Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 639. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1283  —  639. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar um Hagavatnsvirkjun.

     1.      Hafa verið gefin út virkjunarleyfi vegna Hagavatnsvirkjunar og ef svo er, til hverra?

    Virkjunarleyfi hefur ekki verið gefið út vegna Hagavatnsvirkjunar né heldur liggur fyrir umsókn um virkjunarleyfi á umræddu svæði. Árið 2005 sótti Orkuveita Reykjavíkur um virkjunarleyfi fyrir Hagavatnsvirkjun til iðnaðarráðuneytis en umsókn þeirri var hafnað vegna skorts á upplýsingum. Í kjölfarið sótti Orkuveita Reykjavíkur um rannsóknarleyfi á vatnasviði Farsins við Hagavatn og var það veitt 14. mars 2007 með gildistíma frá 1. apríl 2007 til 31. mars 2012. Umrætt rannsóknarleyfi Orkuveitu Reykjavíkur takmarkast við nánar tiltekna rannsóknaþætti, þ.e. endurskoðað mat á rennsli, endurskoðun á forathugun virkjunar og loks kortagerð og aðrar þær rannsóknir sem unnt er að framkvæma án rasks. Leiði rannsóknir þessar til þess að leyfishafi hafi hug á virkjun þarf að sækja um endurskoðað rannsóknarleyfi varðandi rannsóknir er varða staðsetningu og fyrirkomulag mannvirkja sem geta haft rask í för með sér og eftir atvikum framkvæmdum sem lúta að undirbúningi að mati á umhverfisáhrifum.

     2.      Er unnið að því á vegum ráðuneytisins að gera Hagavatnsvirkjun mögulega?
    Aðkoma stjórnvalda að undirbúningi virkjunarframkvæmda byggist fyrst og fremst á grunnrannsóknum á svæðum þar sem mögulegt er að virkja og veitingu rannsóknarleyfa til þeirra sem vilja kanna frekar einstaka virkjunarkosti. Samkvæmt lögum um Orkustofnun ber stofnuninni að standa fyrir rannsóknum á orkulindum landsins þannig að unnt sé að meta skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra, safna gögnum um orkulindir og miðla upplýsingum um þær auk þess að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda. Á grundvelli þessa gerði þáverandi vatnsorkudeild Orkustofnunar forathugun á Hagavatnsvirkjun árið 1985 þar sem hagkvæmni slíkrar virkjunar var könnuð ásamt því að meta afl og orkugetu. Frekari rannsóknir hafa ekki verið gerðar á vegum stjórnvalda en hins vegar liggja fyrir eldri rannsóknir á vegum einkaaðila um Hagavatnssvæðið sem og frummatsskýrsla vegna mats á umhverfisáhrifum þess að stækka Hagavatn.
    Á vegum stjórnvalda hefur að undanförnu verið unnið að 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Meðal vatnsaflsvirkjunarkosta sem teknir voru til skoðunar í þessum áfanga voru Hagavatnsvirkjun. Opið kynningar- og umsagnarferli 2. áfanga rammaáætlunar hófst formlega þann 8. mars og lauk 3. maí sl. Í ferlinu voru kynntar niðurstöður faghópa sem leggja grunninn að vinnu verkefnisstjórnar að lokaröðun virkjunarkosta og svæða sem tekur við að umsagnarferlinu loknu. Verkefnisstjórnin mun þá samþætta niðurstöður faghópa og hafa umsagnir frá öðrum aðilum til hliðsjónar. Að því verki loknu leggur verkefnisstjórn tillögur sínar í hendur stjórnvalda.

     3.      Hvaða skilyrði er að mati ráðherra eftir að uppfylla áður en til virkjunar getur komið?
    Frumskilyrði þess að af virkjun verði er að framkvæmdin teljist hagkvæm þannig að tekjur af rekstri hennar standi undir kostnaði vegna hennar. Við vinnu rammaáætlunar voru settir á laggirnar sérstakir faghópar sem voru verkefnisstjórn til aðstoðar við mat virkjunarkosta við umrædda vinnu. Meðal þeirra var faghópur IV sem fór með það verkefni að skilgreina þá virkjunarkosti sem fyrir hendi kunna að vera til raforkuvinnslu, meta afl, orkugetu og líklegan orkukostnað hvers þeirra og forgangsraða eftir hagkvæmni, ásamt því að skilgreina virkjunarkosti sem aðrir faghópar tóku afstöðu til. Að mati faghóps IV fellur Hagavatnsvirkjun undir hagkvæmnisflokk fimm af sex, þar sem mesta hagkvæmni er í flokki eitt en sú lakasta í hópi sex.
    Hvað varðar skilyrði sem lúta að veitingu virkjunarleyfis þá er í raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra sett fram skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo unnt sé að veita virkjunarleyfi. Mikilvægustu skilyrðin lúta að samningi um tengingu virkjunar við flutnings- eða dreifikerfi og að fyrir liggi endanleg ákvörðun um matsskyldu og eftir atvikum mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins eru þessi skilyrði ekki uppfyllt.