Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1470  —  509. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlaugu Jónasdóttur og Rósu Dögg Flosadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Kristján Sturluson og Atla Viðar Thorstensen frá Rauða krossi Íslands, Hreiðar Eiríksson og Þorstein Gunnarsson frá Útlendingastofnun og Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Persónuvernd, Rauða krossi Íslands, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum laganna um dvalarleyfi verði breytt þannig að við bætist tveir nýir flokkar dvalarleyfa til handa fórnarlömbum mansals, þ.e. skylda til að veita dvalarleyfi í allt að sex mánuði ef fyrir er hendi grunur um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals og heimild til að veita endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs. Þessi leyfi verði veitt þótt grunnskilyrðum um veitingu dvalarleyfa sé ekki fullnægt. Tilefni frumvarpsins er fyrirhuguð fullgilding samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og svokallaðrar Palermó-bókunar.
    Á fundum sínum fjallaði nefndin um frumvarpið og samhliða því um tvö önnur frumvörp sem einnig er ætlað að breyta lögum um útlendinga og eru á þskj. 894, 507. mál, og þskj. 976, 585. mál. Í fyrrgreinda frumvarpinu eru lagðar til réttarbætur fyrir flóttamenn, m.a. svokölluð viðbótarvernd, skýrari reglur um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og réttarbætur fyrir hælisleitendur. Í síðara frumvarpinu er lagðar til reglur um þátttöku í samstarfi á ytri landamærum Schengen-ríkjanna sem varða skilyrði framfærslu við veitingu dvalar- eða búsetuleyfis.

Dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um þær tvær tegundir dvalarleyfa sem lagðar eru til í frumvarpinu og tekur fram að fyrra úrræðið felur í sér skyldu Útlendingastofnunar til að veita dvalarleyfi útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals. Nefndin tekur fram að ákvæðið er óvenjulegt að því leyti að ákvæðin í lögunum um veitingu dvalarleyfis eru heimildarákvæði en þetta felur í sér skyldu. Nefndin fjallaði sérstaklega um tímamörk þessa dvalarleyfis. Í 1. mgr. a-liðar 1. gr. er lagt til að Útlendingastofnun skuli í þessum tilvikum veita dvalarleyfi í allt að sex mánuði en þó ekki skemur en þrjátíu daga. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að í ákvæðinu, sem mælir fyrir um skyldu til útgáfu dvalarleyfis, væru of rúm tímamörk, þ.e. frá þrjátíu dögum upp í allt að sex mánuði, og að viðkomandi þurfi hæfilegan afturbata og umþóttunartíma að lágmarki. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur áherslu á að ákvæðið þarf að túlka í samræmi við ákvæði 2. mgr. sem kveður á um að ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að gert sé tilkall til stöðu fórnarlambs í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veitir það ekki rétt til dvalarleyfis. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu þannig að tímamörkin verði miðuð við sex mánuði.
    Nefndin fjallaði einnig um heimild Útlendingastofnunar til að veita fórnarlambi mansals endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þótt skilyrðum 11. gr. laganna, sem eru grunnskilyrði dvalarleyfis, sé ekki fullnægt, sbr. 2. mgr. a-liðar 1. gr. Heimildin á við þegar það telst annaðhvort nauðsynlegt vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi eða telst nauðsynlegt að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld við rannsókn og meðferð máls. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með þessu úrræði er fórnarlambi gert mögulegt að vera um kyrrt, en tafarlaus endursending fórnarlamba mansals til heimalands þeirra þykir leiða til þess að fórnarlömb greini síður frá reynslu sinni eða beri vitni gegn þrælasölum sínum. Vitnisburður fórnarlamba mansals þykir afar mikilvægur í baráttunni gegn mansali en sé hann ekki fyrir hendi er talið erfiðara að koma í veg fyrir að önnur fórnarlömb falli í sömu gildru. Nefndin telur mjög mikilvægt að réttindi fórnarlamba mansals og öryggi verði tryggt með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Með því aukast líkur á að þau séu tilbúin til samstarfs við stjórnvöld í baráttunni gegn því nútímaþrælahaldi sem mansal er. Mikilvægur hluti af baráttunni gegn mansali er að auka almenna fræðslu um mansal og afleiðingar þess.
    Nefndin telur frumvarpið mikilvægt framlag til þeirrar alþjóðlegu baráttu sem nauðsynleg er gegn mansali. Í því felast verulegar réttarbætur fyrir fórnarlömb mansals og grundvallast þær á mannréttindum og mannúðarsjónarmiðum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Í stað orðanna „dvalarleyfi í allt að sex mánuði, en þó ekki skemur en í þrjátíu daga“ í 1. efnismgr. a-liðar 1. gr. komi: dvalarleyfi í sex mánuði.

    Árni Þór Sigurðsson og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 31. ágúst 2010.Róbert Marshall,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Mörður Árnason.Birgir Ármannsson.


Ólöf Nordal.


Vigdís Hauksdóttir.Þráinn Bertelsson.