Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1443  —  19. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræðum, frá Háskóla Íslands, Jakob Þór Guðbjartsson frá Ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinir, Skúla H. Helgason frá Ferðafélaginu Útivist, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Hjalta Guðmundsson frá Umhverfisstofnun og fulltrúa frá Ferðaklúbbnum 4x4. Þá bárust umsagnir frá Ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinir, Ferðafélaginu Útivist, Ferðaklúbbnum 4x4, Ferðamálasamtökum Íslands, Háskóla Íslands, Ísafoldtravel, Jeppavinum – félagi fjallabílstjóra í ferðaþjónustu, Landmælingum Íslands, Landsvirkjun, Markaðsstofu Austurlands, Markaðsstofu Suðurnesja, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veiðimálastofnun.
    Með tillögunni er lagt til að unnin verði landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendi Íslands undir forustu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra en ljúka skal gerð hennar fyrir árslok 2015.
    Nefndin hefur fjallað um málið og telur að mikilvægt sé að hugað sé með skipulögðum hætti að nýtingu hálendisins og annarra lítt snortinna náttúrusvæða fyrir ferðaþjónustuna. Telur nefndin jafnframt að framangreind áætlun auðveldi hagsmunaaðilum að skipuleggja störf sín en engu síður er mikilvægt að árétta að samráð og samvinna verði viðhöfð vegna annarra áætlana þar sem skörun er á.
    Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og öllum er ljós sú þörf að leggja línur til framtíðar í umgengni við landið okkar sem og vernda einstæða náttúru á hálendi Íslands. Nefndinni þykir rétt að benda á að ferðamönnum á Íslandi fer ört fjölgandi og hefur aukningin verið að jafnaði 6% milli ára síðustu fimm árin. Sé litið til hlutfallslegrar aukningar síðustu ára má vænta þess að yfir ein milljón erlendra ferðamanna sæki landið heim árið 2016.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á tillögunni. Fyrst ber að nefna að skv. 8. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er landnýting samheiti yfir mælikvarða á það hversu mikil nýting lands er, svo sem nýtingarhlutfall, þéttleika byggðar og ítölu. Einnig kemur fram í 7. mgr. 2. gr. laganna og gr. 1.3. í sömu reglugerð að landnotkun er skilgreind sem ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Fram komu í umsögn Skipulagsstofnunar efasemdir um hvort hægt væri nota hugtakið landnýtingaráætlun vegna framangreindra lagaákvæða. Nefndin tekur heilshugar undir sjónarmið Skipulagsstofnunar. Þar sem megintilgangur tillögunnar er að marka stefnu og gera áætlun um það hvernig miðhálendi Íslands nýtist sem best með þarfir ferðaþjónustunnar í huga leggur nefndin til þær breytingar að fyrirsögn tillögunnar verði „Tillaga til þingsályktunar um áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands“.
    Fram kemur í greinargerð með tillögunni að ljúka eigi gerð áætlunarinnar fyrir árslok 2015. Nefndinni þykir rétt að setja það markmið að áætlunin verði tilbúin fyrir árslok 2013 þar sem fyrirsjáanlegt er að vinnu við gerð hennar verði lokið fyrir þann tíma.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að hafa forgöngu um að gerð verði áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands.

    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. ágúst 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Jón Gunnarsson.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Margrét Tryggvadóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Gunnar Bragi Sveinsson.