Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 10. júní 2011, kl. 22:56:01 (0)


139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fram kom í máli hv. þingmanns að breytingar hafi orðið tiltölulega ört á því frumvarpi sem hér liggur fyrir og skyldi engan undra miðað við þann ágreining sem uppi er innan allra þingflokka um það. Það eru hins vegar ýmis atriði í því sem vekja allnokkra athygli. Mig langar að leita eftir skýringum eða túlkun hv. formanns sjávarútvegsnefndar á ákvæði í þeirri tillögu sem liggur fyrir í 2. gr. frumvarpsins.

Það er sú umdeilda grein, skiptihlutfall á milli flokka o.s.frv. þar sem kveðið er á um hverjir eigi að leggja í potta. Samkvæmt 4. gr. skal skipt í viðkomandi tegundir samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Ráðherra er samkvæmt tillögunni heimilt að fela Fiskistofu og/eða samtökum í sjávarútvegi ákveðna framkvæmdaþætti til að tryggja að skipti þessi geti gengið eftir.

Hvaða samtök í sjávarútvegi koma þar til greina? Er yfir höfuð búin að fara fram einhver athugun á því hvort ráðuneytinu sé heimilt (Forseti hringir.) að framvísa valdi sínu með þessum hætti til einhverra aðila úti í bæ?