Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1016  —  382. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Þorbjörn Guðmundsson frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Pál Halldórsson frá Bandalagi háskólamanna. Þá bárust umsagnir frá Hagstofu Íslands, Samiðn – sambandi iðnfélaga, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi atvinnurekenda, Sjómannasambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Útlendingastofnun og Persónuvernd.
    Með frumvarpinu er lagt til að lagarammi verði settur um notkun vinnustaðaskírteina og eftirlit aðila vinnumarkaðarins á vinnustöðum. Frumvarpið má rekja til stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 25. júní. Í sáttmálanum sameinuðust aðilar um samstarf um eftirlit á vinnustöðum og upptöku vinnustaðaskírteina. Í sáttmálanum kemur m.a. fram að „Markmiðið með slíku samstarfi er m.a. að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum um almennt eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini.“
    Markmið frumvarpsins skv. 2. gr. er að stuðla að því að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Meiri hlutinn telur rétt að breyta orðalagi greinarinnar enda hvílir sú skylda á öllum að fara eftir lögum og reglugerðum. Þá hefur verið samið sérstaklega um kjör og kaup og því hvílir skylda á samningsaðilum að fara eftir kjarasamningum. Í umræðum um frumvarpið, í stöðugleikasáttmála og í greinargerð kemur auk þess fram að markmið með eftirlitinu og vinnustaðaskírteinum sé að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Meiri hlutinn telur því rétt að markmið laganna verði að tryggja að farið sé að lögum, reglugerðum og kjarasamningum, en ekki eingöngu að stuðla að því. Séu ákvæði frumvarpsins ekki nægileg til að tryggja slíkt verði löggjöfin endurskoðuð til að ná fram því markmiði.
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um kæruheimildir og m.a. lagt til að félags- og tryggingamálaráðuneytið skuli leitast við að kveða upp úrskurði í kærumálum innan tveggja mánaða frá því að mál berst en að öðru leyti fari um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er að finna grundvallarreglu um að ákvarðanir í málum sem falla undir lögin skuli teknar svo fljótt sem unnt er, og á sú regla m.a. við um málsmeðferð í kærumálum, sbr. 30. gr. stjórnsýslulaga. Meiri hlutinn leggur til breytingu á orðalagi ákvæðisins til samræmis við þessa grundvallarreglu sem og til skýringar enda sé eðlilegra að kveða á um ákveðinn, afmarkaðan frest til að kveða upp úrskurð. Ljóst þurfi að vera að kveði ráðuneytið ekki upp úrskurð innan tveggja mánaða sé um töf að ræða í skilningi stjórnsýslulaga sem beri að skýra aðila máls frá og upplýsa um ástæður tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
    Frumvarpinu er ætlað að gilda um alla atvinnurekendur og starfsmenn, þó með þeirri afmörkun að aðilum vinnumarkaðar verði gert að semja nánar um það í kjarasamningum til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lög þessi taka á hverjum tíma. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að óeðlilegt væri að lögin taki til þeirra atvinnurekenda sem eiga aðild að öðrum félögum en þeim sem teljast til heildarsamtaka atvinnurekenda samkvæmt lögunum og að með slíku yrði haft af öðrum félögum vald til samningsgerðar og hagsmunagæslu. Að auki gæti óeðlilegt vald færst til þeirra aðila sem ákveðið geta hvaða stéttir skuli hafa vinnustaðaskírteini og þeir þar með ákveðið að gildissviðið nái til atvinnugreina, atvinnurekenda og starfsmanna sem ekki eiga aðild að félögum þeirra.
    Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á hagsmunagæslu eða vald einstakra félaga til samningsgerðar. Þó sé óhjákvæmilegt að lög um þessi mál gildi almennt svo atvinnurekendur geti ekki sagt sig úr félagi til að komast undan eftirlitinu. Nauðsynlegt er einnig að hafa vissan sveigjanleika í því í hvaða atvinnugreinum verður skylt að gefa út vinnustaðaskírteini til að hægt sé að leggja áherslu á þær greinar þar sem grunur leikur á að brotið sé á réttindum starfsfólks og að stunduð sé svört atvinnustarfsemi.
    Nefndin ræddi nokkuð dagsektarákvæði frumvarpsins en í 6. gr. þess er lagt til að hámark dagsekta verði 100.000 kr. á dag. Hámark dagsekta í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er 50.000 kr. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingu á þessu atriði en áréttar mikilvægi þess að samræmis sé gætt í ákvæðum laga um dagsektir.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að gætt sé að lögbundnum réttindum starfsmanna sama hjá hvaða atvinnurekendum þeir starfa. Þá sé brýnt að sporna við svartri atvinnustarfsemi sem leiðir ekki eingöngu til réttindaleysis starfsmanna og lægri skatttekna í ríkissjóð heldur einnig aukinna útgjalda úr ríkissjóði, m.a. í formi atvinnuleysisbóta og bóta úr almannatryggingakerfinu sem eru tekjutengdar. Tryggja verður að sátt ríki um velferðarkerfið og að það nýtist á lögmætan hátt og bætur séu greiddar til þeirra sem eiga sannanlegan rétt á þeim.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 2. gr. Í stað orðanna „stuðla að því“ komi: tryggja.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Við 7. gr. 3. mgr. orðist svo:
                  Félags- og tryggingamálaráðuneytið skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.

    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. apríl 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


varaform., frsm.


Guðbjartur Hannesson.


Ólafur Þór Gunnarsson.



Guðmundur Steingrímsson.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.