Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 320. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1037  —  320. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Hilmarsson frá Fjárfestingarstofu, Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti, Hörð Arnarson frá Landsvirkjun, Unni G. Kristjánsdóttur, formann nefndar um erlenda fjárfestingu, Kristján Indriðason frá Samkeppniseftirlitinu, Salvöru Nordal frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Auði Ingu Ingvarsdóttur og Pál Jónsson frá Skiptum hf. og Vilhjálm Þorsteinsson frá Verne Holdings ehf. Þá ræddi nefndin símleiðis við Birgi Má Ragnarsson, stjórnarmann í Verne Global, og Jeff Monroe, forstjóra Verne Holdings ehf. Nefndinni bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Félagi um stafrænt frelsi, Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, Hagstofu Íslands, Landsvirkjun, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjanesbæ, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samkeppniseftirlitinu, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Skiptum hf., Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra fái heimild til að gera fjárfestingarsamning við Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf. og eigendur þeirra (félögin) um að þau reisi og reki gagnaver í Reykjanesbæ. Helstu atriði frumvarpsins eru hin sömu og koma fram í árituðum drögum iðnaðarráðherra og fyrrnefndra félaga að fjárfestingarsamningi. Þar eru verkefnin skilgreind, kveðið á um tímalengd samningsins, mælt fyrir um undanþágur frá tilgreindum ákvæðum laga, skattlagningu félaganna, um lögsögu íslenskra dómstóla o.fl. Gert er ráð fyrir því að íslensk lög ráði um túlkun og skýringu fjárfestingarsamningsins. Þær undanþágur frá reglum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og afmarkast við það og félögin eru eftirfarandi: Tryggt er að tekjuskattshlutfall félaganna verði ekki hærra en 15% fyrstu fimm árin af gildistíma samningsins, 18% næstu fimm ár þar á eftir og 25% síðustu tíu ár af gildistímanum. Lagt er til að ákveðnar sérreglur gildi um fyrningu eigna, veitt er undanþága frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi, mælt er fyrir um sérreglur um stimpilgjald og skipulagsgjald, sérreglur um útreikning fasteignaskatts og kveðið er á um undanþágu frá rafmagnsöryggisgjaldi.
    Þau atriði sem einkum voru rædd við meðferð málsins í nefndinni voru eftirfarandi: Fjallað var um lengd samningsins. Í síðari málslið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að í samningi milli ríkisins, eigendanna og félaganna skuli ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda en í ákvæðinu er kveðið á um að þau skuli ekki gilda skemur en í 20 ár frá undirritun. Fram kom við meðferð málsins í nefndinni að iðnaðarráðuneyti hefði borist ábending frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að allar líkur væru á að stofnunin mundi ekki heimila fjárfestingarsamning til 20 ára. Efnisreglur um byggðaaðstoð eru í leiðbeinandi reglum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út og ESA tekið upp. Í gildandi reglum frá 6. apríl 2006 er ekki tilgreint til hversu langs tíma fjárfestingarsamningar geti verið. Hins vegar hefur framkvæmdastjórnin lýst því yfir að hún sé mótfallin því að gerðir séu fjárfestingarsamningar með skattalegum ívilnunum til svo langs tíma og sýna nýleg fordæmi að hún heimilar fjárfestingarsamninga á bilinu 10 til 20 ár. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn eðlilegt að leggja til breytingu á síðari málslið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins í þá veru að í stað þess að kveðið sé á um að ákvæði samningsins skuli eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun hans verði kveðið á um að samningurinn skuli gilda í 10 ár. Það er í samræmi við ákvæði frumvarps iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna fjárfestinga í íslensku atvinnulífi, sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi, en þar er miðað við tíu ár. Meiri hlutinn telur mikilvægt að jafnræðis sé gætt svo sem kostur er varðandi ívilnanir til félaga sem hyggja á rekstur gagnavera og leggur því til að sama tímalengd gildi í fjárfestingarsamningi vegna gagnavers Verne Global og þeirra gagnavera sem kunna að hefja rekstur hér á landi í kjölfarið. Vegna þessarar breytingar fellur c-liður 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. brott.
    Nefndin fjallaði um áhrif ákvæða frumvarpsins á samkeppni. Nefndinni bárust athugasemdir þess efnis að yrði frumvarpið að lögum gæti það leitt til röskunar samkeppni á tilteknum mörkuðum. Tekið er fram í athugasemdum við frumvarpið að í þeim frávikum frá lögum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og drögum að fjárfestingarsamningi felist ákveðin ríkisaðstoð til þeirra sem reisa og reka umrætt gagnaver. Í 2. kafla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, eru reglur um ríkisaðstoð. Íslenskum stjórnvöldum ber að tilkynna um fyrirhugaða veitingu slíkrar aðstoðar til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og fá hana samþykkta áður en hún er veitt. Frumvarpið og árituð drög að fjárfestingarsamningi ásamt öðrum samningum sem tengjast verkefninu hafa verið tilkynnt til ESA á þeim grundvelli að um réttlætanlega byggðaaðstoð sé að ræða. ESA hefur áður samþykkt svokallað byggðakort fyrir Ísland og hafa íslensk stjórnvöld heimild til að veita byggðaaðstoð í landsbyggðarkjördæmunum þremur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samkvæmt byggðakortinu getur byggðaaðstoð numið allt að 15% af heildarfjárfestingarkostnaði. Hlutfallið er þó lægra sé um stærri verkefni að ræða og í því tilviki sem hér um ræðir gæti það hæst orðið 6,34%. Sú ríkisaðstoð sem hér um ræðir, hefur verið áætluð 5,4 milljónir bandaríkjadala, miðað við 20 ára samning, en heildarfjárfestingarkostnaður er áætlaður 726 milljónir bandaríkjadala miðað við gagnaverið fullbúið árið 2016. Ríkisaðstoðin er því 0,74% af heildarfjárfestingarkostnaði ef miðað er við samning til 20 ára. Eins og segir að framan kveður breytingartillaga meiri hlutans hins vegar á um 10 ára samning og fer þá áætluð heildarfjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á gildistíma samningsins niður í 3,4 milljónir bandaríkjadala og ríkisaðstoðarhlutfallið niður í 0,47%. Til samanburðar má geta þess að í fyrri fjárfestingarsamningum sem íslenska ríkið hefur gert, svo sem vegna álvera á Grundartanga, í Reyðarfirði og í Helguvík, hefur hlutfallið verið 2–3% af fjárfestingarkostnaði. Þá er rétt að geta þess að þær ívilnanir sem kveðið er á um í frumvarpinu geta aðeins nýst til að reisa og reka viðkomandi gagnaver og er óheimilt að nýta þær til annarrar starfsemi viðkomandi félaga.
    Lagt var til að bætt yrði við frumvarpið ákvæði þess efnis að óheimilt væri að nota þá ívilnun sem felst í frumvarpinu til að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Meiri hlutinn telur slíka breytingu ganga gegn meginmarkmiði frumvarpsins sem er að styrkja uppbyggingu þessa tiltekna gagnavers. Starfsemi gagnavera er samkeppnisstarfsemi og fæli það í sér ákveðna rökleysu að taka fram í frumvarpinu að óheimilt væri að nota þá ívilnun sem felst í því til að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Eins og framar er getið er veiting ríkisaðstoðarinnar háð samþykki ESA áður en hún er veitt og mun ESA við þá ákvörðun leggja mat á þá ríkisaðstoð sem felst í frumvarpinu og fjárfestingarsamningnum, jafnt jákvæða sem neikvæða þætti hennar. Hinir neikvæðu þættir eru þeir að um sértæka aðstoð er að ræða sem gæti valdið röskun á samkeppni. Jákvæðu þættirnir eru þau áhrif sem starfsemin mun hafa á svæðinu, ný störf munu verða til þar sem atvinnuleysi er mikið og auk þess er um að ræða starfsemi sem eykur fjölbreytni í atvinnulífi landsins. Þess má geta að áætluð markaðshlutdeild Verne í gagnaversiðnaði miðað við fullbúið gagnaver félagsins á svæðinu 2016 er metin að hámarki 1,5% af Evrópumarkaði og 0,5% af heimsmarkaði. Verne Holdings ehf. verður eins og önnur félög undir eftirliti Samkeppniseftirlitsins.
    Í 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að félögin verði undanþegin gjöldum skv. 14. og 14. gr. a laga um fjarskipti enda teljist þjónustan sem félögin veita ekki til þeirrar starfsemi sem falli undir ákvæði þeirra laga. Umsagnaraðili lagði til að tekinn yrði af allur vafi í áðurnefndri grein frumvarpsins um að félögunum yrði óheimilt að starfa á fjarskiptamarkaði. Nefndin telur slíka breytingartillögu óþarfa. Verði það raunin að félögin færu að veita fjarskiptaþjónustu mundi sú starfsemi þeirra ekki njóta þeirra ívilnana sem fram koma í frumvarpinu enda eru þær afmarkaðar við hið skilgreinda verkefni að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ. Ætluðu félögin sér að veita fjarskiptaþjónustu féllu þau undir lög um fjarskipti og þar með mundi undanþágan frá þeim gjöldum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu ekki eiga við. Nefndin ítrekar því að þær ívilnanir sem kveðið er á um geta aðeins nýst til að reisa og reka viðkomandi gagnaver, með öðrum orðum verður ekki heimilt að nýta þær til annarrar starfsemi viðkomandi félaga.
    Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að með þeim félögum sem ráðherra fær heimild til að gera fjárfestingarsamning við verði frumvarpið að lögum sé átt við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. en hið síðarnefnda er dótturfélag hins fyrrnefnda. Tveir stærstu hluthafar Verne Holdings ehf. eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. en auk þessara tveggja félaga eiga stjórnendur talsverðan hlut í félaginu. Upplýst var við meðferð málsins í nefndinni að góðgerðarsjóðurinn Wellcome Trust yrði nýr hluthafi í Verne Holdings ehf. Mun hann samkvæmt upplýsingum nefndarinnar verða stærsti hluthafinn og koma inn með hlutafé þegar ritað hefur verið undir fjárfestingarsamninginn. Samkvæmt þessu munu hlutir áðurnefndra aðila, Novators, Teha Investments og eigenda og stjórnenda, minnka um nærfellt helming. Nefndin óskaði eftir nákvæmri sundurliðun á eignarhlutum hluthafa í félaginu en einungis Novator gaf samþykki sitt fyrir því að eignarhlutur þeirra yrði opinberaður. Aðrir hluthafar báru við trúnaði. Í erindi frá stjórn Verne Holdings ehf. kom fram að eignarhlutur Novators verður 21,8% með tilkomu Wellcome Trust og lækkar úr 39,7%. Jafnframt kom fram í meðförum nefndarinnar að forsvarsmenn Novators telja að hlutur þeirra muni rýrna enn frekar í nánustu framtíð og stefni jafnvel í 5–7% á komandi missirum. Líkur eru á því að Novator muni ekki taka þátt í hlutafjáraukningu sem stendur fyrir dyrum síðar á þessu ári og mun þá eignarhlutur félagsins minnka í hlutfalli.
    Talsvert var rætt um það í nefndinni að einn þeirra aðila sem tengist verkefninu, nánar tiltekið aðaleigandi Novators, var umsvifamikill þátttakandi í íslensku viðskiptalífi í aðdraganda hruns fjármálakerfisins og einn af aðaleigendum Landsbanka Íslands. Það sjónarmið kom fram í nefndinni að það væri siðferðislega ámælisvert að stjórnvöld leggi til fjárhagslegar ívilnanir í þágu eins þeirra aðila fjármálakerfisins sem valdið hafa þjóð sinni þungum búsifjum. Meiri hlutinn ákvað að rétt væri að taka mið af niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins áður en frumvarpið yrði endanlega afgreitt frá iðnaðarnefnd. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að ekki sé heppilegt að fjárhagslegur ábati sem rekja megi beint til þess að fjárfestingarsamnings sem frumvarpið mælir fyrir um renni til eins af helstu eigendum þeirra banka sem áttu stóran þátt í hruni fjármálakerfisins haustið 2008.
    Tekist hefur samkomulag milli stjórnvalda og eiganda Novators, með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða, þess efnis að við endanlega útgáfu fjárfestingarsamningsins komi fram í sérákvæði að Novator, sem 21,8% eigandi í félögunum (Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf.), framselji til ríkisins allan fjárhagslegan ávinning vegna þeirrar ríkisaðstoðar sem kemur fram í fjárfestingarsamningnum og fellur til Novators sem eiganda að þeim félögum sem ríkisaðstoðin er veitt til. Með slíku sérákvæði yrði tryggt að Novator njóti ekki að neinu leyti fjárhagslegs ávinnings vegna þeirrar ríkisaðstoðar sem í fjárfestingarsamningnum felst og hefur verið áætluð, eins og fram hefur komið, samtals 3,4 milljónir bandaríkjadala. Hlutdeild Novators er því 21,8% af þeirri fjárhæð.
    Í slíku framsali felst greiðsluskuldbinding Novators gagnvart ríkissjóði á hlutdeild Novators í áætlaðri ríkisaðstoð á gildistíma samningsins. Til að mæta þessari greiðsluskuldbindingu framselur Novator til ríkisins, að því marki sem nauðsynlegt er til að mæta skuldbindingunni, arðgreiðslur frá félögunum og söluverð hlutafjárins, komi til þess að Novator selji hlutafé sitt í félögunum, á þann hátt að þessar greiðslur fara beint frá félögunum, eða viðkomandi kaupanda hlutafjárins, til ríkisins. Skal greiðslum að fullu lokið innan tíu ára frá undirritun samningsins. Sé ríkisaðstoðin ekki að fullu uppgreidd innan nefnds tímafrests skal Novator þá standa ríkissjóði skil á eftirstöðvunum, óháð arðgreiðslum úr félögunum eða söluverði hlutafjárins.
    Enn fremur skal koma fram í sérákvæðinu að komi til sölu á eignarhlut Novators í félögunum, með söluhagnaði, framselji Novator til ríkisins, sem hluta af fjárhagslegum ávinningi af ríkisaðstoðinni, þann söluhagnað sem myndast af hlutdeild Novators í ríkisaðstoðinni. Með því er tryggt að Novator endurgreiði ekki einungis stofnfjárhæð ríkisaðstoðarinnar heldur einnig hluta Novators í hugsanlegri ávöxtun sem verður af henni og hagnaður sem verður vegna ríkisaðstoðarinnar sitji þannig ekki eftir hjá Novator.
    Jafnframt komi fram í sérákvæðinu að Novator muni ekki auka við hlutfallslegan hlut sinn í félögunum, eða öðrum félögum er að verkefninu koma, í framtíðinni. Samkomulag hefur verið gert við eiganda Novators um þessa tilhögun eins og staðfest er í yfirlýsingu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sbr. fylgiskjal við álit þetta. Þá liggur fyrir samkomulag við eiganda Novators að komi til þess að fyrirtækið njóti hagnaðar af sölu hlutar í félögunum muni sá hagnaður, að því marki sem hann gangi ekki til greiðslu skulda, verða nýttur til frekari fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.
    Meiri hlutinn leggur ekki til breytingu á texta frumvarpsins með tilliti til framangreinds sérákvæðis enda er það í fullu samræmi við 7. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um að framsal á réttindum og skyldum allra aðila sé háð samþykki aðilanna. Hins vegar skal áréttað að ekki þarf samþykki aðila fyrir því ef réttindi eru sett að veði til tryggingar fjármögnun.
    Nefndin ræddi nokkuð orkuþörf gagnaversins en rétt er að árétta að ekki er um það að ræða að í frumvarpinu eða í drögum að fjárfestingarsamningi verði samið um sölu á orku til gagnaversins. Félögin hafa þegar gert raforkusamning við Landsvirkjun um kaup á 25 MW af raforku sem er ætluð til nota fyrir fyrsta áfanga gagnaversins, þ.e. eina byggingu. Í raforkusamningnum er jafnframt kveðið á um að Landsnet skuli leggja sig fram við að veita viðbótarorku komi til þess að félagið hafi þörf fyrir meiri raforku allt að 50 MW.
    Í 8. gr. frumvarpsins er veitt heimild til að vísa ágreiningi milli aðila til gerðardóms sem leysir úr máli á grundvelli gerðardómsreglna Alþjóðaverslunarráðsins eins og þær eru í gildi á hverjum tíma, sbr. einnig 19. gr. lýsingar á drögum fjárfestingarsamningsins. Nefndinni barst athugasemd um að lög um samningsbundna gerðardóma hefðu ekki fylgt þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis á sviði úrlausnar ágreiningsmála. Meiri hlutinn telur rétt að skoðað verði hvort styrkja þurfi þá löggjöf.
    Ákvæði frumvarpsins ná aðeins til þess að heimila iðnaðarráðherra að gera samninga við tiltekna aðila um að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ. Ekki er í frumvarpinu sérstaklega mælt fyrir um reglur um starfsemi gagnavera almennt. Kom til tals í nefndinni að hugsanlega þyrfti að skoða reglur um persónuvernd. Um verndun persónulegra gagna og meðferð þeirra gilda lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau endurspegla löggjöf Evrópusambandsins og ber íslenskum stjórnvöldum að innleiða í íslenska löggjöf gerðir Evrópusambandsins á þessu sviði þar sem þær eru hluti af hinum innri markaði og falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Meiri hlutinn telur mikilvægt að fylgst verði með alþjóðlegri þróun í þessum efnum, þ.e. hvort þörf verði á að styrkja lagaumhverfið hvað varðar starfsemi gagnavera almennt, m.a. með hliðsjón af álitamálum um persónuvernd, ábyrgð eigenda gagnaversins og öryggismálum.
    Sá fjárfestingarsamningur sem hér um ræðir er sá fyrsti hér á landi sem gerður er til að styrkja uppbyggingu á gagnaveri. Fyrirmyndir eru um það erlendis að í kringum gagnaver byggist klasar af hátækni- og þjónustufyrirtækjum. Í nýlegri samanburðarrannsókn á samkeppnishæfi þjóða á sviði gagnaveraþjónustu lenti Ísland í fjórða sæti og verði frumvarpið að lögum standa vonir til að þetta verkefni verði aðeins hið fyrsta í áframhaldandi uppbyggingu hátækniiðnaðar á Íslandi. Reiknað er með að um 180–220 störf skapist þegar framkvæmdir vegna verkefnisins eru í hámarki, þar af er áætlað að um 100 störf skapist á vegum fyrirtækisins við reksturinn og á sjö ára tímabili er áætlað að um 100 störf skapist í byggingariðnaði. Um fjölbreytt störf er að ræða, einkum fyrir sérfræðimenntað fólk í rafmagnsverkfræði, vélaverkfræði og upplýsingatækni, auk starfa í byggingariðnaði á framkvæmdatímum. Þá hefur verið áætlað að um 330 afleidd störf geti orðið til í tengslum við verkefnið.
    Jón Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun samningsins“ í 2. mgr. komi: og skulu þau gilda í 10 ár frá undirritun samningsins.
     2.      Við 4. gr. C-liður 1. tölul. 1. mgr. fellur brott.

Alþingi, 28. apríl 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Björn Valur Gíslason.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.


                        
         

Sigmundur Ernir Rúnarsson.






Fylgiskjal.

Björgólfur Thor Björgólfsson:


London, 19. apríl 2010

Virðulega Alþingi og háttvirtir þingmenn

EFNI:    Lögfesting fjárfestingarsamnings við Verne Holdings ehf. vegna gagnavers í Reykjanesbæ.

    Vísað er til frumvarps til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ (þskj. 393 – 320. mál). Lögfesting fjárfestingarsamningsins er nauðsynleg til að tryggja félaginu og viðskiptavinum þess öruggt rekstrarumhverfi. Viðskiptamódel félagsins gerir ráð fyrir langtímasamningum við stóra viðskiptavini og fyrir þá er nauðsynlegt að vissa ríki um kostnað út samningstímann. Markmið fjárfestingarsamningsins er því fyrst og fremst að veita slíka vissu en ekki veita félaginu fjárhagslega fyrirgreiðslu.
    Í tengslum við meðferð málsins hafa komið upp gagnrýnisraddir vegna hlutafjáreignar minnar í félaginu. Óþarfi er að fjölyrða um ástæður þess, en þær tengjast mínum hlut í hruni íslenska fjármálakerfisins.
    Vegna þessa vísa ég til greinar sem birt var í Fréttablaðinu 15. apríl sl. þar sem ég bað Íslendinga afsökunar á mínum þætti í hruninu. Þar kemur jafnframt fram að ég telji mig engin lög hafa brotið. Rétt er að fram komi að ég hef hvorki verið dæmdur, ákærður eða kvaddur til yfirheyrslu vegna nokkurs konar brota.
    Burtséð frá því eru ýmis atriði í skýrslunni sem eru ámælisverð hvað varðar eigendur bankanna, þ.m.t. mig. Ég mun á næstu vikum og mánuðum gera grein fyrir mínum þætti og skýra þau atriði er mig varða. Er það von mín að sú umfjöllun skýri með fullnægjandi hætti margt er að mér snýr. Með því er ég þó á engan hátt að draga úr ábyrgð minni vegna hrunsins.
    Ég skil réttláta reiði almennings gagnvart þeim sem voru þátttakendur í þeirri atburðarás sem leiddi til hrunsins. Það mun taka mig mörg ár að byggja upp mannorð mitt á Íslandi á nýjan leik ef það tekst á annað borð, en ég er staðráðinn í að gera mitt besta til þess. Ég geri hins vegar ráð fyrir að grundvallarreglum réttarríkisins verði framfylgt í meðferð þeirra mála sem tengjast hruninu, sem og við afgreiðslu mála almennt hjá Alþingi og ríkisvaldi.
    Uppbygging atvinnulífsins og erlend fjárfesting er nauðsynlegur þáttur í endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnaverið í Reykjanesbæ fer þar fremst í flokki, og það væri stórkostlegur missir fyrir atvinnuuppbyggingu hér á landi ef ekki yrði af verkefninu.
    Eins og áður segir er lögfesting fjárfestingarsamningsins nauðsynleg til að af verkefninu verði. Ef persónuleg aðkoma mín stendur í vegi fyrir að unnt sér að veita fyrirtækinu þá fyrirgreiðslu sem felst í samningnum hef ég ákveðið eftirfarandi:
     1.      Ég afsala mér þeim ríkisstyrk sem felst í lögfestingu fjárfestingarsamningsins. Við sölu Verne Holdings ehf. eða greiðslu arðs til mín frá félaginu mun ég greiða til ríkisins þau verðmæti sem felast í gerð samningsins við lögfestingu, að teknu tilliti til eignarhlutar míns í félaginu og greiddra skatta. Ég sem fjárfestir mun því ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirgreiðslu ríkisins.
     2.      Ég mun ekki auka við hlut minn í félaginu og ekki taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.
    Það er von mín að með þessu sé unnt að tryggja framgang verkefnisins og persóna mín flækist ekki fyrir afgreiðslu málsins.

Virðingarfyllst,
Björgólfur Thor Björgólfsson.