Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 311. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1001  —  311. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um árlegan vestnorrænan dag.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsagnir bárust frá Bandalagi íslenskra listamanna, Ferðamálaráði Íslands, Ferðamálastofu og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um stofnun vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega til skiptis í einu vestnorrænu landanna.
    Tillagan byggist á ályktun 4/2008 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Í greinargerð með ályktun Vestnorræna ráðsins kemur m.a. fram að markmið vestnorræna dagsins á Vestur-Norðurlöndum yrði að marka vestnorræna sögu og menningu í löndunum sjálfum og auka þar með samband þeirra og samkennd. Hugmyndin um vestnorrænan dag, sem haldinn yrði hátíðlegur árlega á Vestur-Norðurlöndum til skiptis, á rætur sínar að rekja til vestnorræna dagsins sem haldinn var hátíðlegur í annað sinn helgina 26.–27. apríl 2008 á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.
    Nefndin tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins að eðlilegt sé að Norrænu húsunum í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi verði falið að standa að skipulagningu Vestnorræns dags verði honum komið á.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2010.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Bjarni Benediktsson.Ragnheiður E. Árnadóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.