Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 994  —  158. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um Íslandsstofu.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Pétur Reimarsson, Vilmund Jósefsson, Grím Sæmundsen og Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Árna Gunnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Unni Halldórsdóttur frá Ferðamálasamtökum Íslands, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Jakob F. Magnússon og Kristínu Magnúsdóttur frá Bandalagi íslenskra listamanna, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands og Jón Gunnar Borgþórsson frá Ferðamálastofu.
    Við umfjöllun nefndarinnar beindi hún sjónum sínum einkum að álitamálum sem varða stjórnskipulega stöðu Íslandsstofu, skipun stjórnar stofunnar, ráðgjafaráð, fagráð, verkefni aðalfundar, þörf á frekari lagabreytingum og mikilvægi þess að í raun og sanni verði komið á fót nýrri starfsemi á grunni Útflutningsráðs.
    Samkvæmt frumvarpinu er Íslandsstofa samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda. Sem samstarfsvettvangur opinberra aðila og atvinnulífsins verður hún sjálfstæð stofnun með blandaða stjórn. Nefndin leggur áherslu á að Íslandsstofu sé þannig mörkuð sama staða innan stjórnkerfisins og Útflutningsráð hefur nú og að ekki sé verið að koma á fót nýrri ríkisstofnun. Þannig er lagt til að Íslandsstofa verði stofnuð á grunni Útflutningsráðs og yfirtaki réttindi þess og skuldbindingar, sem og eignir og skuldir, sbr. ákvæði til bráðabirgða I. Á þessu er hnykkt í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins þar sem sjálfstæði fjárhags og reikningshalds Íslandsstofu er áréttað og jafnframt tekið fram að þetta sé sambærilegt fyrirkomulag og gilt hefur um Útflutningsráð hingað til.
    Nefndin ræddi samsetningu stjórnar Íslandsstofu vandlega fyrir 2. umræðu og lagði fram tillögu um breytingu á frumvarpinu sem fól í sér fjölgun stjórnarmanna. En eftir samráð við helstu hagsmunaaðila og til þess að freista þess að ná breiðari sátt um skipan stjórnarinnar varð það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að fækka stjórnarmönnum úr níu í sjö þannig að Samtök atvinnulífsins tilnefni fjóra menn stjórn, iðnaðarráðherra tilnefni einn, mennta- og menningarmálaráðherra einn auk þess sem utanríkisráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar. Nefndin telur að fámennari stjórn verði skilvirkari og henti betur til að leiða það uppbyggingarstarf sem fram undan er þegar Íslandsstofu er komið á fót. Jafnframt gerir nefndin þá tillögu að utanríkisráðherra sem samkvæmt frumvarpinu skipar formann stjórnar skuli hafa samráð við aðra tilnefningaraðila um þá skipan.
    Samhliða þeim breytingum á samsetningu stjórnar sem getið er um hér að framan gerir nefndin tillögu um að sérstakri ráðgjafaráði þar sem sæti eiga málsvarar allra helstu hagsmunaaðila á starfssviði Íslandsstofu. Ráðgjafaráðinu er ætlað að tryggja breiðari aðkomu hagsmunaaðila að stefnu Íslandsstofu og vera stjórninni til samráðs um verkefni stofunnar og árlega starfs- og fjárhagsáætlun hennar.
    Nefndin leggur jafnframt áherslu á að auka vægi fagráða innan Íslandsstofu og að þau verði farvegur fleiri aðila til virkrar þátttöku í starfsemi stofunnar. Í því skyni leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þannig að sérstaklega verði kveðið á um að fagráð verði starfrækt á sviði menningarmála, umhverfismála og matvælagreina til viðbótar við fagráð á sviði markaðs- og kynningarmála ferðaþjónustunnar erlendis og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Þá leggur nefndin til að stjórn Íslandsstofu geti skipað fagráð á fleiri sviðum og að þeir aðilar sem eiga fulltrúa í fagráðum hafi aðkomu að aðalfundi Íslandsstofu.
    Nefndin telur að skilgreina þurfi hlutverk aðalfundar Íslandsstofu nánar en gert er í frumvarpinu. Nefndin leggur því fram breytingartillögu sem kveður á um að á aðalfundi kynni stjórn Íslandsstofu stefnumótun stofnunarinnar, geri grein fyrir störfum sínum og fagráða, og birti rekstraráætlanir og ársreikninga. Seturétt á aðalfundi hafi þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslandsstofu, þeir aðilar sem eiga fulltrúa í ráðgjafaráði Íslandsstofu og jafnframt þeir sem eiga fulltrúa í fagráðum Íslandsstofu. Stjórninni er þar að auki heimilt að bjóða fleirum til setu á aðalfundi.
    Nefndin fjallaði um það hvort stofnun Íslandsstofu kallaði á aðrar lagabreytingar og þá sérstaklega á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Nefndin hvetur til þess að hugað verði að breytingum á lögunum nú þegar og lítur svo á að slíkar lagabreytingar séu mikilvægur þáttur í því að koma Íslandsstofu á fót.
    Hvað varðar þann þátt í starfsemi Íslandsstofu sem lýtur að fjárfestingarmálum gerir nefndin tillögu um að skerpa á orðalagi um að Íslandsstofa hafi það hlutverk að laða erlenda fjárfestingu til Íslands.
    Að lokum vill nefndin ítreka að með stofnun Íslandsstofu sé nýrri starfsemi með ný verkefni komið á fót þó að það sé gert á grunni Útflutningsráðs. Íslandsstofa mun að mörgu leyti hafa breytt hlutverk og fleiri markmið en Útflutningsráð og markaðshluti Ferðamálastofu og því er brýnt að hin nýja stofa verði byggð upp í samræmi við það. Aðeins þannig verður kröfum um eflt samstarf ólíkra greina og hagsmunaaðila mætt svo úr verði öflug og drífandi starfsemi sem stendur undir markmiðum frumvarpsins um að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. apríl 2010.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Helgi Hjörvar.Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Ögmundur Jónasson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.Ragnheiður E. Árnadóttir,


með fyrirvara.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.