Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1489  —  658. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum..

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir að því var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umræðu, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um þingsköp Alþingis. Nefndin óskaði eftir álitum félags- og tryggingamálanefndar, heilbrigðisnefndar og samgöngunefndar á frumvarpinu.
    Í áliti samgöngunefndar kemur fram að almennt er breið sátt með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í innanríkisráðuneyti og leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt.
    Í áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar er bent á umfang fyrirhugaðs velferðarráðuneytis og um hve viðkvæma þjónustu sé að ræða. Þar kemur fram að með sameiningu ráðuneytanna megi m.a. auðvelda samþættingu þjónustu á velferðarsviði við einstaklinga og stofnanir og að sameiningin muni jafnframt mynda öflugri starfseiningar með betri yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim eru falin og koma í veg fyrir tvíverknað.
    Í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að hann telji að nýtt velferðarráðuneyti sé í betri stöðu til að forgangsraða á nýjan hátt, samþætta velferðarúrræði og eftirlit með þeim og nýta fjármuni sem renna til málaflokkanna á sem skilvirkastan hátt. Meiri hlutinn félags- og tryggingamálanefndar áréttar að undirbúa þarf sameininguna vel og telur nauðsynlegt að í undirbúningsvinnunni verði haft samráð við starfsmenn og notendur þeirrar þjónustu sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytanna. Þá telur meiri hlutinn það málinu til framdráttar að sami maður gegnir embætti félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra þar til nýtt velferðarráðuneyti tekur til starfa.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að markmið frumvarpsins er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að efla þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf og nýta sem best þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. 1. minni hluti leggur áherslu á mikilvægi þess að allur undirbúningur sé vandaður og samráð haft við viðkomandi stofnanir.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „félagsmála- og tryggingaráðuneyti“ í a-lið 1. gr. komi: félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Alþingi, 9. sept. 2010.



Róbert Marshall,


frsm.


Ólafur Þór Gunnarsson.



Valgerður Bjarnadóttir.



Fylgiskjal I.

Álit


um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur að beiðni allsherjarnefndar tekið til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969 (658. mál). Á fund nefndarinnar kom Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin hefur farið yfir þær umsagnir sem borist hafa vegna frumvarpsins og tengjast samgöngu- og sveitarstjórnarmálum. Markmið frumvarpsins er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Frumvarpið gerir ráð fyrir að nýtt ráðuneyti, innanríkisráðuneyti, verði til við sameiningu dóms- og mannréttindaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar.
    Að mati samgöngunefndar er víðtæk samstaða meðal umsagnaraðila um frumvarpið og eru kostir sameiningarinnar að mati umsagnaraðila ótvíræðir. Samgöngunefnd tekur undir álit umsagnaraðila og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.


Alþingi 8. september 2010.

Björn Valur Gíslason, formaður,
Róbert Marshall,
Árni Johnsen, með fyrirvara,
Ásbjörn Óttarsson, með fyrirvara,
Ólína Þorvarðardóttir,
Mörður Árnason.




Fylgiskjal II.

Álit

         
um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur að beiðni allsherjarnefndar fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, (658. mál).
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Markmið með frumvarpinu er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Í frumvarpinu er gerð tillaga um sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í velferðarráðuneyti. Meiri hlutinn takmarkar umsögn sína við stofnun velferðarráðuneytis og skipulagsbreytingar því tengdar. Umsagnir sem borist höfðu alsherjarnefnd á sviði nefndarinnar voru almennt jákvæðar að mestu leyti og virðist breið sátt vera um sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Það er mat meiri hlutans að með sameiningu ráðuneytanna megi m.a. auðvelda samþættingu þjónustu á velferðarsviði við einstaklinga og stofnanir. Sameiningin muni jafnframt mynda öflugri starfseiningar með betri yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim eru falin og koma í veg fyrir tvíverknað. Meiri hlutinn telur að með sameiningu ráðuneytanna muni þjónusta hins opinbera verða aðgengilegri fyrir almenning og hægt verði að gera verkaskiptingu skýrari.
    Meiri hlutinn vill vekja sérstaka athygli á umfangi fyrirhugaðs velferðarráðuneytis og um hve viðkvæma þjónustu er um að ræða. Leggur meiri hlutinn því ríka áherslu á vandaðan undirbúning og samráð viðkomandi stofnana. Meiri hlutinn telur að fara verði vandlega yfir hlutverk stofnananna og hafa samráð við starfsmenn þeirra með tilliti til hvort og þá með hvaða hætti þær falla undir starfsvið velferðaráðuneytis.
    Þrátt fyrir fækkun ráðuneyta vill nefndin benda á að ýmis verkefni hins opinbera snerta eftir sem áður verksvið margra ráðuneyta. Því er mikilvægt að leita leiða til að koma á markvissu samstarfi og leysa þau mál sem snerta fleiri en eitt ráðuneyti.
Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins.


Alþingi, 8. september 2010.

Þuríður Backmann, formaður,
Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Siv Friðleifsdóttir með fyrirvara,
Ólafur Þór Gunnarsson,
Valgerður Bjarnadóttir,
Skúli Helgason.



Fylgiskjal III.

Álit

         
um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur að beiðni allsherjarnefndar tekið til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969 (658. mál). Nefndin ræddi þau atriði frumvarpsins sem tengjast málefnasviði hennar, þ.e. sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í velferðarráðuneyti.
    Markmið frumvarpsins er m.a. að endurskipuleggja ráðuneyti Stjórnarráðsins til að gera þjónustu við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Meiri hlutinn telur mikilvægt að nýta opinbera fjármuni og þá sérfræðiþekkingu sem til staðar er á sem skilvirkastan og hagkvæmastan máta. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum við frumvarpið og telur mikilvægt að tryggja öfluga þjónustu til framtíðar.
    Þeir málaflokkar sem heyra undir félags- og tryggingamálanefnd hafa undanfarin missiri eins og aðrir málaflokkar orðið fyrir sársaukafullum niðurskurði og telur meiri hlutinn að nýtt velferðarráðuneyti sé í betri stöðu til að forgangsraða á nýjan hátt, samþætta velferðarúrræði og eftirlit með þeim og nýta fjármuni sem renna til málaflokkanna á sem skilvirkastan hátt. Álit þetta telur meiri hlutinn staðfest í þeim fjölmörgu umsögnum sem bárust sem almennt eru jákvæðar hvað varðar sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
    Meiri hlutinn áréttar að undirbúa þarf sameininguna vel og telur nauðsynlegt að í undirbúningsvinnunni verði haft samráð við starfsmenn og notendur þeirrar þjónustu sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytanna. Þá telur meiri hlutinn það málinu til framdráttar að sami maður gegnir embætti félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra þar til nýtt velferðarráðuneyti tekur til starfa.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst.

Alþingi, 8. sept. 2010.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaform.
Árni Þór Sigurðsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Anna Margrét Guðmundsdóttir.
Lilja Mósesdóttir.