Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 21:33:46 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er lofsvert af þingflokki Hreyfingarinnar og hv. þm. Þór Saari að koma fram með frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það sýnir að aðrir láta sig þetta mál mjög varða, eins og eðlilegt er.

Það eru ákveðnir þættir í frumvarpinu sem ég tek undir með hv. þingmanni, í fyrsta lagi er áherslan á sveitarfélögin og að treysta sveitarfélögum til þess að fara með ábyrgð og visst forræði í þessum efnum, að sjálfsögðu undir ramma laga og reglna. Mér finnst það mjög gott, einnig þær áherslur sem eru mjög í samræmi við það frumvarp sem lagt er fram af ríkisstjórninni með hvatningu til umhverfisvænna veiða. Þessi tvö atriði finnst mér vera í fullu samræmi við áherslur mínar (Forseti hringir.) sem ráðherra og sem líka er að finna í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.