Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:38:27 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það væri kannski ráð að taka upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi eftir uppskrift ráðherrans þar sem heimildirnar mundu bara elta fiskinn. Ef hann synti svolítið í austurátt eftir suðurströndinni færu heimildirnar úr ráðuneytinu í átt til byggðarlaganna sem þar væru. Mér heyrðist það sem hann vísaði til hér vera hugmyndin sem réttlætti ráðstafanir hans í tengslum við skötuselsmálið sem snerist um þá grundvallarbreytingu að ráðherra væri heimilt að úthluta nýju aflamarki án tillits til aflahlutdeildar. Það snerist um allt annað mál.

Hæstv. ráðherra hefur látið því alveg ósvarað í umræðunni í dag hvernig hann réttlætir það að þeir sem hafi selt sig út úr greininni geti nú að nýju komið inn án þess að greiða fyrir það gjald. Hvaða sanngirni er í því að sá sem keypti viðkomandi heimildir þurfi núna að gera út frá sömu bryggju með þeim kostnaði sem hann hefur stofnað til á meðan gamli aðilinn fær úthlutað beint úr ráðuneytinu? Er sanngirni í þessu? Ég spyr ráðherrann að því.

Hvers vegna hefur ekki verið haft fyrir því í þessu frumvarpi að útskýra hvort eitthvað í efnisatriðum frumvarpsins komi í veg fyrir að bátum fjölgi sífellt þangað til afrakstur hvers og eins verður óviðunandi? Er búið að gera einhverjar ráðstafanir til þess? Liggja einhverjar rannsóknir að baki þeirri niðurstöðu? Ég sé það ekki, ég sé ekki annað en að hér sé í uppsiglingu nákvæmlega sama vandamálið og við höfum áður átt við og höfum rætt hér í þinginu síðustu 20–30 ár, hvernig við getum komið til móts við þá sem stunda útgerð og hafa ekkert upp úr því. Það endaði með því að menn settu kvóta og þeir seldu hann (Forseti hringir.) og nú er ráðherrann aftur að opna fyrir að þeir komi inn í auknum mæli. Hann hefði mögulega getað náð sátt um það sem var búið að gera eins og skýrslan ber með sér.