að færa sönnur á það um hve háar fjárhæðir væri þar að ræða gæti þrautalendingin orðið sú að bæta við endurgjaldið jafnháu álagi þannig að bæturnar næmu alls tvöföldu endurgjaldi fyrir lögmæt not. Hér að baki býr sú hugsun að þeim sem hyggur á hagnýtingu verndaðra höfundarverka eða annars efnis með t.d. opinberum tónlistarflutningi er að fyrra bragði skylt að afla leyfis til þess frá rétthöfum. Sá háttur hefur tíðkast í dómaframkvæmd í sumum nágrannalöndum Íslands, t.d. í Danmörku. Í slíkri bótaákvörðun felast ekki refsikenndar bætur (e. punitive damages), heldur er ákvörðun um bætur byggð á hlutlægu mati þar sem m.a. er tekið tillit til útgjalda rétthafa við hagsmunagæsluna, svo sem vegna kostnaðar við að bera kennsl á meintan brotamann og kostnað við rannsóknir á hinu ætlaða broti, sbr. 26. skýringargrein við tilskipun 2004/48/EB.
    Að fyrirmynd 3. mgr. 83. gr. dönsku höfundalaganna er lagt til í 3. mgr. að ekki verði framvegis skylt heldur aðeins heimilt að dæma bætur fyrir miska vegna brots á lögunum. Er sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Þá er sömuleiðis, eins og í umræddu ákvæði dönsku höfundalaganna, gert ráð fyrir að miskabætur verði ekki einvörðungu dæmdar höfundi eða listflytjanda, eins og nú er kveðið á um í 2. mgr. 56. gr. gildandi laga, heldur geti aðrir rétthafar átt kröfu til slíkra bóta fyrir ófjárhagslegt tjón, svo sem þeir sem eignast hafa höfundarétt að erfðum eða með framsali höfundar á rétti sínum.

Um 13. gr.

     Um a-lið (59. gr. a).
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um það með ótvíræðum hætti að þau höfundaréttarsamtök eða önnur samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að gæta almennt hagsmuna höfunda og annarra rétthafa, hvort sem þeir eru í félagar í samtökunum eða standa utan þeirra, gagnvart útvarpsstöðvum og öðrum þeim sem flytja verk sem njóta höfundaverndar opinberlega, geti fengið lagt almennt bann við flutningi eða öðrum notum verka sem löggilding samtakanna nær til og verndar njóta samkvæmt höfundalögum. Með þessu er gert ráð fyrir að vikið verði frá því skilyrði lögbanns að sá einn sem á beinna lögvarinna hagsmuna að gæta geti krafist slíks banns. Er sú tilhögun staðfesting á dómaframkvæmd, sbr. t.d. nýlegan dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar sl. í máli nr. 214/2009. Að öðru leyti er gengið út frá því að fyrir hendi þurfi að vera önnur skilyrði lögbanns, sem nú eru greind í 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., til þess að fallist verði á kröfu samtakanna um lögbann. Í því sambandi skal bent á 2. tölul. 2. mgr. þeirrar greinar þar sem fram kemur að ekki skuli leggja á lögbann ef sýnt þykir að hagsmunir gerðarþola af því að halda áfram starfsemi séu mun meiri en gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana. Sem dæmi af vettvangi höfundaréttar mætti nefna það ef lögbanns yrði krafist við notkun höfundarverka á vefsíðu, en í ljós væri leitt að sá sem starfrækti síðuna hefði lagt sig fram við að koma í veg fyrir brot á réttindum höfunda og annarra rétthafa. Í slíkum tilvikum væri eðlilegt að synjað yrði um lögbann á grundvelli þess hagmunamats sem vísað er til í umræddu ákvæði laga nr. 31/1990. Við mat á því hvort fallast beri á kröfu höfundaréttarsamtaka um lögbann verður jafnframt að hafa hliðsjón af lokamálslið 1. mgr. 8. gr. höfundalaga sem þýðir að nægilegt er fyrir samtökin að sanna eða gera sennilegt að ólögmætur og víðtækur flutningur eða önnur not á verkum, sem löggilding þeirra nær til, séu byrjuð eða yfirvofandi, t.d. flutningur í útvarpi, án þess að færa þurfi frekari sönnur á að um sé að ræða verk sem njóta verndar höfundalaga. Eins og segir í 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nýtur höfundur eignarréttar að verkum sínum. Skv. 3. gr. laganna getur hann leyft öðrum að flytja verk sín eða nota þau með öðrum hætti, þar á meðal gegn endurgjaldi. Jafnframt getur hann á grundvelli þess ákvæðis bannað öðrum að nota verkin og fylgt því banni eftir með lögbanni ef þörf krefur. Í sumum tilvikum kemur það hins vegar að takmörkuðu gagni þótt einstakir höfundar fái lagt lögbann við ólögmætum flutningi eða notum á verkum sínum, hvort sem þeir gera það sjálfir eða fyrir atbeina höfundaréttarsamtaka, vegna þess að verk, sem útgefin hafa verið, eru til í tugþúsunda tali og því auðvelt fyrir þá sem reka t.d. útvarpsstöð að sniðganga slíkt bann með flytja önnur verk en þau sem slíkt bann tæki til. Í ýmsum nágrannaríkjum Íslands, t.d. í Danmörku, hafa dómstólar fallist á að höfundaréttarsamtök geti krafist slíks almenns lögbanns við notum verka. Á hinn bóginn verður varla dregin önnur ályktun af nýlegum dómum Hæstaréttar, t.d. H 11. apríl 2008 í máli nr. 146/2008, H 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008, H 6. nóvember 2008 í máli nr. 559/2008 og H 11. febrúar 2010 í máli nr. 214/2009, en að höfundaréttarsamtök geti einvörðungu krafist lögbanns við notum verka þeirra höfunda sem veitt hafa samtökunum umboð sitt til hagsmunagæslu. Slíkt gerir það að verkum að örðugra er að halda uppi sjálfsagðri réttargæslu til verndar höfundarétti. Til þess að ráða bót á því er gerð sú tillaga sem felst í 1. mgr. og gerð er grein fyrir hér að framan.
    Tekið skal fram, til að taka af öll tvímæli, að með ákvæðinu í 1. mgr. er ekki ætlunin að þrengja möguleika einstakra rétthafa til að krefjast lögbanns til verndar réttindum sínum, svo sem verið hefur, enda sé fullnægt almennum skilyrðum lögbanns samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Í 2. mgr. er fólgið nýmæli þar sem gert er ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja lögbann við athöfnum milliliða, fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja. Tekur ákvæðið mið af lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, en í 12., 13. og 14. gr. þeirra laga er kveðið á um takmörkun á ábyrgð þjónustuveitanda vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar. Hugtökin „rafræn þjónusta“, „þjónustuveitandi“ og „þjónustuþegi“ eru skilgreind í 2. gr. umræddra laga og er merking þeirra sú sama hér og þar kemur fram. Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verður beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að vafi yrði talinn leika á því hvort miðlun, skyndivistun eða hýsing þjónustuveitanda væri ólögmæt athöfn í sjálfu sér. Það gerir réttarvörslu rétthafa mun auðveldari ef skýrt er að hann geti lagt lögbann við athöfnum milliliða. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu hefur gildi samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Bar aðildarríkjum hans að leiða umrædda tilskipun í landslög fyrir 10. janúar 2005. Í 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Var við innleiðingu tilskipunarinnar, með lögum nr. 9/2006, litið svo á að tilvitnað ákvæði teldist þegar uppfyllt með úrræðum sem fram koma í V. kafla laga nr. 30/2002, sbr. IV. kafla laga nr. 31/1990. Hins vegar þykir rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, t.d. fjarskiptafyrirtæki, svo að ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum. Skiptir í því efni máli að skv. 1. mgr. 11. gr. höfundalaga er réttur til eintakagerðar af verki til einkanota ekki takmarkaður við það að upphaflegt eintak, sem eintak er gert eftir, sé löglegt. Því er ekki víst að á grundvelli gildandi laga kæmust hérlendir dómstólar að sömu niðurstöðu og dómstólar í ýmsum nágrannaríkjum, t.d. í Danmörku, að lögbann verði lagt við því að þjónustuveitandi miðli gögnum, jafnvel þótt fyrir liggi vísbendingar um ólögmætt athæfi af hálfu þjónustuþega.
    Efni 3. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa.
     Um b-lið (59. gr. b).
    Þessi grein tekur mið af 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB. Megintilgangur 8. gr. tilskipunarinnar er að gera rétthafa kleift að nálgast upplýsingar um uppruna vara eða þjónustu sem fela í sér brot á höfundarétti og að fá vitneskju um þá sem hafa átt hlut að brotinu. Ákvæðið er í eðli sínu sjálfstætt réttarúrræði til viðbótar úrræðum þeim sem mælt er fyrir um sönnunargögn og öflun sönnunargagna í 6. og 7. gr. tilskipunarinnar og veitir rétthafa sjálfstæðan rétt til upplýsinga um framangreind atriði. Þess má geta að ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar hafa þegar verið innleidd hér á landi með setningu laga nr. 53/2006, um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í höfundalögin. Ákvæði sem heimilar dómara að leggja fyrir aðila að dómsmáli að leggja fram tiltekið sönnunargagn (d. partsedition) eru ekki fyrir hendi í hérlendum réttarfarslögum. Ekki hefur verið farin sú leið hér á landi að mæla fyrir um slíka reglu í málum er varða brot á hugverkaréttindum almennt, en segja má að með ákvæðum greinarinnar, sem hér um ræðir, sé stefnt að þessu marki. Til samræmis við það sem mælt er fyrir um í tilskipuninni er gert ráð fyrir að úrræði því sem kveðið er á um í 1. mgr. verði eingöngu beitt gagnvart þeim er framið hafa brot í atvinnuskyni, en ekki gagnvart neytendum er hafa keypt vöru eða þjónustu. Lögtaka þessa úrræðis yrði umtalsverð réttarbót fyrir höfunda. Sem dæmi um þýðingu úrræðisins má nefna það tilvik þegar sá sem fer með höfundarétt, t.d. framleiðandi muna er njóta verndar sem nytjalist, verður var við sölu slíkra vara hér á landi. Hann gæti þá fengið smásalann skyldaðan til að láta uppi nafn og heimilisfang erlends framleiðanda, fjölda seldra eintaka og andvirði hins selda. Á grundvelli þessara upplýsinga ætti rétthafinn möguleika á að setja fram kröfur á hendum erlendum dreifingaraðilum og framleiðendum varanna.
    Hér þarf þó að hafa í huga meðalhófsreglu 3. mgr. og undanþágu frá upplýsingaskyldu skv. 4. mgr. Þeim sem grunur leikur á að hafi framið höfundaréttarbrot verður því ekki sjálfum gert að láta í té upplýsingar um eitthvað sem síðar getur leitt til refsiábyrgðar hans samkvæmt höfundalögum. Slík upplýsingaskylda væri ekki í samræmi við meginreglur opinbers réttarfars um réttindi sakbornings. Ákvæði 1. og 2. mgr. raska því ekki lögbundnum rétti til að neita að svara spurningum um eigið brot og brot náinna vandamanna.
    Um 13. gr. c.
    Ákvæðið í 1. mgr. tekur mið af 15 gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB, þar sem er að finna heimild til að mæla fyrir um birtingu ákvarðana á því réttarsviði. Birting ákvarðana er talin hafa forvarnagildi gagnvart öðrum hugsanlegum brotamönnum og gegnir hlutverki í vitundarvakningu almennings um virðingu fyrir hugverkaréttindum (27. skýringargrein tilskipunarinnar). Lagt er til að ákvæðið nái jafnt til áfellisdóma í einkamálum sem sakamálum, svo og til dóma þar sem kveðið er á um ráðstafanir skv. 55. gr. höfundalaga. Ekki er lagt til að ákvæðið nái til úrlausna sýslumanns, t.d. um lögbann, eða til annarra úrlausna dómara en eiginlegra dóma.
    Efni 2. mgr. skýrir sig sjálft.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 9/2006 var svo mælt fyrir að frumvarp til endurskoðunar á ákvæðum b- og c-liðar 13. gr. laganna (50. gr. b og 50. gr. c laganna) skyldi lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á löggjafarþinginu 2006–2007. Í athugasemdum í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006 sagði um ákvæðið að í ljósi hraðrar þróunar í notkun tæknilegra ráðstafana og upplýsinga um réttindaumsýslu til að vernda efni á stafrænu formi sem er háð höfundarétti væri æskilegt að endurskoðun ákvæða b- og c-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b og 50. gr. c) sætti endurskoðun að tveimur árum liðnum með tilliti til þess tjóns er hlotist gæti af eintakagerð til einkanota og efnahagslegum áhrifum fyrrgreindra verndarráðstafana í því sambandi.
    Þrátt fyrir framangreint ákvæði hefur umrædd endurskoðun á 50. gr. b og 50. gr. c í höfundalögum ekki farið fram enn þá. Reglur um lögvernd tæknilegra ráðstafana voru lögfestar með b-lið 13. gr. laga nr. 9/2006 vegna innleiðingar 6. gr. tilskipunar um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu 2001/29/EB. Hér var um að ræða nýjar reglur sem voru af öðrum toga en hefðbundnar réttarreglur höfundaréttarins. Á þeim tíma lágu ekki fyrir heildstæðar upplýsingar um beitingu slíkra ráðstafana og þýðingu þeirra fyrir notkun verndaðra verka. Þá var framkvæmdastjórn ESB ætlað skv. 1. mgr. 12. tilskipunarinnar að skila skýrslu um beitingu tilskipunarinnar þegar á árinu 2004. Hvað varðar 6. gr. tilskipunarinnar um vernd tæknilegra ráðstafana var framkvæmdastjórninni sérstaklega ætlað að leggja mat á hvort þær reglur veittu nægilega vernd fyrir rétthafa og hvor athafnir notenda sem væru í sjálfu sér lögmætar teldust hafa neikvæð áhrif á beitingu tæknilegra ráðstafana. Ef nauðsynlegt teldist skyldi framkvæmdastjórnin jafnframt gera tillögur um breytingar á tilskipuninni. Á þessum grundvelli og með hliðsjón af sambærilegum viðhorfum við innleiðingu tilskipunarinnar í dönsk höfundalög var svo mælt fyrir í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 9/2006 að lagt skyldi fram frumvarp um endurskoðun 50. gr. b og 50. gr. c í höfundalögum á löggjafarþinginu 2006–2007. Að baki ákvæðinu var sú ráðagerð að menntamálaráðuneytið mundi fylgjast grannt með þróun mála í því skyni að ganga úr skugga um hvort útgefendur veittu þeim er rétt hefðu til lögmætan aðgang að efni á læstum hljómdiskum og mynddiskum, þannig að tryggt væri að tæknilegar hindranir mundu ekki standa í vegi fyrir beitingu undantekninga þeirra sem notendum væru tryggðar í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. höfundalaga. Hér undir má einnig flokka notkun skv. 19. gr. höfundalaga en láðst virðist hafa í meðförum menntamálanefndar Alþingis við breytingu á þeirri lagagrein að gera jafnframt breytingar á c-lið 13. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 9/2006.
    Af hálfu útgefenda efnis á hljómdiskum og mynddiskum hafa komið fram þau sjónarmið að sniðganga tæknilegra ráðstafana sé óheimil, jafnvel þótt um sé að ræða eintakagerð til einkanota skv. 1. mgr. 11. gr. höfundalaga. Fyrir liggur að rétthafar á sviði tónlistar leggja minni áherslu á beitingu ráðstafana af þessum toga, einkum vegna þess óhagræðis sem hlotist hefur af beitingu þeirra fyrir notendur. Útgefendur sem áður notuðu afritunarvarnir á hljómdiskum hafa í mörgum tilvikum hætt því. Þá liggur fyrir að alþjóðasamtök hljóðritaútgefenda (IFPI) hafa beint þeim tilmælum til aðila að samtökunum að þeir búi þannig um hnútana tæknilega að notendur geti, eins og kostur er, gert einstök afrit til einkanota af útgefnu efni. Þannig liggur fyrir að umsvifamesti seljandi tónlistar í rafrænu formi, Apple-fyrirtækið sem rekur iTunes tónlistarveituna, hefur fyrir nokkrum missirum hætt að beita afritunarlásum í tónlistarskrám sem þar eru seldar. Sama á við um fyrirtækið 3D Miðla ehf. sem rekur íslensku tónlistarveituna Tonlist.is. Komið hefur í ljós að vernd tæknilegra ráðstafana getur stutt við markaðsráðandi stöðu útgefenda sem bjóða fram efni sem eingöngu er hægt að nota í afspilunarbúnaði frá sama útgefanda. Þessi staða á markaði er til komin sökum þess að útgefendur og framleiðendur hafa ekki enn komið sér saman um sameiginlega staðla varðandi skráarsnið fyrir tónlist og kvikmyndir. Þá er ljóst að notkun ýmiss konar afspilunarbúnaðar, sem er í sjálfu sér lögmætur, felur í sér að notendum er ætlað að afrita tónlist af hljómdiskum og kvikmyndir af mynddiskum yfir á þann búnað. Þannig virðist ráð fyrir því gert að kvikmyndir séu afritaðar af mynddiskum yfir á svonefndar kvikmynda-tónhlöður (e. video iPod) og sjónvarpsflakkara án þess að notendur geri sér beinlínis grein fyrir því að slík afritun felur að öllum líkindum í sér notkun afritunarbúnaðar sem er ólögmætur samkvæmt skilgreiningu 50. gr. b í höfundalögum, enda munu flestar útgefnar kvikmyndir vera seldar með afritunarlás. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þótt um sé að ræða afritun til einkanota eftir lögmætu eintaki. Hins vegar telst slík eintakagerð til einkanota ekki refsinæm ef uppfyllt eru skilyrði 4. mgr. 54. gr. höfundalaga. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er óviðunandi að almennir neytendur afþreyingar- og menningarefnis á stafrænu sniði séu settir í þá stöðu að brjóta höfundalög með grandalausri notkun á framangreindum afspilunarbúnaði.
    Skýrsla framkvæmdastjórnar ESB um mat á tilskipunar 2001/29/EB kom út 30. nóvember 2007 (SEC(2007) 1556). Í skýrslunni koma fram upplýsingar um innleiðingu hennar á innri markaðinum og túlkun innlendra dómstóla téðri 6. gr. Í skýrsluna skortir hins vegar frekari greiningu á kostum og göllum ákvæðisins. Þá liggja ekki fyrir enn dómafordæmi frá Evrópudómstólnum er þýðingu kunna að hafa fyrir túlkun á 6. gr. tilskipunarinnar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur til af þeim sökum að ekki séu gerðar breytingar á 50. gr. b og 50. gr. c í höfundalögum önnur en sú sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins vegna ákvæða 19. gr. höfundalaga, og bráðabirgðaákvæðið um endurskoðun þessara ákvæða falli því brott úr lögunum. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að aðgangsheimildir 50. gr. c í höfundalögum séu fullnægjandi fyrir þá aðila sem njóta undantekninga skv. II. kafla laganna með þeirri breytingu sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins vegna ákvæða 19. gr. höfundalaga. Af framangreindum ástæðum er því lagt til að frekari athugun á áhrifum téðra lagaákvæða bíði endurskoðunar höfundalaga sem er þegar hafin.
Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi höfundalögum.

GILDANDI LÖGII. KAFLI
Takmarkanir á höfundarétti.


12. gr.

    Setja skal í reglugerð reglur um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerðinni, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má án samþykkis höfundar lána slík eintök eða birta þau með öðrum hætti nema innan stofnunarinnar.
15. gr. a.

    Þeim sem aflað hefur sér heimildar til ljósritunar eða hliðstæðrar eftirgerðar verka til afnota í starfsemi sinni með samningum við samtök höfundaréttarfélaga sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á því sviði og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt, án sérstaks leyfis höfundar hverju sinni, að fjölfalda verk hans með sama hætti þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Hver einstakur höfundur getur lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari málsgrein.
    Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og þær vera háðar staðfestingu þess. Samtökin skulu auk samningsaðildar hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir fjölföldun, einnig fyrir þá íslenska höfunda sem standa utan þeirra. Skal í samþykktum samtakanna kveðið á um ráðstöfun tekna vegna fjölföldunar og skulu höfundar, er standa utan þeirra, njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
    Höfundaréttarsamtök skv. 1. mgr. ábyrgjast allar kröfur sem fram kunna að koma frá handhöfum höfundaréttar sem ekki eru félagar í samtökunum og réttmætt tilkall eiga til greiðslu fyrir fjölföldun og verða slíkar kröfur aðeins gerðar á hendur samtökunum. Kröfur samkvæmt þessari málsgrein fyrnast á fjórum árum eftir að fjölföldun með réttri heimild var framkvæmd. Ágreiningi um kröfur skal ráðið til lykta af úrskurðarnefnd skv. 57. gr.
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Í reglum þessum má m.a. mæla fyrir um að ákvæði greinarinnar skuli, eftir því sem við á, einnig taka til gerðar véllæsilegra eintaka af útgefnum verkum til afnota í tölvubönkum.


19. gr.

    Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
    Heimildin í 1. mgr. gildir ekki um eftirgerð hljóðupptöku og heimilar ekki dreifingu eintaka með útláni eða leigu til almennings.
    Sá sem eignast hefur eintak sem aðrir hafa gert samkvæmt heimildinni í 1. mgr. má gera sams konar eintök eftir því eintaki sem hann fékk, ef það er nauðsynlegt til þess að hann geti notað eintakið eftir tilgangi sínum, þar á meðal öryggisafrit. Slík eintök má ekki nota í öðrum tilgangi. Rétturinn til þess að nota þau fellur niður ef eintak sem fengið var samkvæmt heimild 1. mgr. er birt. Síðastgreint ákvæði gildir þó ekki ef opinberar stofnanir eða aðrar félagslegar stofnanir sem starfa í almannaþágu lána eða leigja slík eintök.
    Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að lesa venjulegar bækur, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.

V. KAFLI
Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.


45. gr.

    Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
     1.      Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
     2.      Útvarp á beinum listflutningi.
     3.      Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
     4.      Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr.
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
    Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.

46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 24. gr.


48. gr.

    Óheimilar eru eftirgreindar aðgerðir án samþykkis útvarpsstofnunar:
     1.      Endurvarp (samtímisútvarp) á útvarpi hennar og dreifing þess um þráð.
     2.      Upptaka endurflutnings á útvarpi hennar.
     3.      Birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða ávinnings.
     4.      Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku.
    Réttur útvarpsstöðva skv. 1. mgr. gildir uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu útsendingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr. og 2. mgr. 23. gr.

VI. KAFLI A
Tæknilegar ráðstafanir o.fl.

50. gr. c.

    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að rétthafi hafi ekki sjálfviljugur gert ráðstafanir, til að mynda samninga við aðra hlutaðeigandi aðila, sem tryggja að notandinn geti nýtt sér hin tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr. hvað sem líður beitingu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.


VII. KAFLI
Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.

54. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal því aðeins refsa, að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Sektum eða fangelsi, allt að 2 árum, varða:
     1.      Aðgerðir, sem brjóta í bága við einkarétt höfundar samkvæmt 3. gr.
     2.      Aðili skv. 2. mgr. 25. gr. b lætur hjá líða að senda samtökum þeim sem getið er um í 5. mgr. 25. gr. b upplýsingar skv. 6. mgr. 25. gr. b.
     3.      Brot á 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr., 1. mgr. 39. gr., 53. gr. og fyrirmælum, sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     4.      Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     5.      Brot á 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 49. gr., 1. mgr. 50. gr., 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. d, 51. gr. og 52. gr.
     6.      Innflutningur til landsins á eintökum af verkum eða annarri framleiðslu, sem verndar nýtur eftir V. kafla laga þessara, ef eintökin eru gerð erlendis og atvikum svo háttað, að gerð þeirra hér á landi hefði brotið í bága við lögin, enda séu eintökin flutt inn í þeim tilgangi að sýna þau opinberlega eða dreifa þeim til almennings.
     7.      Innflutningur og framleiðsla tækja og hljóð- eða myndbanda í því skyni að dreifa þeim til almennings og dreifing slíkra tækja eða banda til almennings án þess að greitt sé af þeim höfundaréttargjald samkvæmt 3. og 4. mgr. 11. gr. eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, sbr. 3. mgr. 11. gr.
    Nú er brot framið á vegum félags eða annars fyrirtækis, og má þá dæma fésekt á hendur því.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 50. gr. b, varðar eftirtalin eintakagerð einstaklinga til einkanota ekki refsingu:
     1.      eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda,
     2.      eintakagerð sem fram fer andstætt 1. mgr. 50. gr. b.

55. gr.

    Nú hafa eintök af verkum verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi, þannig að í bága fari við ákvæði laga þessara eða fyrirmæli, sem sett hafa verið samkvæmt 2. mgr. 31. gr., og má þá ákveða í dómi, að eintökin séu án endurgjalds upptæk til handa þeim, sem misgert var við, eða afhent honum gegn endurgjaldi, sem ekki má nema hærri fjárhæð en framleiðslukostnaði. Sama gildir um prentmót, prentsteypu, myndamót og þess háttar muni, sem varða undirbúning eða framkvæmd brots eða eru til slíks fallnir.
    Ákveða má, að í stað upptöku til afhendingar samkvæmt 1. mgr. séu munir eða eintök ónýtt að öllu leyti eða nokkru, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota.
    Ákvæðum 1. og 2. mgr. verður ekki beitt gagnvart aðiljum, sem hafa eignast í grandleysi eintak eða eintök til einkanota.
    Ákvæði um upptöku og ónýtingu taka ekki til bygginga.


56. gr.

    Þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, ber að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
    Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.
    Heimilt er að dæma þeim, sem misgert er við, bætur úr hendi þess, sem réttarröskun olli, þó að hann hafi gert það í grandleysi, en ekki mega bæturnar nema hærri fjárhæð en ávinningi hans af brotinu.

BREYTING, VERÐI FRUMVARPIÐ
AÐ LÖGUM


II. KAFLI
Takmarkanir á höfundarétti.


12. gr.

    Opinber skjalasöfn, almenningsbókasöfn, háskólabókasöfn og önnur bókasöfn sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni, önnur opinber söfn og söfn sem falla undir safnalög hafa heimild til að gera eintök af :
     1.      verkum í öryggis- og varðveisluskyni,
     2.      verkum sem í vantar hluta, sem telst minni hluti verksins í heild, og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda. Tekur heimild til gerðar eintaka samkvæmt þessu ákvæði einungis til þess hluta verka sem vantar í eintak viðkomandi safns,
     3.      verkum sem safni er skylt, lögum samkvæmt, að eiga eintök af á safni sínu og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda,
     4.      verkum þegar frumrit þeirra eru of viðkvæm til útláns og eru ófáanleg á almennum markaði og hjá útgefanda,
    Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. er bundin við að eintökin séu einungis til notkunar í starfsemi safnanna og að eintakagerðin sé ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Söfnum eru þó heimil útlán á eintökum sem afrituð hafa verið skv. 2.–4. tölul. 1. mgr.
    Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. tekur ekki til forrita á stafrænu formi nema um tölvuleiki sé að ræða.

12. gr. a.

    Þeim stofnunum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 12. gr. er heimilt að veita einstaklingum aðgang í rannsóknarskyni eða vegna náms að birtum verkum á þar til gerðum búnaði til notkunar á athafnasvæði þeirra.

15. gr. a.

    Þeim sem aflað hefur sér heimildar til ljósritunar eða hliðstæðrar eftirgerðar verka til afnota í starfsemi sinni með samningum við samtök höfundaréttarfélaga sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á því sviði og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt, án sérstaks leyfis höfundar hverju sinni, að fjölfalda verk hans með sama hætti þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Hver einstakur höfundur getur lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari málsgrein.
    Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og þær vera háðar staðfestingu þess. Samtökin skulu auk samningsaðildar hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir fjölföldun, einnig fyrir þá [úrfelling] höfunda sem standa utan þeirra. Skal í samþykktum samtakanna kveðið á um ráðstöfun tekna vegna fjölföldunar og skulu höfundar, er standa utan þeirra, njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
    Höfundaréttarsamtök skv. 1. mgr. ábyrgjast allar kröfur sem fram kunna að koma frá handhöfum höfundaréttar sem ekki eru félagar í samtökunum og réttmætt tilkall eiga til greiðslu fyrir fjölföldun og verða slíkar kröfur aðeins gerðar á hendur samtökunum. Kröfur samkvæmt þessari málsgrein fyrnast á fjórum árum eftir að fjölföldun með réttri heimild var framkvæmd. Ágreiningi um kröfur skal ráðið til lykta af úrskurðarnefnd skv. 57. gr.
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Í reglum þessum má m.a. mæla fyrir um að ákvæði greinarinnar skuli, eftir því sem við á, einnig taka til gerðar véllæsilegra eintaka af útgefnum verkum til afnota í tölvubönkum.

19. gr.

    Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
    Heimildin í 1. mgr. gildir ekki um eftirgerð hljóðupptöku [úrfelling].
    [úrfelling]    Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.

V. KAFLI
Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.


45. gr.

    Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
     1.      Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
     2.      Útvarp á beinum listflutningi.
     3.      Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
     4.      Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr.
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
    Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.

46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 24. gr.

48. gr.

    Óheimilar eru eftirgreindar aðgerðir án samþykkis útvarpsstofnunar:
     1.      Endurvarp (samtímisútvarp) á útvarpi hennar og dreifing þess um þráð.
     2.      Upptaka endurflutnings á útvarpi hennar.
     3.      Birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða ávinnings.
     4.      Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku.
    Réttur útvarpsstöðva skv. 1. mgr. gildir uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu útsendingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 1. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr. og 2. mgr. 23. gr.

VI. KAFLI A
Tæknilegar ráðstafanir o.fl.

50. gr. c.

    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 19. gr., 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að rétthafi hafi ekki sjálfviljugur gert ráðstafanir, til að mynda samninga við aðra hlutaðeigandi aðila, sem tryggja að notandinn geti nýtt sér hin tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr. hvað sem líður beitingu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

53 gr. a.

    Mennta- og menningarmálaráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar þeirra samtaka sem nefnd eru í 6. mgr. 11. gr., 1. mgr. 15. gr. a, 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 23. gr. a, 2. mgr. 25. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 1. mgr. 45. gr. a og 2. mgr. 47. gr.


VII. KAFLI
Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.

54. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal því aðeins refsa, að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Fyrir hlutdeild í brotum skal refsa á sama hátt.
    Sektum eða fangelsi, allt að 2 árum, varða:
     1.      Aðgerðir, sem brjóta í bága við einkarétt höfundar samkvæmt 3. gr.
     2.      Aðili skv. 2. mgr. 25. gr. b lætur hjá líða að senda samtökum þeim sem getið er um í 5. mgr. 25. gr. b upplýsingar skv. 6. mgr. 25. gr. b.
     3.      Brot á 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr., 1. mgr. 39. gr., 53. gr. og fyrirmælum, sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     4.      Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     5.      Brot á 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 49. gr., 1. mgr. 50. gr., 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. d, 51. gr. og 52. gr.
     6.      Innflutningur til landsins á eintökum af verkum eða annarri framleiðslu, sem verndar nýtur eftir V. kafla laga þessara, ef eintökin eru gerð erlendis og atvikum svo háttað, að gerð þeirra hér á landi hefði brotið í bága við lögin, enda séu eintökin flutt inn í þeim tilgangi að sýna þau opinberlega eða dreifa þeim til almennings.
     7.      Innflutningur og framleiðsla tækja og hljóð- eða myndbanda í því skyni að dreifa þeim til almennings og dreifing slíkra tækja eða banda til almennings án þess að greitt sé af þeim höfundaréttargjald samkvæmt 3. og 4. mgr. 11. gr. eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, sbr. 3. mgr. 11. gr.
    Nú er brot framið á vegum félags eða annars fyrirtækis, og má þá dæma fésekt á hendur því.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 50. gr. b, varðar eftirtalin eintakagerð einstaklinga til einkanota ekki refsingu:
     1.      eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda,
     2.      eintakagerð sem fram fer andstætt 1. mgr. 50. gr. b.

55. gr.

    Nú hafa eintök af verkum verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi, þannig að í bága fer við ákvæði laga þessara eða fyrirmæli, sem sett hafa verið skv. 2. mgr. 31. gr., og má þá ákveða í dómi að eintökin séu afhent brotaþola, eyðilögð, fjarlægð af markaði eða tekin úr dreifingu, varanlega eða tímabundið, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota.
    Hið sama gildir um efni, áhöld og aðra muni sem varða undirbúning eða framkvæmd brots.
    Ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr. skulu eiga sér stað á kostnað hins brotlega og án endurgjalds af hálfu brotaþola. Liggi til þess alveg sérstakar ástæður er þó heimilt að kveða á um í dómi að brotaþoli skuli greiða hæfilegt endurgjald.
    Við ákvörðun dómara skv. 1. og 2. mgr. skal þess gætt að samræmi sé milli umfangs brots og þeirra ráðstafana sem kveðið er á um jafnframt því sem tekið skal hæfilegt tillit til hagsmuna þriðja manns, þar á meðal í þeim tilvikum þegar eigandi munar veit ekki um brot.


56. gr.

    Sá sem hefur brotið gegn lögum þessum með ásetningi eða gáleysi skal greiða bætur vegna brotsins. Þótt brotið sé framið í góðri trú er heimilt að ákveða þeim sem orðið hefur fyrir tjóni bætur úr hendi hins brotlega.
    Við ákvörðun bóta skv. 1. mgr. skal ekki eingöngu miða við það beina fjárhagstjón sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, heldur ber auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Verði ekki færðar sönnur á tjón brotaþola eða hagnað hins brotlega skal ákveða bætur að álitum hverju sinni.
    Dæma má höfundi eða öðrum rétthafa bætur fyrir miska vegna brots á lögum þessum.

59. gr. a.

    Þau samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 23. gr. og 23. gr. a, geta fengið lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka, sem löggildingin nær til og verndar njóta samkvæmt lögum þessum, án þess að hafa fengið umboð til þess frá höfundum eða öðrum rétthöfum verkanna, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.
    Um lögbann samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

59. gr. b.

    Í dómsmáli vegna brots á lögum þessum getur dómari að kröfu málsaðila lagt fyrir gagnaðila eða þriðja aðila að láta í té upplýsingar, sem hann hefur aðgang að, um vörur eða þjónustu sem kann að fela í sér brot á lögunum. Þetta á þó aðeins við ef sá sem krafan beinist að:
     1.      hefur í atvinnuskyni haft umráð yfir vörunum,
     2.      hefur í atvinnuskyni notað þjónustuna,
     3.      hefur veitt þjónustu sem notuð er til athafna er kunna að fela í sér brot á lögunum,
     4.      hefur veitt aðstoð við að framleiða eða dreifa vörunni eða við að veita þjónustuna.
    Upplýsingar þær sem um ræðir í 1. mgr. ná til:
     1.      nafns og heimilisfangs framleiðenda, dreifingaraðila, þjónustuveitanda og annarra fyrrverandi eigenda vara og þjónustu og til heildsala og smásala sem vörurnar voru ætlaðar,
     2.      magns framleiddra, afhentra, móttekinna eða pantaðra vara eða þjónustu og söluandvirði vara eða þjónustu.
    Dómara ber að synja kröfu skv. 1. mgr. ef ætla má að það að láta upplýsingarnar í té muni valda þeim sem krafan beinist að óhæfilegu tjóni, að teknu tilliti til þess hve mikið er í húfi fyrir þann sem kröfuna gerir til að fá upplýsingarnar.
    Ekki er skylt að láta í té upplýsingar samkvæmt þessari grein ef sá sem krafa beinist að er undanþeginn vitnaskyldu samkvæmt almennum réttarfarsreglum.

59. gr. c.

    Í dómi þar sem kveðið er á um brot á lögum þessum eða ráðstafanir skv. 55. gr. má að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Birtingin skal fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt má teljast.
    Hinn brotlegi skal annast og kosta birtinguna.
Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum,
nr. 73/1972, með áorðnum breytingum

    Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á II. kafla höfundalaga, nr. 73/1972 um takmarkanir á höfundarétti til hagsbóta fyrir bókasöfn og notendur sem vegna fötlunar geta ekki lesið prentað mál. Þá eru lagðar til breytingar á VII. kafla laganna, sem varða réttarúrræði sem nauðsynleg þykja til að bregðast við stórfelldum höfundaréttarbrotum á netinu. Með þeim breytingunum verða tekin upp nokkur ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á höfundalögum vegna innleiðingar svonefndrar þjónustutilskipunar 2006/123/EB.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Sjá FOR 2001-12-21 nr. 1563: Forskrift til åndsverkloven (lov av 12. mai 1961 nr. 2 om opphavsrett til åndsverk m.v.) eins og henni var breytt með FOR-2007-11-23-1281 fra 2008-01-01, hér eftir nefnd norska reglugerðin.
Neðanmálsgrein: 2
    2 1. mgr. 1.–2. gr. í norsku reglugerðinni.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Article 17(11) does not constitute a derogation covering a whole category of services (indeed many of the derogations included in Article 17 do not refer to services but to „matters“ or aspects of legislation affecting services generally, e.g. data protection, posting of workers and also IPR). This means that only those aspects are not governed by the principle established in Article 16. For instance, a service provider whose services include content protected by copyright (for instance a newspaper or an on-line service) will not be able to argue that Article 16 allows the provision of the service without taking into account the existence of copyright in the country of reception of the service (for instance ignoring the need to obtain a licence). However, the service as such (the media service or the on-line service) is not excluded from Article 16 just because copyright is a requirement that will affect the content of the service. The same logic applies for the services provided by collecting societies. The services they provide (both to users and to right holders) are services of representation, negotiation, granting of licences, monitoring, etc. The fact that the services deal with copyright does not bring them out of the scope of Article 16, in the same manner as a service using content protected by copyright (as in the examples referred to above) is not out of Article 16. Only the specific issue of the copyright law applicable is covered by the derogation.