Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 455  —  358. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf um eftirlit og björgunarstörf á hafinu umhverfis Ísland.

Flm.: Jón Gunnarsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja viðræður við nágrannaþjóðir okkar og vinaþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins um aukið samstarf um eftirlit og björgunarstörf á því hafsvæði sem telst til yfirráðasvæðis íslenska ríkisins.

Greinargerð.


    Brotthvarf varnarliðsins markaði mikil tímamót og þrátt fyrir varnarsamning okkar við Bandaríkin berum við ríkar skyldur og á herðum okkar hvílir mikil ábyrgð. Stjórnvöld lögðu fram metnaðarfulla stefnu um hvernig við gætum rækt eftirlits- og björgunarhlutverk okkar með sóma á því stóra hafsvæði sem okkur tilheyrir. Efling Landhelgisgæslu Íslands gegndi lykilhlutverki í þeim áformum og strax var ráðist í löngu tímabæra smíði á öflugu varðskipi, endurnýjun á flugvél og áform um eflingu þyrluflota voru ákveðin í samvinnu við Norðmenn. Það lá fyrir að þetta væru nauðsynleg skref, en áður hafði varnarliðið verið órjúfanlegur þáttur í erfiðum leitar- og björgunaraðgerðum til lands og sjávar hér við land. Ljóst má vera að ekki verður hægt að fylgja eftir þeirri metnaðarfullu áætlun sem fyrir liggur og því verður að leita allra mögulegra leiða í samstarfi við nágranna- og vinaþjóðir um aukið samstarf í eftirlits- og öryggismálum á því hafsvæði sem hér um ræðir.
    Engin raunveruleg hernaðarógn er á því svæði þar sem Ísland liggur. Það kemur m.a. fram í auknu mikilvægu samstarfi sem er á milli aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Sú jákvæða þróun mála gefur tilefni til að endurskoða þann farveg sem mál voru sett í við brotthvarf varnarliðsins.
    Atlantshafsbandalagið hefur í ríkari mæli en áður horft til verkefna sem teljast ekki til hernaðarlegra verkefna í hefðbundnum skilningi. Bandalagið hefur búið sig undir vaxandi þátttöku í borgaralegum verkefnum, svo sem eftirliti, björgunar- og hjálparstörfum. Það er vel að svo vel tækjum búinn og skipulagður mannafli sé nýttur til annarra verkefna en hernaðarlegra þegar almennt horfir friðvænlega hjá bandalagsþjóðum. Ógnir gagnvart bandalagsþjóðum hafa breyst og þótt hernaðarógnin sé minni þá stafar m.a. mikil ógn af hryðjuverkaöflum sem hika ekki við að beita ógnvænlegum vopnum. Eftir því sem borgarasamfélög hafa eflst er ógn vegna náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta, flóða eða manngerðra hamfara, orðin meiri en áður var.
    Með þessari þróun leggur Atlantshafsbandalagið áherslu á að auka samstarf borgaralegra og hernaðarlegra afla bandalagsríkjanna til að bregðast við þegar þær aðstæður skapast sem geta verið ógn við öryggi og stöðugleika bandalagsríkja. Með því fást aukin tækifæri á víðtækara samstarfi við borgaralegar stofnanir, svo sem Landhelgisgæslu Íslands sem gegnir lykilhlutverki í eftirliti og björgunarmálum á hafsvæðinu umhverfis Ísland.
    Með aukinni skipaumferð um okkar hafsvæði eykst til muna mikilvægi legu landsins. Því fylgir aukin hætta m.a. á hryðjuverkastarfsemi og slysum sem við verðum að vera undirbúin til að takast á við. Ábyrgðarhlutverk okkar gagnvart eftirliti, björgunar- og hjálparstarfi mun aukast mikið við þá þróun sem er fyrirsjáanleg á þessum vettvangi. Í dag eru skip þegar farin að sigla þessa leið og því væntanlega ekki langt að bíða að hröð þróun eigi sér stað í þessum flutningum.
    Björgunar- og eftirlitsgeta á því stóra hafsvæði sem um ræðir er og verður ófullnægjandi þrátt fyrir að nýtt varðskip sé væntanlegt á næsta ári. Ný fullkomin flugvél Landhelgisgæslunnar hefur vissulega bætt ástandið töluvert og gefur aukna möguleika á samstarfi um eftirlit langt út fyrir það hafsvæði sem tilheyrir Íslandi. Fyrirséð er að ekki verður í næstu framtíð hægt að fjárfesta í þeim þyrlukosti sem nauðsynlegur er. Einnig verður að líta til þess að hjá okkar næstu nágrönnum, í Færeyjum og á Grænlandi, er staða þessara mála mun slakari en hér á landi.
    Í Færeyjum er eingöngu staðsett ein björgunarþyrla með mjög takmarkaða getu og lítið varðskip. Á Grænlandi er ekkert varðskip með fasta viðveru og engin björgunarþyrla sem brugðist getur við óhöppum á sjó. Danir hafa reglulega á svæðinu varðskip með lítilli björgunarþyrlu sem vissulega er til bóta en getur engan veginn talist fullnægjandi. Danski flugherinn hefur aftur yfir að ráða mjög öflugum þyrlum sem mundu gerbreyta þessari stöðu væru þær staðsettar í Færeyjum og Suður-Grænlandi.
    Vegna þess sem hér er rakið er nauðsynlegt að hefja viðræður við nágrannaþjóðir okkar og vinaþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins um aukið samstarf til að tryggja eftirlit og öryggi á því mikilvæga hafsvæði sem um ræðir.