Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.

Þskj. 939  —  549. mál.Frumvarp til laga

um grunngerð landupplýsinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að byggja upp og viðhalda grunngerð landupplýsinga á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum á Íslandi.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til stafrænna landupplýsinga sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda og varða íslenskt land, landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið nánar á um þá þætti stafrænna landupplýsinga sem lögin taka til.
    Hvað varðar lögaðila sem falla undir ákvæði b- og c-liðar 3. tölul. 3. gr. taka ákvæði laga þessara einvörðungu til stafrænna landupplýsinga sem verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þessara aðila.
    Lög þessi hafa ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum sem falla undir lögin.
    Landupplýsingar í eigu annarra aðila en þeirra sem lög þessi taka til falla undir lög þessi hafi eigandi þeirra fengið leyfi til að tengja þau gögn við landupplýsingagátt, sbr. 5. gr., á grundvelli laga þessara.
    Séu til mörg samsvarandi eintök af sömu gögnunum ná lögin einungis til upprunalegrar útgáfu gagnanna, sem afrit þeirra byggjast á.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     1.      Grunngerð landupplýsinga: Tækni, stefnur, staðlar og mannauður sem þarf til að afla, vinna úr, varðveita, miðla og auka nýtingu á landupplýsingum.
     2.      Landupplýsingar: Gögn og upplýsingar sem eru tengd yfirborði jarðar, hvort heldur með hnitum eða auðkenni, t.d. staðfang eða póstnúmer.
     3.      Stjórnvöld:
              a.      Öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga.
              b.      Lögaðili sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir a-lið.
              c.      Lögaðili sem gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lýtur stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir a-lið. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. a-lið tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.
     4.      Lýsigögn: Upplýsingar um gögn og/eða þjónustu eða lýsing einkenna gagnasafna, svo sem innihalds, eiginleika eða ástands.
     5.      Samhæfni: Hæfni tveggja eða fleiri kerfa eða gagnasafna til samtengdrar vinnslu.
     6.      Vefþjónusta: Lausn fyrir aðgengi og birtingu landupplýsinga á vefnum.
     7.      Landupplýsingagátt: Staður á vefnum sem veitir aðgengi að landupplýsingum og þjónustu vegna þeirra.

4. gr.
Lýsigögn.

    Stjórnvöld skulu leggja fram lýsigögn fyrir þær landupplýsingar og vefþjónustu sem þau eiga, reka eða varðveita. Uppfæra skal lýsigögnin ef breytingar verða á gögnunum eða ný gögn bætast við.

5. gr.

Landupplýsingagátt.

    Landmælingar Íslands skulu starfrækja landupplýsingagátt til að veita aðgengi að landupplýsingum og upplýsingum um þær. Eftirtalin vefþjónusta skal vera aðgengileg öllum í gegnum landupplýsingagáttina:
     1.      Lýsigagnaþjónusta sem gerir kleift að leita að landupplýsingum og þjónustu vegna þeirra á grundvelli upplýsinga sem felast í lýsigögnum.
     2.      Skoðunarþjónusta sem að lágmarki gerir mögulegt að skoða gögn, skýringar þeirra og lýsigögn, fara um, þysja inn/út, hliðra eða skara landupplýsingar.
     3.      Niðurhalsþjónusta sem gerir mögulegt að hala niður afritum landupplýsinga eða fá beinan aðgang að þeim, hvort sem er að öllu leyti eða að hluta.
     4.      Vörpunarþjónusta sem gerir mögulegt að varpa landupplýsingum til að samhæfni náist, svo sem milli hnitakerfa.
     5.      Þjónusta sem gerir mögulegt að virkja ólíka vefþjónustu landupplýsinga.
    Aðgangur að þjónustu skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. skal opinn öllum með þeim takmörkunum á upplýsingarétti sem greinir í 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál.

6. gr.
Skyldur stjórnvalda.

    Stjórnvöld sem hafa landupplýsingar í umsjá sinni skulu sjá til þess að gögn og vefþjónusta vegna þeirra séu gerð aðgengileg í gegnum þá landupplýsingagátt sem kveðið er á um í 5. gr.
    Séu landupplýsingar og vefþjónusta í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra skulu stjórnvöld hafa tæknilega getu til að miðla gögnum og tengja þau landupplýsingagátt, sbr. 5. gr.
    Stjórnvöldum er ekki skylt á grundvelli laga þessara að afla nýrra gagna.

7. gr.

Tenging annarra en stjórnvalda við landupplýsingagátt.

    Aðrir en stjórnvöld, sem búa yfir landupplýsingum sem eru í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra, geta sótt um að fá að tengja landupplýsingar sínar við landupplýsingagátt. Beiðni um slíkt skal send Landmælingum Íslands sem tekur ákvörðun um hvort tenging sé heimil. Jafnframt geta Landmælingar Íslands haft frumkvæði að eða óskað eftir að aðrir aðilar en stjórnvöld tengi gögn sín við landupplýsingagátt.

8. gr.
Sameiginleg notkun gagna.

    Stjórnvöld skv. a- og b-lið 3. tölul. 3. gr. skulu veita hvert öðru aðgang að landupplýsingum og vefþjónustu þeim tengdum og gera hvert öðru kleift að skiptast á og nota landupplýsingar og þjónustu í opinberum verkefnum.
    Stjórnvöld skulu veita stofnunum Evrópusambandsins og EFTA aðgang að landupplýsingum og þjónustu skv. 5. gr.

9. gr.
Hlutverk Landmælinga Íslands.

    Landmælingar Íslands hafa umsjón með framkvæmd laga þessara.
    Landmælingar Íslands sjá um rekstur, virkni, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar, sbr. 5. gr. Landmælingar Íslands skulu einnig vera stjórnvöldum til ráðgjafar til að skyldum samkvæmt lögum þessum sé fullnægt.

10. gr.

Samræmingarnefnd vegna landupplýsinga.


    Umhverfisráðherra skipar samræmingarnefnd vegna grunngerðar landupplýsinga til fimm ára í senn. Nefndin skal skipuð níu fulltrúum og skal einn tilnefndur af umhverfisráðuneyti, einn af forsætisráðuneyti, einn af fjármálaráðuneyti, einn af iðnaðarráðuneyti, einn af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, einn af mennta- og menningarmálaráðuneyti, einn af Landmælingum Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af samtökum um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA). Umhverfisráðherra skipar formann hópsins.
    Nefndin skal vera faglegur vettvangur til að móta stefnu í landupplýsingamálum. Nefndin skal einnig vinna að aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld við að innleiða grunngerð landupplýsinga á Íslandi. Aðgerðaáætlunin skal vera til fimm ára í senn og skal staðfest af umhverfisráðherra.

11. gr.
Gjaldtaka.

    Þjónusta skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. er veitt án endurgjalds. Heimilt er að láta gögn hjá skoðunarþjónustu skv. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. vera á sniði sem kemur í veg fyrir að þau séu endurnotuð í viðskiptalegum tilgangi.
    Heimilt er að innheimta gjald fyrir þjónustu skv. 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 5. gr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við að veita þjónustu og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.
    Sé gjald innheimt skal notendum gert kleift að greiða fyrir þjónustuna með rafrænum hætti.

12. gr.

Upplýsingagjöf.


    Stjórnvöldum er skylt að veita Landmælingum Íslands þær upplýsingar á grundvelli þessara laga sem ráðherra óskar eftir, þ.m.t. um notkun, útbreiðslu og aðgengi að landupplýsingum.

13. gr.
Reglugerðarheimild.

    Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.m.t. um:
     a.      þá þætti landupplýsinga sem lögin skulu ná til, sbr. 2. gr.,
     b.      þær upplýsingar sem lýsigögn skulu innihalda og um uppfærslu á þeim, sbr. 4. gr.,
     c.      landupplýsingagátt til að veita aðgengi að landupplýsingum og upplýsingum um þær, m.a. um samsetningu leitarþátta, sbr. 5. gr.,
     d.      gjaldtöku, sbr. 11. gr.,
     e.      upplýsingar sem stjórnvöldum er skylt að veita ráðherra, sbr. 12. gr.

14. gr.
Innleiðing á tilskipun.

     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

16. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð, bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að hafa umsjón með uppbyggingu, framkvæmd og eftirfylgni við grunngerð landupplýsinga á Íslandi í samræmi við lög um grunngerð landupplýsinga.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Landmælingar Íslands skulu koma á fót landupplýsingagátt, sbr. 5. gr., fyrir 1. júní 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er samið í þeim tilgangi að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna EES- samningsins. Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga sem nefnd hefur verið INSPIRE (e. Infrastructure for Spatial Information in the European Community). Tilskipunin tók gildi innan Evrópusambandsins 15. maí 2007.

II.


    INSPIRE-tilskipunin grundvallast á svonefndri grunngerð fyrir landupplýsingar, sem aðildarríki koma upp hjá sér (e. National Spatial Data Infrastructure – NSDI). Undanfarin ár hefur víða um heim verið unnið að því að skilgreina og innleiða grunngerð landupplýsinga. Ýmsar skilgreiningar eru til á þessu hugtaki en eftirfarandi skilgreining lýsir því vel: tækni, stefnur, staðlar og mannauður sem þarf til að afla, vinna úr, varðveita, miðla og auka nýtingu á landupplýsingum. Virk grunngerð landupplýsinga er mikilvægur þáttur góðrar skilvirkar stjórnsýslu svo sem við ákvarðanatöku, stefnumörkun og til að virkja almenning. Um leið er slíkt skipulag tækifæri fyrir einkamarkaðinn til að þróa nýjar lausnir þar sem landupplýsingar koma við sögu. Með þetta í huga hafa margar þjóðir heims á síðustu árum byggt upp grunngerð landupplýsinga (NSDI) og hefur reynslan sýnt að hjá sumum þeirra er um langtímaverkefni að ræða. Hér á landi hefur grunngerð landupplýsinga ekki verið byggð upp formlega þó svo að mikil vakning hafi orðið vegna þessa málaflokks á undanförnum árum og margt hafi áunnist sem nýtist við að innleiða INSPIRE tilskipunina hér á landi.
    Markmið INSPIRE-tilskipunarinnar er að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar og þá einna helst í þágu umhverfismála. Landupplýsingar eru m.a. hvers kyns hnitsettar upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð. Vegna mikilvægis umhverfismála og pólitískrar stefnumörkunar innan Evrópusambandsins er talið nauðsynlegt að aðildarríkin geti skipst á landupplýsingum yfir landamæri og að gögnin séu samnýtanleg. Með tilskipuninni eru settar reglur um hvernig skipulag, upplýsingamiðlun og aðgengi að staðgögnum skuli vera auk þess sem sett eru fyrirmæli um það hvernig eftirliti með slíkum gögnum skuli háttað. Talið er að helmingur allra upplýsinga sem falla undir INSPIRE-tilskipunina séu á forræði umhverfisráðuneytisins og stofnana þess. Einnig ber að líta til þess að virk grunngerð landupplýsinga kemur til með nýtast fyrir aðrar landupplýsingar en þær sem snúa beint að umhverfismálum, svo sem landupplýsingar sem varða félagslega og hagræna þætti. Til framtíðar er því markmið laganna að sem flest staðgögn stjórnvalda séu hluti af grunngerð landupplýsinga.

III.


    Frumvarp þetta er samið af starfshópi í umhverfisráðuneytinu sem hefur starfað frá júlí 2008 við að undirbúa innleiðingu á INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins um landupplýsingar hér á landi. Í honum eiga sæti Sesselja Bjarnadóttir, umhverfisráðuneyti, Kristín Rannveig Snorradóttir, umhverfisráðuneyti, Eydís Líndal Finnbogadóttir, Landmælingum Íslands, Gunnar Haukur Kristinsson, Landmælingum Íslands, og Magnús Guðmundsson, Landmælingum Íslands. Landmælingum var upphaflega falið með bréfi umhverfisráðuneytisins dags. 2. júlí 2008 að gera könnun á því til hvaða opinberu stofnana INSPIRE-tilskipunin nær og að meta stöðu landfræðilegra gagnagrunna sem þessar stofnanir reka. Einnig var verkefni Landmælinga að kortleggja á hvaða formi umræddir gagnagrunnar væru, hvað þyrfti til að koma þeim á stafrænt form og hver áætlaður kostnaður þess verkefnis væri. Í upphafi vinnu starfshópsins var litið til þess hvernig nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa fjallað um INSPIRE-verkefnið. Valið var að fara svipaða leið og í Danmörku þar sem sett voru sérstök lög um grunngerð landupplýsinga. Var þetta talið skýrara en að fara þá leið að breyta lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, þar sem verkefnum og skyldum Landmælinga Íslands eru gerð skil.
    Í aðdraganda vinnu við frumvarpið var haft víðtækt samráð við fjölmargar stofnanir og sveitarfélög. Jafnframt hefur INSPIRE-tilskipunin verið kynnt meðal hagsmunaaðila á fundum og ráðstefnum, m.a. á árlegum ráðstefnum LÍSU-samstakanna árin 2007–2009. Tilskipunin var jafnframt þýdd og gerð aðgengileg á íslensku á vefnum árið 2007 til að auðvelda hagsmunaaðilum að kynna sér efni hennar. Áður en framangreindur starfshópur var settur á laggirnar hafði umhverfisráðuneytið leitað upplýsinga um hvaða áhrif INSPIRE kynni að hafa á störf stjórnvalda. Ráðuneytið sendi eftirfarandi aðilum bréf: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sjávarútvegsráðuneyti, samgönguráðuneyti, menntamálaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Hagstofu Íslands, félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti og óskaði eftir upplýsingum um hvort og þá að hvaða leyti innleiðing INSPIRE-tilskipunarinnar mundi kalla á breytingar á íslenskum lögum og hvaða kostnað það myndi hafa í för með sér. Fram kom að þeir sem í stjórnsýslunni starfa telja að INSPIRE ýti á nauðsynlegar úrbætur varðandi skipulag og umsýslu landupplýsinga hér á landi. Frumvarp þessu er ætlað að bæta verulega úr hvað varðar stefnu stjórnvalda um landupplýsingar. Jafnframt er mikilvægt að samræma öflun og innkaup landupplýsinga hér landi. Þar þarf að koma til víðtækt samstarf opinberra aðila til að tryggja sem hagkvæmastar lausnir á þessu sviði og að landupplýsingar nýtist sem víðast í samfélaginu.
    Skýrsla Landmælinga Íslands „INSPIRE. Tilskipun Evrópusambandsins um samræmda notkun landupplýsinga. Greinargerð og tillögur. Landmælingar Íslands, nóvember 2008“ var gefin út í nóvember 2008. Skýrsluna má finna á heimasíðu Landmælinga Íslands. Við vinnslu skýrslunnar voru haldnir kynningarfundir um INSPIRE-tilskipunina og niðurstöður könnunar sem gerð var. Umrædd könnun var gerð meðal um 30 opinberra stofnana en niðurstöður hennar voru m.a. að gögn á vegum stjórnvalda eru dreifð og oft illa aðgengileg og ekki liggur fyrir heildarstefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði hér á landi. Í kjölfar skýrslunnar var áðurnefndur starfshópur myndaður og honum falið að vinna frumvarp þetta.
    Annar þáttur við að afla upplýsinga á þessu sviði og kynna INSPIRE-tilskipunina var gerð könnunar meðal allra sveitarfélaga á Íslandi, sem Landmælingar Íslands stóðu að á haustmánuðum 2009. Stofnunin fékk til samstarfs við það verkefni Samband íslenskra sveitarfélaga en fyrirtækið Alta sá um framkvæmd könnunarinnar. Þá var frumvarpið sent til kynningar rúmlega 50 stofnunum og hagsmunaaðilum í febrúar 2010 og þeim gefið færi á að koma að athugasemdum við lokadrög frumvarpsins.
    Hvað varðar hugtakanotkun í frumvarpinu er rétt að geta þess að hugtakið grunngerð landupplýsinga er notað um það sem á ensku er kallað „spatial data infrastructure“. Við vinnslu frumvarpsins var ákveðið að nota oftast orðið „landupplýsingar“ fyrir ensku hugtökin „spatial data“ og „geographic information“ þrátt fyrir að orðið „landupplýsingar“ sé talið hafa víðari merkingu en orðið „staðgögn“.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni segir að markmið frumvarpsins sé að tryggja að byggð verði upp og viðhaldið grunngerð landupplýsinga á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja aðgengi yfirvalda og almennings að landupplýsingum á Íslandi. Með þessu er lögð áhersla á að hér á landi eigi að vinna markvisst að því af hálfu stjórnvalda að auka notkun landupplýsinga með það að leiðarljósi að nýjasta tækni, staðlar og þekking verði notuð með sem bestum hætti. Þannig verði það annars vegar tryggt að þeirra grunngagna sé aflað sem samfélagið þarf á að halda og hins vegar að þessi grunngögn verði gerð aðgengileg þannig að sömu gagnanna verði ekki aflað margsinnis á vegum hins opinbera. Í markmiðinu felst einnig að það verði tryggt að auðvelt sé að finna gögn og að vefurinn verði nýttur til að miðla slíkum gögnum eða upplýsingum um þau til samfélagsins.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er skilgreint til hvaða gagna lögin taka. Hér er um að ræða stafrænar landupplýsingar, þ.m.t. staðgögn, sem eru í eigu stjórnvalda eða á vegum þeirra og snerta íslenskt yfirráðasvæði. Með orðalaginu „á vegum“ er átt við stafræn gögn sem stjórnvöld nýta í verkefnum sínum án þess að eiga gögnin eða bera ábyrgð á þeim. Rétt er að benda á að staðgögn eru upplýsingar sem skilgreina staðsetningu og einkenni náttúrufitja eða manngerðra fitja og afmörkun á jörðu. Þessar upplýsingar kunna m.a. að hafa fengist með fjarkönnun, kortlagningu og landmælingatækni.
    Með INSPIRE-tilskipuninni fylgja þrír viðaukar sem fjalla um þá þætti stafrænna landupplýsinga sem tilskipunin nær til. Er með frumvarpinu gert ráð fyrir að sett verði reglugerð sem mun m.a. tilgreina þessa þætti, en þeir eru eftirfarandi:

Viðauki 1 Viðauki 2 Viðauki 3
Hnitakerfi,
landfræðilegt reitakerfi,
örnefni,
stjórnsýslueiningar,
staðföng,
lönd og lóðir,
samgöngur,
vatnafar,
verndaðir staðir.
Hæð,
yfirborð,
uppréttar fjarkönnunarmyndir,
jarðfræði.
Tölfræðilegar einingar,
byggingar,
jarðvegur,
landnotkun,
heilsa manna og öryggi,
veitu- og stjórnvaldsþjónusta,
aðstaða til umhverfiseftirlits, framleiðslu- og iðnaðaraðstaða,
aðstaða fyrir landbúnað og fiskeldi,
dreifing fólksfjölda - lýðfræði svæðisstjórnun og skýrslueiningar,
náttúruleg áhættusvæði,
skilyrði í lofthjúp,
veðurfræðilegar mælingar, haffræðilegar mælingar, innhafssvæði,
líflandfræðileg svæði,
vistgerð,
útbreiðsla tegunda,
orkuauðlindir,
jarðefnaauðlindir.

    Á vettvangi Evrópusambandsins verða gefnar út leiðbeiningar um hvern þátt viðaukanna þar sem tæknileg atriði verða nánar útfærð.
    Gert er ráð fyrir að INSPIRE-tilskipunin kom til framkvæmda í áföngum allt til ársins 2019. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn á vormánuðum 2010.
Rétt er að vekja athygli á því lögin ná einvörðungu til stafrænna gagna. Þetta þýðir sem dæmi að lögin taka ekki til prentaðra korta eða loftmynda á filmu.
    Lögin ná til allra stjórnvalda, sbr. 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Hinsvegar er það áréttað í 2. mgr. að einungis stafrænar landupplýsingar sem verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þeirra stjórnvalda sem falla undir ákvæði b- og c-liðar 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins falla undir lögin. Hafi hinar stafrænu landupplýsingar ekki orðið til eða verið aflað í tengslum við rækslu hins opinbera hlutverks munu þær því ekki falla undir gildissvið laganna.
    Með ákvæði 3. mgr. er tekinn af allur vafi um að verði frumvarp þetta að lögum, hafi þau ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum og gögnum sem falla undir lögin. Rétt er að geta þess að skv. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, er meginregla að höfundaréttur verður aðeins til hjá lifandi persónum en ekki lögaðilum. Eiga opinberar stofnanir því að jafnaði ekki höfundarétt að verkum starfsmanna sinna nema hann hafi verið framseldur sérstaklega. Þá vísar ákvæðið einnig til þess að lögin hafi ekki áhrif á höfundarétt þriðja aðila sem hugsanlega á landupplýsingar eða gögn sem eru í notkun hjá opinberum aðilum. Dæmi um slíkt er þegar einkaaðilar sjá um öflun og framleiðslu frumgagna t.d. vegna kortagerðar eða loftmyndatöku. Um slík frumgögn gilda að jafnaði höfundalög, nr. 73/1972, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi í mörgum tilfellum fullan rétt á að nota gögnin, birta þau eða miðla þeim til annarra. Hins vegar er ljóst að dæmi eru um að stjórnvöld hafi ekki leyfi til opinberrar birtingar landupplýsinga vegna samninga við einkaaðila sem hafa undanskilið þann rétt sérstaklega í leyfissamningum, sbr. 3. gr. höfundalaga. Með frumvarpinu eiga slík tilvik að verða úr sögunni þar sem stjórnvöld verða að haga samningum um kaup á landupplýsingum með hætti að heimilt verði að birta þau og gera aðgengileg í landupplýsingagátt, sbr. 5 .gr. Þá rétt að benda á að áfram verður heimilt að binda notkun gagna leyfi, sem veitir afnotarétt í tilteknum verkefnum eða vörum. Þó verða slíkar leyfisveitingar að samræmast því almenna markmiði tilskipunarinnar að auðvelda samnýtingu landupplýsinga og þjónustu milli stjórnvalda.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er tilgreint að heimilt verður að nýta vefþjónustu vegna laganna, sbr. 5. gr., vegna gagna sem eru í eigu annarra en lögin ná til. Sem dæmi um slíkt mætti nefna ef gögn í eigu einkafyrirtækis væru birt á vefþjónustu enda væru gögnin talin eiga erindi til stjórnvalda eða almennings.
    Í 5. mgr. ákvæðisins er fjallað um þau tilfelli þegar til eru mörg eintök af sömu gögnunum eða þegar mörg afrit eru gerð. Til hagræðis og einföldunar er eingöngu gert skylt að skrá og gera aðgengileg frumgögn. Þetta ákvæði kallar á nákvæma skráningu og að stjórnvöld setji upp skýrt verklag til að tryggja að ekki verði margskráning gagna.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu eru skilgreind nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu. Mikilvægt þykir að hugtök frumvarpsins séu skýr þar sem tilgangur þess er m.a. að skilgreina og tryggja uppbyggingu grunngerðar landupplýsinga sem er nýjung á Íslandi. Er um að ræða þýðingar á eftirtöldum hugtökum sem koma m.a. úr INSPIRE-tilskipuninni: Infrastructure for spatial information (grunngerð landupplýsinga), geographic information (landupplýsingar), metadata (lýsigögn), interoperability (samhæfni), web service (vefþjónusta), geoportal (landupplýsingagátt).
    Rétt er að árétta að við skilgreiningu á hugtakinu stjórnvald, sbr. 3. tölul. ákvæðisins, var horft til þess hvernig það hugtak er skilgreint í lögum um upplýsingarétt um umhverfismál, nr. 23/2006. Þau lög voru sett til að innleiða tilskipun 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Skilgreining tilskipunar 2007/2/EB á stjórnvöldum (e. public authorities) er samhljóða skilgreiningu tilskipunar 2003/4/EB og var því talið rétt að haga skilgreiningunni í frumvarpi þessu með sama hætti og í lögum um upplýsingarétt um umhverfismál. Með hliðsjón af því að ákvæðið er samhljóða 2. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál er á því byggt að það verði skýrt á sambærilegan hátt.
    Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Mikil aukning hefur verið í framleiðslu stafrænna korta og önnur vinnsla landupplýsinga fer vaxandi. Sífellt verður erfiðara að fá yfirsýn yfir hvað til er af slíkum gögnum hverju sinni. Með ákvæðinu er gerð sú krafa til stjórnvalda á Íslandi að skrá í veflausn svokölluð lýsigögn um landupplýsingar og vefþjónustu sem þau eiga, reka eða varðveita. Einnig er undirstrikað mikilvægi þess að uppfæra upplýsingar um lýsigögn með reglulegum og skipulegum hætti svo að hægt sé að treysta því sem þar er skráð. Rétt er að árétta að lýsigögn eru ágrip upplýsinga um gögn og/eða þjónustu eða lýsing einkenna gagnasafns svo sem á innihaldi, eiginleika eða ástandi.

Um 5. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru byggð á 11. gr. tilskipunar 2007/2/EB. Með henni er Landmælingum Íslands gert skylt að starfrækja landupplýsingagátt til að veita aðgengi að landupplýsingum og upplýsingum um þær. Landupplýsingagáttin skal vera opin og aðgengileg öllum.
Gert er ráð fyrir að með slíkri landupplýsingagátt verði nýtt besta möguleg tækni hverju sinni við að tengja saman ólíka, dreifða gagnagrunna, svo sem með WMS-staðli (Web Map Service). Rétt er að árétta að með lögunum er ekki gert ráð fyrir að gögn verði afrituð til birtingar frá upprunastað sínum og þau geymd miðlægt, heldur munu gögn verða hýst og þeim viðhaldið á hverri stofnun og sveitarfélagi fyrir sig.
    Í 1. tölul. er kveðið á um lýsigagnaþjónustu sem á að gera það kleift að leita að landupplýsingum og þjónustu vegna þeirra á grundvelli upplýsinga sem felast í lýsigögnum. Hér er um að ræða vefþjónustu þar sem fram koma lýsigögn, eða „gögn um gögn“ til að tryggja að mögulegt sé að fá heildaryfirsýn yfir þær landupplýsingar sem stjórnvöld búa yfir og geta nýst öðrum. Ekki verður heimilt að taka gjald fyrir notkun á þessari þjónustu. Ákvæðið er byggt á a-lið 1. mgr. tilskipunar 2007/2/EB.
    Í 2. tölul. er kveðið á um skoðunarþjónustu sem á að lágmarki að gera það mögulegt að skoða, fara um, þysja inn/út, hliðra eða skara landupplýsingar og að sýna skýringar þeirra og viðeigandi lýsigögn. Þessi þjónusta gengur skrefi lengra en hefðbundin lýsigagnaþjónusta þannig að hægt er að skoða viðkomandi gögn, t.d. sem mynd á skjánum án þess að notandinn geti fengið sjálf frumgögnin til sín. Ekki verður heimilt að taka gjald fyrir notkun á þessari þjónustu. Ákvæðið er byggt á b-lið 1. mgr. tilskipunar 2007/2/EB.
    Í 3. tölul. er fjallað um niðurhalsþjónustu sem gerir það mögulegt að hala niður afritum landupplýsinga eða fá beinan aðgang að þeim, hvort sem er að öllu leyti eða hluta. Heimilt er að taka gjald fyrir þessa þjónustu sem m.a. miðast við umfang þeirra gagna sem halað er niður. Mikilvægt er að hugsanleg gjaldtaka sé hófleg svo að hún verði ekki hindrun í notkun samfélagsins á gögnunum. Ákvæðið er byggt á c-lið 1. mgr. tilskipunar 2007/2/EB.
    Í 4. tölul. er kveðið á um vörpunarþjónustu sem gerir það mögulegt að varpa landupplýsingum til að samhæfni náist. Með vörpun er átt við þjónustu sem er ætlað að aðstoða notendur við að tengja saman gögn sem eru í ólíkum hnitakerfum eða ólíkum kortavörpunum og/eða að hægt sé að skoða þau saman varðandi gagnaform, tungumál og upplýsingatöflur. Í fæstum tilfellum mun notandi verða var við virkni þessarar þjónustu með beinum hætti. Heimilt verður að taka hóflegt gjald fyrir þessa þjónustu. Ákvæðið er byggt á d-lið 1. mgr. tilskipunar 2007/2/EB.
    Í 5. tölul. er fjallað um þjónustu sem leyfir það að mismunandi vefþjónusta fyrir landupplýsingar verði tengd saman eða samhæfð. Þessari þjónustu er ætlað að gera notendum kleift að tengja saman fleiri en eina kortaþjónustu á vefnum og birta gögn sem eina heild. Heimilt verður að taka gjald fyrir þessa þjónustu. Ákvæðið er byggt á e-lið 1. mgr. tilskipunar 2007/ 2/EB.
    Í 2. mgr. er heimild fyrir umhverfisráðherra að takmarka almennan aðgang að vefþjónustu eða hluta hennar. Ákvæði INSPIRE-tilskipunarinnar eru sambærileg við ákvæði tilskipunar 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem var innleidd með lögum um upplýsingarétt um umhverfismál, nr. 23/2006. Því þótti rétt að gæta samræmis við ákvæði þeirra laga og er því vísað til 6. gr. þeirra laga. Með hliðsjón af þessu er byggt á því að greinin verði skýrð á sambærilegan hátt og 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Ákvæði greinarinnar á sér að öðru leyti fyrirmynd í 13. gr. tilskipunar 2007/2/EB.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um þá skyldu stjórnvalda sem hafa landupplýsingar í umsjá sinni að sjá til þess að gögn og vefþjónusta vegna þeirra séu gerð aðgengileg í gegnum þá landupplýsingagátt sem kveðið er á um í 5. gr. frumvarpsins. Þá er kveðið á um að stjórnvöldum beri að hafa yfir að ráða tæknilegri getu til að miðla gögnum og tengja þau vefþjónustu, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Þetta þýðir að stjórnvöld bera sjálf ábyrgð á því að nauðsynleg tæknileg geta sé fyrir hendi. Þannig þurfa einstakar stofnanir og sveitarfélög sjálf að tryggja að þau hafi yfir að ráða nauðsynlegum vél- og hugbúnaði. Aftur á móti skal það áréttað að Landmælingum Íslands ber að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leiðsagnar. Með því skal tryggt að litlar stjórnsýslueiningar sem ekki hafa aðgang að tækni eða þekkingu til að byggja upp þá þjónustu sem lögin kveða á um, fái nauðsynlega aðstoð til að standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Ekki er gert ráð fyrir gjaldtöku Landmælinga Íslands vegna slíkrar leiðsagnar. Hins vegar er rétt að benda á að á grundvelli stefnu íslenskrar stjórnvalda um upplýsingasamfélagið má gera ráð fyrir því að íslenskar stofnanir hafi tæknilega getu og möguleika til að hagnýtingar upplýsingatækni, m.a. á sviði landupplýsinga, til að bæta opinbera þjónusta, auka skilvirkni og einfalda samskipti milli almennings og stjórnvalda. Þessi stefna er einnig tengd ýmsum markmiðum um umhverfismál því með aukinni þjónustu stjórnvalda á netinu, fjarvinnu og fjarnámi má t.d. draga úr mengun. Til viðbótar má einnig benda á að verði frumvarpið að lögum mun það leiða til betra skipulags og aðgengis að gagnagrunnum hjá stjórnvöldum og þar af leiðandi einnig til hagræðingar og aukinnar skilvirkni. Ákvæðið er byggt á 12. gr. tilskipunar 2007/2/EB.
    Með ákvæði 3. mgr. er það áréttað að lögin kalla ekki á að nýrra gagna sé aflað, heldur verður þess krafist að stjórnvöld skrái og geri aðgengileg gögn sem þeir varðveita nú þegar. Þannig er markmiðið að nýta betur en nú er gert þau gögn sem aflað hefur verið með opinberu fé, ekki síst fyrir aðra opinbera aðila. Þannig á að vera tryggt að lögin verði ekki of íþyngjandi því kostnaður við öflun nýrra gagna getur verið mjög hár ef kröfur eru gerðar um mikil gæði og nákvæmni. Það skal hinsvegar áréttað að lögin ná til allra gagna sem munu verða til á vegum opinberra aðila í framtíðinni.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um það á hvaða hátt aðrir en stjórnvöld geta sótt um að tengja eða birta gögn sín við landupplýsingagátt stjórnvalda. Til þess að slík tenging verði heimiluð verða gögn þau sem um ræðir að falla innan gildissviðs laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Þannig yrðu að vera um að ræða stafrænar landupplýsingar sem tækju til íslensks yfirráðasvæðis og ná til einhvers þeirra viðfangsefna sem INSPIRE-tilskipunin nær til. Til þess að tryggja að gögn uppfylli þær tæknilegu kröfur sem gerðar verða á grundvelli INSPIRE- tilskipunarinnar og laga þessara er gert ráð fyrir að aðilar sæki um slíka eða tengingu til Landmælinga Íslands. Var tekið mið af sambærilegu ákvæði í hinum dönsku INSPIRE-lögum, nr. 1331/2008. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að frumkvæði að tengingu samkvæmt þessari grein geti komið frá Landmælingum Íslands eða öðrum. Ekki er gert ráð fyrir gjaldtöku vegna tengingar við landupplýsingagátt á grundvelli þessarar greinar.

Um 8. gr.


    Ákvæðið er byggt á 17. gr. tilskipunar 2007/2. Því er ætlað að tryggja að stjórnvöld veiti hvert öðru aðgang að landupplýsingum og vefþjónustu þeim tengdum og geri hvert öðru kleift að skiptast á og nota gögn og þjónustu í opinberum verkefnum.
    Ákvæðið tekur einnig til þess að stjórnvöld á Íslandi skuli veita stofnunum Evrópusambandsins og EFTA aðgang að landupplýsingum og þjónustu skv. 5. gr. frumvarpsins. Sambærilegt ákvæði er að finna í 8. mgr. 17. gr. tilskipunar 2007/2/EB.

Um 9. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að Landmælingar Íslands skuli annast þá starfsemi sem umhverfisráðherra er falið með lögunum. Hér má nefna sem dæmi að Landmælingar skulu samkvæmt frumvarpinu sjá um að netþjónustu skv. 5. gr. og grunngerð fyrir landupplýsingar sé komið á fót. Landmælingar Íslands starfa á grundvelli laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006. Samkvæmt þeim lögum skal stofnunin vera umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á þeim fagsviðum sem stofnunin starfar á. Meginfagsvið Landmælinga Íslands eru landmælingar, fjarkönnun, kortagerð og landupplýsingakerfi auk þess sem stofnunin þarf að koma að gerð staðla og vinnuleiðbeininga á framangreindum fagsviðum. Stofnuninni er ætlað að ráða yfir faglegri þekkingu til að geta sinnt þessu hlutverki sínu og því er hún vel til þess fallin að sjá um framkvæmd þeirra verkefna sem umhverfisráðherra er falið samkvæmt frumvarpinu.
    Í 2. mgr. segir að Landmælingar Íslands skuli sjá um rekstur, virkni, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Landmælingum Íslands er þannig samkvæmt greininni ætlað að vera stjórnvöldum (þ.e. stofnunum og sveitarfélögum) til ráðgjafar til þess að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu, sbr. einnig skýringar við 6. gr. frumvarpsins. Þykir stofnunin vel til þessa verkefnis fallin enda er þar fyrir hendi tæknileg geta og þekking til að sinna þessu verkefni og rekur stofnunin nú þegar margs konar vefþjónustu á þessu sviði sem er öllum opin án endurgjalds. Rétt er að taka fram að Landmælingum Íslands er heimilt samkvæmt ákvæðum þessarar greinar að semja við eða bjóða út einstaka verkþætti vegna framkvæmdar laganna.

Um 10. gr.


    Með ákvæðinu er gerð tillaga um að umhverfisráðherra skuli setja á fót samræmingarnefnd vegna grunngerðar landupplýsinga. Skal nefndin skipuð til fimm ára í senn. Líkt og fram kemur í ákvæðinu skulu í nefndinni eiga sæti fulltrúar tilnefndir af umhverfisráðuneyti, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Landmælingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samtökum um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA).
    Í 2. mgr. er kveðið nánar um á um hlutverk nefndarinnar. Þannig er nefndinni ætlað að vera faglegur vettvangur stjórnvalda við að móta stefnu í landupplýsingamálum í víðu samhengi. Æskilegt er jafnframt að slík stefnumótun fari fram í samráði við hagsmunaaðila.
    Þá er í 2. gr. jafnframt kveðið á um að samræmingarnefndinni sé skylt að vinna að aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld við að innleiða grunngerð landupplýsinga á Íslandi. Slík aðgerðaáætlun skal vera til fimm ára í senn og send umhverfisráðherra til staðfestingar. Samræmingarnefndin skal einnig taka afstöðu til þess hvaða landupplýsingar, aðrar en þær sem fram koma í 1.–3. viðauka INSPIRE-tilskipunarinnar, skuli falla undir lögin.

Um 11. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um gjaldtöku. Markmið er laganna að tryggja aðgengi yfirvalda og almennings að stafrænum landupplýsingum á Íslandi og ber að skoða alla gjaldtöku með það í huga. Sérstaklega er kveðið á um að sú þjónusta sem kveðið er á um í 1. og 2. tölul. 5 gr. skuli vera án endurgjalds. Fram kemur að gögn megi vera á sniði sem kemur í veg fyrir að þau séu endurnotuð í viðskiptalegum tilgangi.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er einnig fjallað um heimild til að taka hóflegt gjald fyrir þá þjónustu sem kveðið er á um í 3., 4. og 5. tölul. Með hóflegu gjaldi er átt við þjónustugjald en samkvæmt því má ekki taka hærra gjald en sem nemur öllum föstum og breytilegum kostnaði af veittri þjónustu eða afgreiðslu gagna. Hér má því t.d. taka gjald til að mæta öllum kostnaði af framreiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna auk sanngjarnrar hlutdeildar í afskriftum á fjárfestingu í vélum og tækjum sem þörf er á við miðlun og niðurhal.
    Ekki verður hins vegar heimilt að taka gjöld til þess að uppfylla skýrsluskyldur umhverfismála samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins.
    Ákvæðið tekur mið af 14. gr. tilskipunar 2007/2/EB.

Um 12. gr.


    Í greininni er kveðið á um að hinum ýmsu stjórnvöldum á Íslandi sem lög þessi ná til beri að veita Landmælingum Íslands í umboði umhverfisráðherra ákveðnar upplýsingar, t.d. um framgang þeirra verkefna sem stjórnvöldum er falið að sinna með frumvarpinu. Dæmi um slík verkefni er skráning og miðlun lýsigagna og að stjórnvöld geri gögn sín aðgengileg.

Um 13. gr.


    Í greininni er kveðið á um að setja skulir reglugerðir um þar til greind málefni.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB (INSPIRE).

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, vegna nýrra laga um grunngerð landupplýsinga. Í 4. gr. þeirra laga eru talin upp verkefni Landmælinga Íslands og gert ráð fyrir því að í 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að hafa umsjón með uppbyggingu, framkvæmd og eftirfylgni við grunngerð landupplýsinga á Íslandi í samræmi við lög um grunngerð landupplýsinga. Með ákvæðinu er Landmælingum Íslands í umboði umhverfisráðherra falið mikilvægt hlutverk við að vinna að uppbyggingu á grunngerð landupplýsinga á Íslandi í samvinnu við fjölmargar stofnanir og sveitarfélög. Þetta nýja hlutverk Landmælinga Íslands er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um starfsemi stofnunarinnar árið 2006, þar sem kjarnaverkefni voru skilgreind betur en áður og svokölluð samkeppnisverkefni voru boðin út til einkaaðila, svo sem gerð og útgáfa prentaðra korta. Hins vegar hefur þetta nýja hlutverk Landmælinga Íslands ekki áhrif á lögbundin verkefni annarra stjórnvalda á sviði landupplýsinga að öðru leyti en því að þeim er með lögum um grunngerð landupplýsinga gert skylt að miðla þeim gögnum sem þau búa yfir.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með ákvæðinu er gerð krafa um að Landmælingar Íslands sjái um að komið verði á fót landupplýsingagátt þeirri sem kveðið er á um í 5. gr. frumvarpsins. Ljóst er að smíði slíkrar lausnar mun taka nokkurn tíma og er í samræmi við það gert ráð fyrir að landupplýsingagáttin verði tilbúin til notkunar 1. júní 2011.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um grunngerð landupplýsinga.


    Frumvarpinu er ætlað að leiða í lög ákvæði tilskipunar 2007/2/EB, um notkun og miðlun landupplýsinga. Markmið þess er að tryggja samræmda uppbyggingu á grunngerð landupplýsinga með það fyrir augum að auka möguleika á samnýtingu landupplýsingagagna og að tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að upplýsingunum. Gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands hafi umsjón með framkvæmd laganna og verði stjórnvöldum, þ.e. stofnunum og sveitarfélögum, til ráðgjafar og leiðsagnar við að fullnægja skyldum þeirra samkvæmt lögunum. Stofnunin skal setja á fót sérstaka landupplýsingagátt og sjá um rekstur hennar, viðhald og tæknilega þróun. Í gegnum gáttina skal öllum vera aðgengileg lýsigagnaþjónusta, skoðunarþjónusta, niðurhalsþjónusta, vörpunarþjónusta og þjónusta sem gerir mögulegt að virkja ólíka vefþjónustu landupplýsinga, svo sem að tengja saman fleiri en eina kortaþjónustu á vefnum og birta gögn sem eina heild. Tvær fyrstnefndu þjónusturnar skulu veittar endurgjaldslaust en heimilt verður að innheimta gjald fyrir kostnaði við þrjár síðastnefndu þjónusturnar. Gert er ráð fyrir að tilskipunin komi til framkvæmda í áföngum allt til ársins 2019.
    Vegna kröfu um lækkun kostnaðar og hagræðingu í opinberum rekstri hefur verið valið að fara aðra leið við innleiðinguna en áður var áætlað og er nú miðað við að tilskipunin verði uppfyllt með algjörum lágmarksbúnaði og lágmarkskostnaði og að nýta við það sem allra best þekkingu og búnað sem Landmælingar Íslands búa nú yfir. Kostnaðartölur hafa því lækkað talsvert frá áætlun sem sett var fram í skýrslu Landmælinga í nóvember 2008. Skýrist það m.a. af minni hugbúnaðarkostnaði við landupplýsingagátt samkvæmt nýrri könnun þar á, meiri aðkomu eigin starfsmanna og minni aðkeyptri ráðgjöf, nýrri tækni við vistun og miðlun gagna sem dregur úr þörf fyrir miðlæga vistun og lækkar vistunar- og afritunarkostnað, lengri innleiðingartíma, aukinni notkun á opnum hugbúnaði sem lækkar rekstrarkostnað, fækkun lykilgagnasetta til að einfalda innleiðinguna og áætlun um aukið norrænt samstarf sem talið er geta dregið úr þörf fyrir aðkeypta sérfræðiráðgjöf. Í þessu ljósi hefur kostnaður Landmælinga við innleiðingu tilskipunarinnar verið endurmetinn og er nú talið að kostnaður stofnunarinnar verði 8 m.kr. á ári en það er 27% lækkun frá fyrri áætlun, auk þess sem áætlað er að stofnunin geti aflað 2 m.kr. tekna á ári í gegnum gjaldtökuheimild frumvarpsins. Vegna breyttra tækniforsendna og aukins hlutverks Landmælinga við innleiðingu má gera ráð fyrir að kostnaður annarra geti lækkað hlutfallslega meira. Í fyrri áætlun vó kostnaður Landmælinga 20% af kostnaði ríkisins við innleiðingu tilskipunarinnar.
    Reiknað er með að kostnaðaráhrif frumvarpsins nái til um 30 stofnana hinna ýmsu ráðuneyta, auk sveitarfélaga. Áætlað er að yfirleitt verði um tiltölulega lítinn viðbótarkostnað að ræða hjá hverri stofnun, í um helmingi tilfella undir 1 m.kr. á ári, en annars oft á bilinu 1 til 2 m.kr. á ári meðan á innleiðingu stendur. Á móti kemur að reikna má með að þegar fram í sækir geti þessir aðilar sem og aðrir haft margvíslegt hagræði og sparnað af stöðlun þessara gagna. Ekki er því reiknað með að auka þurfi sérstaklega fjárframlög til þeirra til að standa straum af kostnaði við innleiðingu. Í athugasemdum með frumvarpinu er einnig áréttað að ráðgjöf og leiðsögn Landmælinga skuli tryggja að litlar stjórnsýslueiningar sem ekki hafa aðgang að tækni eða þekkingu til að byggja upp þá þjónustu sem lögin kveða á um, fái nauðsynlega aðstoð til að standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og ekki er gert ráð fyrir að stofnunin taki gjald fyrir þessa aðstoð. Einnig er gert ráð fyrir að stofnanir myndi svigrúm fyrir innleiðingu með breyttri forgangsröðun, t.d. með því að draga úr öðrum verkefnum meðan á innleiðingu stendur. Ekki er talin forsenda til þess að reikna með slíkum innri kostnaði við mat á frumvarpinu enda um að ræða úrbótaverkefni til að nýta betur en áður opinberar landupplýsingar og eðlileg krafa að stofnanir staðli vinnubrögð og geri gögn aðgengileg óháð kröfum frumvarpsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum og ef kostnaður annarra en Landmælinga lækkar um helming frá fyrri áætlun má gera ráð fyrir að tímabundinn kostnaður ríkissjóðs verði 30 m.kr. á ári en lækki síðan og verði 8 m.kr. Á móti hækka tekjur um 2 m.kr. Á sama hátt má áætla tímabundinn kostnað sveitarfélaga 7,5 m.kr. á ári. Vegna örra tæknibreytinga á þessu sviði má þó allt eins gera ráð fyrir að kostnaður við innleiðingu fari lækkandi á komandi árum. Reiknað er með að kostnaði verði að mestu mætt án hækkunar á útgjaldarömmum ráðuneyta. Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum sem samþykkt frumvarpsins kann að hafa í för með sér í fjárlögum 2010 eða í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013.