Stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 15:33:16 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[15:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bregðast við nokkrum orðum hv. þingmanns. Þetta álitaefni, og sú breytingartillaga sem hér er rædd, var tekið til umræðu á vettvangi viðskiptanefndar á milli 2. og 3. umr. og vil ég skýra út sjónarmið sem liggja að baki ákvörðun meiri hlutans. Efnislega getur maður svo sem verið sammála þeim breytingum sem hér er verið að leggja til en ég vil þó ítreka, eins og ég gerði við 2. umr. málsins, að fyrst og fremst er verið að samstilla lög um sameignarfélög, samvinnufélög, Orkuveituna og Landsvirkjun, við lög um einkahlutafélög og hlutafélög að því er snertir jöfn kynjahlutföll í stjórn, þ.e. ákvæði sem tekur gildi árið 2013, og hins vegar ákvæði um starfandi stjórnarformann sem tekur gildi árið 2012.

Fyrst og fremst er verið að samstilla þessa lagabálka en ekki verið að endurskoða heildarlöggjöf um Orkuveitu Reykjavíkur. Það kom fram í umsögn frá Orkuveitunni að um þessar mundir er verið að vinna að viðamikilli stefnumörkun um Orkuveituna þar sem tekið er á hlutverki hennar og fleiri atriðum og er líklegt að af þeirri stefnumörkun leiði að breyta þurfi lögum um Orkuveituna.

Það er að mínu mati miklu viðameiri breyting og þarfnast miklu viðameiri umræðu ef taka á efnislega afstöðu til þeirrar breytingartillögu sem hér er lögð fram, hún krefst miklu meiri umræðu á vettvangi þingnefndarinnar og að einhverju leyti erum við að hlutast til um þá vinnu sem nú á sér stað á vettvangi Orkuveitunnar. Nú er stefnumótun í gangi en markmiðið með frumvarpinu er fyrst og fremst að taka á áðurnefndum kynjakvótum í stjórnum og hins vegar hlutverki starfandi stjórnarformanns. Það er með það markmið í huga sem ég tel að frumvarpið eigi að gera að lögum en ekki gera breytingar á því til að snerta á miklu stærri atriðum sem snerta framtíð Orkuveitunnar heilt yfir.