Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 654. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1535  —  654. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um áminningar til embættismanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg bréf hafa ráðherrar sent um áform um að veita embættismanni áminningu á síðustu tíu árum og hvaða ástæður hafa verið fyrir slíkum áformum?
     2.      Hversu mörg slík bréf hafa leitt til þess að áminning hefur verið gefin?
     3.      Hversu lengi hafa embættismenn þurft að bíða eftir að lokaákvörðun um að veita áminningu hefur verið tekin?
     4.      Hvaða ráðherrar hafa veitt áminningu og hver er fjöldi áminninga, flokkað eftir ráðherrum, síðustu tíu ár?


    Þar sem upplýsingar þær sem spurt var um eru ekki tiltækar í miðlægum gagnagrunni var óskað eftir fresti á meðan þess væri freistað að afla upplýsinga frá hverju ráðuneyti fyrir sig. Þrátt fyrir eftirrekstur hafa einungis borist svör frá eftirtöldum ráðuneytum:
     Utanríkisráðuneytið: Ekkert bréf hefur verið sent með áformum um áminningu sl. 10 ár.
     Fjármálaráðuneytið: Ekkert bréf hefur verið sent með áformum um áminningu sl. 10 ár.
     Iðnaðarráðuneytið:
    Svar við 1. tölul.: Á síðustu 10 árum hefur ráðherra sent eitt bréf sem varðar áform um að veita embættismanni áminningu. Bréfið var sent 5. júní 2002 og varðaði störf forstjóra stofnunar. Um var að ræða meint brot á þagnarskyldu og misbrest á því að lögum um viðkomandi stofnun væri fylgt í framkvæmd.
    Svar við 2. tölul.: Ráðherra hefur ekki veitt embættismanni áminningu á síðustu 10 árum.
    Svar við 3. tölul.: Málinu sem vísað er til í svari við 1. tölul. lauk ekki með áminningu. Viðkomandi embættismaður óskaði eftir lausn frá störfum sem ráðherra samþykkti. Samkomulag um lausn frá störfum var undirritað 13. júní 2002 og tók gildi 21. júní sama ár.
    Svar við 4. tölul.: Ráðherra hefur ekki veitt neinar áminningar á síðustu 10 árum.
     Efnahags- og viðskiptaráðuneytið: Frá því að ráðuneytið var skilið frá iðnaðarráðuneytinu í maí 2007 hefur ráðuneytið ekki sent bréf um áminningar til embættismanna.
     Umhverfisráðuneytið: Ekkert bréf hefur verið sent með áformum um áminningu sl. 10 ár.
    Ekki hafa borist svör frá forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.