Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 998  —  347. mál.
Svarfélags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur um lágmarksframfærslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu?

    Þrátt fyrir að víða sé að finna ákveðin lágmarksframfærsluviðmið hjá ýmsum aðilum hér á landi og miklar umræður um hvort setja beri opinber viðmið um slík viðmið hefur ekki náðst samstaða um málið. Í umræðum á Alþingi þegar lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, voru sett var tekist á um tvö ólík sjónarmið. Annars vegar að ef jafnaðar skyldi gætt þyrfti að setja viðmiðunarákvæði um lágmark fjárhagsaðstoðar og hins vegar að með þeirri gjörð yrði sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga skertur. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga vó þyngra. Í lögunum er sveitarfélögum gert skylt að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar.
    Í samkomulagi sem félagsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök félagsmálastjóra gerðu með sér í desember 2007 er mælt fyrir um að ráðuneytið skuli árlega uppfæra grunnfjárhæð vegna fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, í samræmi við hækkun neysluverðsvísitölu skv. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, og birta fjárhæðina í leiðbeiningum ráðuneytisins. Sveitarfélögum er hins vegar í sjálfsvald sett hvort þau fylgja þessu viðmiði eða ekki.
    Einnig má geta þess að í 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er kveðið á um sérstaka uppbót vegna framfærslu lífeyrisþega sem er í daglegu tali nefnd lágmarksframfærsluuppbót. Framfærsluuppbótin kom fyrst til sögunnar með setningu reglugerðar um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega, nr. 878/2008, sem kom til framkvæmda 1. september 2008. Með gildistöku hennar var þeim lífeyrisþegum sem búa einir og höfðu heildartekjur undir 150.000 kr. á mánuði tryggð lágmarksfjárhæð til framfærslu ef þeir gátu sýnt fram á að þeir gætu ekki framfleytt sér án þess. Miðað var við að þeir lífeyrisþegar sem ekki byggju einir þyrftu að hafa heildartekjur undir 128.000 kr. á mánuði til þess að geta átt tilkall til uppbótarinnar. Fjárhæð tekjumarkanna var hækkuð um 20% frá og með 1. janúar 2009, þ.e. upp í 180.000 kr. á mánuði hjá þeim lífeyrisþegum sem búa einir og í 153.500 kr. á mánuði hjá þeim sem ekki búa einir. Þessi ákvæði voru síðan lögfest um síðustu áramót sem þýðir að öllum lífeyrisþegum er nú tryggð samkvæmt lögum ákveðin lágmarksfjárhæð til framfærslu.
    Hjá Reykjavíkurborg hafa tölur sl. 20 ára um fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð sýnt glögglega að samhengi er milli atvinnuleysisstigs og fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð. Hérlendis hefur efnahagsástand því einnig forspárgildi um fjölda sem sækir um fjárhagsaðstoð. Í harðnandi árferði mun án efa verða vart við sömu þróun í íslenskum sveitarfélögum og varð á Norðurlöndum, þ.e. fjölgun þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar. Tölur liggja fyrir í Reykjavíkurborg um fjölgun þeirra sem fá fjárhagsaðstoð milli áranna 2008 og 2009, þ.e. 19%, eftir að hafa farið lækkandi um langt árabil. Sambærilegar tölur vegna alls landsins liggja ekki enn fyrir. Með auknu atvinnuleysi, ekki síst langtímaatvinnuleysi, og þar með auknum fjölda sem lifir á atvinnuleysisbótum og framfærslu sveitarfélaga til lengri tíma en verið hefur og sem gæti bent til aukinnar fátæktar og félagslegrar einangrunar, verður spurningin um opinbert viðmið um lágmarksframfærslu áleitnari. Óháð því hvaðan greiðsla til framfærslu kemur, hvort hún er vegna atvinnuleysis eða skertrar atvinnugetu vegna fötlunar, tímabundinna veikinda, langtímaveikinda eða slysa, þá yrði öllum tryggt ákveðið lágmark til framfærslu væri sett opinbert viðmið um lágmarksframfærslu.
    Einnig ber að geta þess að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna vinnur út frá neysluviðmiðum. Viðmiðunarneysla Ráðgjafarstofu er að norrænni fyrirmynd en löguð að íslenskum aðstæðum. Fjárhæðirnar eru byggðar á heimilisbókhaldi 40 fjölskyldna í landinu sem færðu heimilisbókhald yfir þriggja mánaða tímabil. Útgjöld þeirra voru síðan skoðuð þannig að einungis var tekið tillit til nauðsynlegra útgjalda að mati Ráðgjafarstofu.
    Sé litið til Norðurlanda í þessu tilliti kemur í ljós að öll löndin nema Noregur hafa innleitt reglur um lágmarksgreiðslur. Danir og Finnar hafa sett reglur um sambærilega aðstoð til allra, Svíar hafa innleitt lágmarksgreiðslur sem allir eiga rétt á óháð búsetu í sveitarfélagi og í Noregi hafa verið innleiddar leiðbeiningar um lágmarksgreiðslur sem mælt er með að sveitarfélögin fylgi, en að þau setji sér eigin reglur. Eins og fram kom hér að framan er sjálfdæmi sveitarfélaga meira hérlendis. Reynsla Norðurlanda sl. 20 ár hefur sýnt að efnahagsástand hefur forspárgildi um fjölda þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð. Setning reglna um lágmarksgreiðslur er svar Norðurlanda við versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga þannig að allir njóti sömu kjara.
    Innan OECD og Evrópusambandsins hefur um nokkuð langt skeið verið unnið að þróun viðmiðs um lágtekjumark sem gerir samanburð mögulegan milli landa. Hagstofa Íslands hefur síðan árið 2004 framkvæmt lífskjararannsókn sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC). Sambærileg rannsókn er gerð í öllum löndum Evrópusambandsins, Noregi og Sviss. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að greina lágtekjuhópa og hópa sem er hætt við félagslegri einangrun. Í rannsókninni er bæði aflað upplýsinga um einstaklinga og heimili og gengið er út frá ráðstöfunartekjum heimila þegar efnahagsleg staða fólks er metin. Ísland er þátttakandi í þessari vinnu og nýtir nú þegar þetta viðmið um lágtekjumark með því að vera þátttakandi í SILC-rannsókninni.
    Lágtekjuhlutfall (e. at-risk-of-poverty rate) er það hlutfall einstaklinga á einkaheimilum sem hefur lægri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en lágtekjumörk kveða á um. Lágtekjumörk eru skilgreind af Evrópusambandinu sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu (neyslueining er ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki). Þannig eru þeir einstaklingar undir lágtekjumörkum sem hafa lægri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna.
    Eins og getið var hér að framan hafa umræður verið um það hérlendis hvort setja eigi opinber framfærsluviðmið eða neysluviðmið eins og greint verður frá hér á eftir. Starfshópur sem viðskiptaráðherra skipaði í árslok 2004 eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar vann forkönnun á því hvort framkvæmanlegt væri að semja neysluviðmið á Íslandi. Nefndin skilaði skýrslu í október 2006. Helstu niðurstöður hennar voru að gerð neysluviðmiðs á Íslandi sé vel framkvæmanlegt og skyldi það byggjast á upplýsingum sem safnað er í neyslukönnun Hagstofunnar. Nefndin benti á að talsverður kostnaður væri samhliða vinnslu slíks viðmiðs jafnvel þótt farin yrði tiltölulega ódýr leið. Þó var talið að ávinningur yrði meiri en sem næmi kostnaði. Var meðal annars nefndur til sögunnar vinnusparnaður hjá opinberum aðilum og fjármálastofnunum og minna útlánatap hjá fjármálastofnunum vegna betra viðmiðs, minni kostnaður vegna vanskila sökum bættrar fjármálaráðgjafar og skilvirkari og markvissari ákvarðanataka ríkis og sveitarfélaga vegna málefna sem varða fjármál einstaklinga og heimila í landinu.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið sýnist ótvíræður ávinningur af því að tekið verði upp opinbert viðmið um lágmarksframfærslu hér á landi. Að því verður unnið af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og í því samhengi tekið til skoðunar hvernig þessi tillaga fellur að hlutverki umboðsmanns skuldara, sbr. frumvarp til laga um umboðsmann skuldara sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi.