Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.

Þskj. 952  —  562. mál.



Frumvarp til laga

um umboðsmann skuldara.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Umboðsmaður skuldara er ríkisstofnun sem gæta skal hagsmuna og réttinda skuldara svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Embætti umboðsmanns skuldara heyrir undir félags- og tryggingamálaráðherra.
    Hlutverk umboðsmanns skuldara er að:
     a.      veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar,
     b.      hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi,
     c.      fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar,
     d.      taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi,
     e.      gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim,
     f.      veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna.

2. gr.

    Ráðherra skipar umboðsmann skuldara til fimm ára í senn. Skal hann hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu af málefnum á starfssviði stofnunarinnar.
    Kjararáð ákveður laun og starfskjör umboðsmanns skuldara.
    Umboðsmaður skuldara stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ræður aðra starfsmenn. Umboðsmanni skuldara er heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina.
    Ákvörðunum umboðsmanns skuldara verður ekki skotið til ráðherra, nema sérstaklega sé mælt fyrir um það í lögum.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulag og starfsemi umboðsmanns skuldara.

3. gr.

    Umboðsmaður skuldara getur krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds. Með sama hætti er fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Stofnunin getur þó ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.

4. gr.

    Umboðsmanni skuldara og starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

5. gr.

    Lánastofnanir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds. Gjaldið rennur beint til umboðsmanns skuldara og skal innheimt af stofnuninni.
    Álagning gjaldsins skal fara fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Gjaldið skal greitt ársþriðjungslega fyrir fram með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. febrúar og eindagi 15. febrúar, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. maí og eindagi 15. maí og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september.
    Ef gjald er greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við vaxtalög.
    Hefji lánastofnun starfsemi eftir að álagning fer fram miðast álagning gjaldsins við næsta gjalddaga eftir að starfsemi lánastofnunarinnar hófst.
    Fyrir 1. júní ár hvert skal umboðsmaður skuldara gera áætlun um kostnað við starfsemi sína næsta almanaksár. Skulu lánastofnanir hafa umsagnarrétt um áætlunina. Áætlunina skal leggja fyrir ráðherra til samþykktar. Samþykki ráðherra áætlunina skal miða álagningu gjaldsins við hana. Miða skal við að lánastofnanir greiði gjaldið í hlutföllum við umfang útlánastarfsemi sinnar.
    Verði rekstrarafgangur af starfsemi umboðsmanns skuldara skal hann ganga upp í gjald næsta árs í hlutfalli við álagt gjald. Verði rekstrartap skal taka tillit til þess við álagningu gjalda á næsta ári.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um greiðslu eftirlitskostnaðar.

6. gr.

    Umboðsmaður skuldara gefur ráðherra árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Skýrsluna skal birta opinberlega.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna boðið starf hjá umboðsmanni skuldara. Við ráðstöfun þeirra starfa þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmenn annarra ríkisstofnana sem kunna að verða lagðar niður skulu njóta forgangs til starfa hjá umboðsmanni skuldara.

II.

    Útreikningi á kostnaði og greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara fyrir þann hluta ársins 2010 sem eftir er þegar lög þessi öðlast gildi skal háttað með sama hætti og kveðið er á um í 5. gr., þó þannig að miða skal við áætlun sem umboðsmaður skuldara gerir eins fljótt og auðið er eftir að lögin hafa verið samþykkt. Fer álagning gjaldsins fram svo fljótt sem unnt er eftir það.
    Endurskoða skal ákvæði 5. gr. um greiðslu kostnaðar af rekstri umboðsmanns skuldara innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á stofn embætti umboðsmanns skuldara. Gert er ráð fyrir að það verði byggt á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
    Fjárhagsstaða margra einstaklinga hefur versnað mjög á síðustu misserum og ljóst er að lítið má út af bregða hjá mörgum skuldsettum heimilum ef ekki á illa að fara. Þessa stöðu má ekki síst rekja til bankahrunsins í október 2008, gengislækkunar krónunnar sem haft hefur þau áhrif að verðlag hefur hækkað sem komið hefur af stað verðbólgu, sem leiðir til hækkunar á afborgunum verðtryggðra lána. Óhagstætt gengi krónunnar hefur jafnframt leitt til þess að eftirstöðvar og afborganir lána í erlendri mynt hafa hækkað umtalsvert. Erfitt er að selja fasteignir og bíla og hefur það leitt til þess að margir lántakendur sitja uppi með yfirveðsettar eignir sem þeir ráða ekki við að greiða af og geta með engu móti selt. Í ljósi þessa er mikilvægt að koma aðstoð við skuldara í sterkara og skýrara form en verið hefur og er besta leiðin til þess að setja á stofn embætti umboðsmanns skuldara, sem hafi skýra stoð í lögum.

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna.
    Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið starfrækt í rúmlega 13 ár. Hún var formlega sett á laggirnar í febrúar 1996 sem tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytisins í samstarfi við nokkra aðila. Starfsemi Ráðgjafarstofunnar byggist á samkomulagi 17 aðila um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofunnar frá 7. desember 2007. Gildir samkomulagið í fimm ár. Nú standa 16 aðilar að baki samkomulaginu. Þeir eru Alþýðusamband Íslands, Arion banki, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, félags- og tryggingamálaráðuneytið, Íbúðalánasjóður, Íslandsbanki, Landsbanki (NBI hf.), Landssamtök lífeyrissjóða, Kópavogsbær, Kreditkort hf., Rauði kross Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga og þjóðkirkjan.
    Hlutverk Ráðgjafarstofunnar er að veita fólki sem á í verulegum greiðsluerfiðleikum og komið er í þrot með fjármál sín endurgjaldslausa ráðgjöf. Ráðgjafarstofan skal veita fólki aðstoð við að fá yfirsýn yfir stöðu mála, hjálpa því við að gera greiðsluáætlanir, velja úrræði og hafa milligöngu um samninga við lánardrottna ef þess er þörf. Þá skal Ráðgjafarstofan veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna með útgáfu sérstakra bæklinga og fræðsluefnis.
    Starfsmannafjöldi Ráðgjafarstofu hafði verið óbreyttur frá árinu 1996 en jókst um helming á árinu 2008 og hefur ásókn í þjónustu stofunnar aldrei verið meiri.

Fjármögnun embættis umboðsmanns skuldara.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk umboðsmanns skuldara. Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að hlutverk stofnunarinnar verði m.a. að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar, að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna skuldara, að fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar, að taka við erindum skuldara, að gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim og að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna.
    Þessi verkefni stofnunarinnar snúa ekki eingöngu að því að leysa úr vanda sem einstaklingar og fjölskyldur hafa komist í vegna lánveitinga, en þó má segja að langflest verkefnanna muni snúast um ráðgjöf til einstaklinga um það hvernig best sé að haga greiðslu skulda og um það hvaða leiðir einstaklingum séu færar út úr skuldavanda.
    Í ljósi þessa þykir eðlilegt að þeir aðilar sem stunda lánveitingar greiði kostnað af starfsemi stofnunarinnar. Hluti þeirra aðila sem koma að og fjármagna rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna nú stunda lánastarfsemi eða eru samtök aðila sem stunda lánastarfsemi. Þannig eru t.d. Arion banki, Íbúðalánasjóður, Íslandsbanki, Kreditkort hf., Landsbanki (NBI hf.), Landssamtök lífeyrissjóða og Samband íslenskra sparisjóða aðilar að samkomulaginu um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofunnar.
    Því er lagt til í frumvarpinu að fjármálafyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi sem lánastofnanir á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, greiði kostnað af rekstri umboðsmanns skuldara. Í 4. gr. laga nr. 161/2002 er talið upp hvaða fyrirtæki teljast lánastofnanir og eru það m.a. viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki, sbr. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Í samkomulagi um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna frá því í desember 2007 er gert ráð fyrir heildarkostnaði við rekstur að fjárhæð tæplega 57 millj. kr. Er fjárhæðin á verðlagi í október 2007 og gerir samkomulagið ráð fyrir því að framlög til Ráðgjafarstofunnar taki breytingum í janúar ár hvert í samræmi við breytingar á launavísitölu Hagstofu Íslands. Þá er heimild fyrir framkvæmdastjórn Ráðgjafarstofu að gera tillögu um breytingu framlaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að sett verði á stofn sérstök ríkisstofnun er beri heitið umboðsmaður skuldara. Gert er ráð fyrir að stofnunin heyri undir félags- og tryggingamálaráðherra.
    Lagt er til að hlutverk umboðsmanns skuldara verði að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar, hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna skuldara og fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar. Markmið stofnunarinnar á að vera að ná fram eins hagstæðri lausn og kostur er fyrir skuldara, án tillits til þess hvaða áhrif sú lausn hefur á hagsmuni einstakra kröfuhafa. Þá á stofnunin að taka við erindum og ábendingum skuldara, gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim auk þess sem stofnuninni beri að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Af þessu leiðir að stofnunin verður félags- og tryggingamálaráðherra til ráðuneytis um málefni skuldara og stefnumörkun á því sviði.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um skipan umboðsmanns skuldara, en gert er ráð fyrir að forstjóri stofnunarinnar beri starfsheitið umboðsmaður skuldara. Gert er ráð fyrir að umboðsmaður skuldara sé embættismaður, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996, og að ráðherra skipi í embættið til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði sömu laga. Í frumvarpinu er lagt til að gerð sé krafa um að umboðsmaður skuldara skuli hafa menntun á háskólastigi og búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu af málefnum þeim sem heyra undir stofnunina. Gert er ráð fyrir því að kjararáð ákvarði umboðsmanni skuldara laun, sbr. 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 1. gr. laga um kjararáð, nr. 47/2006.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að umboðsmaður skuldara skuli stjórna starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ráða aðra starfsmenn hennar. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofnuninni sé heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um að vinna mál fyrir stofnunina.
    Kveðið er sérstaklega á um það að ákvörðunum umboðsmanns skuldara verði ekki skotið til félags- og tryggingamálaráðherra, nema sérstaklega sé mælt fyrir um slíka málskotsheimild í lögum.
    Loks er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra geti með reglugerð sett nánari reglur um skipulag og starfsemi umboðsmanns skuldara.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að stofnunin geti sinnt hlutverki því sem henni er falið í lögum. Jafnframt er kveðið á um það að fyrirtækjum og samtökum sé skylt að veita stofnuninni allar upplýsingar sem að mati hennar eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Frá rétti stofnunarinnar til upplýsinga er gerð sú undantekning að umboðsmaður skuldara á rétt á að fá upplýsingar er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt eiga að fara, nema með leyfi hlutaðeigandi ráðherra.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna umboðsmanns skuldara. Gert er ráð fyrir að þagnarskyldan haldist þó að látið sé af starfi.

Um 5. gr.


    Í greininni er fjallað um kostnað við rekstur umboðsmanns skuldara. Lagt er til að fjármálafyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi sem lánastofnanir á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, greiði kostnað af rekstri umboðsmanns skuldara. Í 4. gr. laga nr. 161/ 2002 er talið upp hvaða fyrirtæki teljast lánastofnanir og eru það m.a. viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki, sbr. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir að álagning gjaldsins fari fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Gjaldið skal greitt ársþriðjungslega fyrir fram með þremur jafnháum greiðslum. Ef gjald er greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við ákvæði vaxtalaga. Ef lánastofnun hefur starfsemi eftir að álagning fer fram miðast álagning gjaldsins við næsta gjalddaga eftir að starfsemi lánastofnunarinnar hófst.
    Í greininni er lagt til að umboðsmaður skuldara skuli á hverju ári, fyrir 1. júní, gera áætlun um kostnað við starfsemi sína næsta almanaksár. Gert er ráð fyrir að þær lánastofnanir sem greiða eiga gjaldið hafi umsagnarrétt um áætlunina. Áætlunina skal leggja fyrir ráðherra til samþykktar. Samþykki ráðherra áætlunina skal miða álagningu gjaldsins við hana. Miða skal við að lánastofnanir greiði gjaldið í hlutföllum við umfang starfsemi sinnar.
    Í 6. mgr. er kveðið á um það hvernig fara skuli með það ef rekstrarafgangur eða rekstrartap verður af starfsemi umboðsmanns skuldara.
    Loks er kveðið á um það að ráðherra skuli í reglugerð setja nánari fyrirmæli um greiðslu eftirlitskostnaðar.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um þá skyldu skuldara að gefa félags- og tryggingamálaráðherra árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að skýrslan verði birt opinberlega.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Gert er ráð fyrir að öllum starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna verði boðin störf hjá umboðsmanni skuldara. Með ákvæðinu er tryggt að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem þessir starfsmenn verða ráðnir í. Að öðru leyti fer um réttindi þeirra samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá er einnig kveðið á um það að starfsmenn annarra ríkisstofnana sem kunna að verða lagðar niður skulu njóta forgangs til starfa hjá embætti umboðsmanns skuldara.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig haga skuli útreikningi og greiðslu kostnaðar vegna reksturs umboðsmanns skuldara fyrir þann hluta ársins 2010 sem eftir er þegar lög þessi öðlast gildi. Gert er ráð fyrir að útreikningi skuli háttað með sama hætti og gert er ráð fyrir í 5. gr. með þeirri breytingu að áætlun um rekstur sem miða skal við skal unnin svo fljótt sem unnt er eftir gildistöku laganna og skal álagning gjaldsins fara fram svo fljótt sem auðið er eftir það.
    Þar sem ekki liggur fyrir reynsla af gjaldtöku þeirri sem kveðið er á um í 5. gr. frumvarpsins og ljóst er að slík gjaldtaka þarf að byggjast á reynslu er lagt til að ákvæðið verði endurskoðað innan þriggja ára frá gildistöku laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara.


    Frumvarpinu er ætlað að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og auðvelda þeim að koma skuldastöðu og greiðslubyrði í ásættanlegt horf. Samhliða þessu frumvarpi eru lögð fram tvö önnur lagafrumvörp sem hafa sama markmið, þ.e. að bæta skulda- og greiðslustöðu einstaklinga. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og hins vegar frumvarp til laga um breytingar á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns skuldara sem hefur það hlutverk að veita einstaklingum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til úrlausnar þeim. Með sérstöku embætti umboðsmanns skuldara verður aðstoð við þá einstaklinga sem lent hafa í verulegum greiðsluerfiðleikum í skýrara formi en verið hefur. Umboðsmanni skuldara er ætlað að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna, fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar, taka við erindum skuldara, gæta hagsmuna þeirra og bregðast við ef gengið er á réttindi þeirra. Einnig á hann að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Kostnaður vegna embættis umboðsmanns skuldara verður greiddur af lánastofnunum með sérstöku gjaldi sem mun taka mið af rekstraráætlun embættisins. Miðað er við að lánastofnanir greiði gjaldið í hlutföllum við umfang útlánastarfsemi.
    Embætti umboðsmanns skuldara byggist á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og verður hún í kjölfarið lögð niður en Ráðgjafarstofan er samstarfsverkefni ríkisins og fleiri aðila. Mikil fjölgun starfsmanna varð hjá Ráðgjafarstofunni í kjölfar efnahagshrunsins og eru þeir nú 28 og teljast þeir vera ríkisstarfsmenn. Af þeim eru átta fastráðnir en aðrir eru með ráðningu til loka árs 2010. Frumvarpið kveður á um að starfsmönnum verði boðin störf hjá nýja embættinu en í því felst ekki að um sambærileg störf verði að ræða. Fjárheimildir félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna Ráðgjafarstofunnar nema um 100 m.kr. í fjárlögum þessa árs en að auki var gerður samningur á milli dóms- og mannréttindaráðuneytisins og Ráðgjafarstofunnar um 20 m.kr. framlag vegna vinnu við greiðsluaðlögun einstaklinga. Á móti hafa komið um 40 m.kr. mótframlög samstarfsaðilanna.
    Nýrri stofnun er ætlað mun viðameiri hlutverk en Ráðgjafarstofan hefur haft til þessa. Annars vegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu að öll þjónusta við skuldara verði meiri umfangs sbr. hagsmunagæslu fyrir skuldara en slík þjónusta er ekki í boði nú og hins vegar má gera ráð fyrir að málum muni fjölga við lögfestingu frumvarpanna sem greint var frá hér í upphafi.
    Frá efnahagshruni hefur Ráðgjafarstofan fengið 2.900 mál en þar af eru um 600 vegna greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og 200 sem unnin eru samkvæmt lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafu. Umsvifin eru langt umfram það sem áætlað var þegar lögin um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti voru sett. Í fjárhagsáætlunum fyrir embætti umboðsmanns skuldara er gert ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður nemi um 330 m.kr. auk þess sem til fellur 33 m.kr. stofnkostnaður á þessu ári. Gert er ráð fyrir að launakostnaður verði tæplega 200 m.kr. og aðkeypt þjónusta sem að mestu leyti verður vegna umsjónarmanna greiðsluaðlögunar um 70 m.kr. en gert er ráð fyrir að hluti umsjónarmanna verði fastráðinn hjá stofnuninni. Í fjárlögum yfirstandandi árs er um 80 m.kr. heimild hjá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu sem er ætluð umsjónarmönnum. Engar áætlanir liggja fyrir um langtímaþróun embættis umboðsmanns skuldara, en gera má ráð fyrir að þegar hagur almennings vænkast muni þörfin minnka og málum stofnunarinnar um leið fækka.
    Verði frumvarpið lögfest má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist árlega um 330 m.kr. og á þessu ári um 230 m.kr. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að embætti umboðsmanns skuldara innheimti gjald af lánastofnunum sem samsvari þessum gjöldum. Gert er ráð fyrir að framangreint gjald renni beint til reksturs embættisins. Fjármálaráðuneytið telur það ekki vera heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni. Einnig falla niður árleg útgjöld ríkissjóðs vegna reksturs Ráðgjafasstofunnar og greiðslur til umsjónarmanna greiðsluaðlagana sem samtals nema nettó um 140 m.kr. og um 81 m.kr. á þessu ári.