Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1235  —  465. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum.

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra, Svein Magnússon, yfirlækni hjá heilbrigðisráðuneytinu, og Einar Magnússon, skrifstofustjóra skrifstofu lyfja hjá heilbrigðisráðuneytinu.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lyfjafræðingafélagi Íslands, lyfjagreiðslunefnd og Lyfjastofnun.
    Með tillögunni er heilbrigðisráðherra falið að hefja undirbúning að bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum í ljósi þess að hún er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp. Umsagnir sem bárust um málið voru jákvæðar. Kostnaðarhagkvæmni hefur þegar verið metin hér á landi og er niðurstaðan sú að bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp. Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti um stöðu þessa máls hjá ráðuneytinu. Í minnisblaðinu kemur fram að vinnuáætlun ráðuneytisins er að hefja bólusetningar á árinu 2011 með það að markmiði að þau börn sem fæðast á því ári fái slíkar bólusetningar. Það er álit nefndarinnar að hér sé um þarft mál að ræða enda eru eyrnabólgur eitt algengasta heilsuvandamál barna hér á landi og skýrir yfir 50% allrar sýklalyfjanotkunar hjá börnum. Í október 2008 skilaði ráðgjafahópur sem fékk það verkefni að skoða bólusetningar og skimanir ítarlegri skýrslu. Í skýrslunni var lagt mat á forvarnir sem lúta að bólusetningum og skimunum gegn smitsjúkdómum og krabbameinum. Var þar m.a. lagt mat á gildi og kostnaðarhagkvæmni bólusetninga og mælt með að hafinn yrði undirbúningur að bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum og hafin yrði bólusetning með HPV-bóluefni meðal 12 ára stúlkna. Nefndin hefur einnig til umfjöllunar þingsályktunartillögu þess efnis að heilbrigðisráðherra skuli hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Nefndin telur að hér sé um að ræða mjög verðug og þörf verkefni. Aftur á móti er ljóst að nauðsynlegt er að forgangsraða verkefnum sem þessu. Það er álit nefndarinnar að rétt sé að fara eftir þeirri forgangsröðun sem sett er fram í framangreindri skýrslu frá því í október, þ.e. að fyrst skuli hefja bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum og síðan bólusetningar gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini. Bólusetning gegn pneumókokkasýkingum er þjóðhagslega hagkvæm aðgerð sem skilar sér strax í auknum lífsgæðum, minni notkun sýklalyfja, minna álagi á heilbrigðisstofnunum, minna vinnutapi hjá foreldrum sem og jákvæðum hjarðáhrifum. Nefndin fagnar þeirri undirbúningsvinnu sem nú þegar hefur átt sér stað hjá heilbrigðisráðuneytinu varðandi bólusetningar. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Valgerður Bjarnardóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2010.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Skúli Helgason.



Óli Björn Kárason.


Margrét Pétursdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.