Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.

Þskj. 948  —  558. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og
skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Á eftir orðunum „skylt að greiða í“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: fræðslusjóði atvinnulífsins sem og.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sú breyting sem lögð er til með frumvarpi þessu er undirliggjandi þeim markmiðum er fram koma í stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 25. júní 2009 um að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir tilteknum aðgerðum sem koma fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 um réttindi launafólks. Svo ná megi þeim markmiðum sem þar koma fram þótti jafnframt mikilvægt að tryggja að öllum atvinnurekendum verði skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni í kjarasamningsviðræðum á sama hátt og þeim er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaganna. Er frumvarp þetta því lagt fram í þeim tilgangi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

    Frumvarpið kveður á um að atvinnurekendum verði skylt að greiða í fræðslusjóð viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni. Fyrirkomulagið verður þá með sams konar hætti og nú tíðkast með greiðslum í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaga. Breytingin felur í sér greiðsluskyldu vegna fræðslusjóða fyrir fyrirtæki sem ekki eru aðilar að heildarsamtökum atvinnurekenda.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það hafi aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda eiga við um aðila á almennum vinnumarkaði en ekki ríkið. Hins vegar greiðir ríkissjóður nú þegar slík iðgjöld sem frumvarpið kveður á um samkvæmt þeim kjarasamningum sem það er aðili að.