Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 104  —  98. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Margrét Tryggvadóttir, Birkir Jón Jónsson,


Þráinn Bertelsson, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson.



    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurnýja samkomulag um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Greinargerð.


    Haustið 2006 undirrituðu þáverandi ráðherrar menntamála og fjármála og fulltrúar kvikmyndagerðarmanna samkomulag um stuðning við innlenda kvikmyndagerð. Átti samkomulagið að ná til fjögurra ára, 2007–2010. Þegar samkomulag þetta var gert álitu kvikmyndagerðarmenn að samkomulagið markaði tímamót í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar þar sem búið var að tryggja fjármagn fram í tímann. Augljóst má vera að fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar skiptir miklu að ekki ríki óvissa um fjármögnun enda kemur fram í samkomulaginu að stefnt sé á að ekki færri en fjórar kvikmyndir í fullri lengd verði gerðar á ári.
    Samkvæmt samkomulaginu var gert ráð fyrir að fjárframlag ríkisins yrði 700 millj. kr. árið 2010 en í fjárlögum ársins var framlagið skorið niður í 450 millj. kr., eða um 35%. Á fjárlögum ársins 2011 er fjárframlag ríkisins einnig 450 milj. kr. Ljóst má vera að svo mikill niðurskurður getur haft víðtæk áhrif á greinina. 30. apríl 2010 komu á fund iðnaðarnefndar fulltrúar kvikmyndaframleiðenda og upplýstu m.a. nefndarmenn um að þá þegar hefði þessi niðurskurður haft neikvæð áhrif á greinina. Þá var nefndinni kynnt könnun er gerð var á fjármögnun 112 íslenskra kvikmyndaverka árin 2006–2009.
    Margt athyglisvert kemur fram í könnuninni sem bendir sterklega til þess að kvikmyndagerð sé mikilvægur hluti af tekjuöflun þjóðarinnar. Í yfirliti yfir fjármögnun kemur fram að erlent fjármagn til þessara 112 verka sé um 44% af fjármögnuninni, eða ríflega 5,2 milljarðar kr. Innlent fjármagn (án ríkisframlags) sé um 34%, eða rúmlega 4 milljarðar kr., og opinbert fjármagn um 22%, eða tæplega 2,7 milljarðar kr. Þegar horft er til þess hvernig opinber framlög skila sér aftur til skattgreiðenda kemur fram að launahlutfallið af þessum 112 verkum var 72,75%.
    Augljós áhrif niðurskurðarins eru fækkun verkefna og samdráttur erlendrar fjárfestingar á Íslandi. Gert er ráð fyrir að hvert starf í kvikmyndagerð leiði af sér a.m.k. þrjú önnur störf.
    Sé horft til starfa má því gera ráð fyrir að samdrátturinn þýði að um 100 störf tapist í greininni á árunum 2010–2013. Við 30% samdrátt í kvikmyndaiðnaði tapist því með afleiddum störfum um 300 störf í heildina. Samkvæmt könnuninni eru áhrifin þau að á árunum 2010–2013 mun samdráttur í greininni verða tæpir 5 milljarðar kr. án þess að horft sé til menningarlegs gildis eða afleiddra tekna af kvikmyndagerð.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að óvissu um fjármögnun Kvikmyndasjóðs verði eytt og horft til þess hversu mikilvægur kvikmyndaiðnaðurinn er þjóðinni sem tekjuöflun, í atvinnusköpun, fyrir menningu og þjóðtungu og sem auglýsing fyrir íslenska náttúru og ferðaþjónustu.