Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1362  —  620. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um rekstrarheimildir nýrra hjúkrunarrýma.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nýjum hjúkrunarrýmum mun ráðherra leggja áherslu á að verði tryggðar rekstrarheimildir í fjárlögum ársins 2011?
     2.      Hvað er áætlað að þær rekstrarheimildir verði háar?


    Í ráðuneytinu er unnið að gerð tillagna vegna frumvarps til fjárlaga ársins 2011. Þar sem þeirri vinnu er ekki lokið er ekki hægt að segja til um hvort unnt verður að tryggja rekstrarheimildir fyrir nýjum hjúkrunarrýmum á árinu 2011. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs verður að teljast afar hæpið að það verði raunhæft.
    Ríkisstjórnin samþykkti í október 2009 að leita eftir samstarfi við níu sveitarfélög um byggingu hjúkrunarheimila með alls 361 hjúkrunarrými samkvæmt svokallaðri leiguleið. Hún felur í sér að sveitarfélögin byggja og reka húsnæðið en ríkissjóður greiðir leigu til 40 ára. Sveitarfélögin eru (tölur innan sviga segja til um fjölda rýma):
    Akureyrarkaupstaður (45), Borgarbyggð (32), Fljótsdalshérað (30), Garðabær (60), Hafnarfjörður (60), Kópavogur (44), Mosfellsbær (30), Reykjanesbær (30) og Seltjarnarnes (30).
    Þegar er búið að undirrita samninga við sex af þessum sveitarfélögum. Áætlunin gerir ráð fyrir að á seinni hluta ársins 2012 verði til 60 ný hjúkrunarrými og verða þau staðsett í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti er markmið þessa samstarfs ráðuneytisins og sveitarfélaganna að fækka fjölbýlum og bæta þannig aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimilum.
    Á vettvangi sameiginlegrar verkefnisstjórnar félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis um öldrunarþjónustu er unnið að söfnun upplýsinga og gerð áætlunar um þróun öldrunarþjónustu til ársins 2020. Þegar þeirri vinnu lýkur munu liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um þörf á úrræðum innan öldrunarþjónustunnar og áætlun um hvernig þeim þörfum verður hægt að mæta.