Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 86. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 91  —  86. mál.
Tillaga til þingsályktunarum heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

Flm.: Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir.    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að breyta aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að heimspeki verði skyldufag. Kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.

Greinargerð.


    Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.