Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1295  —  574. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

Frá iðnaðarnefnd.



     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „atvinnurekstri og samkeppnishæfni Íslands“ komi: atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun.
     2.      3. mgr. 2. gr. orðist svo:
                 Lög þessi ná ekki til fjárfestinga í fyrirtækjum sem veita þjónustu á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, laga um vátryggingastarfsemi eða laga um verðbréfaviðskipti.
     3.      4. tölul. 3. gr. orðist svo: Fjárfestingarkostnaður: Kostnaður vegna áþreifanlegra eigna (t.d. lands, bygginga, tækja og búnaðar) sem fellur til í tengslum við fjárfestingarverkefni hér á landi. Kostnaður vegna óáþreifanlegra eigna (t.d. hugverkaréttinda og leyfa) getur einnig talist til fjárfestingarkostnaðar að uppfylltum nánari skilyrðum sem sett skulu í reglugerð sem iðnaðarráðherra gefur út. Eingöngu kostnaður sem fellur til eftir gildistöku laga þessara getur talist til fjárfestingarkostnaðar í skilningi þeirra.
     4.      Við 5. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samnings um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag.
                  b.      Í stað orðanna „þegar hafið“ í c-lið komi: hafið áður en undirritaður er samningur um ívilnun skv. 21. gr.
                  c.      G-liður orðist svo: að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
                  d.      H-liður orðist svo: að viðkomandi nýfjárfesting verði eftir að rekstur hefst að lágmarki til 10 ára í starfrækslu á viðkomandi svæði á Íslandi.
                  e.      I-liður orðist svo: að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli, þ.m.t. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög á sviði umhverfisréttar, og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi.
                  f.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að eigendur sem fara með virkan eignarhlut og framkvæmdastjóri viðkomandi félags séu lögráða, hafi óflekkað mannorð og orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þeir skulu ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu fimm árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     5.      Í stað orðanna „2007 til 2013 og að hvaða marki“ í 2. mgr. 6. gr. komi: 2007 til 2013, þ.e. Suðurkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, og að hvaða marki.
     6.      9. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:
        

Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.


             Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
             Félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laga þessara fyrir veitingu ívilnunar skal njóta eftirfarandi skattalegra ívilnana:
              1.      Tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skal, í þann tíma sem kveðið er á um í 3. mgr., aldrei vera hærra en það tekjuskattshlutfall sem í gildi er þegar samningur skv. 21. gr. er gerður við félagið.
              2.      Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
              3.      Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, með síðari breytingum.
              4.      Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
              5.      Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
              6.      Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 30% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
              7.      Almennt tryggingagjald viðkomandi félags skal vera 20% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
              8.      Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
             Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá því félagi sem ívilnunar nýtur, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings skv. 21. gr.
             Félag sem ívilnunar nýtur samkvæmt grein þessari skal, að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr., greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um viðkomandi félag.
             Um hámark ívilnunar samkvæmt grein þessari vísast til 7. gr., sbr. 20. gr.
     7.      1. mgr. 15. gr. orðist svo:
                 Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum þessum verið í formi ívilnunar til fyrirtækja vegna umhverfistengdra nýfjárfestinga sem fela í sér umbætur eða nýsköpun í umhverfis- og náttúruvernd, þ.m.t. orkusparnað eða minni losun gróðurhúsalofttegunda.
     8.      Í stað orðanna „í lögunum“ í lokamálslið 20. gr. komi: í lögum þessum að meðtalinni annarri ríkisaðstoð sem sami aðili kann að hafa notið vegna sama fjárfestingarverkefnis.
     9.      3. mgr. 21. gr. orðist svo:
                 Samningur um veitingu ívilnunar skv. 1. mgr. skal að hámarki gilda í 13 ár frá undirritun hans. Ívilnun sem veitt er á grundvelli 9. gr. skal, sbr. 3. mgr. 9. gr., gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr. myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings um veitingu ívilnunar.
     10.      Við 24. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Iðnaðarráðuneyti skal upplýsa hlutaðeigandi sveitarfélög um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem gerðir hafa verið og skulu viðkomandi sveitarfélög á sama hátt upplýsa iðnaðarráðuneyti um atvik af þessu tagi.