Barnalög

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 17:12:04 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum. Í desember 2008 skipaði þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd sem falið var það hlutverk að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni með það fyrir augum að meta hvort ákvæði laganna tryggðu á viðeigandi hátt þá hagsmuni sem lögunum er einkum ætlað að standa vörð um og hvort ákvæðin taki nægilegt tillit til mismunandi aðstæðna fjölskyldna og þeirrar þróunar og viðhorfsbreytinga sem orðið hefðu í samfélaginu. Skyldi nefndin yfirfara V.–VIII. kafla barnalaga sem fjalla um foreldraskyldur, forsjá og umgengni í heild sinni en einnig leggja mat á hvort ástæða væri til að skoða fleiri þætti laganna og eftir atvikum að móta rökstuddar tillögur að breytingum. Þá bar nefndinni sérstaklega að skoða hvort ástæða væri til að veita dómurum heimild til að ákveða að foreldrar færu sameiginlega með forsjá barns þrátt fyrir að annað foreldrið væri því andvígt.

Eftir að nefndin skilaði þáverandi ráðherra frumvarpi var ákveðið að kynna það sérstaklega á heimasíðu ráðuneytisins og voru áhugasamir hvattir til að koma á framfæri ábendingum. Farið var yfir ábendingar og var ákveðið að leggja frumvarpið fram, þó aðeins breytt. Breytingin sneri að því að fella burt úr frumvarpinu ákvæði um heimildir dómara til að dæma sameiginlega forsjá og/eða lögheimili barns. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu eru skiptar skoðanir um hvort dómari eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Engu að síður hafa öll Norðurlöndin farið þá leið að setja slíka heimild í lög en reynslan hefur ekki verið góð í öllum tilfellum. Í Svíþjóð kom í ljós eftir nokkurra ára reynslu að dómstólar dæmdu sameiginlega forsjá í mörgum tilvikum þar sem fyrirsjáanlegt mátti vera að foreldrar gætu ekki náð saman um málefni barns og einnig, sem var ekki síður mikilvægt að benda á, í málum þar sem uppi voru ásakanir um ofbeldi.

Danir tóku upp dómaraheimild um sameiginlega forsjá árið 2007. Brátt er að vænta niðurstöðu úr rannsókn á reynslunni af því ákvæði og mun hún væntanlega verða innlegg í umræðu hér á landi um næstu skref í þessum efnum. Andmælendur dómaraheimildar vegna sameiginlegrar forsjár hafa haft verulegar áhyggjur af þeim afleiðingum sem það getur haft að koma slíku fyrirkomulagi á með dómi. Það getur haft sérstaklega slæmar afleiðingar í tilfellum þar sem ofbeldi, líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu, hefur verið beitt inni á heimili án þess að mögulegt sé að sýna fram á það með haldbærum sönnunargögnum fyrir dómi

Þær áhyggjur eru ekki úr lausu lofti gripnar. Ofbeldi í nánum samböndum, oftast karlar gegn konum, er stór vandi sem réttarkerfinu hefur því miður ekki gengið nægilega vel að ná utan um. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn á vegum velferðarráðuneytisins hafa ríflega 22% íslenskra kvenna orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi og slíkar upplýsingar verður að taka alvarlega. Kerfið þarf að vakna til meðvitundar um þann veruleika og þau áhrif sem ofbeldi hefur á börn sem verða vitni að slíku þótt þau séu e.t.v. ekki beinir þolendur ofbeldis sjálf. Í málum þar sem tekist er á um forsjá yfir börnum verða börnin að njóta vafans. Löggjöfin setur þar tóninn fyrir framkvæmdina eins og sjá má í þessu frumvarpi þar sem dómurum er gert að líta sérstaklega til hættu á því að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi.

Í þessu samhengi ber að líta til þess að afar fáum forsjármálum lýkur með dómi. Af þeim 70 forsjármálum sem komu til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness árið 2008 lauk aðeins 21 með dómi. Af 57 málum sem komu til kasta sömu dómstóla árið 2007 lauk 19 með dómi. Í þeim tilvikum þegar ekki fellur dómur er langoftast um það að ræða að sættir nást en í einhverjum tilvikum er mál þó fellt niður eða því vísað frá. Megináherslan hlýtur að vera á að foreldrar nái sátt um forsjá barna sinna sem og umgengni en náist ekki slík sátt þarf að veita sátt við að ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera. Ég vek líka athygli á því að sameiginleg forsjá hefur ekki sjálfkrafa áhrif á umgengni. Hún getur verið mikil og jafnvel þannig að barn dvelji nánast að jöfnu hjá báðum foreldrum þótt forsjá sé hjá öðru foreldrinu.

Í því frumvarpi sem ég mæli fyrir er kveðið á um sérstaka sáttameðferð í forsjár-, umgengnis- og dagsektarmálum. Er það nýmæli og tel ég skynsamlegt að bíða reynslu af slíku starfi áður en tekin er ákvörðun um að færa dómaraheimild um sameiginlega forsjá í lög.

Vík ég nú að öðrum atriðum frumvarpsins. Í frumvarpinu er að finna allnokkur nýmæli frá því sem nú er í gildandi lögum. Má þar helst nefna að lagt er til að lögfestur verði nýr upphafskafli í lögunum með almennu ákvæði sem tæki mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Mikilvægi ákvæðis af þessu tagi er að það einskorðast ekki við þau málefni sem barnalögin fjalla um að öðru leyti en gildir almennt alls staðar þar sem teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Þá er að finna í frumvarpinu ýmis nýmæli sem afmarka frekar hlutverk foreldra. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í lögunum verði inntak sameiginlegrar forsjár frekar skilgreint þannig að foreldrum sem fara sameiginlega með forsjá barns en búa ekki saman fái þar með skýrari leiðsögn í lögunum um hvað felist í sameiginlegri forsjá.

Þá er einnig rétt að nefna ákvæði 17. gr. frumvarpsins sem fjallar um réttindi og skyldur foreldra í tengslum við umgengnisrétt barns, 24. gr. frumvarpsins sem leggur þá skyldu á foreldra að tilkynna hvort öðru um fyrirhugaðan flutning lögheimilis og 25. gr. um möguleika á að fá úrskurð sýslumanns um rétt til að fara með barn í ferðalag til útlanda. Í 26. gr. frumvarpsins er einnig lögð til bætt réttarstaða forsjárlausra foreldra til að fá upplýsingar um börn sín frá skóla og leikskóla.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að afnumið verði það fyrirkomulag að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður. Þess í stað er lagt til að stjúp- eða sambúðarforeldri og kynforeldri sem fer eitt með forsjá geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Þá er lagt til að staða stjúp- og sambúðarforeldra verði styrkt nokkuð, sérstaklega þeirra sem fara með forsjá. Í því skyni er lagt til í 9. gr. frumvarpsins að stjúp- og sambúðarforeldrar fari áfram með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit við kynforeldri nema samið sé um annað.

Í 18. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um rétt barns til umgengni við aðra en foreldra með rýmri hætti en nú gildir en ákvæðið getur með þeim hætti náð til stjúpforeldra ef við á.

Eins og áður sagði er eitt af fyrstu nýmælum frumvarpsins að finna í 12. gr. þar sem lagt er til að foreldrum beri skylda til að leita sátta áður en unnt er að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni, þ.e. mál um forsjá, umgengni, dagsektir og aðför. Rétt þykir að gera foreldrum almennt að leita sátta í hvert sinn sem krafist er úrskurðar ef höfðað er mál, enda má ganga út frá því að æskilegt sé að skoða sérstaklega í hverju ágreiningur foreldra er fólginn í hvert sinn og hvort unnt sé að hjálpa þeim að sætta mál. Nauðsynlegt er að foreldrar taki sjálfir fullan þátt í öllu ferlinu svo þeir átti sig á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar, taki þátt í og axli ábyrgð á þeirri sátt sem gerð er. Með hliðsjón af því geta foreldrar ekki falið fulltrúa sínum, t.d. lögmanni, að mæta á sáttafundi heldur er gert ráð fyrir að foreldrar mæti sjálfir á boðaða sáttafundi. Þá er gert ráð fyrir að veita skuli barni kost á að tjá sig við sáttameðferð að teknu tilliti til aldurs og þroska nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit máls.

Í 4. mgr. er fjallað um meginhlutverk sáttamanns. Eins og áður sagði er ekki mælt fyrir um eina tiltekna tegund eða aðferð sem ber að nota við alla sáttaumleitanina. Ætla má að sáttameðferð byggist almennt á tilteknum grunnsjónarmiðum sem þó megi útfæra í framkvæmd með ólíkum hætti.

Á undanförnum árum hafa ýmsir tileinkað sér aðferð sem kölluð hefur verið sáttamiðlun og þykir árangursrík í þeim málum sem hér um ræðir. Aðrir hafa þekkingu og reynslu í að nota mismunandi aðferðir við að hjálpa fólki við að ná sáttum. Hér er lögð áhersla á að sáttamaður gæti þess að vera hlutlaus í máli og leitist við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geti til þess máli verði lokið með sátt. Það er í samræmi við það markmið að hjálpa foreldrum að finna sjálfir þá sátt sem er barninu fyrir bestu. Mikilvægt er að sáttamaður leiði ferlið en taki ekki ábyrgðina á lausn málsins frá foreldrum. Það er þó einnig mikilvægt að sáttamaður sé, eins og aðrir aðilar í öllu kerfinu, vel meðvitaður um áðurnefndan veruleika um ofbeldi í nánum samböndum. Hafi annað foreldri að vera beitt ofbeldi af hinu þarf möguleg sáttameðferð að taka ríkt mið af því.

Í 13. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði nokkur helstu sjónarmið sem leggja beri til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns enda þykir kostur að geta þessa með skýrari hætti en í núgildandi lögum. Helsta efnislega nýmælið er að taka fram að dómara beri að líta til hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi.

Þá eru í frumvarpinu lögð til ýmis nýmæli um umgengnisrétt. Í 17. gr. er lagt til að skilgreina umgengni víðar en verið hefur, þ.e. að umgengni taki hvort tveggja til samveru og annarra samskipta.

Í 18. gr. er að finna nýmæli um rétt barns til umgengni við aðra en foreldra þar sem gert er ráð fyrir þessum möguleika í fleiri tilvikum en áður.

Í 19. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði helstu sjónarmið sem leggja beri til grundvallar þegar kveðinn er upp úrskurður um umgengni. Er þetta með svipuðum hætti og á við um forsjá þar sem sjónarmið um vernd barns gegn ofbeldi er áréttað.

Í a-lið 20. gr. a er lagt til það mikilvæga nýmæli að sýslumaður geti úrskurðað til bráðabirgða um umgengni. Vert er að nefna sérstaklega að gert er ráð fyrir að sýslumaður geti ákveðið að úrskurður til bráðabirgða gildi í tiltekinn afmarkaðan tíma. Þannig getur gefist færi á að kanna frekar ákveðin atriði eða meta markvisst reynslu af tilteknu umgengnisfyrirkomulagi.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að barnaverndarnefndir komi ekki lengur að því að gefa umsagnir í málinu sem leyst er á grundvelli barnalaga eða að hafa eftirlit með umgengni. Þess í stað er lagt til að sýslumenn leiti til sérfræðinga í málefnum barna, þ.e. fagaðila sem hafa nauðsynlega þekkingu á þörfum barna og stöðu foreldra. Er það lagt til ekki síst til að skerpa skilin á milli mála sem varða barnavernd annars vegar og ákvæði barnalaga um rétt barns til samskipta við foreldra sína hins vegar. Barnaverndarmálefni eru sérhæfð málefni og meginþungi starfsmanna barnaverndarnefndar lýtur að slíkum málum. Samskipti foreldra og barna eru hins vegar tæplega barnaverndarmál nema í ákveðnum tilvikum.

Í 31. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að sýslumaður geti á öllum stigum máls leitað liðsinnis sérfræðings á málefnum barns. Leggja verður áherslu á að hér er um sérhæfð mál að ræða. Mikilvægt er að sýslumaður meti í hvert sinn hvort og að hvaða leyti sé þörf á aðkomu annarra sérfræðinga en jafnframt er nauðsynlegt að sýslumaður tryggi að í hverju máli liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að niðurstaða ráðist af hagsmunum barns.

Að lokum er vert að benda á að í 22. og 23. gr. frumvarpsins er lagt til að skýrð séu frekar ákvæði núgildandi laga um framkvæmd fullnustuaðgerða í málum vegna umgengnistálmana. Eins og í gildandi lögum er gengið út frá því að foreldri sem tálmuð er umgengni teljist gerðarbeiðandi en tekið er fram að sýslumaður beri ábyrgð á að fylgja máli eftir á tiltekinn hátt. Þá er í 23. gr. lagt til að dómari geti úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför ýmist í eitt skipti eða á vissu tímabili. Ég vil nota tækifærið og hvetja allsherjarnefnd til að taka þessi mál sérstaklega til skoðunar. Sjálfur tel ég að varasamt geti verið að koma umgengni á með beinni aðfarargerð og atbeina lögreglu, slíkt getur haft erfiðar afleiðingar fyrir börn burt séð frá öllum réttlætissjónarmiðum. Sem betur fer er því úrræði afar sjaldan beitt en spurninganna þarf að spyrja: Getur þessi leið talist góð fyrir barn og ef ekki, eru til aðrar leiðir? Það er einmitt áherslan í þessu frumvarpi, að finna aðrar leiðir sem byggja á að sætta fólk.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Í því eru lagðar til ýmsar nýjungar og réttarbætur þegar taka á ákvörðun í málefnum barna. Það liggur til grundvallar að ákvarðanir miðist alltaf við það sem barninu er fyrir bestu. Vissulega getur verið erfitt að finna það út og margar leiðir geta verið færar að því marki. Veruleiki barna hefur gerbreyst á síðustu áratugum. Foreldrahlutverkið er breytt og fjölskyldumunstrin verða sífellt fjölbreyttari. Sú þróun kallar á ábyrga umræðu sem ég er fullviss um að fari fram í þessum sal og á fundum allsherjarnefndar þingsins.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.