Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1335  —  571. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um Icesave-tilboð Breta og Hollendinga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hljóðaði Icesave-tilboð Breta og Hollendinga til íslenskra stjórnvalda sem þeir gerðu rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars sl., en ráðherra taldi atkvæðagreiðsluna marklausa með hliðsjón af því tilboði?

    Í sameiginlegu bréfi fjármálaráðherra Hollands, Wouters Bos, og Lord Myners, ráðherra í breska fjármálaráðuneytinu, til fjármálaráðherra frá 19. febrúar sl. er sett fram tillaga um breytingar frá fyrra samkomulagi við íslensk stjórnvöld er feli í sér að: a) í stað fastra 5,55% vaxta verði vextir breytilegir eins og kveðið er á um í lánasamningum Norðurlandanna og íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands, b) að við bætist sama vaxtaálag og samið var um í þeim samningum, og c) að felldir verði niður vextir af lánunum fyrir árin 2009 og 2010. Að öðru leyti yrði efni fyrra samkomulags óbreytt.
    Áætlaðir uppsafnaðir vextir á árunum 2009 og 2010 eru um 70 milljarðar kr. sem sýnir ávinning af þessu tilboði miðað við samningana sem áður höfðu verið gerðir.