Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 671  —  343. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um öryggistíma í sjúkraflugi.

     1.      Hvernig er öryggistími í sjúkraflugi skilgreindur?
    Kröfur um viðbragðstíma í sjúkraflugi eru skilgreindar í samningum um sjúkraflug. Núgildandi samningur um sjúkraflug tók gildi 1. janúar 2006. Viðbragðstími er skilgreindur sem tími frá því að staðfest beiðni um sjúkraflug berst uns flugvél er tilbúin með allan nauðsynlegan búnað á þeim flugvelli sem sjúkraflugið er þjónustað frá. Hámarksviðbragðstími í hverju sjúkraflugi er skilgreindur eftir tegund útkalls.
    Á Akureyri er staðsett sérútbúin sjúkraflugvél og skal flugrekandi ávallt geta boðið upp á viðbragð af stigi 1 með viðbragðstíma sem er hámark 35 mín.

     2.      Hver er viðbragðstími í sjúkraflugi með tilliti til öryggistíma?
    Í samningi um sjúkraflug eru eftirfarandi skilgreiningar um viðbragðstíma. Útkallstegundir eru þessar:
     Stig 1. Útkall af stigi 1 kallar á tafarlaus viðbrögð og er hámarksviðbragðstími 35 mín. Flugrekandi skal ávallt geta boðið upp á viðbragð af stigi 1 sem er skilgreindur sem grunnviðbragðstími. Þetta gildir allan sólarhringinn alla daga ársins enda sé flugleið fær.
     Stig 2. Í því tilviki að slaka má nokkuð á kröfu um viðbragð frá stigi 1, eða allt að 6 klst., er útkallið flokkað sem stig 2.
     Stig 3. Einungis er gripið til stigs 3 ef alls ekki er unnt að flytja sjúkling með áætlunarflugi. Viðbragðstími sem er meiri en 6 klst. nægir vegna slíkra útkalla og ræðst af samkomulagi milli þess sem ber ábyrgð á útkallinu og verksala.
    Frá gildistöku samnings um sjúkraflug hefur orðið breyting á flokkun á viðbragðstíma. Þegar beðið er um sjúkraflug hjá Neyðarlínunni eða hjá Slökkviliði Akureyrar er bráðleikinn flokkaður eins og í sjúkraútköllum sjúkrabifreiða. Útkallsflokkunin er eftirfarandi:
     F–l Lífsógn. Í því tilviki er útkallstími eins stuttur og hægt er og útkallið tekið fram yfir önnur útköll.
     F–2 Möguleg lífsógn. Útkallstími innan við 35 mín. fyrir sérútbúnu sjúkraflugvélina.
     F–3 Stöðugt ástand. Útkallstími 35 mín. og allt upp í 6 klst. En strax ef annar flutningur er ekki í gangi, annars um leið og honum lýkur.
     F–4. Eftir samkomulagi.

     3.      Hvað líður almennt langur tími frá því að kallað er eftir sjúkraflugi þangað til sjúklingur er kominn á áfangastað, sundurliðað eftir staðsetningu sjúklinga?
    Á síðasta ári voru alls farin 464 sjúkraflug frá Akureyri og Vestmannaeyjum. Staðalsjúkraflug eru öll flug sem taka allt að 2 klst. (120 mín.) frá því að flugvél fer frá heimaflugvelli uns hún kemur aftur að heimaflugvelli, þar sem 2 klst. miðast við heildarfartíma (blokktíma). Það er mismunandi hve langur tími líður frá því að kallað er eftir sjúkraflugi þar til sjúklingur er kominn á áfangastað. Veður og ástand sjúklings getur haft áhrif á heildarfartíma. Það kemur fyrir að ástand sjúklings sé þess eðlis að flugvél þurfi að bíða á flugvelli áður en unnt er að hefja sjúkraflutninginn. Ef til að mynda sjúklingur er sóttur til Egilsstaða og fluttur til Reykjavíkur er heildarfartíminn skilgreindur í mínútum frá því að beðið er um sjúkraflug þangað til flugvél er aftur komin til Akureyrar að loknu flugi með sjúklinginn til Reykjavíkur. Flugleið með sjúkling sem sóttur er til Egilsstaða getur annaðhvort verið Akureyri–Egilsstaðir–Reykjavík–Akureyri eða Akureyri–Egilsstaðir–Akureyri, það fer eftir áfangastað sjúklings. Heildarfartími getur verið frá um 130 mín. upp í um 180 mín. á flugleiðinni Akureyri–Egilsstaðir–Reykjavík–Akureyri. Heildarfartími á flugleiðinni Akureyri– Ísafjörður–Reykjavík–Akureyri er frá um 115 mín. upp í um 150 mín. í útkalli af tegund F1.

     4.      Hver er þróun viðbragðstíma í sjúkraflugi sl. 5 ár?
    Kröfur um viðbragðstíma voru skilgreindar árið 2005 og hafa ekki breyst sl. 5 ár. Áður en sérútbúin sjúkraflugvél var keypt var viðbragðstími af stigi 1 45 mín., en er skilgreindur í núgildandi samningi 35 mín. frá því að staðfest beiðni berst uns flugvél er tilbúin með allan nauðsynlegan búnað á þeim flugvelli sem sjúkraflugið er þjónustað frá.