Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 112. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1292  —  112. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Björgu Thorarensen prófessor, Bryndísi Helgadóttur og Hjalta Zóphóníasson frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Magnús Sigmund Magnússon og Sigríði Vilhjálmsdóttur frá Hagstofu Íslands, Ástráð Haraldsson, Ásmund Helgason og Þorkel Helgason frá landskjörstjórn og Skúla Guðmundsson frá Þjóðskrá.
    Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Borgarahreyfingunni, Daða Ingólfssyni, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands, Hreyfingunni, landskjörstjórn og Þjóðskrá.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn lög um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, bæði þegar Alþingi ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og eins þegar er skylt samkvæmt stjórnarskrá að bera tiltekin mál undir þjóðaratkvæði.

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
    Nefndin fjallaði um efni frumvarpsins á fundum sínum. Í 1. mgr. 1. gr. er lagt til að Alþingi geti ákveðið með þingsályktun að fram fari almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu byggist slík ákvörðun á almennum valdheimildum þingsins án þess að heimild fyrir henni þurfi að binda sérstaklega í almenn lög eða stjórnarskrá. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu getur hins vegar ekki verið bindandi þar sem slíkt er ekki heimilt samkvæmt stjórnarskrá, þ.e. umfram þau tilvik sem í henni sjálfri eru talin. Markmið frumvarpsins er því í reynd að setja almennar reglur um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu svo ekki þurfi að setja lög í hvert skipti sem slík atkvæðagreiðsla þarf að fara fram. Meiri hlutinn telur að með hliðsjón af því sé rétt að heiti frumvarpsins beri það með sér og leggur til að heiti laganna verði lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Nefndin fjallaði einnig um það orðalag sem lagt er til í 1. gr., þ.e. að Alþingi geti ákveðið með þingsályktun að fram fari almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla. Meiri hlutinn telur í ljósi almennra valdheimilda Alþingis rétt að leggja til að greinin orðist svo: Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum þessum. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi.
    Meiri hlutinn leggur einnig til orðalagsbreytingar á 3. gr. þannig að Alþingi ákveði kjördag í stað þess að Alþingi skuli ákveða kjördag.

Kjörskrá, kynning o.fl.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum til Alþingis, sveitarstjórna og forsetakjörs. Jafnframt er tekið fram að við gerð kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslu skuli miðað við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Í kosningum til Alþingis er íbúaskrá þjóðskrár miðuð við fimm vikur en í sveitarstjórnarkosningum og í forsetakjöri er miðað við þrjár vikur. Meiri hlutinn leggur því til smávægilega lagfæringu á frumvarpinu þess efnis að fari þjóðaratkvæðagreiðsla fram samhliða kosningum til Alþingis gildi ekki ákvæði um að miða kjörskrá við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag heldur verði miðað við fimm vikur og enn fremur að mörk kjördæma miðist þá ekki við næstliðnar alþingiskosningar eins og segir í frumvarpinu heldur þær sem fara fram samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti skuli auglýsa atkvæðagreiðsluna einu sinni í Lögbirtingablaði og þrisvar sinnum í Ríkisútvarpi á sem heppilegustum tíma.
    Í 6. gr. er fjallað um kynningu vegna þjóðaratkvæðagreiðslu og þar segir að Alþingi skuli standa fyrir víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði skv. 1. mgr. 1. gr. Dómsmála- og mannréttindaráðherra er hins vegar falið að senda öllum heimilum í landinu, eigi síðar en viku fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrár, sérprentun laganna sem forseti synjar staðfestingar. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi hlutlausrar kynningar og að rétt sé að líta til reynslunnar af síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum nr. 4/2010 sem að mati nefndarinnar tókst mjög vel.

Talning atkvæða á einum stað.
    Nefndin fjallaði einnig um talningu atkvæða en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að um talningu atkvæða fari samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, þ.e. í hverju kjördæmi fyrir sig. Nefndin tekur fram að við meðferð frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslu sem varð að lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., nr. 4/2010, fjallaði hún um hvort rétt væri að leggja til að talning atkvæða færi fram á einum stað. Niðurstaðan þá var sú að ekki væri rétt að hreyfa við fyrirkomulagi á talningu atkvæða í ljósi þess skamma fyrirvara sem hún hafði til umfjöllunar um málið og hve skammur tími var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Meiri hlutinn telur að þegar litið er til eðlis þjóðaratkvæðagreiðslu sé mjög mikilvægt að talning fari fram á einum stað fyrir opnum dyrum og að niðurstöður verði birtar fyrir landið í heild. Það hafi í reynd engan tilgang að birta úrslit í hverju kjördæmi fyrir sig. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á 9. gr. og að við frumvarpið bætist ný grein um talningu atkvæða, sambærileg þeirri sem lagt er til að verði í frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Meiri hlutinn leggur til að talning fari fram hjá landskjörstjórn og að hún geti virkjað yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmunum til aðstoðar við talninguna.
    Meiri hlutinn leggur einnig til smávægilega breytingu á tímamörkum á birtingu auglýsingar ef samþykkis er synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra birti auglýsingu þess efnis í A-deild Stjórnartíðinda daginn eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir. Meiri hlutinn telur að það geti verið of knappur tími og leggur því til að birting auglýsingar verði ekki seinna en tveimur dögum eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir.

Ágalli á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði 13. gr. frumvarpsins sem varða kærur um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu og meðferð þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn veiti Alþingi umsögn um atkvæðagreiðsluna óháð kæru. Þá er lagt til að Alþingi geti, að fenginni umsögn landskjörstjórnar, ákveðið að ógilda niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef verulegur ágalli hefur verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöður hennar. Meiri hlutinn telur að ekki sé unnt að fallast á að það samræmist hlutverki Alþingis að hafa þetta hlutverk á hendi, sérstaklega þegar litið er til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir ályktun Alþingis um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Meiri hlutinn telur eðlilegra að Hæstarétti verði almennt falið þetta hlutverk eins og lagt var til í frumvarpi sem varð að lögum nr. 4/2010 og leggur því til breytingu á frumvarpinu.
    Meiri hlutinn leggur einnig til smávægilegar tæknilegar lagfæringar, þ.e. að 2. mgr. 7. gr. falli brott þar sem að hún er endurtekning 2. mgr. 2. gr. og enn fremur að lokamálsliður 9. gr. falli brott þar sem ákvæði hans koma fram í 103. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. júní 2010.




Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Birgir Ármannsson.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Vigdís Hauksdóttir.



Ögmundur Jónasson.