Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 534. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 923  —  534. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiðrétta höfuðstól íbúðalána heimilanna tafarlaust með því að færa vísitölu verðtryggingar handvirkt fram fyrir hrun hagkerfisins og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2% – 3% og afborgunum af húsnæðislánum verði hægt að fresta um tvö ár með lengingu lánsins um þann tíma. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við lagfæringu verðtryggðra íbúðalána. Náð verði samkomulagi við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að þeim verði breytt í skuldabréf með föstum vöxtum og dregið úr vægi verðtryggingar.


Greinargerð.

    Í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins breyttust aðstæður íslenskra heimila mjög til hins verra. Mestum vanda hafa stökkbreytt lán vegna húsnæðiskaupa valdið en bæði verðtryggð og gengistryggð lán hafa hækkað gífurlega frá því í janúar 2008. Orsök vandans er að finna í hruni á gengi krónunnar, verðbólgu og háum vöxtum en auk þess glíma mörg heimili við atvinnuleysi og tekjuskerðingu. Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er eiginfjárstaða 20% íslenskra heimila neikvæð en ætla má að sú tala sé vanáætluð þar sem frost ríkir á fasteignamarkaði og verðfall á eignum fyrirsjáanlegt. Þeir sem eru í mestum vanda er fólk sem keypt hefur þak yfir höfuðið á síðustu tíu árum, ýmist fyrstu íbúð eða stækkað við sig. Ljóst er að fjölmörg heimili munu ekki geta staðið undir þeim byrðum sem á þau hafa verið lagðar og ljóst að til almennra aðgerða verður að grípa.

Almennar aðgerðir.
    Dregist hefur allt of lengi að bregðast við þeim algjöra forsendubresti sem varð við hrunið. Aðgerðir stjórnvalda hafa verið sértækar og miðast við að minnka það högg sem felst í gjaldþroti einstaklinga. Þær taka þó ekki á þeim almenna vanda sem heimilin standa frammi fyrir að neinu gagni þótt frysting og lenging lána geri fleirum kleift að standa skil við hver mánaðamót. Öllum ætti þó að vera ljóst að slíkt gengur ekki til frambúðar. Forsenda þess að sátt skapist í samfélaginu er almenn leiðrétting á skuldastöðu heimilanna. Venjulegir Íslendingar höfðu engar forsendur til að sjá fyrir það efnahagslega stórviðri sem gekk yfir landið. Auk þess höfðu margir fylgt ráðgjöf fjármálafyrirtækja sem í mörgum tilfellum mæltu með erlendri lántöku. Þá svíður mörgum að sjá skuldir svokallaðra útrásarvíkinga og forkólfa í atvinnulífinu afskrifaðar á meðan lán heimilanna standa ósnert. Réttlæti fæst ekki fyrr en forsendubresturinn hefur verið leiðréttur. Þannig verður fjöldagjaldþrotum afstýrt, flest heimili munu geta spjarað sig, almenn neysla eykst og með henni fara hjól atvinnulífsins aftur að snúast.

Svigrúm til leiðréttinga
.
    Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um það svigrúm, sem fjármálafyrirtæki hafa til almennra leiðréttinga. Viðskiptanefnd Alþingis hefur ítrekað kallað eftir þeim upplýsingum án árangurs. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá október 2009 er fjallað um skuldir heimilanna. Úr skýringarmynd á bls. 21 má lesa að skuldir heimilanna hafi verið fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með u.þ.b. 45% afslætti en engar tölur eru þó nefndar með umfjölluninni. 45% afslátturinn hefur verið til umræðu í marga mánuði en hefur þó hvorki verið staðfestur né heldur neitað. Þann 12. mars 2010 birti Morgunblaðið frétt um uppgjör nýju bankanna og samkvæmt henni voru lán heimilanna færðar yfir úr gömlu bönkunum í þá nýju á hálfvirði. Svigrúm til almennra leiðréttinga ætti því að vera nægilegt en leiðrétta þarf gengistryggð lán um u.þ.b. 50% en verðtryggðu lánin um u.þ.b. 20%. Um 80% íslenskra íbúðalána eru verðtryggð. Svigrúm fjármálafyrirtækja þyrfti að fást staðfest sem allra fyrst.

Afnám verðtryggingar.
    Í núverandi kerfi verðtryggingar vantar allan hvata fyrir fjármagnsstofnanir að halda verðbólgunni lágri. Nauðsynlegt er að afnema verðtrygginguna með öllu nema á sérstökum ríkisskuldabréfum til langs tíma. Ef til vill hentar þó best að afnema hana í þrepum. Æskilegt væri að til að byrja með yrði sett þak á verðtrygginguna sem mundi miðast við 4% verðbótaþátt að hámarki árlega.

Ábyrgð lánastofnanna og ríkisvaldsins.
    Ljóst er að ríkisvaldið sem og lánastofnanir höfðu haft veður af hruninu um þó nokkurt skeið fyrir hrunið án þess að gera ráðstafanir til að takmarka tjón heimila vegna þess. Auk þess má ætla að hrunið sé beinlínis tilkomið vegna breytni eða skorts á aðgerðum stjórnmálamanna og fjármálafyrirtækja. Því er með öllu ólíðandi að heimili og fjölskyldur landsins verði að bera byrðar hrunsins að mestu leyti, auk þess að taka á sig tekjuskerðingu og skattahækkanir.

Rof samfélagssáttmálans.
    Með setningu neyðarlaganna, laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125 7. október 2008, tók ríkisvaldið að sér að tryggja allar innstæður á reikningum á Íslandi þótt einungis væri gert ráð fyrir því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tryggði innstæður upp að 20.877 evrum. Með því tók ríkissjóður á sig tap vegna bankahrunsins. Stjórnvöld hafa því með lagasetningu bætt þeim sem áttu fé á reikningum í bönkunum innstæður sínar að fullu en þeim sem skulduðu bönkunum er hins vegar gert að greiða lán sín tilbaka með öllum þeim kostnaði sem á þau eru fallin. Þegar ljóst er að bankarnir hafa verulegt svigrúm til leiðréttingar lána og að jafnvel hafi verið gert ráð fyrir leiðréttingu við yfirfærslu skuldanna er óskiljanlegt að heimilin í landinu fái ekki að njóta réttlætis.