Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1352  —  424. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (byggðakvóti, ráðstöfun aflaheimilda).

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Það frumvarp um breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum sem hér er til umfjöllunar felur í raun í sér þrjú efnisatriði. Í fyrsta lagi er opnuð almenn heimild til ráðherra að setja takmarkanir fyrir úthlutun á byggðakvótum. Í annan stað er veittur möguleiki á að flytja aflaheimildir sem ráðstafað er á grundvelli laga og reglna um byggðakvóta á milli fiskveiðiára. Þriðja atriðið, sem er hið veigamesta, felur í sér heimild til handa ráðherra að grípa inn í ef sú staða kemur upp að fimmtungur eða meira af aflaheimildum innan byggðarlaga kunni að verða seldur burtu, vegna fjárhagserfiðleika sjávarútvegsfyrirtækja í byggðarlaginu.
    Því miður eru þessar efnisgreinar sama marki brenndar og mörg frumvörp sem ráðherra hefur flutt á þessu þingi. Opnað er fyrir víðtækar heimildir sem eðlilegra væri að kveðið væri skýrar á um í lögum. Það er ástæða til að árétta það sem minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur oftsinnis gert áður, að gjalda beri mikinn varhug við þessari tilhneigingu. Með þessu fyrirkomulagi er verið að flytja vald, sem ætti að sjálfsögðu að vera hjá Alþingi, til framkvæmdarvaldsins.
    Þegar a-liður 1. gr. frumvarpsins er skoðaður verður ekki annað séð en að ætlunin sé að galopna heimild til ráðherrans til þess að fara nokkurn veginn með byggðakvóta að vild. Þetta er mikil afturför. Með lagabreytingum frá Alþingi fyrir nokkrum árum var markaður skýr rammi um þessi mál, sem samþykktur var samhljóða á þinginu. Á þeim grundvelli hefur úthlutun byggðakvóta komist í betra horf sem dregið hefur úr ágreiningi um framkvæmdina.
    Af greinargerð þessa frumvarps má ráða að ætlunin sé að beita hinni opnu heimild þannig að ekki verði heimilt að úthluta aflaheimildum í formi byggðakvóta til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem til skipanna hafa verið fluttar á tilteknu fiskveiðiári. Þetta er sjálfsagt markmið sem minni hlutinn styður. Eðlilegra er því að ákvæðið einskorðist við þessa heimild, í stað þess að hafa hana svo galopna sem frumvarpið gengur út frá. Minni hlutinn flytur því breytingartillögu í þá veru.
    Minni hlutinn tekur undir þá breytingu sem felst í b-lið 1. gr. Sú staða getur komið upp að ekki takist að veiða aflaheimildir í byggðakvótum á þeim fiskveiðiárum sem úthlutunin nær til. Skynsamlegt er að hafa þá heimild til að færa þær aflaheimildir á milli fiskveiðiára. Slíkt eykur sveigjanleika og hagræðingu, stuðlar að ábyrgari sókn, dregur úr tilkostnaði við veiðarnar og gerir fiskvinnslum kleift að skipuleggja vinnslu og markaðsstarf með þjálli hætti en ella. Nákvæmlega sömu rök eiga hér við og þegar við ræðum reglur um flutning aflaheimilda á milli fiskveiðiára. Þar hefur þróunin hins vegar verið í þveröfuga átt. Ráðherra og meiri hluti Alþingis hafa markað þá stefnu að draga úr sveigjanleika í fiskveiðistjórnarkerfinu að þessu leyti með því að þrengja mjög heimildir til að flytja aflaheimildir á milli fiskveiðiára. Það er ástæða til að fagna því nú þegar mörkuð er stefna í aðra átt.
    Þýðingarmesta ákvæði frumvarpsins lýtur að heimild til ráðherra að bregðast við þegar sú hætta skapast að umtalsverður hluti aflaheimilda kunni að verða fluttur úr byggðarlagi, vegna fjárhagserfiðleika útgerða. Þetta er raunverulegt og alvarlegt vandamál sem eðlilegt er að löggjafinn láti sig varða. Vinna nefndarinnar hefur í þessu máli verið ítarleg og vönduð og leitt í ljós mikla vankanta á þeirri leið sem lagt var af stað með í vinnu nefndarinnar með því frumvarpi sem fyrir liggur.
    Sú niðurstaða sem meiri hlutinn hefur sammælst um er þó að mati minni hlutans afar hæpin og kann að hafa í för með sér annars konar vandamál. Þess vegna getur minni hlutinn ekki staðið að þeirri afgreiðslu. Skynsamlegt væri að fresta afgreiðslu þessa máls til hausts og freista þess að vinna að því frekar, með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, fjármálastofnunum, Byggðastofnun og sveitarfélögunum.

Alþingi, 12. júní 2010.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.