Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1026  —  600. mál.




Álit fjárlaganefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til ágúst 2009.


    Fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til ágúst 2009 og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig ásamt sérfræðingum hans. Ríkisendurskoðun hefur m.a. það hlutverk samkvæmt lögum að annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við fjárhagsleg málefni ríkisins. Skýrslan kemur í kjölfar tveggja annarra sem fjárlaganefnd hefur fjallað um. Annars vegar um fjármálastjórn ráðuneyta og skil rekstraráætlana. Hins vegar um fjármálastjórn 50 valinna stofnana. Í þessari skýrslu er fjallað um framkvæmd fjárlaga og stöðu fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins 2009, en jafnframt kemur fram í henni að einstaka ályktanir séu dregnar á grundvelli nýrra upplýsinga. Þá er í skýrslunni umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til fjáraukalaga 2009 að beiðni fjárlaganefndar. Í lok skýrslunnar er fjallað um breytingar sem stofnunin telur að gera þurfi á lögum um fjárreiður ríkisins sem og aðrar breytingar til að auka aga og gegnsæi í fjármálastjórn ríkisins. „ Er þar einkum um að ræða samantekt ábendinga sem áður hafa birst í skýrslum stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga, endurskoðun ríkisreiknings og víðar.
    Á fundi Ríkisendurskoðunar með fjárlaganefnd 5. nóvember 2009 var safnað saman spurningum nefndarmanna um efni skýrslunnar og svaraði Ríkisendurskoðun þeim með bréfi dags. 10. nóvember 2009. Enn fremur sendi fjárlaganefnd Alþingis stofnuninni bréf 20. nóvember sl. þar sem óskað var ítarlegri skýringa á tilteknum atriðum og svaraði Ríkisendurskoðun því með bréfi 27. nóvember. Því má líta á þessi samskipti sem nánari upplýsingar um framkvæmd fjárlaga sem fjárlaganefnd hefur notað við eftirlit sitt.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2007 og ársáætlanir 2008 kemur fram að stofnunin „ hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana. Þá hefur stofnunin ítrekað bent á misræmi í ákvörðunum fjárveitingavaldsins og framkvæmdarvaldsins. Þar er átt við að fjárveitingavaldið ákvarði umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs en forstöðumenn og ráðuneyti taki sér iðulega vald til að auka umfang hennar umfram lögbundnar heimildir. Slíkar ábendingar Ríkisendurskoðunar hafa litlu skilað. Ríkisendurskoðun telur að síendurtekin brot gegn fjárreiðulögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og aðgerðaleysi ráðuneyta vegna þeirra sýni að ábyrgðin er ekki að öllu leyti hjá forstöðumönnum stofnana. Þá hvetur hún til þess að ákvæði um ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlausari í gildandi lögum og reglum. Umfang halla og uppsafnaðra fjárheimilda í árslok 2007 sýna að ekki hefur verið brugðist við síendurteknum ábendingum Ríkisendurskoðunar. Stofnunin getur eðli málsins samkvæmt ekki annað en komið sínu áliti á framfæri með þeim hætti sem hér er gert. Þó er rétt að nefna að hún hefur nú ákveðið að óska eftir því við Alþingi að hluti uppsafnaðra fjárheimilda hennar verði felldur niður. Hvatt er til að ónýttar fjárheimildir annarra fjárlagaliða umfram 4% viðmiðið, sem ekki stendur til að nýta að fullu á árinu 2008, verði felldar niður í lokafjárlögum 2007. Að öðru leyti stendur stofnunin ráðalaus.“
    Í ljósi þessa er það mat fjárlaganefndar Alþingis að fara þurfi í saumana á þessum málum. Nefndin hefur skipað vinnuhóp innan sinna raða sem mun fara yfir þau mál sem tengjast framkvæmd fjárlaga með það að markmiði að færa mál til betri vegar. Ríkissjóður hefur ekki fjárhagslegt svigrúm sem leyfir að stofnanir og ráðuneyti geti haldið uppteknum hætti og mun nefndin taka á þessum málum. Hún mun mánaðarlega fylgjast með framkvæmd fjárlaga og fara yfir þau frávik sem talið er að skipti máli. Skýrslur Ríkisendurskoðunar munu verða mikilvægur þáttur í eftirliti nefndarinnar.

Alþingi, 27. apríl 2010.



Guðbjartur Hannesson,


form.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Ásbjörn Óttarsson.



Kristján Þór Júlíusson.


Oddný G. Harðardóttir.


Þór Saari.



Björn Valur Gíslason.


Þuríður Backman.