Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1113  —  526. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu mansalsbókunar við Palermó-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétu Gunnarsdóttur, Sigríði Eysteinsdóttur og Ingibjörgu Davíðsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðlaugu Jónasdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd bókun um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna, sem er viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember 2000.
    Markmið bókunarinnar eru að berjast gegn mansali, einkum verslun með konur og börn, að aðstoða og vernda fórnarlömb mansals og að stuðla að samstarfi aðildarríkjanna til að ná fyrrgreindum markmiðum. Í þessu skyni skilgreinir bókunin hugtakið mansal, leggur til leiðir til að efla löggæslu og landamæraeftirlit, styrkir dómskerfið, eykur vernd og stuðning við fórnarlömb og vitni, og kemur á forvarnastefnu.
    Nefndin hefur kynnt sér lagabreytingar sem gerðar hafa verið í samræmi við bókunina. Við breytingu á almennum hegningarlögum með lögum nr. 40/2003 var m.a. tekið mið af bókuninni þegar nýrri grein var bætt við hegningarlögin sem gerði mansal refsivert. Frekari breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga voru gerðar með lögum nr. 149/2009 til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem bókunin leggur aðildarríkjum á herðar. Með þessum breytingum telur nefndin að nauðsynlegar lagabreytingar séu komnar fram fyrir fullgildingu bókunarinnar.
    Nefndin vekur þó athygli á athugasemdum sem bárust frá Mannréttindaskrifstofu Íslands þess efnis að í lögum nr. 149/2009 séu ákvæði um að refsivert sé að hagnýta sér bága stöðu einstaklinga sem verða fórnarlömb mansals án þess að skilgreint sé nánar hvað í slíkri stöðu felst og geti það leitt til of þröngrar túlkunar á ákvæðinu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Helgi Hjörvar.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.