Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 552  —  204. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (frestun gildistöku ákvæðis um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi).

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2012. Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, í þá veru að gerð er krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009. Í kjölfar lagabreytinganna átti sér stað 1. janúar 2009 formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. í HS Orku hf., sem annast virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins, en ekki hefur orðið af sams konar uppskiptingu innan Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur óskaði eftir því með bréfi 6. september sl. að iðnaðarráðherra flytti frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga. Hér er því um að ræða þriðju frestunina á framkvæmd þessara ákvæða en með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað í annað sinn til 1. janúar 2011.
    Minni hlutinn telur þær forsendur frestunar gildistöku sem fram koma í frumvarpinu ekki standast. Ljóst sé að Orkuveita Reykjavíkur er stærsta félag á Íslandi í smásölu og dreifingu á raforku og það sé einkar óheppilegt að það skuli vera síðast dreifiveitna til þess að skilja á milli samkeppnis- og einkaleyfisreksturs. Félagið starfar á fákeppnismarkaði og skipta fyrirtæki og heimili alla jafna við sama fyrirtæki í smásölu og dreifingu. Mikil hætta sé á því að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur með tekjum af einkaleyfisstarfsemi og nauðsynlegt sé að stemma stigu við þeirri hættu. Vill minni hlutinn benda á hækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur sl. haust þar sem gjaldskrá raforkudreifingar var hækkuð um 40% en raforkusölu 11%, þrátt fyrir að félagið hafi sjálft reiknað út að hækkunarþörf í dreifingu væri 20% en í sölu 27%. Með þessari hækkun misnotaði Orkuveita Reykjavíkur hugsanlega undanþágu sína frá aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi og ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegt það er ef fyrirtæki sem er ráðandi á markaðnum gengur þannig fram í skjóli sérstakrar undanþágu. Minni hlutanum þykir rétt í þessu sambandi að árétta að Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar hvort þessi hækkun Orkuveitu Reykjavíkur sé brot á samkeppnislögum. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir.
    Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að óleyst væri fyrirsjáanleg skattalegt óhagræði við yfirfærslu á eignum úr móðurfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, sem er sameignarfyrirtæki, í dótturfélag. Við þann flutning myndast t.d. skattalegur hagnaður en í skattalegu tilliti er farið eins með skiptingu félaga og sölu eigna til þeirra félaga sem við taka. Slíkt nær einvörðungu til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga, en Orkuveita Reykjavíkur fellur ekki undir þessi félagaform og gæti fyrirtækið því ekki nýtt sér uppsafnað rekstrartap. Minni hlutinn telur að þessi röksemdafærsla sé afar ótrúverðug. Það á ekki að skipta máli fyrir lánardrottna fyrirtækisins hvernig fyrirtækinu er skipt upp og hvort þessi breyting á félagsformi Orkuveitu Reykjavíkur yrði nú eða eftir 12 mánuði. Það sé frekar spurning um verðlagningu á eignum svo fyrirtæki geti nýtt sér rekstrarleg atriði.

Alþingi, 15. des. 2010.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Margrét Tryggvadóttir.


Sigurgeir Sindri Sigurgerisson.

Tryggvi Þór Herbertsson.