Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 8  —  8. mál.
Tillaga til þingsályktunarum reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þór Saari,


Þráinn Bertelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að koma á reglulegum árlegum heimsóknum í forvarnaskyni sem bjóðist öllum sem eru 75 ára og eldri til að hægt verði að veita þeim þjónustu strax og þurfa þykir svo að þeir geti búið sem lengst heima.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga sama efnis var flutt á 138. löggjafarþingi.
    Á seinni árum hefur þjónusta við eldri borgara aukist. Megináherslan hefur verið á að bæta lífsgæði aldraðra með því að gefa þeim færi á að búa sem lengst heima. Félagsþjónusta sveitarfélaga, með aðstoð við þrif og matarinnkaup, sem og heimaþjónusta ríkisins frá heilsugæslustöðvum með heimahjúkrun , eiga að tryggja að sem flestir geti búið heima sem lengst.
    Meginþema velferðarnefndar Norðurlandaráðs árið 2010 er lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Í nefndinni eiga sæti þingmenn allra Norðurlandanna, en fyrir Íslands hönd eru þær Siv Friðleifsdóttir sem formaður og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Nefndin hefur kynnt sér lífsgæði eldri borgara í Danmörku en þar hafa stjórnvöld tekið markviss skref með því að grípa snemma inn í til að fyrirbyggja að smávægilegur heilsubrestur vindi of hratt upp á sig þannig að hinn aldraði þurfi stofnanavist. Danir hafa komið upp nokkurs konar forvarnakerfi í þessu sambandi sem felst í því að öllum íbúum sem eru 75 ára og eldri er boðin heimsókn einu sinni til tvisvar á ári af öldrunarþjónustufulltrúa. Öllum sveitarfélögum ber lagaleg skylda til að bjóða upp á slíkar heimsóknir.
    Í heimsókninni til hins aldraða er farið yfir alla þætti sem varða heilsu og aðstæður hans og metið hvort viðkomandi þurfi á einhverri aðstoð að halda eða ekki. Aðstoðin getur falist í tímabundinni aðstoð við þrif, innkaup, þjálfun eða annað slíkt. Sveitarfélagið Kaupmannahöfn hefur lagt áherslu á það að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og því er gjarnan gripið inn í með þjálfun til að viðkomandi einstaklingur geti sjálfur séð um þrif, innkaup o.þ.h. Ef slík úrræði duga ekki fær fólk langvarandi aðstoð af sama tagi og eftir atvikum heimahjúkrun.
    Dönsk stjórnvöld telja að með slíkum árlegum heimsóknum hafi tekist að tryggja fleiri eldri borgurum bætt lífsgæði heima fyrir í stað innlagnar á stofnun. Einnig hafi á þennan hátt sparast fé sem nýtt hefur verið á skynsamlegan hátt innan öldrunarþjónustunnar.
    Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að fólk eigi að geta búið heima eins lengi og kostur og vilji er til, m.a. með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Samkvæmt samanburðartölum OECD þar sem skoðað er hve hátt hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri vistast í hjúkrunarrýmum (utan sjúkrahúsa) árið 2007 kemur í ljós að á Íslandi vistast 6% eldri borgara (65+) í hjúkrunarrýmum, 5,5% í Noregi, 4,6% í Finnlandi og 4,5% í Danmörku. Í Svíþjóð er hlutfallið hærra eða 6,8% árið 2006, en ekki kom fram hlutfallið árið 2007. Samkvæmt skýrslu OECD um heilbrigðismál á Íslandi frá 2008 erum við Íslendingar með hlutfallslega mörg hjúkrunarrými (langtímarými) fyrir aldraða, 65 ára og eldri, en jafnframt kom fram að framboð rýma á ákveðnum landsvæðum er ekki í samræmi við þörf. Þannig er líklega offramboð rýma á ákveðnum svæðum en skortur á öðrum. Í skýrslunni segir að þessi staðreynd komi á óvart í ljósi þess hve íslenska þjóðin er ung en að hugsanlega megi rekja hátt hlutfall hjúkrunarrýma á Íslandi til þess að framboð heimaþjónustu sé ekki nægilegt og að það vanti millilausnir, svo sem íbúðir fyrir aldraða í nálægð hjúkrunarheimila.
    Þar sem hlutfall aldraðra fer hækkandi og gerðar eru meiri kröfur en fyrr um góða þjónustu er brýnt að veita þá þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Það er því hagur allra að taka upp árlegar heimsóknir til eldri borgara 75 ára og eldri svo að unnt sé að veita þjónustu við hæfi á sem skilvirkastan hátt og þannig fyrirbyggja óþarfa stofnanavist og auka lífsgæði eldri borgara. Mikilvægt er að náið samráð verði haft við sveitarfélög í samræmi við fyrirætlanir um að flytja málefni aldraðra alfarið yfir til þeirra.
    Í dönsku lögunum um fyrirbyggjandi heimsóknir til eldri borgara (lov om forebyggende hjemmebesøg til ældre m.v.) er kveðið á um að sveitarstjórnir eigi að gefa öllum sem orðnir eru 75 ára og eldri og búa í sveitarfélaginu kost á fyrirbyggjandi heimsókn. Sveitarstjórn skal skipuleggja heimsóknirnar eftir þörfum og á hver eldri borgari rétt á a.m.k. tveimur árlegum fyrirbyggjandi heimsóknum. Sveitarstjórnir geta undanskilið þá sem þegar fá bæði persónulega og almenna þjónustu skv. 83. gr. laganna um félagslega þjónustu (lov om social service). Innanríkisráðherra og félagsmálaráðherra geta í samráði við heilbrigðisráðherra sett reglur um skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögunum, m.a. um að samþætta þjónustuna við aðrar almennar fyrirbyggjandi og uppbyggjandi aðgerðir sveitarfélagsins.