Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1126  —  495. mál.
Nefndarálitum frv. til l. breyt. á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

Frá heilbrigðisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá umboðsmanni barna, Tilveru – samtökum um ófrjósemi, landlæknisembættinu og Kvenfélagasambandi Íslands.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör, þar sem frjósemi beggja maka er skert. Samkvæmt lögum nr. 55/1996 er ekki heimilt að nota gjafaegg við glasafrjóvgun einhleyprar konu, konu í sambúð með annarri konu eða konu þar sem ekki er unnt að nota sæði frá eiginmanni eða sambýlismanni. Frumvarpið tekur einnig til geymslu fósturvísa á þann hátt að 9. gr. laganna taki til geymslu fósturvísa, án tillits til þess hvort notaðar hafa verið kynfrumur parsins/konunnar eða gjafakynfrumur. Með lögum nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra, kom inn sú grundvallarbreyting að konu í staðfestri samvist eða í óvígðri sambúð með annarri konu er heimilt að gangast undir tæknifrjóvgum. Með öðrum breytingarlögum, nr. 54/2008, um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, var gerð sú breyting að einhleypum konum var heimilað með sömu skilyrðum og pörum að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Ljóst er að sjónarmið sem lúta að rétti einstaklinga til að eignast barn eru ríkjandi við lagasetningu.
    Nefndin telur að með frumvarpi þessu sé stigið þarft skref til að koma til móts við þá einstaklinga, hjón og pör sem lifa við skerta frjósemi og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Siv Friðleifsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2010.Þuríður Backman,


form., frsm.


Margrét Pétursdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.Skúli Helgason.


Valgerður Bjarnadóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.