Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1325  —  577. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám vatnalaga, nr. 20/2006, með síðari breytingum, og laga nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að felld verð á brott vatnalög, nr. 20/2006, ásamt síðari breytingum, sem gerðar hafa verið á þeim lögum, þ.e. með 2. gr. laga nr. 31/2007, lögum nr. 133/2007, 75. gr. laga nr. 167/2007, I. kafla laga nr. 58/2008, lögum nr. 127/2008 og 23. gr. laga nr. 9/2009. Jafnframt er lagt til að lög nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, verði felld brott.
    Hinn 16. mars 2006 voru samþykkt á Alþingi ný vatnalög, nr. 20/2006, en lögunum var ætlað að leysa af hólmi vatnalög, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Skv. 42. gr. þeirra skyldu þau öðlast gildi 1. nóvember 2007 og um leið skyldu núgildandi vatnalög, nr. 15/1923, falla úr gildi. Með lögum nr. 133/2007 var gildistöku laganna frestað til 1. nóvember 2008 og með lögum nr. 127/2008 var gildistökunni frestað enn á ný til 1. júlí 2010.
    Lög nr. 20/2006 ollu miklum deilum á Alþingi þegar þau voru sett vorið 2006. Deilurnar má ekki síst rekja til breyttrar tilhögunar á eignarráðum yfir vatni. Við 2. umræðu um frumvarpið náðu þingflokkar samkomulagi um meðferð þess og gerði þáverandi iðnaðarráðherra grein fyrir því 15. mars 2006. Fól samkomulagið í sér að iðnaðarráðherra mundi skipa nefnd eftir að frumvarpið hefði verið samþykkt sem taka skyldi til skoðunar samræmi laganna við önnur ákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða. Samkomulagið fól jafnframt í sér að gildistöku vatnalaga yrði frestað til 1. nóvember 2007 en þá mundu eldri vatnalög frá 1923 jafnframt falla úr gildi. Nefndin var ekki skipuð og var gildistöku enn frestað til 1. nóvember 2008.
    Nefndin var loks skipuð þverpólitískt 15. janúar 2008 og skilaði hún af sér 215 blaðsíðna skýrslu 9. september 2008. Ein af fjórum tillögum nefndarinnar var að fresta skyldi gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, og að ný nefnd yrði skipuð sem hefði það hlutverk að vinna að endurskoðun laganna, eða eins og segir í skýrslu nefndarinnar:
    „Í fjórða lagi leggur vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaga nr. 20/2006 verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.“
    Í kjölfarið var gildistöku laga nr. 20/2006 frestað til 1. júlí 2010. Hinn 17. ágúst 2009 var vatnalaganefnd 2 skipuð og bar nú svo við að ekki var leitað eftir fulltingi stjórnarandstöðu. Hinn 1. desember 2009 skilaði nefndin drögum að frumvarpi um nýrra vatnalaga til viðskiptaráðherra. Það er skemmst frá því að segja að iðnaðarnefnd voru ekki kynnt drögin að frumvarpinu heldur var nefndinni sent frumvarp um afnám vatnalaga, nr. 20/2006, sem ætlunin er að gera að lögum fyrir þinglok. Þetta er skýlaust brot á samkomulaginu sem birtist í skýrslu vatnalaganefndar 1 sem kvað á um að nýtt frumvarp leysti vatnalög, nr. 20/2006, af hólmi. Ljóst er að verið er að efna til ófriðar á Alþingi með þessu háttalagi og mótmælir 1. minni hluti þessari málsmeðferð harðlega. Í stað þess telur 1. minni hluti rétt að vatnalögum, nr. 20/2006, verði frestað enn og aftur, nú til 31. desember 2010, og að tíminn verði notaður til að ná pólitískri sátt um þetta mikilvæga mál og í framhaldinu verði lögfest frumvarp sem leysi lögin frá 2006 af hólmi.

Alþingi, 10. júní 2010.



Tryggvi Þór Herbertsson ,


frsm.


Jón Gunnarsson .