Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:10:26 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við tölum í einum kór, ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, þegar kemur að þessum málum. Auðvitað veldur það manni vissum áhyggjum ef við mundum halda áfram óbreyttri stefnu og ætla að afnema höftin ef því mundu fylgja miklar vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands vegna þess að við erum með skuldugustu heimili í veröldinni liggur við. Hvað mundi það þýða ef vextir þeirra færu að rjúka aftur upp og greiðslubyrðin þar af leiðandi hækka allverulega? Ég tel að það sé full ástæða til að við setjumst niður og skoðum peningamálastefnuna og hugum að einhverri endurskoðun á henni. Mér heyrist að það gæti verið samkomulag um það á þinginu að gera alla vega þá tilraun að setjast niður og fara yfir hvaða áhrif það mundi hafa færu menn í að aflétta höftunum. Miðað við núverandi stefnumörkun mundi Seðlabanki Íslands trúlega stórhækka stýrivextina sem leiddi það af sér að kjör almennings og rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi mundu versna til mikilla muna og er ástandið nógu erfitt samt. En eins og hv. þingmaður nefndi hefur ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið á móti þeirri stefnumörkun að ráðast í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum lánum skuldugra heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er staðreyndin í dag og þess vegna er staðan með þeim hætti sem raun ber vitni.

Við sjáum það líka í nýlegum afkomutölum sumra bankanna, sem eru reknir með milljarða og jafnvel milljarðatuga hagnaði núna í þessu árferði, að það hefði greinilega verið eitthvert lag til þess að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem íslenskar fjölskyldur og íslenskt atvinnulíf standa frammi fyrir. Á meðan ekkert er gert í þeim efnum fara hjól atvinnulífsins, svo ég noti þann frasa, ekki af stað fyrir alvöru og þar af leiðandi aukast ekki tekjur ríkis og sveitarfélaga og þess vegna erum við í þessari stöðu.