Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 531. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1214  —  531. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson og Bjarna Amby Lárusson frá ríkisskattstjóra, Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni, Ólaf Jónsson frá Skeljungi, Samúel Guðmundsson frá Olíuverslun Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Olíuverslun Íslands hf., Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Skeljungi hf., Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Megintilgangur frumvarpsins er að auðvelda eftirlit með þeim sem heimild hafa til notkunar litaðrar olíu og hækka sektir þegar um misnotkun ræðir. Þá er lagt til að tiltekið orðalag 6. mgr. 13. gr. laganna verði fært til samræmis við 2. mgr. greinarinnar.
    Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið að lögum verði kaup á litaðri olíu í sjálfsafgreiðslu aðeins heimil með viðskiptakorti eða dælulykli útgefnum af söluaðila eldsneytisins en ekki með reiðufé eða debet- og kreditkortum. Skattyfirvöld muni fyrir vikið eiga hægara með að fylgjast með viðskiptum með litaða olíu ef grunur rís um heimildarlausa notkun.
    Við meðferð málsins hafa olíufélögin mótmælt 1. gr. frumvarpsins þar sem hún kalli á flóknar breytingar á afgreiðslukerfum. Verði greinin að lögum leggja þau áherslu á rúman aðlögunarfrest. Einnig hafa komið fram áhyggjur af því að sú leið sem þar er lögð til geti haft óæskileg áhrif á samkeppni og persónuvernd.
    Ríkisskattstjóri áréttaði á fundum nefndarinnar að nauðsyn bæri til að draga úr aðgengi að litaðri olíu til að sporna gegn misnotkun sem athuganir embættisins bentu til að væri fyrir hendi. Upphafsgrein frumvarpsins væri vel til þess fallin að ná því markmiði og að sjónarmið um persónuvernd stæðu því ekki í vegi að embættið aflaði upplýsinga frá söluaðilum eldsneytis sem varða umrædd viðskipti.
    Nefndin tekur undir sjónarmið ríkisskattstjóra. Í ljósi athugasemda olíufélaganna felst nefndin þó á að lengja gildistökufrest frumvarpsins að frátalinni 2. gr. þess.
    Við meðferð málsins fór Vegagerðin þess á leit við nefndina að lagðar yrðu til breytingar á 18. og 19. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald er varða eftirlit og refsingar. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess að svo komnu máli.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 4. gr. Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2010“ komi: 1. október 2010.
    
    Pétur H. Blöndal gerir fyrirvara við álitið.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Lilja Mósesdóttir.



Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þór Saari.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.