Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 285. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 328  —  285. mál.
Tillaga til þingsályktunarum stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands.

Flm.: Árni Johnsen, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Ásbjörn Óttarsson,


Björgvin G. Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma upp íslenskri handverksdeild í Listaháskóla Íslands.

Greinargerð.


    Íslenskt handverk lærðra sem leikmanna stendur mjög hátt á heimsmælikvarða. Um allt land eru snjallir handverksmenn að verki í prjónlesi, útskurði, rennismíði, járnsmíði, mótun í leður og bein og listmálun svo að nokkuð sé nefnt. Reglulegar sýningar handverksmanna undirstrika að hér er um að ræða listamenn af Guðs náð og það hefur skort á að þessum verkmenntaþætti sé sinnt í íslenska skólakerfinu en hann er ýmist sjálfsprottinn eða líður fram mann fram af manni í hefðum, reynslu og verksviti.
    Í grunnskólum og verkmenntaskólum er að sjálfsögðu unnið á vettvangi íslensks handverks, í smíðum, föndri, myndmennt og fleiri þáttum, en rík ástæða er til þess að leggja meiri rækt við þennan þátt íslensks þjóðlífs og leggja öflugri grunn að kennslu á þessum sviðum í íslenska skólakerfinu.
    Auðvitað á íslensk handverkskunnátta að vera grein í Listaháskóla Íslands, ekki síst vegna þess að saman fer hugvit, verkvit, handverk og hönnun.
    Gott dæmi um afar snjallan listamann í handverki er Sigga á Grund í Árnessýslu. Hún er í röð fremstu listamanna þjóðarinnar með útskurði sínum í tré, en listamenn á þessu sviði skipta hundruðum á Íslandi.
    Þá er rík ástæða til þess að styðja sérstaklega við íslenska prjónlesið, sem að öllu jöfnu er unnið af konum í öllum byggðum landsins, handverk sem er stolt íslensks iðnaðar umfram margt annað.
    Sýna þarf íslensku handverki virðingu og hvatningu með því að stofna til handverksdeildar á íslenskum grunni í Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn ætti einnig að vera í fararbroddi við að útfæra handverksþáttinn fyrir og með öðrum skólum landsins. Ef Íslendingar leggja ekki rækt við sína eigin menningu er ranglega í leiðina lagt inn í framtíðina.