Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 20:07:04 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:07]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil ræða örstutt um þetta mál um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og snertir setningu í prestsembætti. Ég tel að annar af fulltrúum okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd, hv. þm. Birgir Ármannsson, hafi farið vel yfir þau sjónarmið og þær vangaveltur sem við sjálfstæðismenn höfum haft um málið. Eðlilegt er að þetta sé tímabundið. Ég fékk það fram í andsvari áðan við hv. formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall, að þetta er tímabundið. Ákveðnar ástæður eru fyrir því um leið og við skiljum að kirkjan verður að hafa ákveðið svigrúm til að bregðast við aðhaldskröfum sem settar eru á hana eins og ýmsa aðra og aðrar stofnanir í samfélaginu.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni um sóknargjöldin. Við getum ekki lengur komist hjá því við næstu fjárlagagerð að snerta að minnsta kosti á því hvernig við sjáum fyrir okkur þróun á sóknargjöldum. Búið er að ræða endurskoðun á þeim í mörg ár. Við vitum að öflugt menningarstarf, öflugt æskulýðsstarf og fleira á sér stað innan kirkjunnar. Ég er sannfærð um að í heildarsamhengi er verið að spara fjármuni fyrir hönd ríkisins frekar en hitt, að við séum í einhverjum „spandans“ í sóknargjöldunum.

Þetta vildi ég nú sagt hafa út af þessu. Engu að síður vil ég halda áfram þeim vangaveltum sem ég hafði í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall um stöðu þjóðkirkjunnar, af því þetta frumvarp tengist náttúrlega stöðu þjóðkirkjunnar og starfsháttum hennar, og um þá umræðu sem hefur sprottið upp á umliðnum dögum varðandi kirkjuna, kristni í skólum landsins og hvaða afstöðu mannréttindaráð borgarinnar hefur núna tekið um aðkomu kirkjunnar að skólum landsins.

Ég vil undirstrika að kirkjan eins og margir, margir aðrir hefur farið í gegnum erfiða tíma og hefur eðli máls samkvæmt þurft að endurmeta ýmsa þætti starfs síns eins og hefur komið fram, m.a. á kirkjuþingi fyrr á árinu. Það er í raun ekkert nýtt. Frá upphafi hefur kristni að vissu leyti tekið breytingum og þá oftast nær í takti við þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu og á viðhorfum kristinna manna. Sumir segja að kirkjan og þá kannski þjóðkirkjan liggi vel við höggi en ég er algjörlega ósammála því að nýta eigi þá tíma sem nú ríkja í samfélaginu til að útiloka kirkjuna úr skólastarfi.

Ég vil undirstrika að á tíma mínum sem menntamálaráðherra urðu ákveðnar umræður um kristnina í grunnskólalögunum sem nú gilda. Meginhugsunin var alltaf sú og á að hafa verið undirstrikuð sérstaklega við 2. umr. þess frumvarps sem síðan var samþykkt, að við ættum ekki að vera feimin við að segja að við séum kristið samfélag, við séum kristin þjóð. Með því hnýtum við ekki í önnur trúarbrögð eða förum gegn þeim en við eigum að vera ófeimin við að segja að Ísland er kristið og íslenska þjóðin er kristin og menning hennar og menningararfleifð byggir að miklu leyti til á kristninni og því sem við höfum fengið í gegnum kristnina.

Rétt er að undirstrika að ég er ekki að tala um að kirkjan eigi að stunda trúboð innan skólanna, til þess er engin lagaheimild. Allir eru sammála um það. Við verðum að gera greinarmun á fræðslu og trúboði. Eitt af hlutverkum kirkjunnar er að standa að fermingarfræðslu, en fermingarfræðslan er oft dregin inn í þessa umræðu, en hún er ekki hluti af skilgreindu skóladagatali né skólaskyldu. Samt sem áður geta foreldrar, nemendur og kirkjan óskað eftir því að fá heimild hjá skólastjóra til að senda barn í svonefndar fermingarfræðsluferðir sem oft hafa verið til umræðu. Skólastjóra er samkvæmt lögum heimilt að veita slíkt orlof.

Það hefur nefnilega verið þannig, eins og við höfum komið áður að í andsvörum, að samstarf skólanna og kirkjunnar hefur verið mjög gott. Það hefur verið farsælt. Það hefur verið friðsælt. Vonandi verður engin grundvallarbreyting þar á. Þetta hef ég getað sagt alveg fram til dagsins í dag, nú þegar maður les fjölmiðlana og sér hvaða breytingar meiri hlutinn í borginni er að beita sér fyrir. Ég vil lýsa yfir ákveðnum áhyggjum og efasemdum um að það sé rétt skref sem mannréttindaráð borgarinnar er að taka í tengslum við starf kirkjunnar innan skólanna. Við eigum að treysta skólunum og skólastjórnendum fyrir því að halda uppi lögbundnu skólastarfi og að innan skólanna fari ekki eitthvað fram sem ekki er lögum samkvæmt.

Af hverju að fara fram með þessum kreddum, að mínu mati, sem ég tel að mannréttindaráð geri í raun gegn kirkjunni? Af hverju þessi kredda þegar reynslan sýnir að samstarf skólanna og kirkjunnar hefur í meginatriðum verið gott? Við eigum frekar að hlúa að slíku samstarfi, efla þekkingu og skilning skólabarnanna á kristninni og að sjálfsögðu á öðrum trúarbrögðum líka. Ég hélt að það væri bara sjálfsagt og eðlilegt að hér væri öflug trúarbragðafræðsla þar sem börnunum okkar væru kennd hin ýmsu fræði hinna ólíku trúarbragða. Þannig á það líka að vera. En með því eigum við ekki að úthýsa kristninni úr skólunum. Enda ætla ég rétt að vona að menn í borginni ætli ekki að fara að breyta skóladagatalinu út af einhverju sem heitir páskar og einhverju sem heitir jól og eru frídagar af því þeir tengjast kristninni. Ég kem því hingað upp af því ég er mjög hugsi yfir þessari þróun sem ég tel varða okkur sem ræðum stöðu kirkjunnar og starfshætti hennar alla jafna, hvort sem það eru smávægilegar breytingar á lögum um þjóðkirkjuna eða meiri háttar breytingar.

Ég vil fá, með leyfi forseta, að lesa upp það sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur sett fram í tengslum við þær tillögur sem mannréttindaráðið hefur sett fram um samskipti skóla og trúfélaga. Hann, Bjarni Karlsson, segir, með leyfi forseta:

„Nú hefur mannréttindaráð borgarinnar sett fram tillögur sínar um samskipti skóla og trúfélaga. Tillögurnar eru vissulega breyttar frá þeirri hrokasmíð sem birt var í fyrstu en þær eru samt ótækar. Sem sóknarprestur í borgarhverfi og fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði borgarinnar er ég knúinn til viðbragða þótt klukkan sé orðin margt.“

Þetta hefur hann væntanlega skrifað að kvöldi 7. júní eða í gærkvöldi.

„Helstu gallar á tillögunum eru þessir:

1. Þar er tekin pólitísk afstaða í trúarefnum með því að úrskurða veraldlega heimsmynd hlutlausa og eðlilega en trúarlega heimsmynd tortryggilega.“

Síðan segir hann innan sviga:

„Á meðan 71% íslendinga eru trúaðir samkvæmt nýrri könnun.“

„2. Þar er kirkjum bannað að auglýsa starf sitt við hlið skáta, íþróttafélaga og annarra sem bjóða börnum félagsstarf. Í því er fólgin jaðarsetning á tómstundastarfi þúsunda barna og ungmenna í borginni.

Þar eru fermingarferðalög tekin út fyrir sviga en ekki t.d. túrneringar íþróttafélaga eða aðrar truflanir vegna félagsstarfa.“

Menn tala stundum digurbarkalega um að íþróttir hafi haft allt of mikið svigrúm og tekið allt of mikið pláss í stefnumótun í æskulýðs- og íþróttastarfi borgarinnar og víða um land en ég ætla rétt að vona að menn taki nú ekki upp á því hjá borginni að hreyfa við þessu og vona að þetta samstarf verði áfram gott.

Í fjórða lagi segir hann:

„Þar er horft fram hjá aðild sóknarkirknanna að grenndarkennd og hverfisstemmningu í mörgum hverfum.“

Séra Bjarni heldur áfram:

„5. Þar er lokað á það að hópur venjulegra heimilisfeðra sem árvisst tekur sig saman og …“

Nú skulum við hlusta vel því ég man að á sínum tíma komu þessir menn í ráðuneytið til að fá stuðning minn til þess að gera það sem þeir gera og kemur hér fram:

„Þar er lokað á það að hópur venjulegra heimilisfeðra sem árvisst tekur sig saman, setur á sig bindi og rakspíra, og fer til að afhenda börnum bók sem þeim er einkar kær og er eftir allt námsgagn, fái að glæða mannlífið með sinni óvenjulegu þjónustu. Ég á við Gídeonmenn sem í meira en 60 ár hafa heimsótt skóla og gefið bláa Nýja testamentið. Það kalla ég menningarlegan tepruskap,“ segir séra Bjarni Karlsson.

„Með þessum tillögum er stjórn borgarinnar og Samfylkingin sem stórt stjórnmálaafl að rjúfa trúnað við margfalt stærri hóp kjósenda sinna en mannréttindaráð gerir sér nokkra grein fyrir. Stjórnmálaflokkur sem ætlar að vera stór og umfaðma íslenskan veruleika getur ekki haft svona göngulag. Sú hefð að halda trúmálum utan við spennusvið flokkspólitíkur hefur verið farsæl og dregið úr öfgum á báðum sviðum. Hér er á döfinni miklu stærra menningarslys en fólk virðist almennt vera að sjá og skilja.

Ég trúi ekki að þetta fari í gegnum borgarráð,“ segir Bjarni, „en verð að játa að nú eru farnar að renna á mig tvær grímur.“

Ég hef ekki rætt þetta við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins en ég ætla bara rétt að vona það að þeir ræði þetta mjög ítarlega í borgarráði. Mér finnst þetta mjög sérstakt. Mér finnst það sérstakt þegar við erum einmitt að ræða frumvarp, þó að það sé kannski smátt eða í minni kantinum, sem á að styrkja stöðu þjóðkirkjunnar. Þá hljótum við að draga inn í þá umræðu spurningu um hvort við séum á öðrum stað í samfélaginu að draga úr krafti þjóðkirkjunnar og kirkjunnar almennt í starfi skólanna.

Það er rétt að nefna að ég er ekki í þjóðkirkjunni. Ég er í öðrum söfnuði sem er kaþólski söfnuðurinn á Íslandi. Ég hef í gegnum tíðina oft frekar verið á því að ræða að skilja að ríki og kirkju. En ég tel hins vegar að mjög varlega verði að fara í það, því ef þetta eru viðhorfin sem á alltaf að draga fram og skýla sér á bak við breyttar aðstæður í samfélaginu, að hér varð efnahagshrun og ákveðin uppstokkun þurfi að verða í samfélaginu og ný hugsun — ef það verður til þess að skilja eigi algjörlega samstarfið við kirkjuna frá skólastarfi, hvort sem það er þjóðkirkjuna eða aðrar kirkjudeildir, þá segi ég að við verðum að staldra við. Þá verðum við að staldra við í allri umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég legg áherslu á að ég hef frekar verið jákvæð í garð þeirrar umræðu en ég vil ekki að hún leiði til þess að við afneitum því að við erum kristin þjóð.

Það er eins og menn sýni stundum tepruskap í samfélaginu, eins og ekki megi lengur tala um kristnina eins og hún hefur fylgt okkur frá árinu 1000. Vel að merkja hefur íslenska þjóðin reyndar verið lengur kaþólsk heldur en lútersk en það saxast nú eitthvað á þann árafjölda.

Svona er þetta. Þetta skiptir mig miklu máli, þess vegna ræði ég þetta á þessum nótum. Þegar maður finnur slíkar samfélagslegar breytingar, hvort sem þær eru í þinginu eða á vegum sveitarfélaga, ekki síst stærsta sveitarfélagsins á landinu sem er Reykjavíkurborg, er ekki hægt að láta það óátalið eða órætt. Ég hef skoðanir á því. Þess vegna vona ég að flokksfélagar mínir í borginni taki þetta mál upp og ræði það. Menn komast ekki hjá því að útskýra betur af hverju er verið að gera þetta þegar við höfum góða reynslu af gjöfulu samstarfi milli kirkjunnar og skólanna í gegnum tíðina.

Ég bendi mönnum líka á að þetta kann að vera allt að því íhlutun í skólastefnuna og grunnskólana eins og lögin eru byggð upp í dag. Hvert var meginstefið í þeim breytingum sem við settum fram í grunnskólalöggjöfinni og reyndar framhaldsskólalöggjöfinni og leikskólalöggjöfinni sem var heildarlöggjöf og við afgreiddum sameiginlega 2008? Jú, það var að minnka miðstýringarvaldið, hvort heldur hjá sveitarfélögum eða ríkisvaldinu, og reyna að koma sem mestu valdi yfir til þeirra sem stjórna skólunum og treysta kennurunum, treysta skólastjórnendum til að ákveða hvernig þeir teldu að skólastarfið færi sem best. Fram til þessa hefur samstarfið við kirkjuna gefist vel. Ég skil ekki af hverju verið er að rugga þeim báti allt of mikið, allt í skjóli þess að hér varð efnahagshrun og einhver ný hugsun verði að koma til.

Ég vil að menn gefi ekki bara kirkjunni og þjóðkirkjunni svigrúm, ég vil að menn gefi kristninni svigrúm og tækifæri til að vera áfram sú mikla og góða undirstaða í íslensku samfélagi sem hún er. Ég vil því um leið draga fram að í andsvari áðan var afar ánægjulegt að heyra að hv. þm. Róbert Marshall og formaður allsherjarnefndar, þótt að hann deili kannski ekki alveg mínum skoðunum, deilir skoðunum Bjarna Karlssonar. Ég deili hans skoðunum í þessu þannig að stuðningsmenn Bjarna eru ýmsir á þingi.

Þegar við ræðum breytingar á þjóðkirkjunni, breytingar í þessu máli sem ég styð, er ekki hægt að láta þær breytingar sem menn eru að stuðla að í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavíkurborg, á vegum mannréttindaráðs, hjá líða. Þær eru mjög umhugsunarverðar, allt að því vafasamar.