Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 549  —  22. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um rannsókn á Íbúðalánasjóði.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.    Á vefsíðu Íbúðalánasjóðs segir: „Íbúðalánasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem veitir einstaklingum, sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum húsnæðislán til íbúðarkaupa og byggingarframkvæmda. Íbúðalánasjóður er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“
    Íbúðalánasjóður tók við hlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins þegar ný lög um húsnæðismál, nr. 44/1998, öðluðust gildi og Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna voru sameinaðir. Saga opinberra lánveitinga til íbúðarhúsnæðis hófst árið 1955 með lögum um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðarbygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Húsnæðismálastofnun ríkisins var sett á laggirnar tveimur árum síðar og síðan Íbúðalánasjóður sem hóf starfsemi í ársbyrjun 1999.
    Í byrjun árs 1998 segir félagsmálaráðherra í ræðu að Byggingarsjóður ríkisins sé mjög sterkur en Byggingarsjóður verkamanna muni stefna í greiðsluþrot. Því næst segir ráðherra, orðrétt: „Íbúðalánasjóður verður sjálfbær innan fárra ára og þarf ekki á framlögum úr ríkissjóði að halda“.
    Samhliða þessum breytingum var hin félagslega aðstoð færð yfir í vaxtabótakerfið með breytingum á vaxtabótaþætti tekjuskattslaganna. Þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa 1. janúar 1999 var fjárhæð hámarksláns sjóðsins til kaupa á notaðri íbúð 66% af meðalkaupverði fjögurra herbergja 120 fermetra íbúðar. „Hámarkslán til byggingar eða kaupa á sömu stærð húsnæðis var öllu hærra og samsvaraði 79% af meðalkaupverði slíkrar íbúðar. Hafa ber í huga að á þessum tíma var hámarkslánshlutfall 70% fyrir fyrstu kaupendur en annars 65%. Allar götur síðan hafa hækkanir á hámarksláni Íbúðalánasjóðs orðið eftir að húsnæðisverð hækkaði og kaupmáttur þess rýrnað verulega. Hækkanir á hámarksláni hafa því komið í kjölfar verðhækkana á húsnæði og miðast við að sjóðurinn uppfyllti lögbundið hlutverk sem skilgreint er í lögum um húsnæðismál.“ Tilgangur laganna var að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn gætu búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum yrði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. „Ef hámarkslán Íbúðalánasjóðs hefðu ekki fylgt að hluta til eftir hækkunum á fasteignaverði hefði sjóðurinn ekki verið að rækja hlutverk sitt um „… að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.““ (Heimild: Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis. Maí 2010.)
    Þegar þessar breytingar gengu yfir var kaupskylda sveitarfélaga á íbúðum í nýja kerfinu afnumin og það félagslega húsnæðiskerfi sem þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafði komið á stofn. Gagnrýndi Jóhanna Sigurðardóttir þetta nýja fyrirkomulag mikið á sínum tíma – í ræðu og riti, og taldi það mikla harðneskju gagnvart tekjuminni einstaklingum.
    Í svari sem dreift var á Alþingi á yfirstandandi þingi (þskj. 230 í 103. máli) kemur fram að skuldir sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð séu um 44 milljarðar kr. vegna kaupa á 3.863 eignum til félagslegra nota. Hvort þetta sé ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að leggja rúma 30 milljarða kr. inn í sjóðinn á fjáraukalögum 2010 hefur minni hlutinn ekki fengið svar við þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá svör. Engin ástæða er að leggja þetta fjármagn inn í sjóðinn vegna þeirrar ríkisábyrgðar sem er á sjóðnum.
    Því er lagt til með tillögu þessari að rannsakað verði allt það ferli sem fór af stað við stofnun Íbúðalánasjóðs og ástæða þess hvers vegna Byggingarsjóður verkamanna varð gjaldþrota, en hann ásamt Byggingarsjóði ríkisins var lagður niður þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður.
    Að taka út úr ákveðinn árafjölda eins og gert er í þingsályktunartillögunni er óraunhæft og sýnir á engan hátt hvað fór úrskeiðis í rekstri sjóðsins. Heildarmyndina verður að skoða.
    Minni hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að á vegum þess fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Skal rannsóknin ná aftur til þess tíma er Íbúðalánasjóður var stofnaður. Þá skal og rannsaka ástæður þess að sjóðurinn var stofnaður með samruna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Alþingi, 15. des. 2010.Vigdís Hauksdóttir.


Fylgiskjal.


Svar félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um skuldir sveitarfélaga hjá Íbúðalánasjóði.

(Þskj. 230 í 103. máli.)


    Svar ráðherra byggist á upplýsingum frá Íbúðalánasjóði.
     1.      Hversu mikið skulda sveitarfélögin Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á félagslegu húsnæði?
    Sveitarfélögin skulda um 44 milljarða kr. vegna kaupa á 3.863 eignum til félagslegra nota.

Fjárhæðir í krónum.
Kjördæmi Uppreiknaðar eftirstöðvar (30.9.2010) Vanskil Fasteignamat
Reykjavík norður og suður 20.738.909.128 0 26.696.315.000
Suðvestur 8.295.464.849 0 11.819.010.000
Norðvestur 4.513.253.556 1.267.255 4.196.592.000
Norðaustur 5.122.791.229 0 6.355.244.000
Suður 5.244.335.654 6.200.356 7.196.104.000
Samtals 43.914.754.416 7.467.611 56.263.265.000

Kjördæmi
Hlutfall af heildaruppreiknuðum eftirstöðvum (30.9.2010)
Reykjavík norður og suður 47%
Suðvestur 19%
Norðvestur 10%
Norðaustur 12%
Suður 12%

     2.      Hversu há upphæð er í vanskilum hjá sjóðnum vegna slíkra kaupa og hvernig skiptist upphæðin milli kjördæma?
    
Vanskilafjárhæðin er tæpar 7,5 millj. kr. sem skiptist í 6,2 millj. kr. í Suðurkjördæmi og tæpar 1,3 millj. kr. í Norðvesturkjördæmi (sjá töflu í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar).

     3.      Hefur einhver hluti slíkra skulda verið afskrifaður og ef svo er, hversu háar eru afskriftirnar samtals, í hvaða kjördæmum hafa skuldir verið afskrifaðar og hversu háar upphæðir í hverju þeirra?

Sveitarfélag Ár Fjárhæð í millj. kr.
Vesturbyggð 2002 83,7
Ísafjarðarbær 2003 og 2006 38
Hríseyjarhreppur 2005 36,9
Bolungarvíkurkaupstaður 2009 73
Samtals 231,6

    Í Vesturbyggð voru afskrifaðar skuldir að fjárhæð tæpar 84 millj. kr. árið 2002. Árið 2003 voru afskrifaðar 13 millj. kr. hjá Ísafjarðarbæ og aftur rúmar 25 millj. kr. í árslok 2006. Árið 2005 voru afskrifaðar tæpar 37 millj. kr. hjá Hríseyjarhreppi þegar það sveitarfélag var sameinað Akureyrarkaupstað. Árið 2009 voru afskrifaðar 73 millj. kr. hjá Bolungarvíkurkaupstað.
    Skuldir sveitarfélaganna eru afskrifaðar eftir að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna hefur óskað eftir því vegna erfiðrar fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags og með samþykki ráðuneytisins eins og lög og reglugerðir kveða á um.

     4.      Liggja inni beiðnir hjá Íbúðalánasjóði um afskriftir lána sveitarfélaga og ef svo er, í hvaða kjördæmum og um hversu háar upphæðir er að ræða?
    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskaði eftir því við Íbúðalánasjóð í janúar 2009 að sjóðurinn felldi niður helming skulda Bolungarvíkurkaupstaðar við sjóðinn vegna félagslega íbúðakerfisins, en alls nema þær 146 millj. kr. Stjórn sjóðsins féllst á að afskrifa 73 millj. kr. og að 73 millj. kr. yrðu „frystar“ í eitt ár. Að því tímabili loknu yrði málið tekið til endurskoðunar í samráði við eftirlitsnefndina og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Nú liggur fyrir ósk frá Bolungarvíkurkaupstað um að ljúka afskrift á þeirri fjárhæð sem eftir stendur, alls 81 millj. kr. Niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.